Agave americana er algengasta tegund þyrnililja og finnst villt víða í Mexíkó og suðurríkjum Norður Ameríku.
Fræðsluhornið 13. desember 2019

Agave er drottning eyðimerkurinnar

Vilmundur Hansen

Agave, eða þyrnililja eins og plantan kallast á íslensku, á sér aldalanga nytjasögu í Mexíkó, suðurríkjum Norður-Ameríku og norðurríkjum Suður-Ameríku. Úr plöntum ættkvíslarinnar eru unnar trefjar til vefnaðar en hér á landi er hún líklega þekktust fyrir að vera plantan sem tekíla er unnið úr.

Þrátt fyrir að ekki hafi fundist marktækar tölur um heimsframleiðslu eða ræktun á Agave er ljóst að ræktunin er mest í Mexíkó og í ríkjum Mið-Ameríku. Auk þess sem talsvert er ræktað af plöntunni á þurrum svæðum í Afríku og Ástralíu.

Agave americana í blóma.

Ættkvíslin Agave

Ekki eru allir á sama máli um fjölda tegunda innan ættkvíslarinnar Agave og hleypur fjöldinn frá 160 í 300. Allar tegundirnar eru sígrænir ein­kím­blöðungar og eru upprunaleg heimkynni þeirra á heitum og þurrum svæðum í suðurríkjum Norður-Ameríku, Mið-Ameríku og norðurhluta Suður-Ameríku. Einstaka tegundir finnast á hitabeltissvæðum í Suður-Ameríku. Agave-tegundir flokkast sem þykkblöðungar þar sem plönturnar safna í sig vatni til að nota á þurrkatímum.

Blöðin eru yfirleitt stór og gróftennt og eru tennur þeirra beittar, þau eru sterk, safarík og trefjarík. Blöðin eru með stuttan og nánast ósýnilega stilk og mynda saman rósettu. Plönturnar eru með grunnt liggjandi rótarhnýði sem fremur gegna því hlutverki að safna sem mestu af vatni úr dögg og regni þegar rignir en að leita að vatni neðanjarðar.

Langflestar plöntur innan ættkvíslarinnar eru einblómstrandi eða monocarpic sem þýðir að þær blómstra einu sinni og síðan drepst sú rósetta sem blómstraði. Rósettur sumra tegunda geta þrátt fyrir það lifað lengi þar sem það tekur þær mörg ár og jafnvel marga áratugi að blómstra og mynda fræ.

Agave tequilana eða blátt Agave.

Sumar tegundir mynda margar rósettur og getur plantan lifað áfram þrátt fyrir að ein eða fleiri rósettur blómstri og drepist. Einnig eru til tegundir sem mynda rósettur á blómstönglinum sem festa rætur eftir að hann fellur. Fáeinar undantekningar eru frá þessu og því til agave-tegundir sem blómstra og mynda fræ oftar en einu sinni.

Við blómgun vex langur blómstöngull, eða quiote, sem þýðir mastur í Mexíkó, upp úr miðri rósettunni. Stöngullinn sem getur orðið rúmlega níu metra hár ber mörg stutt rörlaga blóm á löngum blómstilk sem geta verið blá, rauð, gul og hvít.

Tegundirnar eiga flestar það sameiginlegt að vaxa hægt og algengustu tegundir í ræktun eru A. americana, A. tequilana og A. attenuata.

Helstu tegundir í ræktun

A. attenuata er upprunnin í Mexíkó en fremur sjaldgæf í náttúrunni. Blöðin hálfur til einn og hálfur metri að lengd og ólík flestum agave-tegundum þyrnalaus. Ljósgræn og stundum gulleit. Blómstilkurinn 2,5 til 3 metra að hæð og sveigður og plantan stundum kölluð svanaháls-, ljóns- eða refahala-agave. Blómin gulgræn.

Agave attenuata er upprunnin í Mexíkó en fremur sjaldgæf í náttúrunni.

A. tequilana eða blátt Agave er aðallega notað til að framleiða tekíla. Plantan er upprunnin í Mexíkó og dafnar best í sendinni jörð í yfir fimmtán hundruð metra hæð. Blöðin gráblá og um tveir metrar að lengd. Blómin gul á allt að fimm metra háu mastri. Leðurblökur sjá um frjóvgun þeirra.

A. americana er algengasta tegundin innan ættkvíslarinnar og finnst hún villt víða í Mexíkó og suðurríkjum Norður-Ameríku. Kjörlendi hennar er sandlendi í 500 til 1300 metra hæð og í fullri sól og vaxa plönturnar iðulega margar saman á litlu svæði sem þær taka yfir.

Blöðin blá- eða grágræn og stundum fölgul á jöðrunum, einn til einn og hálfur metri að lengd og með hvössum þyrnum. Ummál rósettunnar 1,5 til 3 metrar og er algengt að blómstöngullinn sé átta til níu metrar á hæð. Blómin mörg saman í hnapp á blómstilknum, einn til átta millimetrar að lengd, gulgræn að lit. Aldinið oddmjór belgur sem inniheldur hátt í tuttugu svört og D-laga fræ sem eru sex til átta millimetrar á lengd. Frjóvgun A. americana fer fram með skordýrum, fuglum og leðurblökum en fræin dreifast að mestu með vindi.

Plantan skorin fyrir vinnslu.

Plantan gengur undir ýmsum nöfnum eins og til dæmis aldarjurt og amerískt aloa. Aldarjurtarheiti er dregið af þeirri trú að plantan lifi í að minnsta kosti eina öld en trúin er tilkomin að því hversu langan tíma tekur plöntuna að blómstra. Almennt lifa einstaka plöntur í 10 til 40 ár. Amerískt aloa er seinni tíma heiti og vísar til útlitslegra líkinda Ageve tegunda við Aloa tegundir sem finnast í Afríku. Útlitsleg líkindi þeirra stafa af aðlögun að svipuðum umhverfisaðstæðum í tveimur heimsálfum fremur en líffræðilegum skyldleika.

A. americana var flutt til Suður-Evrópu um miðja sextándu öld og hefur aðlagast vel. Auk þess sem hún hefur gert sig heimakomna í náttúrunni víða við Miðjarðarhafið, í Afríku, á Indlandi, Kína, Taílandi og í Ástralíu þar sem hún hefur slæðst út frá ræktun.

Stofninn er hægsoðinn í ofni til að mýkja hann áður en safinn er pressaður úr honum.

Undur náttúrunnar

Árið 1843 segir bandaríski sagnfræðingurinn William H. Prescott í bók sinn The History of the Conquest of Mexico að agave-plantan sé eitt af kraftaverkum náttúrunnar.

Hann segir meðal annars í laus­legri þýðingu að pýramídalaga blómin teygja sig hátt upp úr kórónulaga laufkransinum sem þekja margar ekrur af flatlendi. Úr brotnum eða sárum á blöðunum vætlar þykkur vökvi sem vinna má úr pappír. Safi blaðanna er gerjaður og úr honum búinn til áfengur drykkur sem innfæddir eru mjög hrifnir af.

Laufið er auk þess notað sem efniviður í ódýrt húsaskjól og úr þeim eru unnar trefjar í sterka kaðla og klæði. Nálar og títuprjónar eru búnir til úr þyrnum blaðanna. Úr rótunum, séu þær rétt eldaðar, má búa til hollan og góðan mat. Agave er sem sagt allt í senn fæða, drykkur, klæðnaður og efniviður til að skrifa á. Með sanni má segja að náttúran hafi aldrei áður sett saman á einum stað eins mikið af þægindum og menningu manninum til gagns. 

Agave-uppskera.

Saga og goðsagnir

Talið er að fyrstu agave-plönturnar eða forverar þeirra hafi komið fram á sjónarsviðið fyrir um 60 milljónum ára. Agave-plöntu var þó ekki lýst á prenti fyrr en árið 1577 af landvinningamanninum Francisco Hernándes og minnist hann í skrifum sínum einnig á áfengan drykk sem unninn er úr plöntunni.

Sagan segir að Astekar hafi fyrst bruggað vægt áfengi úr safa plöntunnar á árunum milli 1172 og 1291 eftir að þeir settust að í Mið-Ameríku. Astekar notuðu mjöðinn við trúarathafnir og áttu sína eigin drykkjugyðju sem hét Mayahuel og þótti henni sopinn góður eins og getið er í söngvum og ljóðum. Til er veggmynd sem sýnir Mayahuel gefa sauðdrukknum kanínubörnum sínum brjóst. Samkvæmt goðafræði Asteka átti gyðjan 400 kanínubörn og rann mjöðurinn Metl í æðum hennar og voru sífullu kanínubörnin sögð vera guðir vímunnar.

Í einni goðsögn um Mayahuel segir að gyðjan hafi verið gift guðinum Petácatl sem var skapari og verndari alls plöntulífs á jörðinni. Þar segir að gyðjan hafi 400 brjóst, eitt fyrir hvert af kanínubörnum hennar. Mayahuel er sögð einstaklega lokkandi og að guðinn Quetzalcoatl, skapari mannsins, hafi náð að heilla hug hennar til framhjáhalds. Þegar Petácatl kemst að framhjáhaldinu verður hann svo æfur af reiði að Mayahuel og Quetzalcoatl flúðu frá guðaheimum til jarðarinnar og földu þau sig í plöntumynd. Þegar Tzinzinmilt langamma Mayahuel kemst að framhjáhaldinu og flóttanum eyðir hún barnabarninu með eldingu og Quetzalcoatl grefur öskuna og upp af henni vex agave-plantan.

Í nærmynd sjást trefjar plöntunnar vel.

Flest bendir til að áfengi hafi verið bruggað úr plöntunni löngu fyrir komu Asteka til Mið-Ameríku. Apache og fleiri ættflokkar indíána á suðvestursvæðum Bandaríkjanna brugguðu einnig áfengi úr agave og neyttu þess við hátíðleg tækifæri og við trúarathafnir.

Í Mexíkó hefur lengi loðað við áfengi sem unnið er úr agave að það sé lostaörvandi.

Sænski grasafræðingurinn Carl Linnaeus gaf ættkvíslinni heiti sitt Agave eftir eintaki af A. americana árið 1753. Heitið kemur úr grísku agauos sem þýðir aðdáunarverður og vísar til blómstilksins. Tegundarheitið americana vísar til uppruna plöntunnar.

Í dag er tegundinni skipt í tvær undirtegundir og þrjá varianta A. americana subsp. americana var. americana, A. americana subsp. americana var. expansa, A. americana subsp. americana var. oaxacensis og  A. americana subsp. protamericana.

Sandalar sem ofnir eru úr agaveþráðum þykja einstaklega hljóðlátir.

Nytjar

Nytjar á agave eru margs konar og plantan meðal annars notuð til skrauts, sem fóðurjurt, til lækninga og til að hefta uppblástur. Auk þess að henni er plantað sem lifandi girðingu til að halda villtum dýrum frá nytjaplöntum og búsmala.

Elstu heimildir um nytjar agave til matar eru átta þúsund ára gamlar minjar um ristuð blöð plöntunnar sem fundust í hellum í Tehucán í Mexíkó. Minjar benda einnig til að plantan hafi lengi einnig verið notuð til vefnaðar og til að framkalla vímu. Efni sem unnið var úr plöntunni var einnig notað til að lama fiska á afmörkuðum svæðum í tjörnum og vötnum til að auðvelda veiðar á þeim.

Allir hlutar plöntunnar eru nýttir. Langir og trénaðir blómstönglar eru hafðir sem þakuppistöður, sperrur og sem girðingastaurar og í Ástralíu er búið til úr þeim hljóðfærið digerlídú eða drunupípa. Ungir og ferskir stilkar sem eru steiktir á pönnu eru sagðir sætir og bragðgóðir. Fersk og ný útsprungin blómin þykja bragðgóð.

Safi laufanna er sagður bakteríudrepandi og draga úr bólgum en hann er einnig sagður geta valdið sárum sviða í húð. Úr laufi og rótum eru unnar ýmiss konar tiktúrur sem notaðar eru við margs konar mannameinum, eins og snákabiti, fótsveppum, kynsjúkdómum, liðagigt og niðurgangi svo dæmi séu tekin.

Úr blöðum nánast allra agave-tegunda eru unnar trefjar í klæði, teppi, körfur, kaðlar, reipi og þráður til sauma. Úr blöðum og rótum er einnig unnin sápa. Tegundin A. sisalana er stundum kölluð sisalhampur.

Innfæddir á svæðum þar sem agave-tegundir vaxa villtar hafa lengi nýtt plönturnar til matar. Úr blöðunum var meðal annars unnið eins konar blaðkjöt sem aðgreint var frá trefjunum. Blaðkjötið var síðan annaðhvort bakað í brauð sem mátti þurrka til geymslu eða soðið í súpu og borðað ferskt.

Blátt Agave tequilana á akri í Mexíkó.

Úr blómunum er unnið agave-sýróp, auk þess sem úr blómunum er unnið svokallað hunangsvatn.

Áfengir drykkir eins og tekíla, meskal og pulque eru unnir úr safa agave-plantna. Upphaflega var safa til framleiðslunnar safnað með því að skera burt blómstöngulinn gerja safann sem úr sárinu rann. Í dag er tekíla unnið úr stofni plöntunnar. Eftir að blöðin hafa verið skorin burt er stofninn hæghitaður í ofni og safinn úr honum pressaður burt og látinn gerjast í tré- eða stáltunnu. Því næst er safinn eimaður einu sinni eða oftar til að auka hreinleika framleiðslunnar þrátt fyrir að sumir segi að endurtekin eimun dragi úr bragðgæðum tekílasins.

Samkvæmt samningi sem stjórnvöld í Mexíkó og Evrópusambandið gerðu með sér árið 2001 er 100% hreint tekíla einungis framleitt úr yrki A. tequilana sem kallast 'Weber's Blue'.

Margaríta með saltrönd

Þjóðardrykkur Mexíkó er 40% tekíla og sagt er að hanastélsdrykkurinn margaríta hafi orðið til á bar í bænum Tijunna í þeim tilgangi að fá kvenkyns Ameríkana til að drekka tekíla. Margarítakokteill samanstendur af 60 millilítrum af tekíla og 30 millilítrum af appelsínu- eða limesafa og klaka og að sjálfsögðu saltrönd á þar til gerðu margarítaglasi.

Fullkomin margaríta.

Ræktun

Auðvelt er að rækta A. americana af fræi en yfirleitt er plöntunni fjölgað af ungplöntum sem vaxa af stofni móðurplöntunnar. Sé plantan ræktuð af fræi getur það tekið fræin um þrjá mánuði að spíra.
Í potti þrífst plantan best í sendnum og vel framræstum jarðvegi og beinni sól.

Talsverðar vonir eru bundnar við ræktun á agave í framtíðinni þar sem plantan er einstaklega þurrkþolin og nægjusöm og gæti því reynst góð nytjaplanta, fæða, klæðnaður og lyf, á svæðum sem talið er að munu líða vatnsskort vegna hlýnunar andrúmsloftsins.

Agave í Íslandi

Fremur litlum sögum fer af agave eða þyrnililju sem pottaplöntu hér á landi þótt þær leynist án efa einhvers staðar. Vinsældir agave-síróps hafa verið að aukast og nota margir það í staðinn fyrir sykur til baksturs og út í te.

Af eigin reynslu er drykkja á tekíla ekki almenn á Íslandi nema þá helst sem hluti af hanastéli. Mörgum og reyndar mér sjálfum þykir þó gott að slamma eitt og eitt tekílaskot annað slagið með salti og sítrónu.

Gyðjan Mayahuel er verndari Agave plantna.