Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Stórgripavigt. Oft má koma gangvigt fyrir með haganlegum hætti í fjósum.
Stórgripavigt. Oft má koma gangvigt fyrir með haganlegum hætti í fjósum.
Á faglegum nótum 23. maí 2022

Eftirlit með þunga og stærð gripa er vanmetið bústjórnartæki

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snsig@arlafoods.com

Störf kúabænda eru margþætt, afar fjölbreytt og vissulega mismikilvæg en eitt af þeim verkum sem flokkast undir það að vera afar mikilvægt er oft ekki gert. Þetta er ekki eitthvað sem einungis á við um kúabú á Íslandi heldur er þetta tilfellið um allan heim.

Ég hef sjálfur heimsótt kúabú í 23 mismunandi löndum og telja þessar heimsóknir á mismunandi kúabú nú vel á þriðja þúsundið en langflestir bændur sem ég hef sótt heim eiga það sameiginlegt að fáir þeirra vigta og mæla kálfa og geldneyti reglulega!

Vissulega gera sumir það en allt of margir gera það ekki – en skiptir það einhverju máli?

Já, klárlega, enda eru til ótal rannsóknir sem sýna það svart á hvítu að því betur sem tekst til með uppeldi gripanna fyrstu vikurnar á ævinni, því betur tekst til með heildareldi þeirra. Þannig liggur t.d. fyrir að hagkvæmasti burðaraldur hjá kvígu er 23 mánaða en margir ná ekki að ala sínar kvígur nógu vel svo þær séu nægjanlega þroskamiklar við svona ungan aldur. Fullyrða má að allar kvígur hafi í raun erfðalega burði til þess að bera 23 mánaða en það sem skýri það að þær séu of litlar þegar þeim aldri er náð felist einfaldlega í bústjórninni, þ.e. hvernig uppeldinu var háttað.

Búnaður til þess að vigta smákálfa þarf alls ekki að vera flókinn og má jafnvel nota hefðbundna iðnaðarvigt, t.d. með því að setja litla grind ofan á flötinn sem vigtar.

Tilfellið er að það er afar auðvelt að missa sjónar af þungaaukningu smárra gripa og oft telja bændur kvígurnar vera að þyngjast meira en þær gera t.d. vegna kviðfylli. Þess vegna þarf að fylgjast gríðarlega vel með þyngingu kálfanna og bregðast hratt við sé þungaaukningin ekki að skila sér í samræmi við áætlanir búsins. Þess utan eru svona mælingar notaðar í auknum mæli erlendis beint inn í ræktunarstarfið, sem gæti einnig orðið tilfellið á Íslandi ef mælingar og nákvæmar skráningar á þunga og þyngdaraukningu væru almennt notaðar hjá kúa -
bændum landsins.

Hver á vaxtarhraðinn að vera?

Hérlendis er miðað við að kvígurnar hafi náð um 55% af þyngd fullorðinna kúa þegar þær eru sæddar. Ef miðað er við að fullorðnar kýr hér á landi séu um 470 kíló ætti kvígan því að vera um 260 kíló á fæti þegar hún er sædd. En til þess að ná þessari þyngd nógu snemma á æviskeiðinu þarf að hlúa vel að kvígunni. Sér í lagi fyrstu vikur ævinnar eins og áður segir. Enda krefst þessi þungi að kvígan vaxi um 550-600 grömm á dag að jafnaði fram að sæðingu.

Það sem of margir bændur, víða um heim, flaska á er að ná ekki nægum vaxtarhraða í kvígurnar strax fyrstu vikurnar. Margir telja að þær bæti sér síðar upp hægan vöxt á mjólkurfóðrunartímanum. Þær gera það hins vegar ekki nema að hluta til. Með öðrum orðum, ef maður missir af því tækifæri að láta kvígurnar fara bratt af stað, þá er það tækifæri runnið út í sandinn.

Hvenær á að vigta?

Þegar bændur spyrja mig út í það hvenær eigi að vigta kvígukálfana þá segi ég alltaf að það eigi að taka fæðingarþungann á öllum gripum og svo vigta alla gripi þegar þeir eru vandir af mjólk, oftast eftir 7-8 vikur. Kvígurnar eru enn nettar og viðráðanlegar á þessum aldri og bæði fljótlegt og auðvelt að vigta þær. Þá er þunginn ekki slíkur að hann kalli á mjög sérhæfðar vigtir heldur má leysa málið með einföldum og ódýrum vigtum.

Eftir að mjólkurfóðrun lýkur tekur við afar mikilvægur kafli í lífi kálfanna og er alltaf ákveðin hætta á því að hér geti komið afturkippur í vaxtarhraðann. Til þess að forðast að slíkt gerist þarf kjarnfóðurátið að vera orðið mjög gott á sama tíma og dregið er úr mjólkurmagninu. En mín reynsla er sú að oft missa bændur af einstaka kálfum á þessu tímabili, þ.e. einn og einn nær að „fela sig“ og heltist aðeins úr lestinni. Það sést oft einna best á því að þegar kálfahópar eru skoðaðir, t.d. við 5-6 mánaða aldur, þá skera oft sumir sig úr hópnum vegna stærðar og aðrir vegna smæðar. Til þess að setja kálfaeftirlitinu fastar skorður mæli ég með því að vigta alla kálfa aftur þegar þeir eru 6 mánaða gamlir og svo, ef hægt er, við fyrstu sæðingu. Að síðustu væri gott að fá þunga við burð, ef þess er nokkur kostur.

Hvernig á að vigta?

Ég veit vel að það er alls ekki skemmtilegt verk, né létt, að vigta gripi og þar sem ekki er um þeim mun fleiri gripi að ræða er vafasamt að verja miklum fjármunum í að tæknivæða þennan þátt búskaparins.

Þar sem bú eru stærri, og kálfar margir, er sjálfsagt að skoða þar til þess gerðan vigtunarbúnað sem fæst í dag bæði hálfsjálfvirkur og nánast alsjálfvirkur þ.e. hálfgerðir tökubásar þar sem hægt er að vigta, mæla og holdastiga. En þar sem flest bú á Íslandi eru með færri burði en 100 á ári væri fjárfesting í slíkum búnaði varla verjandi þó það sé auðvitað undir hverjum og einum komið hvernig hugað er að fjárfestingum. Þannig má t.d. fá einfaldar iðnaðarvigtar sem ná upp í 100 kg sem henta ágætlega fyrir þetta verk. Einnig má nota afar einfaldan búnað til þess að mæla fæðingarþunga kálfanna eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Það þarf hvort sem er að eyrnamerkja kálfinn og skrá niður margs konar upplýsingar, því ekki að vigta hann í leiðinni?

Það eru til ýmsar gerðir af stórgripavigtum, sumar sérstaklega gerðar til þess að vigta gripi. Það fer auðvitað fyrst og fremst eftir aðstæðum á hverju búi, hvaða búnaður hentar best t.d. hvort það er svona gangvigt eins og sést á meðfylgjandi mynd eða sérstök stórgripavigt. Að síðustu má svo auðvitað nefna hið klassíska málband þar sem ummál gripsins er mælt. Þessi aðferð hefur verið stunduð í áratugi og gefur afar góða mynd af þunganum þó svo að hún sé vissulega ekki eins örugg og hefðbundin mæling.
Þegar reynsla er komin á mælingarnar má nota óbeinar mælingar einnig, til þess að efla gæðaeftirlitið með vexti kálfanna. Þannig setja margir bændur merki, t.d. með málningu, á framhlið átgrindar. Þetta merki eða strik er þá sett til þess að sýna hvað kálfarnir ættu að vera háir á herðakamb að jafnaði við ákveðinn aldur. Hver stía er þá með sitt strik sem sýnir mjög auðveldlega sé kálfur að dragast aftur úr í samanburði við hina.

Hvernig á að bregðast við?

Algengasta spurningin sem ég fæ, þegar þungamælingar ber á góma, er hvernig á að bregðast við ef gripur eða gripir eru að dragast aftur úr.
Það er erfitt að gefa ráð heilt yfir og þarf alltaf að skoða aðstæður og bústjórn í hverju tilfelli fyrir sig. Það er nefnilega ýmislegt sem getur skýrt það af hverju gripir vaxa of hægt.

Ef þungamælingar við 7-8 vikna aldur sýna að kálfurinn vex of hægt þarf að grandskoða hvernig mjólkurfóðruninni er háttað og með hvaða hætti kjarnfóður er kynnt fyrir kálfinum. Honum er eðlislægt að taka vel til fóðurs á þessum aldri og að vaxa hratt svo ef það er ekki tilfellið er kálfinum einfaldlega of naumt eða ranglega skammtað. Þá getur skýringin einnig legið í sjúkdómum, streitu eða öðru slíku sem hefur angrað kálfinn á þessu mikilvæga skeiði í lífi hans. Þetta þarf allt að skoða vel, sé tilfellið að vöxturinn sé undir væntingum. Þess má reyndar geta að sé fæðingarþungi kálfa lágur, er erfitt að ætla kálfinum að vaxa mjög hratt sem segir enn og aftur að skoða þarf aðstæður hverju sinni áður en unnt er að fullyrða um ástæður skorts á vexti.

Næsta mæling fer fram við hálfsárs aldur og fram að því þarf reyndar að fylgjast einkar vel með kálfunum. Hér segir útlit þeirra og stærð mikið um hvernig gengur og á þessu tímabili er mikilvægt að flokka kálfana eftir stærð en ekki aldri. Það sem allt of oft gerist er að bændur flokka kálfana eftir aldri en ekki stærð. Það kallar nánast undantekningarlaust á það að einhverjir kálfar lenda undir í valdabaráttunni og dragast enn frekar aftur úr. Svona kálfa þarf að fjarlægja úr stíum og setja með yngri gripum, sem passa betur í hæð og stærð. Enn fremur þarf oft að bæta hægvaxnari gripum upp með
bættu fóðri.

Útigangurinn

Ég held að ég geti fullyrt að oftast þegar ég sé koma afturkipp í vöxt á kvígum þá er það þegar þær eru hafðar úti og oft jafnvel nánast eftirlitslausar í einhverjum úthaga. Það getur enginn bóndi ætlast til þess að kvígur haldi kraftmiklum vexti á úthagabeit.

Kvígur sem eru úti þurfa að vera á kraftmikilli beit með góðu aðgengi að steinefnum og skjóli. Þá þarf rýmið að vera gott svo það sé ekki mikið um áflog en átök gripa snar-dregur úr vexti þeirra þar sem bæði orka fer í það atferli auk þess sem það veldur taugaveiklun sem bitnar á átinu. Enn fremur er mikilvægt að taka kvígurnar snemma á hús og áður en veðrið verður óheppilegt fyrir át og góðan vöxt.

Slagveður og kuldi hefur auðvitað ekki stór líkamleg áhrif á nautgripi, en veldur þó því að það dregur úr áti og þá kemur afturkippur í vöxtinn.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...