Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Eplarækt eykur lífsgæði
Mynd / Óskar Andri Víðisson
Líf og starf 14. september 2022

Eplarækt eykur lífsgæði

Höfundur: Vilmundur Hansen

Jörðin Elliðahvammur er smábýli Kópavogsmegin við Elliðavatn. Landið er þéttvaxið sitkagreni og ösp inni á milli grenitrjánna. Þar er einnig að finna hátt í fimmtíu mismunandi yrki af eplum.

Þorsteinn Sigmundsson, eggjabóndi að Elliðahvammi, er eldhugi í ræktun eplatrjáa auk þess sem hann elur býflugur sem sjá um að frjóvga trén. Hann ræktar epli utandyra, í köldu gróðurhúsi og í gróðurskála. Þorsteinn segir að eplaræktin veiti honum mikla hamingju, auki lífsánægju hans og lífsgæði og vitnar í Martein Lúter þegar hann segir að þótt hann vissi að það yrði heimsendir á morgun mundi hann samt planta eplatré.

Glæsileg uppskera af bragðgóðum matareplum.

Árviss uppskera í gróðurskálanum

„Ég gæti trúað að þegar allt er talið þá sé ég með 50 yrki úti og inni og allt um kring. Þar af eru um 20 í gróðurskálanum sem gefa árvissa og góða uppskeru. Eplin af öllum trjánum í skálanum eru mjög góð á bragðið en með ólíku bragði eftir því um hvaða yrki er að ræða.

Satt best að segja hef ég ekki á hraðbergi hvað þau heita en allt eru þetta yrki sem ég hef verið að safna í mörg ár og hafa reynst vel. Flest
og líklega öll koma frá norðlægum og köldum svæðum og eitt þeirra sennilega frá mjög köldu svæði í Alaska og gefur af sér vetrarepli sem eru svolítið sérstök. Eplin á því tré geta hangið á trénu allan veturinn og það er borðað á vorin. Ávöxturinn er nánast óætur á haustin, harður og bragðvondur, en bragðgóður og safaríkur á vorin.“

Þorsteinn Sigmundsson ásamt barnabarnabörnunum sínum, Þráni Frey, Styrmi Snæ og Heiðdísi Örnu Óskarsbörnum.

Uppskeran úti er ekki eins örugg og í skálanum en Þorsteinn segir að eftir gott sumar gefi eplatré utandyra af sér góð epli. „Sumarið sem nú fer að kveðja var sólarlítið og ekki gott ár fyrir útistandandi eplatré. Þau blómguðust en ég hef ekki fundið nein epli á þeim enn þá.“

Yrki sem aldrei klikkar

Þorsteinn segir að í gróðurskálanum sé tré sem skeri sig úr að því leyti hvað það gefur góða uppskeru. „Ég keypti tréð í Blómavali fyrir nokkrum árum en því miður er ég búinn að tína merkinu með nafninu á yrkinu en það tré gefur af sér hátt í hundrað bragðgóð matarepli á hverju ári og klikkar aldrei.“

Þráinn Freyr skoðar epli.

Milli eitt og tvö þúsund epli

„Ég kaupi á vorin kassa af humlum og set í skálann og flugurnar sjá um að frjóvga blómin þannig að það eina sem ég þarf að gera er að vökva, sem er bara gaman og róandi, og tína eplin af. Uppskeran undanfarin ár og núna í sumar er milli eitt og tvö þúsund epli og satt best að segja og þrátt fyrir góðan vilja næ ég aldrei að borða öll eplin sjálfur.

Ég reyni að tína eplin rétt áður en þau detta sjálf af greinunum því eftir það minnkar geymsluþol þeirra. Svo gef ég fjölskyldunni, vinum og gestum og gangandi það sem ég get ekki borðað sjálfur,“ segir Þorsteinn.

Skylt efni: epli | eplarækt

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum
Fréttir 10. júlí 2025

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum

Róttækar breytingar eru að verða á regluverki varna gegn dýrasjúkdómum.

Salmonella á Kvíabóli
Fréttir 10. júlí 2025

Salmonella á Kvíabóli

Matvælastofnun (MAST) hefur sent út tilkynningu um að salmonella hafi greinst á ...

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi
Fréttir 10. júlí 2025

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi

Eftir þungan rekstur síðasta vetur glímir ullarvinnslufyrirtækið Ístex við fjárh...

Tíunda íslenska kýrin til að ná 100 þús. kg æviafurðum
Fréttir 8. júlí 2025

Tíunda íslenska kýrin til að ná 100 þús. kg æviafurðum

Þann 18. júní sl. rauf afrekskýrin Snotra 273 í Villingadal í Eyjafirði 100 þús....

Tíu birkiskógar skuli njóta verndar
Fréttir 4. júlí 2025

Tíu birkiskógar skuli njóta verndar

Land og skógur hefur gefið út fyrstu skrána um sérstæða eða vistfræðilega mikilv...

Súlur 2025 komnar út
Fréttir 4. júlí 2025

Súlur 2025 komnar út

Tímaritið Súlur kom út á dögunum. Súlur er ársrit Sögufélags Eyfirðinga og hefur...

Metfjöldi gesta á Skógardeginum mikla
Fréttir 4. júlí 2025

Metfjöldi gesta á Skógardeginum mikla

Nýr Íslandsmeistari í skógarhöggi og fleiri keppnisgreinum var krýndur í Hallorm...

Útvarp Bændablaðið: Samruni Arla og DMK gefur möguleika á gríðarlegri hagræðingu
Fréttir 4. júlí 2025

Útvarp Bændablaðið: Samruni Arla og DMK gefur möguleika á gríðarlegri hagræðingu

„Kannski sýnir þessi samruni hversu gríðarlega stærðarhagkvæmni er í söfnun og v...