Eigendur Íslands útmældir
Tuttugu og fjórir aðilar eiga eignarhluti í fimm eða fleiri jörðum á Íslandi. Félag auðkýfingsins James Ratcliffe á eignarhluti í 29 jörðum og er stærsti einstaki jarðaeigandi landsins á eftir hinu opinbera.
Afmörkun jarða á Íslandi er víðast hvar ókortlögð en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur áætlað út frá skráningu lóða og úrskurðum þjóðlendna að heildarflatarmál allra jarða á Íslandi sé í kringum 56 þúsund ferkílómetrar, eða um 55 prósent af heildarflatarmáli Íslands. Samkvæmt HMS eru jarðir landsins 7.828 talsins og í eigu 14.214 einstaklinga og fyrirtækja. Sveitarfélög eru stærstu eigendur jarða á Íslandi, en þau eiga tæpa 387 eignarhluti í 402 jörðum. Ríkissjóður á 385,5 hluti í 388 jörðum og þjóðkirkjan á 35 jarðir.
Fjórði stærsti landeigandi Íslands er fyrirtækið Sólarsalir ehf. en eignarhald þess má rekja til auðkýfingsins James Ratcliffe. Fyrirtækið á 26 eignarhluti í 29 jörðum. Þar á eftir kemur fyrirtækið Fljótabakki ehf. sem á tólf jarðir. Eignarhald þess má rekja til bandaríska bankamannsins Chad R. Pike. Sá er stofnandi ferðaþjónustufyrirtækisins Eleven Experience, sem á m.a. lúxushótelið Deplar Farm í Fljótum.
Árið 2020 var sett í jarðalög að samþykki ráðherra þurfi að liggja fyrir ráðstöfun eigna þar sem kaupandi á fyrir fasteignir sem eru samanlagt yfir 1.500 hektarar að stærð. Einnig var því bætt í jarðalög að ráðherra skuli almennt ekki veita samþykki fyrir ráðstöfun jarðar ef viðtakandi (kaupandi) á fyrir eignir sem eru samanlagt 10.000 hektarar eða meira að stærð. Tryggvi Már Ingvarsson, framkvæmdastjóri fasteignasviðs HMS, bendir á að stærð jarða þurfi að liggja fyrir svo hægt sé að beita þessum takmörkunum.
Þetta er ein af ástæðum þess að HMS hefur ráðist í átaksverkefni við að áætla eignamörk jarða, en tilgangur þess er að ná fram heildstæðri mynd af eignarhaldi fasteigna á Íslandi og gera afmarkanir aðgengilegar í kortaviðmóti landeignarskrár. „Fyrst og fremst erum við að reyna að svara þeirri spurningu hver eigi Ísland,“ segir Tryggvi Már.
– Sjá nánar á síðum 4 og 8. í nýju Bændablaði