Einstakt nám í Hallormsstaðaskóla
Í Hallormsstaðaskóla er nú verið að kenna nýtt nám í Sjálfbærni og sköpun. Námið algjörlega einstakt hér á landi – og líklega þó víðar væri leitað – og blandar saman fræðilegri- og verklegri nálgun á sjálfbærni með áherslu á sköpunargleði og nýsköpun.
Helmingur námsins er verklegur á móti helmingi fræðilegrar nálgunar. Í verklega hlutanum læra nemendur ýmiskonar handverk og tækni til að nýta auðlindir náttúrunnar. Að sjálfsögðu er sjálfbærni leiðarljósið og því áherslan á að nýta náttúruna með sjálfbærum hætti. Námið er lotuskipt og hefur hver lota sitt þema þar sem kafað er ofan í ákveðna þætti mannlegs lífs – þá þætti sem mestu máli skipta fyrir sjálfbærni.
Veturinn hefst þannig á lotu sem kallast Uppskera og náttúrulegt heilbrigði. Það er ekki úr vegi að hefja leikinn hér enda heilbrigði undirstaða alls annars sem við gerum í lífinu. Heilsufræðin eru skoðuð frá ýmsum sjónarhornum og gerðar tilraunir með náttúrulegar og sjálfbærar leiðir til að bæta heilsu. Á meðan þessu stendur í verklega hlutanum rannsakar fræðilegi hlutinn sögu og umhverfisáhrif mismunandi lækningaaðferða. Að auki tekur lotan mið af árstíma enda um hefðbundin uppskerutíma að ræða. Fyrstu vikurnar eru þannig nýttar í að tína og safna ýmsum auðlindum náttúrunnar og veiða fisk. Þessi hráefni eru svo nýtt áfram í komandi lotum.
Næsta lota er um mat. Í verklega hlutanum læra nemendur ýmsar aðferðir til að verka og varðveita matvæli svo sem kjöt, mjólk, korn, grænmeti og ávexti. Fræðilega er ýmsum spurningum velt upp í tengslum við mat bæði hvað varðar umhverfisáhrif matvælaframleiðslu auk heilsufarslegra áhrifa mismunandi fæðutegunda. Leitað er svara við þessum erfiðu spurningum í fræðunum og hjá einstaka sérfræðingum.
Síðan eru nytjahluti teknir fyrir. Hér er um að ræða alls kyns hluti sem gagnast okkur í daglegu lífi. Nemendur læra að búa til ýmsa gagnlega hluti úr afurðum náttúrunnar auk þess að rannsaka umhverfisáhrif þeirra hluta sem við notum hvað mest og teljum okkur þurfa. Þá verður sérstakur gaumur gefin áhrifum framleiðslu á heilsu fólks og vistkerfa ekki síst með tilliti til ýmissa efna geta safnast upp vegna framleiðslunnar. Textíliðnaður er skoðaður og nemendur læra að vefa, vinna leður og feld og gera við og bæta fatnað sem tekinn er að slitna. Í fræðunum rannsaka nemendur umhverfis- og samfélagsleg áhrif textíliðnaðarins og velta fyrir sér leiðum til bóta.
Fjármálalota tekur á peningum og rekstri. Reksturinn getur átt við rekstur heimilis, fyrirtækis eða stærri samfélagslegra heilda svo sem sveitarfélaga – eða jarðarinnar allrar. Hvernig er skipan mála og hvernig gæti hún verið betri? Nemendur gera viðskiptaáætlun fyrir lokaverkefni sín ef við á.
Listsköpun er mikilvægur þáttur mannlífsins og er næsta lota tileinkuð listum. Lögð er áhersla á sköpunina sjálfa og ekki síst sköpunargleðina. Gamla pönk mottóið um að það skipti ekki máli hvað þú getur heldur eingöngu hvað þú gerir er lagt til grundvallar og nemendur hvattir til að finna sköpunargleði sinni farveg með einum eða öðrum hætti. Þá verður einnig farið í skipulagðari og fræðilegri nálgun á sköpunarferlinu. Lotunni lýkur með baðstofukvöldi þar sem nemendur skemmta hver öðrum.
Orka er eitt mikilvægasta atriðið í allri sjálfbærniumræðu og í orkulotunni verður sérstaklega horft til sjálfbærra leiða til virkjunar. Áhersla er lögð á smærri einingar – einingar sem nemendur gætu átt eftir að velja sér sjálfir til heimilisrekstrar eða álíka. Nemendur læra hvernig menn bera sig að til að virkja vind, vatn og jarðvarma. Skoðuð verða umhverfisáhrif þessara orkukosta sem og annarra svo sem olíu.
Húsnæði er einnig mikilvægur þáttur fyrir sjálfbærni. Umhverfisáhrif byggingariðnaðarins verða rannsökuð ásamt því sem gamlar aðferðir verða skoðaðar og handbragð kennt við torf- og grjóthleðslu.
Í gegnum allt námið vinna nemendur að lokaverkefnum sínum sem þeir velja sjálfir. Lokaverkefnum er ætlað að samþætta hina ólíku þræði námsins í eitt verkefni og leggja með því grunn að áframhaldandi starfi til framtíðar. Nemendur eru hvattir til að láta áhugasvið sín leiða sig áfram við val á lokaverkefni.
Rökræður skipa einnig stóran sess í náminu og ætlast til að nemendur nái tökum á rökræðum og virkri hlustun og geti lagt til hliðar tilfinningaviðbrögð og fyrirfram gefnar skoðanir í slíkum samskiptum. Þá er áhersla lögð á lestur vísindagreina og undirstöðuatriði í slíkum skrifum kennd.
Ýmsar heimsóknir og vettvangsferðir eru einnig liður í náminu enda æði margt fagurt og fróðlegt að finna um allt Austurland.
Námið hentar þeim sem hafa áhuga á skapandi sjálfbærni. Námið er á 4. hæfniþrepi, flokkast sem viðbótarnám við framhaldsskóla og er samsvarandi fyrsta hæfniþrepi við háskóla. Námið er lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna en einnig er námið hluti af úrræði stjórnvalda og Vinnumálastofnunar „Nám er tækifæri“ sem gefur atvinnuleitendum kost á að stunda nám á atvinnuleysisbótum. Námið er þverfaglegt og því góður grunnur fyrir margskonar framhaldsnám s.s. á sviði sjálfbærni og umhverfisfræða, hönnunar og lista, búfræði, lýðheilsu, matar- og næringarfræði, hagfræði, félagsfræði, menntunarfræði og margt fleira.
Allar upplýsingar um skólann, námið og umsóknir á heimsíðu skólans hskolinn.is
Bestu kveðjur úr skóginum.
Brot úr grein í BBL júlí 2021
Nám í Sjálfbærni og sköpun byggir á hugmyndafræði Hallormsstaðaskóla um sjálfbærni og heildrænni nálgun á umhverfismál. Í náminu er nemendur hvattir til að einbeita sér að lausnum frekar en vandamálum og nýta sér áhugasvið sín til að virkja sköpunarkrafta sína.
Segja má að námið gangi út frá því að hið samofna hagkerfi jarðar sé ósjálfbært og hverfist námið því um spurninguna: Hvernig er hægt að gera heiminn sjálfbæran – eða í það minnsta sjálfbærari? Þessari spurningu geta nemendur svo svarað fyrir sig – þ.e. valið sér þá nálgun sem þeim hentar. Nálgunin getur þannig verið persónuleg – nemendur eru þá fyrst og fremst að hugsa um að ná betri tökum á eigin sambandi við náttúruna og þeim neikvæðu umhverfisáhrifum sem fylgja gjarnan hinum vestræna nútímalífsstíl – samfélagsleg – nemendur stefna að því að hafa jákvæð áhrif á samfélagið, nær eða fjær eða – viðskiptaleg – nemendur leitast við að finna betri og sjálfbærari leiðir til að framleiða vörur eða þjónustu sem fara á markað. Allar leiðirnar kalla á skapandi og lausnamiðaða hugsun og aðgerðir.