Bananahúsið á Reykjum – ein af furðum Suðurlands
Mynd / Guðríður Helgadóttir
Fræðsluhornið 17. febrúar 2021

Bananahúsið á Reykjum – ein af furðum Suðurlands

Höfundur: Ingólfur Guðnason

Garðyrkjuskóli ríkisins á Reykjum í Ölfusi var stofnaður árið 1939. Þá hafði verið rekin þar stofnun fyrir berklasjúklinga frá 1930 og í tengslum við það bæði kúabú og gróðurhúsaræktun. Fyrsti skólastjóri hins nýstofnaða skóla var 25 ára Vestur- Húnvetningur, Unnsteinn Ólafsson, sem lagði fram alla sína starfskrafta til að efla garðyrkjumenntun og uppbyggingu skólastarfsins.

Á fyrstu árum skólans risu mörg gróðurhús á Reykjum sem notuð voru við kennslu og rannsóknir í garðyrkjufræðum og til að framleiða grænmeti fyrir landsmenn. Fjölbreytnin óx ár frá ári og gerðar voru prófanir með ræktun mikils fjölda nytjajurta, grænmeti, ávexti, afskorin blóm, pottablóm og garðplöntur.

Á Reykjum höfðu verið ræktaðir bananar í tilraunaskyni allt frá árinu 1944 en upphaflegu plönturnar voru gjöf frá Hlín Eiríksdóttur sem flutti fyrst Íslendinga inn bananaplöntur 1939 frá Englandi og ræktaði þær í gróðrarstöð sem hún og Eiríkur Hjartarson, faðir hennar, ráku í Laugardal í Reykjavík á þeim árum. Bananar voru vinsælir ávextir og fluttir inn í talsverðu magni svo þessar plöntur gáfu góðar vonir um framhaldið.

Hitabeltisnýlenda undir Reykjafjalli í Ölfusi

Árið 1951 var reist mikið gróðurhús við Garðyrkjuskólann á Reykjum fyrir bananaframleiðslu. Þetta var eitt alstærsta gróðurhús landsins á þeim tíma, 1000 fermetrar að flatarmáli. Einnig átti að gera tilraunir með aðrar tegundir í húsinu og reyna ólíkan tæknibúnað, til dæmis vaxtarlýsingu og upphitun með rafknúnum loftblásurum tengdum jarðhitaveitu staðarins. Kaffiplöntur bárust til Reykja árið 1955 og var komið fyrir í húsinu, þær hafa þrifist vel í hitanum og gefa enn ofurlitla uppskeru í flestum árum. Sítrusávextir dafna þar einnig ágætlega. Strax og Bananahúsið var tilbúið voru líka gróðursett þar fíkjutré frá Danmörku og Svíþjóð. Jafnframt var reynt að rækta ananas í húsinu.

Fjölnota gróðurhús

Þessi bygging vakti mikla athygli enda í fyrsta sinn sem komið var upp stóru gróðurhúsi með hitabeltisloftslagi á landinu. Væntingarnar voru miklar. Búist var við að uppskeran fyrir jólin 1952 yrði 100 þúsund bananar úr þessu fyrsta og eina bananahúsi á Íslandi. Hugmyndir voru jafnvel uppi um að reisa fleiri slík gróðurhús á jarðhitasvæðum sem gætu framleitt 2,5 milljónir banana árlega. Ekki fór þó svo að bananaræktun yrði almenn hliðarbúgrein á íslenskum sveitabæjum og hinar ávaxta- og berjategundirnar sem ræktaðar voru gáfu ekki nægilega uppskeru til að hagkvæmt þætti að koma þeim í almenna framleiðslu. Bananaplönturnar sem Hlín færði Unnsteini skólastjóra eru enn við góða heilsu í Bananahúsinu.

Tegundir bættust sífellt við, meðal annars fjöldamargar tegundir pottaplantna, bæði þær sem almenningur þekkti úr sínum gluggasyllum og fjöldi nýrra tegunda. Þessar plöntur uxu vel við birtu og yl Bananahússins. Pottaplönturnar náðu fljótlega 2–3 metra hæð, þrifust ágætlega. Sumar þeirra plantna sem gróðursettar voru í byrjun 6. áratugar síðustu aldar er enn hægt að sjá þar í góðum vexti og eru jafnvel orðnar hin stæðilegustu tré.

Mektarfólk og veisluhöld

Brátt var Bananahúsið þekkt sem forvitnilegur áfangastaður enda algerlega einstakur heimur. Þegar sendimenn erlendra þjóða, stjórnmálamenn, þjóðhöfðingar og annað frægðarfólk heimsótti landið þótti við hæfi að bjóða þeim í heimsókn í Bananahúsið og stundum var slegið þar upp dýrlegum veislum með aðfluttum krásum ásamt veitingafólki og þjónum úr Reykjavíkurbæ. Vinsældir þess sköpuðu jafnvel samkeppni við náttúruperlur eins og Gullfoss, Geysi og Þingvelli þegar velja skyldi verðuga áfangastaði fyrir hið erlenda virðingarfólk.


Fjölbreytt gagnsemi hússins nýtist enn þá

Kennslustarfið í Garðyrkju­skól­anum nýtur góðs af grósku Ban­ana­hússins. Það er notað við kennslu í grasafræði, al­mennri plöntuþekkingu og grein­ingu plantna, umhirðu þeirra, grasnytjasögu, matjurta­framleiðslu og húsið gefur einnig ríkulega af efniviði sem nemendur á blómaskreytingabrautinni notast við í sínu námi. Ófá tónlistarmyndbönd hafa verið tekin upp í húsinu og það er vinsælt meðal áhugaljósmyndara og við gerð alls kyns auglýsinga og kynningarefnis. Nemendahópar úr leikskólum, grunn- og framhaldsskólum eru tíðir gestir í skipulagðri fylgd leiðbeinenda frá garðyrkjuskólanum.

Hvergi annars staðar á Íslandi er hægt að virða fyrir sér slíka tegundafjölbreytni og upplifa suðrænt hitabeltisumhverfi á Suðurlandi, grundvallað á jarðhitanýtingu og eldmóði frumkvöðla íslenskrar ylræktar.

Nýr Toyota Hilux, á verði frá 7.090.000 krónum
Fræðsluhornið 8. mars 2021

Nýr Toyota Hilux, á verði frá 7.090.000 krónum

Hægt er að fá Hilux með tveim mismunandi vélum, annars vegar 2,4 dísilvél sem sk...

Áhrif sauðfjárbeitar á plöntur í hlýnandi heimi
Fræðsluhornið 4. mars 2021

Áhrif sauðfjárbeitar á plöntur í hlýnandi heimi

Loftslagsbreytingum á norður­heimskautinu fylgir hækkandi lofthiti sem hefur áhr...

Álalogia II
Fræðsluhornið 2. mars 2021

Álalogia II

Ólíkt öðrum fiskum sem finnast í ám og vötnum, eins og lax og silungur, leitar á...

Öflug naut komin til notkunar
Fræðsluhornið 2. mars 2021

Öflug naut komin til notkunar

Nýtt kynbótamat var keyrt núna í janúar að loknu ársuppgjöri og því er ágætt að ...

Framleiðsla og sala á kindakjöti árið 2020
Fræðsluhornið 1. mars 2021

Framleiðsla og sala á kindakjöti árið 2020

Árið 2020 verður af mörgum ástæðum haft til viðmiðunar þegar sagan verður rýnd. ...

Samlokan er helsta framlag Breta til matargerðar heimsins
Fræðsluhornið 26. febrúar 2021

Samlokan er helsta framlag Breta til matargerðar heimsins

Hvað getur verið einfaldara en að setja álegg á milli tveggja eða fleiri brauðsn...

Jeep Renegade PHEV, skemmtilegur bíll á góðu verði
Fræðsluhornið 24. febrúar 2021

Jeep Renegade PHEV, skemmtilegur bíll á góðu verði

Í nóvember síðastliðnum prófaði ég rafmagns/bensínbílinn Jeep Compass Trailhawk,...

Álalogia
Fræðsluhornið 22. febrúar 2021

Álalogia

Íslendingar hafa lengst af verið hræddir við ála og jafnvel talið þá eitraða, þr...