Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Mjólkurframleiðsla í Indlandi er sú lang umsvifamesta í heimi og eru kýrnar þar nánast alltaf handmjólkaðar.
Mjólkurframleiðsla í Indlandi er sú lang umsvifamesta í heimi og eru kýrnar þar nánast alltaf handmjólkaðar.
Á faglegum nótum 1. október 2021

Enn eykst heimsframleiðsla mjólkur

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snsig@arlafoods.com

Líkt og undanfarin ár hefur FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna) tekið saman skýrslu um mjólkurframleiðslu heimsins og nær þessi skýrsla yfir árið 2020.

Í henni kemur margt áhuga­vert fram, m.a. að heimsframleiðsla mjólkur hafi aukist um 2,0% frá fyrra ári og hafi hlutfallslega mesta aukning orðið í Asíu. Raunar hafi mjólkurframleiðslan aukist í öllum helstu heimsálfum nema Afríku, þar sem mjólkurframleiðslan stóð í stað á milli ára.

906 milljarðar kílóa

Talið er að heimsframleiðsla mjólk­ur árið 2020 hafi verið 906 milljarðar kílóa sem eins og hér að framan greinir er aukning á milli ára um 2,0%, sjá töflu 1. Í Asíu nam heildarframleiðslan 379 milljörðum kílóa, sem er aukning um 2,6%. Þau lönd sem í þeirri heimsálfu báru uppi aukninguna voru Kína, Indland, Pakistan og Tyrkland.

Af þessum löndum er Ind­land sem fyrr langstærsta mjólkurframleiðslulandið, eins og sjá má í töflu 1, með 195 milljarða kílóa, sem er einnig mesta magn mjólkur sem framleitt er í einu landi í heiminum. Í Indlandi jókst framleiðslan um 2,0% og má rekja aukninguna til aukins fjölda mjólkurkúa samhliða verulega aukinnar gróffóðurframleiðslu. Þar í landi hafa á undanförnum árum orðið miklar breytingar á innviðum mjólkurframleiðslunnar með tilkomu margra samvinnufélaga bænda og má búast við því að mjólkurframleiðslan í Indlandi komi til með að aukast verulega á komandi árum.

Þá vekur athygli áframhaldandi vöxtur í mjólkurframleiðslu Kína en þar jókst hún um 7,5% frá árinu 2019. Þessi vöxtur er nánast eingöngu borinn uppi af stórbúum, þ.e. kúabúum með þúsundir og jafnvel tugþúsundir kúa. Ennfremur er áhugavert að sjá hve mjólkurframleiðslan er að vaxa hratt í Pakistan, en þar jókst hún um 3,0% frá fyrra ári. Þar hefur fjöldi mjólkurkúa vaxið hratt undanfarin ár og þrátt fyrir að innviðir mjólkurframleiðslunnar í Pakistan séu ekki góðir þá hefur þessi vöxtur í fjölda kúa skilað aukinni landsframleiðslu. Viðbúið er að þegar tekst að tengja betur saman frumframleiðsluna og sölustaði mjólkurafurða í Pakistan þá muni framleiðslan vaxa þar hratt á komandi árum.
1,6% aukning í Evrópu

Ef litið til annarra framleiðslusvæða mjólkur þá kemur í ljós að mjólkurframleiðslan í Evrópu heldur jafnt og þétt áfram að aukast og fór í alls 236 milljarða kílóa á síðasta ári, sem er aukning um 1,6%. Þessi vöxtur kemur víða að úr heimsálfunni en Rússland er þó þar framarlega í flokki og þar, líkt og í Kína, hefur megin áherslan verið á uppbyggingu á stórbúum. Í Norður-Ameríku fór framleiðslan í 111 milljarða kílóa, aukning um 2,1%, sem er að langstærstum hluta borin uppi af Bandaríkjunum en þar voru framleiddir 101 milljarður kílóa árið 2020. Mjólkurframleiðsla annarra framleiðslusvæða jókst einnig eins og áður segir um 1,6% í Mið-Ameríku og eyjum Karabíska hafsins, um 2,0% í Suður-Ameríku og 2,5% í Eyjaálfu.

Mjólkurframleiðsla í Kenýa. Afríka er eina mjólkurframleiðslusvæði heims þar sem ekki varð aukning á framleiðslunni í fyrra. Mynd / Farming First

Afríka stóð í stað

Eina framleiðslusvæði heimsins, þar sem ekki varð aukning á milli ára, var Afríka. Þar nam framleiðslan 49 milljörðum kílóa sem er í raun afar lítil framleiðsla miðað við landsvæðið sem þar er. Mjólkurframleiðslan í Afríku er í raun enn á byrjunarstigi og miðað við uppbygginguna sem þar fer nú fram í nautgriparækt má búast við miklum framgangi mjólkurframleiðslu þar á komandi árum og áratugum. Þau lönd sem eru lengst komin á þeirri vegferð eru Alsír, Kenía, Eþíópía og Suður-Afríka en Nígería, sem er þó fjölmennasta land Afríku, er enn ekki með nema um 6-700 milljón lítra framleiðslu á ári.

Meðalverð mjólkurafurða lækkaði

Árið 2020 lækkaði meðalverð mjólkurafurða í heiminum um sem nemur einu prósenti frá fyrra ári, aðallega vegna þrengri efnahags í helstu innflutningslöndum í kjölfar heimsfaraldursins. Ástandið víða í heiminum gerir það að verkum að eftirspurn eftir ákveðnum vörum, sér í lagi þeim sem notaðar eru af stóreldhúsum og veitingastöðum, minnkaði. Þá var rekstur afurðastöðva víða erfiður vegna fjarveru fólks vegna heimsfaraldursins. Fyrir vikið fóru stórir vinnsluaðilar í auknum mæli að framleiða mjólkurafurðir sem ekki krefjast mikillar vinnu, eins og t.d. framleiðslu á smjöri og dufti, sem svo leiddi til aukins framboðs slíkra vara. Þessar mjólkurvörur skiluðu sér svo áfram út á útflutningsmarkaðinn og þessi staða leiddi til stóraukinnar samkeppni, sem aftur þrýsti verðinu niður.

Smjör lækkaði mest

Í skýrslunni kemur m.a. fram að meðalverð á smjöri lækkaði að jafnaði um 13,5% árið 2020 í samanburði við árið 2019. Mest varð lækkunin á fyrri helmingi ársins, þegar það lækkaði að jafnaði um 16%, en síðan varð viðsnúningur þegar markaðurinn náði aðeins að jafna sig. Þá lækkaði meðalverð á mjólkurdufti um 4,5% árið 2020 en undanrennuduft hækkaði hins vegar í verði um 6,8%. Þessi nokkuð óvenjulega þróun á undanrennudufti, miðað við þróunina á bæði smjöri og mjólkurdufti, skýrist fyrst og fremst af minna framboði af því frá Evrópu og aukinni ásókn í undanrennuduft í bæði Asíu og Mið-Austurlöndum. Svo virðist sem vinnsluaðilar á þeim svæðum hafi lagt meiri áherslu á að nýta undanrennuduft í stað mjólkurdufts til að draga úr heildarkostnaði. Þá hækkaði meðalverð á ostum um 2,1% árið 2020 sem skýrist af aukinni sölu á neyslupakkningum af ostum til verslana í stað heildsölu á ostum til stóreldhúsa og veitingastaða.

Aukin milliríkjaviðskipti

Eins og áður segir urðu heims­viðskipti með mjólkurafurðir meiri á árinu 2020 í samanburði við árið 2019 og jukust þau alls um 1,2%. Alls er talið að ígildi 78 milljarða kílóa hafi farið á milli landa eða 8,6% heimsframleiðslunnar. Í töflu 2 má sjá helstu framleiðslusvæðin sem bera uppi útflutning mjólkurafurða og sem fyrr eru það lönd Evrópusambandsins sem eru þar umsvifamest en af einstökum löndum er það þó Nýja-Sjáland sem ber höfuð og herðar yfir önnur lönd þegar talið berst að útflutningi mjólkurafurða. Þar á eftir eru það svo Bandaríkin og þá Hvíta-Rússland.

Kína enn stærsti innflytjandinn

Líkt og sjá má við lestur á töflu 3 er Kína sem fyrr það land sem flutti mest inn af mjólkurafurðum en þar á eftir koma Rússland, Mexíkó, Alsír, Indónesía og Sádi-Arabía. Kína flutti alls inn ígildi 17 milljarða kílóa af mjólk, aukning um 7,0% frá fyrra ári en samtals nam innflutningur framangreindra landa 43,6% af heildarinnflutningi landa heimsins á mjólkurvörum. Það má því með sanni segja að meginmarkaður fyrir milliríkjaviðskipti mjólkurvara sé einungis hjá örfáum löndum heims.

Mest sala á dufti

Sé horft til þeirra mjólkurvara sem helst ganga kaupum og sölum í viðskiptum á milli landa þá er það duftið sem nokkuð eðlilega stendur upp úr. Skýringin er afar einföld enda er hægt að flytja það ókælt á milli landa og það er auk þess með afar langt geymsluþol. Auk þess má framleiða langflestar mjólkurvörur út frá dufti, sem gerir það jafn eftirsótt og raun ber vitni.

Undanfarin ár hefur verið álíka mikil eftirspurn eftir mjólkurdufti og undanrennudufti. Alls nam sala á mjólkurdufti 2.668 þúsund tonnum og sala á undanrennudufti 2.501 þúsund tonnum árið 2020. Það var þó sala á osti sem fór fram úr öllum væntingum árið 2020 en alls jukust heildarviðskiptin með osta um 4,1% og alls voru 2.790 þúsund tonn flutt á milli landa á síðasta ári! Mest var reyndar aukning í viðskiptum með mysuduft, sem ætti reyndar ekki að koma á óvart þar sem mikil aukning í sölu á osti leiðir það af sér.

Mysuduftssalan jókst um 8,0% en undanfarin ár hafa komið fram á markaðinn nýjar aðferðir til að nýta einmitt mysuduft til frekari fínvinnslu m.a. til framleiðslu á sérstökum próteinum og öðrum efnum sem eru í mysu. Þetta hefur aukið mikið einmitt eftirspurnina eftir þessu góða hráefni. Smjörið var sem fyrr mun minna flutt út en alls nam útflutningurinn 936 þúsund tonnum, sem er samdráttur um 6,0% frá fyrra ári.

Heimildir:
Byggt að mestu á skýrslu FAO: Dairy Market Review sem kom út í apríl 2021.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...