Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Um 80 manns sóttu ráðstefnuna en þar var fjallað um fæðuöryggi og sjálfbærni, dýrahald og dýravelferð og áburðarnotkun og næringarefnastjórnun, garðyrkju og framleiðslukerfi og ræktun nytjajurta og beit svo eitthvað sé nefnt.
Um 80 manns sóttu ráðstefnuna en þar var fjallað um fæðuöryggi og sjálfbærni, dýrahald og dýravelferð og áburðarnotkun og næringarefnastjórnun, garðyrkju og framleiðslukerfi og ræktun nytjajurta og beit svo eitthvað sé nefnt.
Á faglegum nótum 12. október 2022

Áfram í landbúnaði

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson, formaður Íslandsdeildar NJF.

Samtök norrænna búvísinda- manna (Nordic Association of Agricultural Science) héldu í síðustu viku sína 27. aðalráðstefnu og að þessu sinni var hún haldin á Selfossi undir yfirskriftinni „Áfram í landbúnaði“.

Þátttaka var góð en samtals sóttu rétt tæplega 80 manns ráðstefnuna. Hér á eftir verður gerð örlítil grein fyrir efnistökum hennar.

Samtök norrænna búvísinda- manna eru betur þekkt sem NJF, sem er skammstöfun fyrir norræna heitið Nordisk Jordbruksforskning. Þau eiga sér nokkuð langa sögu, voru stofnuð 1918 og 1921 var fyrsta aðalráðstefnan haldin í Gautaborg. Ísland gerðist aðili að samtökunum 1927, eða fyrir 95 árum. Svo skemmtilega vill til að síðasta ráðstefna á Íslandi var 1995, eða fyrir 27 árum, þannig að á einhvern hátt virðast tölurnar 95 og 27 tengjast sterkum böndum í þessu samhengi. Í dag eru aðildarlönd samtakanna átta talsins en það eru; Danmörk, Eistland, Finnland, Ísland, Lettland, Litháen, Noregur og Svíþjóð.

Ráðstefnan hófst þriðjudaginn 27. september og var það fráfarandi forseti samtakanna, Fredrik Fogelberg frá Svíþjóð, sem setti hana. Þar á eftir voru yfirlitserindi flutt af Lillian Öygarden frá Noregi og Erne Viiard frá Eistlandi og fjölluðu þær einkum um þróun í framleiðslu og neysluaukningu matvæla úr jurtaríkinu. Eftir hádegi á þriðjudeginum var ráðstefnunni skipt í þrjár málstofur eða; fæðuöryggi og sjálfbærni, dýrahald og dýravelferð og áburðarnotkun og næringarefnastjórnun. Meðal fyrirlestra þennan daginn var framlag frá Íslandi en Jóhannes Sveinbjörnsson hjá Landbúnaðarháskóla Íslands fjallaði um fæðuöryggi á Íslandi. Undirritaður náði ekki að fylgjast með öllu en var fundarstjóri á málstofunni um dýrahald og dýravelferð. Þar var meðal annars fjallað um tengsl neytenda við dýravelferð og þá möguleika sem eru til staðar til þess að innleiða stafræna velferðarvottun.

Þá var einnig sagt frá sænskum rannsóknum um aflífun grísa þar sem skoðuð var notkun köfnunarefnisfroðu í stað kol- tvísýrings með aukna velferð í huga. Eftir kaffihlé á þriðjudeginum var skipt um þemu að hluta til, áfram var fjallað um dýrahald og dýravelferð og auk þess garðyrkju og framleiðslukerfi og ræktun nytjajurta og beit. Frá Íslandi var Christina Stadler hjá Landbúnaðarháskólanum með erindi um vetrarræktun jarðarberja með LED-lýsingu og Ásta H. Pétursdóttir hjá Matís fjallaði um magn skordýraeiturs í og á innfluttum og innlendum ávöxtum og grænmeti.

Þar kom fram að mikill munur er á innlendu og innfluttu vörunum hvað þetta varðar og er eiturefnanotkun hérlendis greinilega miklum mun minni en erlendis. Í málstofunni um dýrahald og dýravelferð var fjallað um kortlagningu hegðunarferlis sauðfjár með GPS-tækni og sjálfbæra kjöt- og ullarframleiðslu með sauðfé í Noregi auk gólfkælingar fyrir eldisgrísi í Svíþjóð. Undirritaður var fundarstjóri í málstofunni um ræktun nytjajurta og beit og náði því eðlilega að fylgjast best með þar.

Þar var fjallað um leit að nýjum nytjajurtum með því að bera saman tegundir skyldar þeim sem nú þegar eru nýttar til uppskeru. Þá fjallaði David Parsons frá Landbúnaðarháskólanum í Umeå um nýtingu guls refasmára (lucerne eða alfaalfa) á norðlægum slóðum. Þær rannsóknir eru enn í gangi, m.a. hér á Íslandi.

Fyrir okkur, Íslendinga eru þessar rannsóknir sérstaklega áhugaverðar en ef tækist að finna, þróa eða kynbæta refasmára þannig að hann gæfi viðunandi uppskeru og vetrarþol við íslenskar aðstæður myndi gróffóðuröflun taka stakkaskiptum.

Þá var einnig fjallað um notkun gervihnatta- og drónamynda til þess að meta uppskeru og sláttutíma. Helsta fyrirstaðan þar er vöntun á nákvæmum uppskerumælingum á stærri svæðum en tilraunareitum en þar kom einnig fram að eitt stærri vandamálanna er að meta kjörtíma fyrir 2. og 3. slátt meðan að viðmið fyrir 1. slátt eru nokkuð góð. Þetta er vandamál sem íslenskir bændur þekkja vel.

Á miðvikudeginum (28. sept.) hófst umfjöllun um matvæli úr jurtaríkinu, landbúnaðarframleiðslu og jarðveg og jarðvegsheilsu. Umfjöllunin var meðal annars um ýmsar tæknilegar hindranir og vandamál tengd fram- leiðslu matvæla úr jurtaríkinu, notkun og nýtingu belgjurta í meðal annars víxl- eða skiptiræktun og kortlagningu jarðvegs. Eitt erindanna var allrar athygli vert en þar var sagt frá langtímarannsókn í Noregi þar sem skoðaðar hafa verið breytingar á lífrænu efni og þá var fjallað um fleiri rannsóknir varðandi langtímabreytingar á jarðvegi og efnainnihaldi við ræktun.

Eftir kaffihlé var skipt um málstofur og umfjöllunarefnin bútækni, landbúnaðarframleiðsla og hagkerfi og samfélag.

Þar var að finna erindi um ýmsa tækni eins og sjálfkeyrandi dráttarvélar, súrsun hálms sem formeðhöndlun og geymsluaðferð til lífgassframleiðslu, kartöflumyglu við breytingar á veðurfari, bókhveiti og viðhorf finnskra bænda til framtíðar fjölskyldubúsins og áhrif á daglega ákvarðanatöku. Þar kom t.d. fram að bændur leggja ekki eins mikið upp úr og áður að búskapur haldist innan fjölskyldunnar við ættliðaskipti.

Á fimmtudeginum (29. sept.) var fjallað um nýjar nytjaplöntur fyrir norðlægar slóðir og umhverfi og loftslagsbreytingar. Þarna var til umfjöllunar ræktun sojabauna á norðlægum slóðum, notkun lúpínu, kjúklingabauna, bókhveitis og fleiri nytjajurta sem ekki hafa sýnt góða uppskeru til þessa í okkar kalda loftslagi. Undir umhverfi og loftslagsbreytingum var rætt um losun koltvísýrings úr ræktuðum móajarðvegi við mismikla þjöppun, áhrif þurrefnis á losun og leka ammóníaks, metans og nituroxíðs úr hænsnaskít, áhrif kölkunar og þjöppunar á móajarðveg og sálræna þætti sem hafa áhrif á bændur gagnvart vilja til mótvægisaðgerða vegna loftslagsbreytinga. Þar kom fram að vilji bænda til mótvægisaðgerða er mikill hafi verið sýnt fram á að þær geri gagn.

Síðasti liður faglegrar dagskrár ráðstefnunnar var síðan pallborðsumræður þar sem þátttakendur voru Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, Jarko Niemi, forseti NJF og Erne Viiard, deildarstjóri hjá TFTAK í Eistlandi. Í umræðunum kom fram að þátttakendur voru sammála um að loftslagsbreytingar munu breyta matvælaframleiðslu á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum. Ragnheiður tók fram að Ísland þyrfti að marka langtímastefnu þar sem horft væri til aukinnar framleiðslu með tilliti til orkuaðgengis í alþjóðlegu samstarfi.
Þarna væru t.d. gríðarlegir möguleikar í garðyrkju. Ráðherra nefndi mikilvægi þess að haga nýtingu auðlinda og hugsa hnattrænt með hringrásarhagkerfi í huga. Jarko talaði um samþættingu samfélagsins þar sem landbúnaður væri óneitanlega mikilvægur hlekkur.

Aðspurð um nýjungar í matvælaframleiðslu sagði Erne að matvæli úr jurtaríkinu væru engin nýjung fyrir mannkynið, nýjungarnar lytu miklu fremur að breytingum á vinnsluaðferðum og erfðabreyttum matvælum. Fólk væri opið fyrir nýjungum og tók sem dæmi að neytendur hefðu tekið hugmyndum um ræktun kjöts vel. Ragnheiður sagði miklar breytingar hafa átt sér stað, t.d. hefði neysla kjúklingakjöts aukist mikið, og skordýr gætu verið einn framtíðarflokka matvæla. Erne tók undir það en sagði að neysla skordýra yrði þó líklega fremur bundin við vinnslu próteins en beina neyslu. Ráðherra sagði deginum ljósara að neyslumynstur fólks tæki breytingum og hinn pólitíski vettvangur hefði skyldum að gegna varðandi setningu og aðlögun reglna sem tækju mið af breyttu umhverfi. Jarko sagðist telja að fólk væri tilbúið til þess að neyta skordýra, a.m.k. prófa. Neysla þeirra væri þó framandi á okkar slóðum og þróun neysluaðferða og fræðsla myndi áreiðanlega skipta miklu máli.

Þegar talið barst að stríðinu í Úkraínu og áhrif þess á framleiðslukostnað, aðfangaverð og matvælaöryggi sagði ráðherra að það hefði þegar breytt miklu. Umræða um matvælaöryggi væri háværari, aðföng hefðu hækkað í verði og sem dæmi hefði Íslands þegar stutt við bændur. Þar væri þó um að ræða stuðning við aðsteðjandi og þegar til orðnum vanda en brýnt væri að huga að frekari aðgerðum til framtíðar. Ragnheiður sagðist telja að stríðið hefði sýnt okkur fram á frekari samkeppnishæfni Íslands. Erne sagði aðgengi aðfanga koma betur í ljós á næstu árum. Orkuverð hefði þegar hækkað gríðarlega og meðal áhrifa stríðsins væri skortur á stáli sem gerði nýfjárfestingar erfiðar. Þannig væru áhrifin ekki bara bundin við aukinn rekstrarkostnað heldur einnig fjárfestingakostnað og aðfangaaðgengi. Jarko sagði að viðbrögð við ákveðnum aðsteðjandi vanda eða krísu væru jafnan hröð en nota þyrfti núverandi ástand til þess að læra af því og bæta kerfin til þess að tryggja matvæli á viðráðanlegu verði.

Í umræðum um matvælaöryggi og nauðsynlegar matvælabirgðir sagði ráðherra að á Íslandi væri verið að vinna öryggisáætlun sem tæki til þessa málaflokks. Ragnheiður benti á að þó svo Ísland framleiði gríðarlegt magn af fiski og kjöti væri þetta framleiðsla sem reiddi sig á innflutt aðföng, eins og olíu. Þá mætti ekki horfa fram hjá þáttum eins og afhendingaröryggi raforku. Erne sagðist ekki viss um að í Eistlandi væru til áætlanir til að bregðast við matvælaskorti. Það væri þó full þörf á að vera viðbúin og sem dæmi væri verið að skoða hvort t.d. framleiðendur vöru ættu að auka birgðir umfram ákveðin lágmörk.

Varðandi menntunarmál í landbúnaði og matvælaframleiðslu sagði ráðherra menntun mikilvæga og sem dæmi væri áætlun í gangi hérlendis um kolefnisjöfnun sem kallaði á aukna menntun og rannsóknir. Án þeirra yrði markmiðunum tæpast náð.

Aðspurð um hvort Ísland væri með áætlun um að halda búum/jörðum í rekstri sagði ráðherra að í gildi væri samningur við bændur sem þyrfti við endurskoðun að aðlaga að þáttum er vörðuðu loftslagsbreytingar. Hún sagði að jafnframt væri mjög mikilvægt atriði hvers konar bú og búskap samfélagið vildi.

Matur og matvælaframleiðsla væru mikilvæg hverri þjóð og í raun og veru væri matur of ódýr þó þau ummæli yrði að skoða í samhengi. Ragnheiður sagði að tækniframfarir væru svo örar að mjög erfitt væri að spá fyrir um þróun landbúnaðar. Það væri þó alveg ljóst að hagnaður lítilla búa væri of lítill til þess að geta framfleytt fjölskyldu. Jarko sagðist telja að matvæli væru bæði ódýrari og betri en áður en auka þyrfti arðsemi landbúnaðar með t.d. hærra verði á gæðamatvælum og auknu virði varanna. Ráðherra tók fram að það væri mjög erfitt fyrir ráðherra að segja mat of ódýran en frá ákveðnu sjónarhorni væri það svo. Ný viðmið væru þó ákaflega mikilvæg og þetta snerist um mat okkar á lífsgildum. Við værum nauðbeygð til þess að endurhugsa hlutina með hliðsjón af loftslagsmálum.

Að lokum var ráðherra svo spurður að því hvernig NJF gæti hjálpað Íslandi. Ráðherra sagði alþjóðlegt samstarf Íslandi mikilvægt og NJF gæti hjálpað með samvinnu, umræðum og deilingu þekkingar.

Það væri mikilvægt að geta tryggt öllum mat á sanngjörnu og viðráðanlegu verði og í því sambandi væri norræn samvinna Íslandi sérstaklega mikilvæg.

Skylt efni: ráðstefna | NJF

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...