Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Afkvæmarannsóknir bænda 2021
Mynd / Bbl
Fræðsluhornið 19. apríl 2022

Afkvæmarannsóknir bænda 2021

Höfundur: Árni Brynjar Bragason ráðunautur búfjárræktar- og þjónustusviðs RML og Eyþór Einarsson ráðunautur búfjárræktar- og þjónustusviðs RML

Haustið 2021 voru gerðar upp 70 afkvæmarannsóknir sem töldust styrkhæfar og í þeim voru 713 hrútar, þar af 432 veturgamlir. Umfangið er örlítið minna en haustið 2020 en þá voru búin 77. Hins vegar er þetta mjög svipað umfang og haustið 2019.

Í þessum greinarstúf verður gerð nokkur grein fyrir fáeinum hrútum sem skiluðu framúrskarandi niðurstöðum á sínu heimabúi. Niðurstöður frá hverju búi er hægt að nálgast á heimasíðu RML undir skýrsluhald – niðurstöður 2021. Þar má einnig kynna sér reglur um styrkhæfar afkvæmarannsóknir árið 2021. Hafa ber í huga að erfitt er að bera hrútana saman á milli afkvæmarannsókna. Hins vegar er líklegt að hrútur sem sker sig mikið úr í samanburði innan bús muni sýna yfirburði sína í öðrum hjörðum. Í afkvæmarannsóknum fyrir sæðingastöðvarnar er einmitt reynt að etja saman yfirburðarhrútum frá fleiri en einu búi til að styrkja samanburðinn og auka öryggi á niðurstöðunum.Niðurstöður afkvæmarannsókna sæðingastöðvanna 2021 má einnig nálgast á sama stað og fyrr er
vísað til.

Synir stöðvahrútanna

Eins og vænta má eru margir hrútanna sem taka þátt í afkvæma­rannsóknum hjá bændum synir stöðvahrúta. Niðurstöður þessara rannsókna eru einn þeirra þátta sem gefa mynd af því hvernig stöðvahrútar reynast til framræktunar vítt og breitt um landið. Flesta syni hyrndu stöðvahrútanna þetta árið átti Mjölnir 16-828 frá Efri-Fitjum og voru þeir 21 talsins. Durtur 16-994 frá Hesti átti 17 syni og Stapi 16-829 frá Kirkjubæjarklaustri 2 átti 16 syni. Þessir þrír hrútar áttu allir þrjá syni sem stóðu efstir í heildareinkunn á sínum heimabúum. Amor 17-831 frá Snartarstöðum 2 átti síðan 15 syni, Rammi 18-834 14 syni, Glæpon 17-809 13 syni og Drjúgur 17-808 12 syni en þessir þrír síðasttöldu komu allir frá Hesti inn á stöðvarnar.

Af kollóttum hrútum átti Móri 13-982 frá Bæ í Árneshreppi flesta syni eða 10 talsins og tveir þeirra stóðu efstir í heildina á sínum heimabúum. Næstur kom Fálki 17-821 frá Bassastöðum með 8 syni, Ebiti 13-971 frá Melum 1 og Viddi 16-820 frá Fremri-Gufudal með 5 syni og Dúlli 17-813 frá Miðdalsgröf og Bliki 16-819 frá Árbæ með 4 syni.

Efstu hrútar í heildareinkunn

Þór 19-307 í Innri-Múla á Barða­strönd sýnir fáheyrða yfirburði í mati á lifandi lömbum en hópurinn er þó ekki stór. Þór sýnir einnig glæsilegar niðurstöður bæði í kjötmatshlutanum og í fallþunga. Þór var í öðru sæti í afkvæmarannsókn í Innri-Múla 2020 á eftir Dabba 18-326 sem nú hefur sætaskipti við hann. Þór er sonur Spaks 16-302 sem stóð á toppnum í afkvæmarannsóknum í Innri-Múla árin 2017-2019 og sýndi jafnan fáheyrða yfirburði. Spakur 16-302 var aðkeyptur frá Broddanesi 1 en móðir Þórs er sonardóttir Sigurfara 09-860 frá Smáhömrum og dótturdóttir Gullmola 08-314 í Innri-Múla sem var sonur Gullmola 05-552 í Broddanesi 1. Þór 19-307 er greinilega frábær lambafaðir eins og hann á kyn til. Þess má geta í framhjáhlaupi að Dabbi 18-326 sem er nefndur hér að ofan var sá hrútur sem átti best gerða sláturlambahópinn í afkvæmarannsóknunum öllum þetta árið. Þetta voru 35 sláturlömb, fallþungi þeirra var 21,4 kg, gerðin 13,0 og fita 7,9. Lömbin voru að meðaltali 144 daga gömul. Dabbi er aðkeyptur að Innri-Múla frá Broddanesi 1.

Hrammur 20-125 í Arnþórsholti í Lundarreykjadal sonur Ramma 18-834 frá Hesti sýnir gríðarlega yfirburði í mati á lifandi lömbum. Bakvöðvaþykkt hjá dætrum hans er 34,8 mm, um 2 mm þykkra en hjá næsta afkvæmahóp í rannsókninni og þessar gimbrar stigast jafnframt best fyrir læri. Gerð sláturlamba liggur nærri meðaltali rannsóknarinnar en minni fita er á þessum lömbum en öðrum hópum. Hrammur er aðkeyptur frá Oddstöðum í sömu sveit og móðir hans dóttir Spaks 14-801 sem þaðan var fenginn í þjónustu stöðvanna.

Þriðji í röðinni er Surtur 19-468 og stendur hann efstur á heimabúi sína að Bárðartjörn í Grýtubakkahreppi, annað árið í röð. Surtur er aðkeyptur frá Fornhólum í Ljósavatnsskarði og er svartur að lit líkt og nafnið gefur til kynna. Hann kemur vel út úr öllum þáttum og virðist vera úrvals lambafaðir. Hann er sonur Durts 16-994 frá Hesti. Í móðurætt koma fyrir hrútar frá nokkrum stöðum og má þar nefna Seðil 14-252 frá Stóru-Tjörnum og sæðingastöðvahrútana Prjón 07- 812 frá Hesti og Gand 07-845 frá Garðsá. Þess má geta að Surtur er arfblendinn fyrir lítið næmu arfgerðinni.


Sá fjórði er Hlynur 17-598 í Hólabæ í Langadal sem er sonur Barkar 13-952 frá Efri-Fitjum. Hlynur sýnir umtalsverða yfirburði í öllum þáttum rannsóknarinnar og alls staðar með hæstu einkunnirnar í samanburðinum. Miklir yfirburðir hans í gerð sláturlamba vekja ekki síst athygli. Móðir Hlyns er sonardóttir Prófastar 06-864 frá Dýrastöðum. Hlynur stóð efstur í afkvæmarannsóknum í Hólabæ bæði árin 2018 og 2019 þannig að hann hefur alveg komið því til skila að hann er úrvals lambafaðir.
Fimmti hrúturinn er Áfangi 20-095 til heimilis að Hofi í Vatnsdal. Hann stendur langefstur í afkvæmarannsókninni þar og sýnir verulega yfirburði bæði í mati á lifandi lömbum og í kjötmatshlutanum. Þar er ekki síst athyglivert hvað sláturlömb undan honum eru umtalsvert betur gerð en aðrir hópar í rannsókninni. Faðir Áfanga er aðkeyptur frá Árbæ í Reykhólasveit, sonur Hnokka 12-047. Móðir Áfanga er sonardóttir Spotta 13-942frá Árbæ.

Efstu hrútar í kjötmatseinkunn

Snöggur 20-487 frá Rauðholti í Hjaltastaðaþinghá nær hæsta skorinu i kjötmatseinkunn. Snögg­ur sækir yfirburði sína í afkvæma­rannsókninni nær eingöngu í kjötmatshlutann en afkvæmi hans erum einum heilum yfir meðaltali í gerð. Faðir hans Haukur 18-449 stóð efstur í afkvæmarannsóknum í Rauðholti bæði árin 2019 og 2020. Foreldrar Snöggs rekja bæði báðar ættir sínar til Grábotna 06-833 frá Vogum þannig að Grábotni á talsvert í þessum efnilega grip.

Valur 19-255 frá Garði í Þistilfirði kemur næstur og sækir mikið af yfirburðum sínum í rannsókninni í kjötmatshlutann. Gerð sláturlamba undan honum er sú langbesta í rannsókninni um leið og fita á þeim er sú minnsta. Faðir Vals er aðkeyptur frá Hagalandi en hann rekur einnig ættir sínar að Gunnarsstöðum og Flögu í sömu sveit. Móðir Vals er dótturdóttir Saums 12-915 frá Ytri-Skógum.

Postuli 17-668 í Grænuhlíð í Ketildölum kemur næstur. Hann stóð efstur á sínu heimabúi í heildareinkunn í ár og árið 2020 og stóð ofarlega í rannsóknum þar árin 2018 og 2019. Það er því löngu ljóst að hér fer prýðilegur lambafaðir og í ár á hann best gerða lambahópinn á bænum, fita aðeins undir meðaltalinu en fallþungi á meðaltali. Postuli á ættir að rekja að stórum hluta að Minni-Hlíð í Bolungavík og í Mjólkárvirkjun.

Sá fjórði í þessari uppröðun er Eldar 19-003 á Eiríksstöðum við Berufjörð sonur Dúlla 17-813 frá Miðdalsgröf. Eldar sýnir mikla yfirburði í gerð sláturlamba en þetta er feitasti sláturlambahópurinn í rannsókninni þarna en vænleiki þeirra er á meðaltali. Í mati á lifandi lömbum mælast dætur Eldars með þykkastan bakvöðva en fita á baki einnig sú mesta þó hún sé langt frá því að vera mikil. Móðir Eldars er dóttir Radix 10-931 frá Hjarðarfelli en móðurmóðir er hyrnd ær og rekur hún sig í þá Grábotna 06-833 frá Vogum og Þráð 06-996 frá Hesti

Skipulegar afkvæmarannsóknir bænda hafa löngu sannað gildi sitt í ræktunarstarfinu hér á landi. Í fyrsta lagi fyrir hvern ræktanda en ekki síður draga þær iðulega fram kostagripi fyrir ræktunarstarfið í heild sinni. Góð þátttaka bænda er því mjög mikilvæg fyrir íslenska sauðfjárrækt, ekki síður en að vera mikilvægt stjórntæki í ræktunarstarfinu á við-
komandi búum.

Árni Brynjar Bragason
ráðunautur búfjárræktar-
og þjónustusviðs
ab@rml.is

Eyþór Einarsson
ráðunautur búfjárræktar-
og þjónustusviðs
ee@rml.is

Náttúruauðlindir við Íslandsstrendur
Fræðsluhornið 6. júlí 2022

Náttúruauðlindir við Íslandsstrendur

Heilnæm nýting náttúruafurða landsins okkar hefur gjarnan verið í umræðunni,...

Hækkun sýrustigs ræktunarjarðvegs
Fræðsluhornið 4. júlí 2022

Hækkun sýrustigs ræktunarjarðvegs

Lögð hefur verið út tilraun á Hvanneyri með það að markmiði að hækka sýrusti...

Stíllhreinn og sterklegur pallbíll
Fræðsluhornið 30. júní 2022

Stíllhreinn og sterklegur pallbíll

Að þessu sinni var pallbíllinn Isuzu D-Max Lux, sem BL selur, tekinn í reynslu...

Kvígur frá NautÍs
Fræðsluhornið 30. júní 2022

Kvígur frá NautÍs

Uppbygging hreinræktaðrar Angushjarðar hjá Nautgriparæktarmiðstöð Íslands á ...

Angus-holdanaut frá NautÍs fædd 2021
Fræðsluhornið 29. júní 2022

Angus-holdanaut frá NautÍs fædd 2021

Hér er nú kynntur fjórði árgangur Angus-holdanauta frá Nautgriparæktarmiðst...

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku – Fyrsti hluti
Fræðsluhornið 29. júní 2022

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku – Fyrsti hluti

Nýverið var haldið hið árlega Fagþing Nautgriparæktarinnar í Danmörku, eða „...

Reyniviður
Fræðsluhornið 28. júní 2022

Reyniviður

Reyniviður, Sorbus aucuparia, er um margt sérstætt tré. Til dæmis myndar reyni...

Svartþröstur
Fræðsluhornið 28. júní 2022

Svartþröstur

Svartþröstur er orðinn algengur varpfugl á Suðvesturlandi, einna helst í þét...