Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Mynd 1: Horft inn eftir Tálknafirði og yfir hluta af skjólbeltakerfinu á Kvígindisfelli haustið 2005.
Mynd 1: Horft inn eftir Tálknafirði og yfir hluta af skjólbeltakerfinu á Kvígindisfelli haustið 2005.
Mynd / Lilja Magnúsdóttir
Á faglegum nótum 9. júní 2021

Árangur skjólbeltaræktunar á Vestfjörðum

Höfundur: Lilja Magnúsdóttir, Sighvatur Jón Þórarinsson, skógfræðingur, Arnlín Óladóttir og Naomi Bos.

Skjólbelti eru tré og runnar sem nýtt eru til að draga úr vindhraða, skapa skjól og aðrar hagstæðar aðstæður. Þau geta verið mismunandi að lögun og stærð og geta innihaldið ýmsar tegundir og vaxtargerðir. Þekktir kostir skjólbelta eru til dæmis aukin uppskera í tún- og akurrækt, minni upphitunarkostnaður, aukin lifun og vöxtur skógarplantna og hindrað jarðvegsfok. Jafnframt gera skjólbelti matjurtarækt mögulega, stýra snjóalögun nærri vegum og draga úr hávaða.

En hvernig er reynsla Vestfirð­inga af skjólbeltarækt? Lilja Magnús­dóttir, skógarbóndi á Kvígindis­felli í Tálknafirði, Sighvatur Jón Þórarinsson, bóndi á Höfða í Dýrafirði og Arnlín Óladóttir, skógarbóndi á Bakka í Bjarnarfirði, segja frá reynslu sinni af skjólbeltarækt.

Mynd 2: Mynd af bænum á Kvígindisfelli sumarið 2020 og skjólbeltaraðirnar í baksýn og í kringum bæinn. Mynd / Lilja Magnúsdóttir

Skjólbelti hjálpa skóginum að vaxa á Kvígindisfelli í Tálknafirði

Skjólskógar á Vestfjörðum voru eitt af landshlutaverkefnum í skógrækt og voru stofnaðir árið 2000. Strax var hafist handa við að fá bændur á Vestfjörðum til að taka þátt í verkefninu og voru bændurnir á Kvígindisfelli í Tálknafirði, þau Magnús Guðmundsson og Halldóra Bjarnadóttir, ein af þeim fyrstu sem hófu þátttöku í verkefninu. Þar sem hefðbundnum búskap var hætt á Kvígindisfelli var ákveðið að leggja sem mest land undir skóginn og var gerður samningur um skógrækt á rúmum 60 hekturum með margs konar notagildi að leiðarljósi.

Eitt af því sem starfsmenn Skjólskóga bentu okkur strax á var nauðsyn þess að búa til skjól fyrir skógræktina eins fljótt og hægt væri og til þess væri einfaldast að rækta upp skjólbelti þvert á ráðandi vindáttir til að brjóta vindinn sem mest upp. Annars vegar var ákveðið að leggja skjólbelti með um 50-60 m millibili þvert á austanáttina sem var ríkjandi vindátt mestan part ársins og hins vegar þvert á norðaustan áttina, sem gat verið erfið að vetri, til að fá meira skjól heima við bæ sem allra fyrst. Þannig var skipulagt skjólbeltakerfi sem náði yfir mest allt skógræktarsvæðið og mældist vegalengt beltanna á bilinu 4.000-5.000 metrar þegar allt var talið.

Þegar að gróðursetningu kom var ekki mikið um plöntuúrval þannig að alaskavíðir varð að mestu leyti fyrir valinu. Upphaflega var talið að grænn alaskavíðir, klónninn Ólína, væri hentugastur en seinna hefur komið í ljós að bestu klónarnir voru að öllum líkindum Gutti eða Laugi. Einnig var græðlingum af brúnum alaskavíði stungið niður, Gústu, gljávíði og ýmsum öðrum víðiklónum sem hægt var að nálgast á tveimur fyrstu árum skógræktar á Kvígindisfelli. Seinna var líka notuð viðja og hreggstaðavíðir þegar bætt var við fleiri beltum. Langflest beltin voru plöstuð og græðlingum stungið í gegnum plastið. Fylgst var með græðlingunum fyrsta sumarið og þeim hjálpað á legg auk þess sem öll beltin voru klippt í hnéhæð á öðrum vetri til að auka rótarvöxt þeirra. Það virðist hafa tekist að mestu leyti þar sem beltin hafa vaxið jafnt og vel og lítið um rótarveltu í þeim en það er þó misjafnt milli klóna. Í dag eru beltin um 5-6 metra há og veita ótrúlegt skjól bæði sumar og vetur auk þess sem þau safna snjó á milli beltanna og tryggja þannig jafnari raka í skóginum og betri aðstæður fyrir skógarplönturnar. Í raun og veru má segja að loftslagið á Kvígindisfelli hafi gjörbreyst á þessum 20 árum sem beltin hafa skýlt húsum, fólki og skógi.

Við skógarbændur á Kvígindis­felli í Tálknafirði mælum hiklaust með mikilli notkun skjólbelta eins víðar og hægt er að koma þeim við í skógræktinni þar sem þau auka skjól og auðvelda ungum skógarplöntum að komast á legg. Það sem ég hefði gert öðruvísi í dag væri að huga meira að aðstæðum við umhirðu beltanna svo sem klippingu með vélum, sem er nauðsynleg til að tryggja beinni vöxt beltanna og svo tegundaval. Í dag myndi ég nota mun meira af runnum til að auka notagildi beltanna svo sem berjarunnum og nota fjölbreyttari tegundir til að tryggja öryggi gagnvart sjúkdómum og auka álagsþol beltanna gagnvart þeim. Skjólbeltin okkar hafa gert mikið gagn í skógræktinni hjá okkur þar sem þau voru fljót að vaxa upp. Við fengum trú á að hér væri hægt að rækta skóg og við fórum fljótlega að njóta góðs af skjólinu.

Mynd 3. Einföld röð í plast. Alaskaösp (Súla) og alaskavíðir/gulvíðir gróðursett 2000. Haustið 2020 eru hæstu aspirnar að ná yfir 14 m hæð. Mynd / Sighvatur Jón Þórarinsson

Skjólbelti eru hluti af búskaparháttum í landbúnaði á Höfði í Dýrafirði

Fyrstu skjólbeltin á Höfði í Dýrafirði voru gróðursett fyrir 20 árum og samanstóðu af einfaldri röð þar sem sett var í gulvíðir, hreggstaðavíðir, alaskavíðir og ösp að hluta til. Síðan hafa verið reyndar fjölmargar tegundir og samsetningar í einföldum, tvöföldum og þreföldum skjólbeltum.

Öll skjólbeltin hafa verið unnin á sama hátt: Plægt, borinn skítur í plógförin, tætt vel og að endingu plastlagt. Smávegis var ekki plastlagt og var árangur þess það lélegur að ég ráðlegg að sleppa ekki plastinu. Í fyrstu skjólbeltunum var víðirinn eingöngu stikklingar sem stungið var í gegnum plastið og heppnaðist það mjög vel en það þurfti samt að bæta nokkuð í þar sem gæsin gat verið dugleg að kippa upp stiklingunum. Fyrst ég er að minnast á blessaða gæsina, þá getur hún verið töluverður skaðvaldur þegar verið er að koma upp skjólbeltum og er þá spurningin um að vera nógu duglegur að bæta í jafnóðum og gæsin tekur stiklingana eða plönturnar. Einnig má reyna fuglahræður eða eitthvað annað til að fæla hana frá, en okkar reynsla af fuglahræðum er að gæsin notar þær til að skýla sér!

Áður en lengra er haldið er rétt að spyrja sig: Hvers vegna skjólbelti? Einfalda svarið er: Til að fá skjól! En hvaða gagn hef ég af því í búrekstri? Byrjum á túnunum. Fyrripart sumars þarf túnið hita og raka til að spretta. Þegar skjólbeltið er orðið viðunandi hátt og þéttleiki þess hæfilegur, verður vindur mun minni í skjóli þess sem leiðir oftast til meiri hita og meiri raka við yfirborð. Almenna reglan er að skjóláhrif séu tíu sinnum hæð beltisins og það þarf sem sé að vera nokkuð hátt (≥ 10 m) svo skjóláhrifin nái að skýla að einhverju leyti eða öllu túninu eða akrinum.

En öllu fylgja einhverjir ókostir. Það er meiri raki innan skjólbeltisins og næturdöggin hverfur seinna af grasinu (heyinu) þegar verið er að reyna að ná þurru heyi. Einnig er að, þó að sprettan verði meiri í meiri hita og skjóli, getur sprettan orðið minni þar sem skjólbeltið varpar skugga um miðjan daginn (norðanmegin) og dregur þannig úr sólarljósinu. Aftur á móti sólarmegin (sunnanmegin) við þetta belti má oftast sjá áberandi meiri sprettu. Einnig hafa skjólbeltin afgerandi áhrif á snjóalög.

Skjólbeltin geta safnað miklum snjó á túnin hlémegin og að nokkru leyti líka áveðurs. Ókostir þessarar snjósöfnunar eru kannski þeir helstir að túnið kemur seinna undan snjó og er blautara að vori og því þarf hugsanlega meiri aðgæslu með alla vélaumferð um túnið, en aftur á móti er jörðin að jafnaði þíð og tún tekur fljótt við sér og raki helst í jarðveginum lengur. Ég hef verið spurður um kal, en aðeins einu sinni hef ég séð vott af kali við skjólbeltin en það náði að gróa upp úr því um sumarið þannig að ég tel kal ekki áhættu atriði.

Túnbeltin þurfa líka sína umhirðu. Sé ekkert hirt um skjólbeltin verða þau með tímanum gisin að neðan og greinar teygja sig til allra átta út úr beltinu og inn á túnin. Því er mikil þörf á að klippa skjólbeltin til að fjarlægja greinarnar sem slúta inn á túnin og eru jafnvel að slást í vélarnar. Með klippingu hleypum við ljósi inn í skjólbeltin og þau þétta sig að neðan aftur og koma þannig í veg fyrir að vindurinn nái að blása „undir“. Einnig er meiri hætta á stormfalli séu skjólbeltin ekki klippt.

Þá erum við komin að tegundavalinu. Víðirinn og öspin eru nokkuð góð saman þar sem víðirinn getur séð um undir- eða milliskjólið en öspin getur tekið við þar fyrir ofan. Á þessum 20 árum eru hæstu aspirnar komnar í ríflega 14 metra og því farnar að skýla vel. En þar sem eingöngu er víðir er hann kominn mest í um 5 metra og fer væntanlega ekki hærra. Kosturinn er að þessar tegundir eru fljótvaxnar en gallinn er að þær eru skammlífar og víðirinn þarf mikla umhirðu ef hann á að „eldast“ vel. Vissulega getur víðirinn orðið „eilífur“ ef hann er sagaður niður reglulega, þar sem hann hefur góða eiginleika til að endurnýja sig frá rót. Birki, reynir, selja og önnur millihá tré geta hentað ágætlega en eru mun hægvaxnari. Ég er með þessar tegundir en hef þá annað belti við hliðina með ösp og/eða víði sem er þá möguleiki að fjarlægja þegar hin trén koma upp. Einnig er gaman að hafa berjarunna og ýmsa toppa sem lágskjól og geta þeir þá tekið við þegar hávaxnari tegundir fara að gisna að neðan. Þarna koma einnig önnur sjónarmið inn í: samspilið við dýralífið. Fuglar sækja mikið í skjólbeltin og berjarunnar eru klárlega kostur en einnig eru þau kjörin til hreiðurgerðar frá jörðu og uppúr.

Hinn þáttur skjólbeltanna sem snýr beint að búskapnum er skjól fyrir húsdýr, nautgripi og kindur. Nautin hjá mér hafa notið skjóls þeirra að sumri og hausti. Nautin halda sér betur og lengur á beit þar sem skjóls nýtur við í síðsumars- og haustrigningum heldur en á berangri. Þó ber að geta þess að ekki er heppilegt að nautin komist óhindrað í skjólbeltin, því þá eru skjólbeltin nánast étin upp til agna ef um víði og ösp er að ræða. Þannig þarf að gæta þess að girða skjólbeltin af svo gripirnir nái sem minnst til beltanna.

Skjólbelti, tel ég, ættu að vera hluti af búskaparháttum í hefðbundnum landbúnaði, þar sem hægt er að koma því við. Sama á við um skógrækt enda er ræktun skóga og skjólbelta landbúnaður en ekki eingöngu til kolefnisbindingar.

Mynd 5. Matjurtarækt í skjóli á Bakka í Bjarnarfirði. Mynd / Arnlín Óladóttir

Matjurtarækt í skjóli skjólbelta á Bakka í Bjarnarfirði

Við á Bakka í Bjarnarfirði byrjuðum að rækta skjólbelti til að fá skjól fyrir matjurtaræktunina sem við vorum með á ca hálfum hektara. Við vorum búin að lenda í því að allt fauk um koll í roki og síðan fuku og gengu úr sér timburgrindur sem við settum upp. Ræktun skjólbeltanna hófst þegar við fengum senda græðlinga af víði og ösp frá Mógilsá. Skjólið hækkar meðalhita sumarsins um ca 2 gráður hér um slóðir, sem gerir matjurtarækt árangursmeiri. Við ræktum núna á ca 400 fm allskonar kál, kartöflur, rófur, gulrætur, næpur, salat, rauðrófur, púrru og fleira fyrir heimilið, ásamt berjum eins og sólber, rifsber og jarðarber.

Við erum stödd úti á jafnsléttu í miðjum firðinum þar sem oft verður mjög hvasst. Í þessum erfiðu aðstæðum hefur reynslan kennt okkur að skjólbeltin komast ekki almennilega upp nema mjög þétt (2 græðlingar á m). Það er of þétt þar sem skjólið verður ekki nógu gott; þó fullkomið skjól verður næst beltunum, ná áhrifin ekki nógu langt. Svolítið grisja þau sig sjálf – tré deyja innanúr, leggjast út af og/eða brotna. Það er allt í lagi úti í skógi þar sem það rotnar bara niður. En við þurfum að grisja skjólbelti til að skjólið verði jafnara yfir svæðið, bæði til að fá lengra skýlt svæði við hver belti og vegna þess að svona þétt belti safna snjósköflum sem aflaga trén og jafnvel brjóta þau. Að auki má samt nota þétt skjólbelti sem snjófangara til að gróðursetja skógarplöntur: gróðursetja ekki næst þeim en nýta snjólétta svæðið við hliðina við því til að gróðursetja í.

Klárlega mikill ávinningur að vera með skjólbeltarækt

Reynslan á Kvígindisfelli, Höfða og Bakka sýnir að skjólbelti geta veitt skjól fyrir hús, fólk og dýr og geta haft jákvæð áhrif á tún-, skóg- og matjurtarækt. Eitt er víst: Það eru margir ávinningar við skjólbeltarækt á Vestfjörðum!

Lilja Magnúsdóttir,
skógfræðingur og skógarbóndi á Kvigindisfelli

Sighvatur Jón Þórarinsson,
skógfræðingur, bóndi á Höfða og fyrrverandi formaður FsVfj

Arnlín Óladóttir,
skógfræðingur, skógarbóndi á Bakka og fyrrum starfsmaður Skógræktarinnar

Naomi Bos,
búvísindafræðingur, skógarbóndi, formaður FsVfj og stjórnarliði í LSE

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...