Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Dýrbítar bíta skinnið og hreinsa það af snoppunni inn að beini og drekka blóðið og skilja lömbin eftir, oft lifandi, liggjandi í blóði sínu.
Dýrbítar bíta skinnið og hreinsa það af snoppunni inn að beini og drekka blóðið og skilja lömbin eftir, oft lifandi, liggjandi í blóði sínu.
Mynd / Ólafur Jónsson
Fréttir 26. ágúst 2022

Dýrbítur leggst á lömb

Höfundur: Vilmundur Hansen

Skæður dýrbítur hefur drepið að minnsta kosti fjögur lömb í Kelduhverfi í sumar. Að sögn heimamanna hefur talsvert sést af tófu við byggð undanfarið og greinilegt að hann er í ætisleit. Heyrst hefur af fleiri dýrbítum víðar um land undanfarna daga.

Ólafur Jónsson, bóndi á Fjöllum 1 í Kelduhverfi, með riffil og tófuflautu framan á.

Ólafur Jónsson, bóndi á Fjöllum 1 í Kelduhverfi, segir að til þessa hafi fundist fjögur dauð lömb sunnan við bæinn Sultir og eitt nánast heima í hlaði.

„Það var hjólreiðamaður sem fann fyrstu tvö lömbin á heiðarvegi með nokkurra daga millibili og tilkynnti það strax. Eitt af lömbunum var frá mér, annað frá Fjöllum 2 og það þriðja frá Lóni en fjórða lambið var svo illa leikið að við fundum ekki merkið og sáum ekki frá hvaða bæ það var.

Okkur virðist sem tófan sé farin að færa sig frá heiðinni og nær byggð og það sjást tófur á hverjum degi víða í sveitinni og það hefur óvart verið keyrt á þrjár. Við teljum ástæðuna fyrir allri þessari tófu vera að það er lítið um fugl á heiðinni og tófan því í ætisleit.“

Að sögn Ólafs hefur hann heyrt fregnir af fleiri dýrbítum víðar um land undafarna daga.

Ótvíræð ummerki eftir dýrbít

„Við teljum að fyrsta lambið hafi verið drepið um miðjan júlí og það síðasta fannst viku af ágúst. Öll fjögur lömbin fundust á eða við heiðarveginn en við vitum ekki hversu mörg til viðbótar geta legið lengra utan við veginn.

Áverkar eftir tófu. Það var hjólreiðamaður sem fann fyrstu tvö lömbin á á heiðarvegi með nokkurra daga millibili.

Fyrstu viðbrögð voru að skoða vegsummerki á lömbunum og senda sýni til tófusérfræðinga til greiningar og allir sem séð hafa útganginn á þeim eru sammála um að um tófu og dýrbít hafi verið að ræða.“

Ólafur segir að tófan bíti skinnið og hreinsi það af snoppunni inn að beini og drekki síðan blóðið og skilji lömbin eftir, oft lifandi, liggjandi í blóði sínu.

„Tófan hefur beittar tennur og sterkan kjaft og ef henni tekst að bíta sig við snoppuna eiga lömb erfitt með að verja sig. Tófa hangir á snoppunni þar til að það fer að blæða og blóði fer að renna ofan í lungun á lambinu og að endingu gefst það upp og drepst.

Dýrbítar byrja yfirleitt á að ráðast á veikburða lömb eins og undanvillinga og ef að það gengur færa þeir sig upp á skaftið og ráðast að lokum á fullorðið fé.“

Dýrbítar byrja yfirleitt á því að ráðast á veikburða lömb eins og undanvillinga og ef að það gengur færa þeir sig upp á skaftið.

Dýrbítar á öðru hverju greni

„Í tilfellinu hér í Kelduhverfi sýnist okkur að það sé eitt dýr að bíta og svo annað sem nagar nára og bóga lambanna eftir að þau eru dauð. Ég kom sjálfur að einu lambinu nánast nýdauðu, því flugan var varla búin að setja maðk í það og það var enn uppblásið, og greinilegt að það höfðu verið tvö dýr að verki við að naga það.

Mesta hættan núna er að ef dýrbíturinn er mjög skæður þá kenni hann yrðlingunum hvað sé matur og að eitt af því séu lömb, að hér verði á næstu árum dýrbítar á öðru hverju greni ef ekkert verður að gert.

Við vitum ekki enn hvort dýrið er að taka eitt og eitt lamb eða eitt á hverri nóttu eins og getur gerst og þá er málið orðið verulega alvarlegt.“

Grenið ekki enn fundist

Ólafur segir að búið sé að reyna að finna greni dýrbítsins og að þeir hafi heyrt vælið í yrðlingunum en ekki fundið það enn.

„Dýrbítar virðast vera miklu varari um sig og varkárari en aðrir refir og því erfiðari viðureignar og grenjaskyttur sem hafa fundið greni sjái engin merki um umgang um þau. Grenjaskyttur eru búnar að fara í öll þekkt greni og holur og þar hefur dýrbíturinn ekki verið.

Það er búið að setja upp eftir­ litsmyndavél og ég er búinn að sjá fullorðinn skolla í mynd nótt eftir nótt en ekki yrðlingana þannig að þeir eru líklega búnir að færa sig lengra suður. Yrðlingarnir eru það stálpaðir á þessum tíma að þeir eru orðnir eins stórir og fullorðin dýr og því farnir að hlaupa um alla heiði og því mjög erfitt að finna þá.

Skammt frá okkur er þjóðgarð­ urinn Jökulsárgljúfur og þar er bannað að skjóta refi og slæmt fyrir okkur ef dýrbíturinn kemst þangað í skjól og því um að ræða mjög erfiðan eltingarleik.“

Sölufélagið í góðu lagi
Fréttir 17. júlí 2025

Sölufélagið í góðu lagi

Nú hafa Sölufélag garðyrkjumanna, Báran stéttarfélag og Framsýn stéttarfélag und...

Bændur harka af sér
Fréttir 16. júlí 2025

Bændur harka af sér

Ný rannsókn bendir til þess að fólk sem starfar í landbúnaði sé ólíklegt til að ...

Getur leyst plast af hólmi
Fréttir 16. júlí 2025

Getur leyst plast af hólmi

Frumkvöðlafyrirtækið Marea Iceland hyggst setja á markað umhverfisvænt húðunaref...

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar
Fréttir 16. júlí 2025

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar

Verslunin Hugur Studio, sem rekin er af Hemmet ehf., hefur verið kærð fyrir afdr...

Átak um öryggi barna í sundi
Fréttir 16. júlí 2025

Átak um öryggi barna í sundi

Rauði krossinn á Íslandi hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um...

Pöddur í hundamat
Fréttir 15. júlí 2025

Pöddur í hundamat

Fyrirtæki hafa sett á markað hundamat úr skordýrum. Slíkt fæði hefur minna kolef...

Orkuskipti í Flatey
Fréttir 15. júlí 2025

Orkuskipti í Flatey

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Elías Jónatans...

Landeldi við Hauganes
Fréttir 15. júlí 2025

Landeldi við Hauganes

Laxós ehf. áformar uppbyggingu og rekstur fiskeldisstöðvar norðan Hauganess, þar...