Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Er hægt að ná meiri uppskeru með áburðargjöf?
Mynd / Bbl
Á faglegum nótum 26. maí 2021

Er hægt að ná meiri uppskeru með áburðargjöf?

Höfundur: Búvörudeild SS - Þýðandi: Halla Eiríksdóttir

Með aukinni áherslu á meiri gæði og uppskeru í gróffóðurframleiðslu má auðveldlega halda að meiri áburðarnotkun leiði til betri uppskeru á túnum. Það eru hins vegar nokkur grundvallaratriði sem þurfa að vera í lagi til þess að aukinn ávinningur náist með meiri áburðarnotkun. Rétt sýrustig (pH gildi) í jarðvegi er eitt af þeim.

Kölkun er flöskuháls í norskri túnræktun

Í Noregi er alltof mikið af túnum sem eru með of lágt sýrustig. Að sleppa kölkun á vorin getur dregið dilk á eftir sér. Sumir telja það mikilvægara að drífa sáninguna af en að kalka þau flög sem búið er að plægja. Bið eftir verktökum er getur einnig reynst vera tímasóun þegar flestir eru að stressa sig á að klára vorverkin.

Hætta er á því að land sem ekki er plægt oft sé kalkað of lítið og of sjaldan.

Gisin tún og mikið illgresi

Við of lágt (eða of hátt) sýrustig munu mikilvægustu tegundirnar í túninu ekki þrífast. Kölkun á súrum jarðvegi hefur jákvæð áhrif á samsetningu grastegunda í túnum/beitarhólfum. Illgresi eins og njóli þrífst verr en sáðgresi eins og hávingull, vallarfoxgras og smári dafna betur. Með því að betrumbæta vaxtarskilyrðin fyrir sáðgresið er jafnframt komið í veg fyrir kjörskilyrði fyrir illgresi. Flestum grastegundum hentar sýrustig niður undir 5,8 pH en belgjurtir (smári og refasmári) kjósa frekar 6 pH eða hærra. Rýgresi þrífst t.d. best við sýrustig á bilinu 6,3-6,8 pH.

Ráðgjafarmiðstöð norska landbúnaðarins (NLR) fær á hverju vori margar fyrirspurnir um ástæðuna fyrir því af hverju túnin verða gisnari og bæði smári og vallarfoxgras virðast vera horfin úr þeim. Það eru margar ástæður fyrir því að tún verða fátækari af sáðgresi en þær plöntur sem við viljum hafa í túninu fá gott samkeppnisforskot ef sýrustig þess er á réttu róli. Góð vaxtarskilyrði skapa öflugri plöntur.

Rétt sýrustig er grundvallaratriði fyrir góðri nýtingu áburðar

Því er gjarnan haldið fram að aukin áburðargjöf auki uppskeruna. Þar sem uppskera er léleg og sýrustig lágt er það í raun peningasóun að auka áburðargjöf. Í töflu nr. 2 má sjá getu plantna til að nýta sér áburðargjöf m.v. mismunandi sýrustig. Einnig er rétt að hafa í huga að þegar sýrustigið nálgast 7 pH verður framboð annarra mikilvægra næringarefna lélegra, sérstaklega sinks og mangans. Þar af leiðandi er líka mikilvægt að forðast of mikla kölkun.

Kölkun og lífríkið í jarðveginum

Önnur áhrif sem lágt sýrustig hefur er að virkni sveppa og baktería í jarðveginum minnkar. Umbreyting lífrænna efna hægist og samspil milli lífríkis í jarðveginum og plantna veikist. Lífsskilyrði örvera í jarðvegi eru hagstæðust við svipað sýrustig og hjá plöntum, eða á bilinu 6-6,5 pH. Sé það lægra minnkar niðurbrot lífrænna efna og hægir þar með á ferlinu sem leysir úr læðingi næringarefni fyrir plönturnar.

„Nærbuxnaátakið“ (Underbuks­e­­kampen) sem NLR stóð fyrir árið 2020 hafði þann tilgang að beina athyglinni að jarðveginum og lífríkinu í honum. Ef einhver veltir því fyrir sér af hverju bómullarnærbuxurnar á sinni jörð brjótast ekki jafn hratt niður og hjá nágrannanum þá er rétt að láta skoða sýrustigið í jarðveginum.

Mismunandi jarðvegsgerðir – mismunandi kröfur

Flestir telja að sé sýrustig jarðvegarins milli 5,5 pH og 6,0 pH sé það passlegt fyrir graslendi en það á ekki við um steinefnaríkan jarðveg.

Mismunandi jarðvegsgerðir hafa mismunandi skilyrði til vaxtar og það á einnig við um sýrustig plantna. Í mýrarjarðvegi þurfa plönturnar lægra sýrustig vegna minni möguleika hjá þeim að bindast áli en þessu er öfugt farið í leirkenndum jarðvegi og jarðvegi með háu innihaldi af lífrænum efnum, þar er þörfin hærri.

Val á aðferðum við kölkun

Kalkþörfin byggist á sýrustigi í jarðvegi og efnainnihaldi hans. Flestir kalka þegar tún eru endurnýjuð og er það besti valkosturinn. Sé sýrustigið mjög lágt og þörfin fyrir kalk mjög mikil er best að blanda því við jarðveginn við jarðvinnsluna. Mögulega í tveimur umferðum til að ná fram sem bestum áhrifum.

Yfirborðskölkun er valkostur til að viðhalda sýrustigi í túnum eða fyrir tún sem sjaldan eru plægð. Sé yfirborðskölkun valin er ekki ráðlagt að bera meira en 3,5-4 tonn grófkalk/dólómítkalk eða 2,5 - 3 tonn fínmalað kalk á hektara í hvert sinn og það ættu að líða 2-3 ár á milli yfirborðskölkunar. Nauðsynlegt er að vera vakandi fyrir því að þegar þessi aðferð kölkunar er notuð að ekki séu leifar af kalki í grasinu þegar kemur að uppskeru. Kalkmengun í grasi getur haft neikvæð áhrif á verkun (gerjun) uppskerunnar.

Kölkun að vetrarlagi er annar valkostur. Þá er jarðvegurinn frosinn og mögulega með snjóþekju. Þrýstingurinn á jarðveginum er þ.a.l. minni og þar með er hættan af því að spora túnin nánast út úr myndinni. Þetta á sérstaklega við um mýrlendi. Þessi aðferð hentar best á flatlendi, ekki er mælt með vetrarkölkun á svæðum í miklum halla. Við þetta má bæta að það er óhagstætt að kalka þar sem ís liggur yfir. Það eykur hættuna á kalkið skolist burt, sérstaklega í halla. Einnig er rétt að hafa í huga að akstur um gróið land í frosti, án snjóþekju, eykur hættu á að plönturnar skemmist í hjólfarinu og af því hljótist tjón.

Ekki er alls staðar jafn auðvelt að kalka að vetrarlagi. Ef hitastigið fer undir -10 gráður geta eiginleikar kalksins breyst og orðið að vandamáli þegar borið er á. Það getur frosið fast í áburðardreifaranum og á auðveldara með að klumpast.

Norsk Landbruksrådgivning NRL er samsvarandi Ráðgjafar­miðstöð landbúnaðarins hér á Íslandi. Þessi grein birtist 13.04.2021 á heimasíðu þeirra, www.nrl.no, og er textinn eftir Ragnhild Borchsenius. Við höfum þýtt greinina og birtist hún hér. Hér er hlekkur á upprunalegu greinina: https://www.nlr.no/fagartikler/grovfor/gjodsel-og-kalk/default/kan-man-gjodsle-seg-til-hoge-grasavlinger.

Búvörudeild SS
Þýðandi: Halla Eiríksdóttir

Skylt efni: áburður

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...