Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Jarðarberin hafa alltaf verið eftirsótt til matar og jafnvel til heilsubótar hér á landi. Oddur Oddsson, prestur á Reynivöllum í Kjós, nefnir þau í lækningabók sinni nokkru fyrir 1700 og segir jarðarberjavatn „hreinsa vel munn og háls“.
Jarðarberin hafa alltaf verið eftirsótt til matar og jafnvel til heilsubótar hér á landi. Oddur Oddsson, prestur á Reynivöllum í Kjós, nefnir þau í lækningabók sinni nokkru fyrir 1700 og segir jarðarberjavatn „hreinsa vel munn og háls“.
Fræðsluhornið 8. júlí 2021

Allir elska jarðarber

Höfundur: Ingólfur Guðnason

Jarðarberjaræktun er vinsæl hjá mörgum garðeigendum. Hægt er að fá ágæt yrki í garðplöntustöðvum sem skila uppskeru stórra og bragðgóðra berja frá miðjum júlí og allt til ágústloka.

Sum þeirra eru vel þekkt til langs tíma í nágrannalöndum okkar en einnig eru á markaði nýrri yrki sem eru fremur ætluð til ræktunar innanhúss. Sameiginlegt öllum þessum berjum er að þau eru blendingsyrki sem hafa komið fram við kynbætur gegnum tíðina.

Íslensk villijarðarber

Hér á landi vex ein tegund jarðarberja í náttúrunni (Fragaria vesca) sem gefa hinum ekkert eftir í bragðgæðum og þykja mesta sælgæti þegar þau þroskast upp úr miðju sumri. Þau vaxa víða um land en langmest á láglendi. Í grónum brekkum móti suðri ná þau mestum þroska en þau er einnig að finna td. í birkikjarri og á öðrum skjólgóðum stöðum. Mest er um þau á Suður- og Vesturlandi og á Norðurlandi, einkum kringum Eyjafjörð. Íslensku jarðarberin hafa borist hingað til lands frá Evrópu, ekki er fullljóst hvenær en ætla má að þau hafi borist hingað smátt og smátt síðustu 10.000 árin eða svo.

Plönturnar eru fínlegar og fallegar, fjölærar, harðgerðar og henta ágætlega í steinhæðir án mikils áburðar.

Plönturnar eru mun smærri en erlendu garðayrkin og berin sömuleiðis. Það er samt vel þess virði að leita þau uppi því bragðið er kröftugt, sætt og sérkennandi fyrir tegundina. Fuglar eru einnig sólgnir í berin. Vel má ruglast á hrútaberjaklungri og jarðarberjaplöntum óblómstruðum. Jarðarberjaplönturnar mynda þó alltaf laufblöð upp úr blaðhvirfingu frá jörðu en á hrútaberjaklugrinu geta lauf vaxið út úr skriðulum renglunum. Jarðarberjaplönturnar mynda líka renglur sem þær nýta til að dreifa sér og geta plönturnar myndað nokkuð stórar breiður þar sem þeim líður vel.

Nytjar

Jarðarberin hafa alltaf verið eftirsótt til matar og jafnvel til heilsubótar hér á landi. Oddur Oddsson, prestur á Reynivöllum í Kjós, nefnir þau í lækningabók sinni nokkru fyrir 1700 og segir jarðarberjavatn „hreinsa vel munn og háls“. Hann segir enn fremur: „Kokkarnir þekkja vel jarðarber, því þeir til búa kostulega rétti af þeim, hverjir betur þéna sjúkum en heilbrigðum mönnum, því þau kæla mjög vel.“

Snorri Björnsson prestur, aflraunamaður og kraftaskáld á Húsafelli, kallaði þau „Jarðar-hunang“ um miðja 18. öld. Björn Halldórsson, prófastur í Sauðlauksdal, segir í riti sínu Grasnytjum 1783: „Berin hreinsa hraðberg af tönnum og skaða þær þó ekki.“

Ræktun fyrr og nú

Gefum Eggert Ólafssyni, skáldi og náttúrufræðingi, orðið um jarðarber og þeirra ræktun og nytsemdir, úr garðyrkjuritinu „Lachanologia“ frá 1774:

„Þó að þessi jurt kunni varla smáviður heita teljast þau samt hér með. Þau hafa verið ein fyrsta fæða fornaldar manna, sem vottar Ovidius, eru ágæt að verkan, samandragandi nokkuð og kælandi, þess vegna góð sára bót. Þessi ávöxtur, sem hefir lystilegan vínsmekk og daun finnst í görðum utanlands, vill hafa mjúka og létta jörð, nokkuð sandblendna. Á Íslandi eru þau víða, en allsstaðar lítið af þeim. Í görðum væri vert að reyna að hafa þau, stinga upp hnausa á haustdag og setja niður í viðlíka jörð og afstöðu sem þau höfðu áður; svo hafa þau orðið stærri í ræktaðri jörð. Þau eru hrá etin í Svíþjóð, Frakklandi og víðar. Musl er af þeim gjört, með vatni eða mjólk soðnum. Líka verður full skál af berjum, með víni og sykri. Lögur þeirra með sykri seyddur borðast með teskeið, hann er góður við innvortis ofhita, bætir lifrar- og miltilsbólgu, köldur og næma sjúkdóma, edik er líka af honum gjört.“

Við getum á einfaldan hátt tekið smáplöntur sem myndast á renglum jarðarberjaplantnanna, komið þeim í raka mold og látið þær skjóta rótum. Þannig getum við komið upp breiðu af íslenskum jarðarberjaplöntum í garðinum. Plönturnar eru fínlegar og fallegar, fjölærar, harðgerðar og henta ágætlega í steinhæðir án mikils áburðar.

Skylt efni: Jarðarber

Herbarium Islandicum
Fræðsluhornið 20. janúar 2022

Herbarium Islandicum

Þegar talað er um þurrkuð plöntusöfn getur verið um að ræða plöntu­hluta eða hei...

 Yfirlit ætternis Litlu hafmeyjunnar
Fræðsluhornið 17. janúar 2022

Yfirlit ætternis Litlu hafmeyjunnar

Litla hafmeyjan, eitt af þjóðar­táknum Danaveldis og sögu­persóna hins kunna ævi...

Betri nýting áburðar – betri afkoma
Fræðsluhornið 17. janúar 2022

Betri nýting áburðar – betri afkoma

Nú liggur fyrir að mikil hækkun er á áburðarverði milli ára. Kaup á tilbúnum ábu...

Vetrarumhirða pottaplantnanna
Fræðsluhornið 17. janúar 2022

Vetrarumhirða pottaplantnanna

Í skammdeginu þarf að huga séstaklega að vellíðan pottablómanna okkar, því það g...

Mannlaus mjólkurframleiðsla
Fræðsluhornið 10. janúar 2022

Mannlaus mjólkurframleiðsla

Bændur sem byggja fjós nú til dags, í norðurhluta Evrópu og helstu löndum þar se...

Nýr Mitsubishi Eclipse Cross
Fræðsluhornið 7. janúar 2022

Nýr Mitsubishi Eclipse Cross

Laugardaginn 4. desember kynnti Hekla h/f við Laugaveg nýjan Mitsubishi Eclipse ...

Frá nútíð til framtíðar
Fræðsluhornið 6. janúar 2022

Frá nútíð til framtíðar

Í jarðumbrotum fyrir hundrað milljónum ára reis fjallið Fanjin frá hafsbotninum....

Íslenskir bændur og alþjóðlegir vísindamenn vinna saman
Fræðsluhornið 3. janúar 2022

Íslenskir bændur og alþjóðlegir vísindamenn vinna saman

„Riðurannsóknin mikla“ – hér eru íslenskir sauðfjárbændur og riðusérfræðingar fr...