Á fimmta áratugnum var farið að setja sælgæti í páskaegg og ekki má gleyma páskaunganum sem þykir ómissandi á páskaeggið.
Á fimmta áratugnum var farið að setja sælgæti í páskaegg og ekki má gleyma páskaunganum sem þykir ómissandi á páskaeggið.
Fræðsluhornið 25. mars 2021

Eggið og upprisan

Höfundur: Vilmundur Hansen

Egg hafa lengi verið tákn vorsins og saga páskaeggja mun lengri en þeirra súkkulaðieggja sem við þekkjum í dag og gefum börnum um páskana. Víða er siður að mála hænu eða egg annarra fugla um páskana og færa ástvinum sem gjöf. Í frumkristni voru egg meðal annars tákn um að grafhýsi Krists væri autt og að frelsarinn væri upprisinn.

Egg páskahátíðarinnar blessuð í Póllandi.

Samkvæmt goðsögnum Austur­kirkjunnar má rekja fyrsta páskaeggið til þess er María Magdalena færðu konum sem sátu við grafhýsi Krists soðin egg til að borða en eggin urðu skyndilega skærrauð á litinn þegar Kristur var risinn. Í annarri ekki ósvipaðri goðsögn segir að María Magdalena hafi fengið áheyrn hjá Rómarkeisara til að tala við hann um upprisuna. Keisaranum þótti lítið til máls Maríu koma og sagði að það væru jafnlitlar líkur á að eggið sem hann var með í hendinni mundi breyta um lit og verða rautt og að maður risi upp frá dauða. Vantrú keisarans hvarf þó samstundis þegar eggið sem hann hélt á varð eldrautt á sama augnabliki. Í þriðju útgáfunni er það María mey sem á í hlut og þar segir að hún hafi í mildi sinni fært hermönnunum sem stóðu vörð við kross Krists egg til að metta hungur þeirra en að þegar tár guðsmóðurinnar féllu á eggin urðu þau að marglitum dröfnum.

Frjósemi og endurfæðing

Sú hefð að mála egg hænsna eða annarra fugla og færa ástvinum að gjöf um páska á sér langa hefð og enn við lýði víða í Austur- og Mið-Evrópu. Líkt og allar hefðir er hún breytileg milli landa en hefur víða smám saman þróast í það að gefa börnum súkkulaðiegg fyllt með sælgæti eða vafin í skrautlegan pappír. Einnig þekkist að eggin séu úr tré, pappa eða plasti og fyllt með góðgæti.

Egg sem lituð eru rauð eru í kristni tákn um blóð Krists á krossinum. Eggið á myndinni er að finna í klaustri grísku rétttrúnaðarkirkjunnar í Aitolos á Grikklandi.

Egg eru í kristni og mörgum öðrum trúarbrögðum tákn um frjósemi og eða endurfæðingu. Í frumkristni voru egg meðal annars tákn um að grafhýsi Krists væri autt og að frelsarinn væri upprisinn og þar sem egg voru máluð rauð táknaði liturinn blóð Krists við krossfestinguna.

Þrátt fyrir kristna tengingu við páskaegg er hægt að rekja þau allt aftur til blómaskeiðs Mesapótamíu um þrjú þúsund árum fyrir upphaf okkar tímatals. Er talið að tengsl milli eggja, frjósemi og vorsins þegar fuglar verpa hafi borist þaðan til Síberíu og Austur-Evrópu og síðan gegnum Austurkirkjuna til Evrópu í kaþólsku og lútersku kirkjuna. Aðrir segja að hefðin tengist föstu vestrænnar kaþólsku á miðöldum þar sem fólk mátti ekki borða egg eftir sprengidag á föstunni fram að páskum.

Meðal Gyðinga eru hvít egg hluti páskamátíðarinnar og þeim dýft harðsoðnum í saltvatn fyrir neyslu. Egg eru einnig þekkt sem hluti af trúarhefðum íslam.

Afleiðing þess að bannað var að borða egg á föstunni var að egg söfnuðust fyrir á heimilum sem ólu hænur og til að þau geymdust betur voru þau harðsoðin. Þegar föstunni lauk á páskunum var því víða til mikið af hænueggjum og eðlilegt að þau tengdust páskahaldi og páskamáltíðinni.


Gull- og silfurslegin egg

Hvað sem öllum tengingum við kristni varðar þá er sá siður að skreyta egg og eggjaskurn ævaforn. Í Ástralíu hafa fundist minjar um máluð strútaegg sem talin eru vera um 60 þúsund ára gömul.

Minjar um skreytt egg hafa einnig fundist við fornleifarannsóknir í Mesapótamíu, Egyptalandi og á eyjunni Krít og í flestum tilfellum eru þau talin tengjast helgisiðum dauða og endurfæðingar. Ríkulega skreytt egg sem hafa fundist við eða nálægt grafreitum hefðarfólks eru slegin gulli og silfri og ígrædd gimsteinum.

Ôstara, gyðja vorsins

Þýski þjóðsagnasafnarinn Jacob Grimm taldi mögulegt að páskaegg meðal germanskra þjóða tengdust fornri hátíð og dýrkun gyðju vorsins, Ôstara. Fáar heimildir styðja hugmyndina og jafnvel talið að hátíðin og gyðja hafi verið hugarburður enska benediktusar-munksins heilags Bebe, sem var uppi á áttundu öld. Bebe er meðal annars þekkur fyrir ritið De temporum ratione, þar sem hann segir frá ýmsum fornum siðum og heimssýn forvera sinna.

Páskaeggjaleikir

Á miðöldum gengu börn á Bretlandseyjum milli húsa á síðasta sunnudegi fyrir föstuna og sníktu egg, ekki ólíkt því að börn í dag ganga milli húsa í dag á öskudag og biðja um nammi. Þannig að í dag hefur siðurinn að gefa börnum egg færst frá upphafi föstunnar til páska.

Það að fela páskaegg og leyfa börnum að leita að þeim á páskadag er gamall siður sem er enn víða haldinn. Í Mið-Evrópu voru egg oft falin í trjám eða undir þeim í körfu sem líktist hreiðri til að minna á komu vorsins.

Í Evrópu og Bandaríkjum Norður-Ameríku þekkist leikur sem felst í því að börn velti harðsoðnu eggi niður brekku á páskadag og eru reglur leiksins ólíkar milli svæða. Einnig þekkist víða leikur sem felst í því að reyna að brjóta egg keppinautanna með því að kasta sínu eggi í egg þeirra og sá sigrar sem á síðasta heila eggið. Á Grikklandi er til siðs að fólk heilsist á páskum með því að slá saman eggjum og brjóta þau.

Þjóðverjar eiga sér sérstakan eggjadans á páskum sem felst í að dreifa eggjum á gólfið og markmiðið að dansa í kringum eggin án þess að brjóta þau.

Í eina tíð þótti við hæfi í Austur-Evrópu að sækja egg til kvenna sem voru flengdar með víðiberki sem var klofinn eins og hrosstagl og dýft hafði verið í vatn. Siðurinn, sem átti að veita styrk og fegurð, er nátengdur bolluvendinum sem við þekkjum í dag og jafnvel talinn forveri hans.

Einnig þekkist sá siður að færa látnum páskaegg og leggja þau á grafir með þeim orðum, „Kristur er risinn“ og í þeirri trú að svo muni hinn látni einnig gera.

Ólíkir siðir

Á Grikklandi er hefð fyrir því að egg séu lituð með lauk og ediki á fimmtudögum og dögum þegar gengið er til altaris og kallast eggin kokkina avga og tengjast helgihaldi. Í Egyptalandi eru soðin egg skreytt vegna hátíðarhalda sem kallast Sham el-Nessin og er eins konar sumardagurinn fyrsti þar í landi og er haldinn hátíðlegur skömmu eftir páskahald kristinna manna. Í Íran tengjast egg nýja árinu sem hefst á sumarsólstöðum.

Harðsoðin hænuegg eru víða lituð til skrauts fyrir páskahátíðina.

Fyrir utan að mála egg með pensli eða höndum má gera það í suðu með ólíkum litarefnum. Séu egg soðin með laukskræli verða þau brún, en svört séu þau soðin með eikar-, elriberki eða valhnetum og rauðrófusafi gerir þau bleikleit. Auk þess sem má ná fram ýmsum litarafbrigðum með blöndu ólíkra litargjafa.

Eins og fram hefur komið tákna rauðmáluð egg í kristni blóð Krists á krossinum. Hvít og ómáluð tákna hreinleika, blá himininn sem sameinar okkur, svört frjósemi, gul tákna sólina og kraft og græna náttúruna. Ólíkar línur á lituðum eggjum hafa líka ólíka merkingu. Lóðréttar línur merkja líf og láréttar dauða en tvær samhliða línur óendanleika. Þríhyrningur gormlaga lína tákna þekkingu og tíma en bylgjaðar línur vatn og hreinleika. Krossinn á eggi er merki kristnidóms.

Súkkulaðiegg

Egg gerð úr súkkulaði kom fyrst fram á tíma Loðvíks 14. í Versölum og árið 1725 hóf ekkja við hirðina að búa til þannig egg með því að blása úr hænueggjum og hella í þau bráðið súkkulaði. Fyrstu páskaeggin komu fram á Bretlandseyjum árið 1873 og barst þaðan út um víða veröld.

Samkvæmt Heimsmetabók Guinness vó þyngsta súkkulaði­páskaeggið sem búið hefur verið til tæp 7,2 tonn og var rúmir 10 metrar að hæð.

Í Góa-héraði á Indlandi eru páskaegg gerð úr marsípani.

Gimsteinaegg

Skrautegg urðu vinsælar gjafir efnaðra fólks á barroktímanum á 17. öld. Inni í eggjunum voru oft trúarlegar myndir, tákn eða andleg heilræði á blaði. Skilaboðin inni í eggjunum gátu líka verið ástarjátningar, brandarar og málshættir eins og Íslendingar þekkja vel. Með innreið upplýsingarinnar þóttu eggin óþarfa pjátur og var sala þeirra bönnuð um tíma í Evrópu en með komu rómantísku stefnunnar hófst sala þeirra á ný.

Af þess konar skrauteggjum þóttu svokölluð Fabergé-egg bera af. Eggin voru framleidd sérstaklega fyrir feðgana Alexandar III og Nikolas II Romanov, tvo síðustu keisara Rússlands, sem gjafir fyrir eiginkonur þeirra og mæður. Eingöngu voru búin til 69 slík og í dag er einungis vitað um 57. Inni í Fabergé-eggjunum, sem voru iðulega úr gulli og silfri og skeytt eðalsteinum, leyndust svo minni gjafir eins og demantsnæla, perlur eða annað glingur.

Í Fjallkonunni, árið 1893, segir að á „páskunum í vor fann Rússakeisari liggjandi á skrifborði sínu mjög skrautlega málað páskaegg; þegar það var opnað, hafði það þrennt inni að halda, og brá honum undarlega við það. Innan í egginu var rýtingur úr silfri, tvær mannshauskúpur mjög haglega skornar úr fílabeini og pappírsrenningur með þessum orðum á: „Kristur er upprisinn; vér munum einnig upp risa.“ Í egginu leyndist því greinileg hótun um uppreisn.

Sama ár gaf keisarinn, Alexandar III, eiginkonu sinni, Maríu Feod­dorovna, Fabergé-egg sem kallast Kákasus. Egg sem búið er til úr gulli, silfri, rúbínum, perlum, fílabein og sér skornum demöntum. Keisaraynjan þótti einstaklega glæsileg og greind og tekið til þess hvað hún var alltaf snyrtileg til fara, enda af dönsku hefðarfólki komin.

Fabergé-egg voru framleidd sérstaklega fyrir feðgana Alexandar III og Nikolas II Romanov, tvo síðustu keisara Rússlands, sem gjafir fyrir eiginkonur þeirra og mæður.

Eins og títt er með siði sem aðallinn tekur upp fylgdi millistéttin í kjölfarið og ekki leið á löngu þar til eiginmenn í Austur-Evrópu voru farnir að gefa eiginkonum sínum postulínsegg á páskum.

Páskaegg á Íslandi

Í Sögu daganna eftir Árna Björnsson segir meðal annars um páskaegg að þeirra sé fyrst getið í ofangreindri frásögn í Fjallkonunni. Að sögn Árna verða páskaegg ekki áberandi á Íslandi fyrr en eftir 1920 en að eflaust hafi margir Íslendingar kynnst þeim í Danmörku og að mögulega hafi innflutt súkkulaðipáskaegg verið til sölu í verslunum fyrir þann tíma.

Árið 1923 auglýsir Smjörhúsið Irma í Hafnarstræti: „Nýorpin páskaegg komu með Botníu. Verðið mikið lægra en áður“ og bendir það til að páskaegg hafi verið áður til sölu.

Bakarar í Björnsbakaríi voru fyrstir til að framleiða súkkulaðipáskaegg í mótum hér á landi árið 1922, auk þess sem bakaríið auglýsir páskaegg úr marsípani, pappa og silki. Sælgætisgerðin Víkingur fylgd fast á eftir og hóf framleiðslu á súkkulaðipáskaeggjum skömmu síðar. „Verðmunur dýrustu og ódýrustu hjá Björnsbakaríi vekur líka nokkra athygli. Árið 1922 er hann 35-faldur, en árið eftir hvorki meira né minna en 240-faldur. Ódýrustu eggin kosta eftir sem áður 20 aura en hin dýrustu 48 krónur. Stærstu eggin hljóta að hafa verið nánast risavaxin og hin minnstu örsmá.“

Hvað varðar þá hefð að mála hænuegg á hún sér litla sem enga hefð á Íslandi, lítið var um hænur á landinu langt fram undir miðja 20. öld.

Á fjórða áratug síðustu aldar og allt til dagsins í dag hefur samkeppnin á páskaeggjamarkaði harðnað með hverju árinu og ólíkar útgáfur af páskaeggjum aukist þrátt fyrir að grunnurinn sé alltaf sá sami. Á fimmta áratugnum var farið að setja málshætti, eins og árinni kennir illur ræðari, best er illu af lokið og margur er knár, inn í páskaeggin. Ekki má gleyma páskaunganum sem þykir ómissandi á páskaeggið.

Súkkulaðipáskaegg eru í dag hluti af páskahátíðinni og börn á öllum aldri hlakka til að fá eggið sitt og þeir sem eru búnir að slíta barnsskónum eiga flestir sína uppáhaldsgerð af páskaeggi.

Skylt efni: páskaegg

Afkomuvöktun sauðfjárræktar 2017–2019
Fræðsluhornið 9. apríl 2021

Afkomuvöktun sauðfjárræktar 2017–2019

Undanfarin ár hefur Ráðgjafar­miðstöð landbúnaðarins unnið að söfnun og úrvinnsl...

Vöktun á landlægum sjúkdómum í hrossum
Fræðsluhornið 7. apríl 2021

Vöktun á landlægum sjúkdómum í hrossum

Matvælastofnun hefur gefið út leiðbeiningar um vöktun á landlægum sjúkdómum í ís...

Bændahöll breytist og stækkar
Fræðsluhornið 6. apríl 2021

Bændahöll breytist og stækkar

Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda eru eigendur Bændahallarinnar. Báði...

Eggið og upprisan
Fræðsluhornið 25. mars 2021

Eggið og upprisan

Egg hafa lengi verið tákn vorsins og saga páskaeggja mun lengri en þeirra súkkul...

Álalogia III
Fræðsluhornið 17. mars 2021

Álalogia III

Állinn er næturdýr og hels­ta fæða hans alls konar ormar, skeljar, krabbaflær, s...

70 ára albatrosi
Fræðsluhornið 16. mars 2021

70 ára albatrosi

Elsti villti fugl sem vitað er um er 70 ára gamall albatrosi og það sem meira er...

Ylræktun grænmetis – takmarkað vaxtarrými í brennidepli
Fræðsluhornið 16. mars 2021

Ylræktun grænmetis – takmarkað vaxtarrými í brennidepli

Mjög mikil aukning hefur verið í framleiðslu lífrænt vottaðra garðyrkjuafurða í ...

Leynimakk kaldastríðsáranna
Fræðsluhornið 16. mars 2021

Leynimakk kaldastríðsáranna

Í trjásafninu í Meltungu í Kópa­vogi er að finna plöntu sem ekki fer sérlega mik...