Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar.
Rán Finnsdóttir líffræðingur segir að beit hafi eins og loftslagsbreytingar áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika plöntusamfélaga og geti vöxtur lostætra plöntutegunda minnkað á meðan samkeppnishæfari tegundir og þær tegundir sem grasbítar sneiða hjá dafnað.
Rán Finnsdóttir líffræðingur segir að beit hafi eins og loftslagsbreytingar áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika plöntusamfélaga og geti vöxtur lostætra plöntutegunda minnkað á meðan samkeppnishæfari tegundir og þær tegundir sem grasbítar sneiða hjá dafnað.
Fræðsluhornið 4. mars 2021

Áhrif sauðfjárbeitar á plöntur í hlýnandi heimi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Loftslagsbreytingum á norður­heimskautinu fylgir hækkandi lofthiti sem hefur áhrif á plöntur á svæðinu. Margar tegundir eru ekki aðlagaðar lífi við hærra hitastig og fyrir þær getur hlýnun valdið samdrætti í útbreiðslu og jafnvel útdauða, og þar með breytingum í líffræðilegum fjölbreytileika plöntusamfélaganna, til dæmis fjölda tegunda og tegundasamsetningu.

Rán Finnsdóttir líffræðingur segir að beit hafi eins og loftslagsbreytingar áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika plöntusamfélaga og geti vöxtur lostætra plöntutegunda minnkað á meðan samkeppnishæfari tegundir og þær tegundir sem grasbítar sneiða hjá dafnað. „Enn fremur getur beit grasbíta dregið úr mætti plöntusamfélaga til að aðlagast breytingum, eins og til dæmis hækkandi hitastigi, með því að veikja þær og ýta undir aðlögun að beit.“

Rannsóknir við mishátt hitastig

„Í rannsókninni skoðaði ég áhrif hækkandi hitastigs og sauðfjárbeitar á graslendi í rannsóknarreitum Landbúnaðarháskóla Íslands í Grændal ofan við Hveragerði. Rannsóknarreitirnir í Grændal eru hluti af stóru alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi, undir forystu LbhÍ, þar sem vísindamenn víða að úr heiminum eru að skoða áhrif hlýnunar á vistkerfið.

Rannsóknarreitirnir í Grændal eru hluti af stóru alþjóðlegu rannsóknar­samstarfi, undir forystu LbhÍ, þar sem vísindamenn víða að úr heiminum eru að skoða áhrif hlýnunar á vistkerfið.

Víða í Grændal er jörðin hituð af jarðvarma og þessar aðstæður er hægt að nota sem staðgengil fyrir hærra lofthitastig. Rannsóknarreitirnir eru einmitt hluti af stóru alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi, www.forhot.is, undir forystu LbhÍ, þar sem vísindamenn víða að úr heiminum eru að skoða áhrif hlýnunar á vistkerfið.

Rannsóknarreitirnir eru á sex ólíkum jarðhitastigum: +0, +1, +3, +5, +10 og +20° á Celsíus, miðað við eðlilegan jarðhita um 10° á Celsíus. Á hverju hitastigi eru bæði beittir og beitarfriðaðir reitir. Beitarfriðuðu reitirnir höfðu verið afgirtir í fimm ár þegar rannsóknin fór fram.

Þetta gerði mér kleift að skoða eingöngu áhrif beitar, +0° á Celsíus reitirnir, eingöngu áhrif hita, beitarfriðuðu reitirnir, og samverkan beggja þátta á plöntusamfélagið. Í öllum reitum skoðaði ég líffræðilegan fjölbreytileika, tegundafjölda og tegundasamsetningu, mældi plöntuhæð og taldi fjölda brenni­sóleyjarplantna bæði blómstrandi og blómlausar, til að rannsaka áhrif hita og beitar á blómstrun.“

Líffræðilegur fjölbreytileiki lækkað við hærra hitastig

Rán segir að niðurstöðurnar bendi til að beit hafi ekki áhrif á svörun plantna við hlýnun. „Það var ekki munur á plöntusamfélaginu í beittum og beitarfriðuðum reitum við sama hitastig. Hins vegar minnkaði líffræðilegur fjölbreytileiki eftir því sem hitastig hækkaði og sömuleiðis breyttist tegundasamsetningin með hækkandi hitastigi. Blómstrandi brennisóleyjum fækkaði líka þegar hitastig hækkaði, en meðalhæð plantna jókst með hækkandi hitastigi. Blómstrandi brennisóleyjar voru marktækt færri í beittum reitum samanborið við óbeitta sem bendir til neikvæðra áhrifa beitar á blómgun brennisóleyja. Plöntuhæð var einnig lægri í beittum reitum en óbeittum, sem bendir til neikvæðra áhrifa beitar á plöntuhæð.

Það verður þó að hafa í huga að rannsóknarreitirnir höfðu verið beitarfriðaðir í tiltölulega stuttan tíma, og eins og niðurstöður erlendis frá benda til þarf vistkerfið líklega lengri tíma til að sýna áhrifin frá friðuninni, jafnvel tuttugu ár eða fleiri áratugi. Eftir lengri friðunartíma gætu samverkandi áhrif beitar og hlýnunar komið í ljós.“

Nauðsynlegt að skilja samspil hlýnunar og beitar

Niðurstöðurnar undirstrika að bæði hækkandi hitastig og beit grasbíta eru mikilvægir áhrifaþættir fyrir gróðursamfélög. „Í hlýnandi heimi er nauðsynlegt að skilja betur samspil hlýnunar og beitar til að geta tryggt sjálfbæra landnýtingu til framtíðar. Gróðursamfélög eru fjölbreytt og margbrotin og svörun þeirra við hlýnun og beit er, og verður, eftir því margþætt og breytileg. Þessa þætti þarf því að rannsaka nánar og til langs tíma, bæði aðskilin áhrif þeirra og samspil þar á milli, og við ólíkar umhverfisaðstæður. Jafnframt er mikilvægt að byggja núverandi aðgerðir á þeirri þekkingu sem hefur nú þegar fengist og leyfa náttúrunni að njóta vafans,“ segir Rán Finnsdóttir líffræðingur.

Sprotinn – jarðræktarráðgjöf
Fræðsluhornið 21. apríl 2021

Sprotinn – jarðræktarráðgjöf

Ráðgjafarmiðstöð Land­búnaðarins býður upp á ráðgjafarpakka í jarðrækt sem nefni...

Afkomuvöktun sauðfjárræktar 2017–2019
Fræðsluhornið 9. apríl 2021

Afkomuvöktun sauðfjárræktar 2017–2019

Undanfarin ár hefur Ráðgjafar­miðstöð landbúnaðarins unnið að söfnun og úrvinnsl...

Vöktun á landlægum sjúkdómum í hrossum
Fræðsluhornið 7. apríl 2021

Vöktun á landlægum sjúkdómum í hrossum

Matvælastofnun hefur gefið út leiðbeiningar um vöktun á landlægum sjúkdómum í ís...

Bændahöll breytist og stækkar
Fræðsluhornið 6. apríl 2021

Bændahöll breytist og stækkar

Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda eru eigendur Bændahallarinnar. Báði...

Eggið og upprisan
Fræðsluhornið 25. mars 2021

Eggið og upprisan

Egg hafa lengi verið tákn vorsins og saga páskaeggja mun lengri en þeirra súkkul...

Álalogia III
Fræðsluhornið 17. mars 2021

Álalogia III

Állinn er næturdýr og hels­ta fæða hans alls konar ormar, skeljar, krabbaflær, s...

70 ára albatrosi
Fræðsluhornið 16. mars 2021

70 ára albatrosi

Elsti villti fugl sem vitað er um er 70 ára gamall albatrosi og það sem meira er...

Ylræktun grænmetis – takmarkað vaxtarrými í brennidepli
Fræðsluhornið 16. mars 2021

Ylræktun grænmetis – takmarkað vaxtarrými í brennidepli

Mjög mikil aukning hefur verið í framleiðslu lífrænt vottaðra garðyrkjuafurða í ...