Stórar eðlur, ættingjar Komodo dreka, finnast á svæðinu. (e. Malayan water monitor, Varanus salvator). Myndir / Kristján Friðbertsson.
Fræðsluhornið 12. desember 2019

Árás drekanna og tröllvaxnar vespur!

Kristján Friðbertsson

Ungur rakst ég á „Ömmu Dreka“ í sögu Guðrúnar Helgadóttur „Jón Oddur og Jón Bjarni“. Líklega var það með fyrstu drekum sem ég rakst á um ævina. En haustið 2015 var ég svo heppinn að heimsækja grasagarð í Singapúr, hvar ég óvænt rakst á myndarlegasta dreka!

Ásamt gróðri má nefnilega finna þar ágætasta samansafn dýra (þ.m.t. skordýra)  en þó átti ég ekki von á að rekast þar á dreka! Sérlega fallegar drekaflugur voru þarna víða, en nei, drekinn sem ég rakst á var sem betur fer ekki fljúgandi.

Hér blómstrar fögur planta af baunaætt (Fabaceae) og er því skyld ýmsu sem við þekkjum vel, svo sem auðvitað hinar ýmsu baunir, en ekki síður má nefna jarðhnetur, sópana fögru og auðvitað lúpínuna sem bætir vort land jafnt næringarlega sem og fagurfræðilega. Sumum kemur á óvart að jarðhnetur séu af baunaætt, en þar má t.d. hafa í huga að enska heitið er jú samansett af orðinu baun (pea) og hneta (nut) og veitir því vísbendingu nokkra. Þessi tiltekni ættingi þeirra sem hér er myndaður er kenndur við páfugla, líkt og margar aðrar plöntur, hefur því verið nefndur hreinlega páfuglsblóm. Á ensku heldur hann bauna forskeytinu (pea) en breytir hnetu í hana og nefnist því Peacock flower (Caesalpinia pulcherrima).

Lúpínan borgar flugið

Ferðin til Singapúr er auðvitað heldur lengra ferðalag en að skjótast til Egilsstaða eða Kaupmannahafnar og þeir eru ekkert mjög margir dagarnir sem maður getur eytt í Singapúr þar til manni fer að leiðast. Við hins vegar vorum í minniháttar Asíureisu og því tilvalið að líta þarna við og mæli ég einmitt helst með sambærilegri heimsókn, sé fólk á þessum slóðum, eða ef millilent er í Singapúr. Svona langt flug kostar auðvitað bæði tíma og peninga, en nútildags er það einnig líklegt til að toga aðeins í samvisku þeirra sem fylgjast náið með sínu kolefnisbókhaldi.

Fljótt á litið sýnist mér flug fram og til baka þurfa í kringum 30 tré til að jafna þetta út. Núorðið vitum við að lúpína á Suðurlandi bindur meira en birkiskógur af sömu stærð á sama svæði, en bindingin þó til skemmri tíma. Ef þið komist ekki í gróðursetningu trjáplantna strax, þá er auðvitað hægt að sá bara duglega af lúpínu í millitíðinni. Frekar óumdeild planta sem fellur aldrei í grýttan jarðveg nema þá helst til að vaxa þar.

Kristján Friðbertsson, garðyrkjunörd. 

Framandi gróður og skordýr í fuglastærð

Ýmislegt áhugavert og fallegt var þarna að finna, nefna mætti til dæmis samansafn plantna af forsögulegum ættum, raðað skemmtilega upp ásamt viðeigandi listaverkum til að kenna gestum lítillega um þróun plantna. Sérstakt svæði er tileinkað plöntum af engifer og nærliggjandi ættum (Zingiberales) og elsti hluti garðsins þekur svo nokkra hektara af framandi regnskógi. Eini hluti garðsins sem rukkað er aðgangsgjald fyrir er svæðið sem hýsir heimsins stærsta safn orkídea.

Eins og ætla mætti útfrá landfræðilegri legu voru plönturnar almennt meira í trópíska kantinum, miðað við það sem maður er vanur og margt þarna sem maður sér ekki oft utan gróðurhúsa. Skordýralífið hér var líka alveg gríðarlega áhugavert, en um leið kannski ekki besti staðurinn fyrir pöddufælna.
Risavaxnar vespur sem voru jafnt þær langstærstu sem og háværustu sem ég man eftir að hafa rekist á sveimuðu þarna um og flugu oft það nálægt að manni stóð ekki á sama. Sem betur fer sá maður fljótt að þær höfðu alls engan áhuga á manni. Þó stoltið væri óneitanlega sært, gat maður þá varpað öndinni léttar og fylgst aðeins með þeim.

Lætin í vespunum bliknuðu þó í samanburði við suðið úr tifum (cicadas). Þær voru þarna í miklum fjölda á trjánum og þó maður sæi þær nú sjaldnast, þá létu þær heldur betur vita af sér. Í miðri náttúrunni voru lætin eins og maður væri á stóru byggingarsvæði í miðri stórborg á háannatíma. Á þeim tíma hafði maður vart kynnst öðru eins og ætlaði varla að trúa því að tifurnar litlu væru í raun og veru svona svakalega háværar. Því miður náði ég ekki að festa þær á filmu.

Risavaxnar vespur sveimuðu þarna um og var þessi með þeim smærri.

Þegar drekinn birtist!

Lífið fær sko aldeilis að njóta sín þarna í garðinum. Fiskar synda þarna kátir innan um vaðfugla og endur. Smáfuglar flögra um gróðurinn og stærri fuglar láta sig ekki vanta. Íkornar þjóta upp og niður trén, safna mat, leika sér og fylgjast með öllu saman. Ef maður staldrar við og fylgist með lífinu í smá stund, þá er hætt við að manni bregði í brún þegar maður sér skyndilega útundan sér dreka röltandi í átt að manni, ekki meira en 10 metra í burtu!

Þar sem ég sá hann svo stoppa og horfa á mig, fletti heilinn upp í hinum ýmsu dýralífsþáttum og rifjaði upp hinn ógurlega dreka sem á ensku er kallaður „Komodo Dragon“ (Varanus komodoensis) en heitir alveg örugglega ekki kommóðu dreki á íslensku. Drekinn sá er kjötæta, stærsta lifandi eðlutegund í heimi, getur orðið yfir 3 metra langur og tæp 170 kíló að þyngd. Þeir bíta og borða bráð sína, eru með eiturkirtla í munni og hafa menn og dýr einnig látist af eituráhrifum eða sýkingu í sárið sem fylgir bitinu. Þeir geta staðið uppréttir, klifrað í trjám, synt í vatni, kafað í næstum 5 metra dýpt og hlaupið á í kringum 20 kílómetra hraða á kluttustund. Manni er því ekki alveg sama þegar maður sér slíkan nærri sér á framandi slóðum og opið graslendi á milli. Hann stóð þarna og horfði aðeins í átt að mér, leit svo í kring og horfði aðeins út í loftið. Sem betur fer virtist þetta ekki vera árásargjarnt eða æst dýr sem ég mætti þarna.

Skömmu síðar röltir hann svo letilega tilbaka í átt að vatninu og stoppar nokkrum sinnum í gróðrinum sem hann hafði óvænt yfirgefið fyrir þessa skoðunarferð. Á þessum tímapunkti er alveg ljóst að hann hefur engan áhuga á mér og ég búinn að grípa myndavélina loksins. Smelli nokkrum myndum af honum og finnst hann þá heldur minna vígalegur en mig minnti að Komodo drekarnir í sjónvarpinu höfðu verið.

Fagrar drekaflugur sveima þarna víða, áhyggjulausar um kolefnisjöfnun á sínu flugi, enda löngu búnar að græja það í gegnum Kolvið.

Þegar komið var tilbaka í öryggi hótelsins var auðvitað málið kannað í þaula og reyndist þetta þá hafa verið algengur náfrændi Komodo drekans, sem er ansi mikið af í Singapúr, þ.á m. einmitt í grasagarðinum. Ekki Varanus komodoensis heldur Varanus salvator, með enska heitið „Malayan water monitor“. Þar er þó á ferð næst stærsta eðlutegund í heimi, getur orðið næstum jafn langur og Komodo drekinn, en er allur minni um sig, með mun minni vöðvamassa og sækir í smávaxnari bráð. Það borgar sig alls ekki að atast í honum og mikilvægt að fara mjög varlega nærri þeim, en þó hægt að vera margfalt rólegri en í kringum Komodo drekann. Innfæddir virðast svipað rólegir í kringum hann eins og við í kringum svani. Vel vitað að maður atast ekki í þeim og þeir geta meitt mann, en alla jafna falla þeir bara í bakgrunn umhverfisins eins og hver annar hlutur. Hér undanskil ég að sjálfsögðu ekki bændur sem sjá svani á túnunum sínum, því eflaust myndu íslenskir bændur ekki hika við að rjúka að drekanum einnig og reka hann á brott!

Singapore Botanic Garden

Garðurinn er stofnaður 1859 og státar í dag af því að tilheyra lista UNESCO og er hið fyrsta og eina á þeim lista sem finnst innan Singapúr, ásamt því að vera sagður eini trópíski garðurinn á þeim lista og einungis þriðji grasagarðurinn í heiminum sem er samþykktur á listann. Fyrstur á listann var heimsins elsti starfandi grasagarður, í Padua á Ítalíu, stofnaður 1545 og á eftir honum bættist við grasagarðurinn í Kew, í London, Bretlandi. Svo skemmtilega vildi til að garðurinn í Singapúr hafði einmitt verið samþykktur á listann einungis fáum mánuðum áður en við heimsóttum hann.

Rauði pálminn.

Garðurinn sem slíkur er opinn frá fimm að morgni til miðnættis og því jafnvel hægt að gera sér ferð þangað þó maður sé bara að millilenda í hálfan dag, þó raunar séu ekki allir hlutar garðsins opnir svona lengi. Hann er sagður eini grasagarðurinn sem hefur þetta langan opnunartíma að staðaldri, sem býður þarmeð upp á upplifun sem aðrir geta ekki boðið. Það má t.d. nýta sér hinn langa opnunartíma með því að kíkja eftir sólarlag, ekki síst sé maður þarna í maí/júní eða okt./nóv. þegar blómgunartími Tembusu trjánna stendur yfir. Í garðinum má finna slíkt tré sem talið er nánast jafngamalt garðinum og opnar það blómin við sólsetur og dreifir ilm sínum allt í kringum tréð. Rétt er að benda einnig á í lokin að í Singapúr má m.a. einnig finna dýragarð, sem og safarigarð með næturopnun, auk þess sem flugvöllurinn sjálfur inniheldur lítinn fiðrildagarð.

Nánari upplýsingar má finna á netinu m.a. á eftirfarandi vefslóðum:
https://www.nparks.gov.sg/sbg
https://www.wrs.com.sg/en/singapore-zoo.html
https://www.wrs.com.sg/en/night-safari.html
https://en.wikipedia.org/wiki/Komodo_dragon
https://en.wikipedia.org/wiki/Asian_water_monitor

Erlent