Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Dauðans alvara
Mynd / Bbl
Skoðun 19. nóvember 2021

Dauðans alvara

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Það verður æ áþreifanlegra hvað fæðu­öryggi er þjóðum mikilvægt. Náttúru­hamfarir, styrjaldir og áföll af ýmsum toga, eins og heimfaraldur vegna kórónaveiru, eru sterk áminning um að affarasælast er að þjóðir séu sem mest sjálfum sér nægar þegar kemur að framleiðslu matvæla.

Sumu fólki sem telur sig málsmetandi, m.a. hér Íslandi, hefur þótt sniðugt í umræðunni að gera lítið úr hugtakinu fæðuöryggi. Oft er látið í veðri vaka að þetta sé bara vesældarvæl úr íslenskum bændum. Slíkri afstöðu hafa menn flaggað þrátt fyrir að  Sameinuðu þjóðirnar hafi hvatt til sjálfbærni þjóða og að þær tryggi eigið fæðuöryggi eftir því sem kostur er.

Við höfum mörg dæmi um hvernig styrjaldir geta eyðilagt landbúnað og aðra matvælaframleiðslu og gert heilu þjóðirnar að þurfalingum. Nýjasta dæmið er Afganistan þar sem undirliggjandi ásælni erlendra stórfyrirtækja í jarðefnaauðlindir landsins í skjóli hernaðar mistókst hrapallega. Fórnarlambið er afganska þjóðin. Til að bæta gráu ofan á svart leyfa menn sér meira að segja að nota þetta vesæla fólk sem fórnardýr í pólitísku valdatafli milli Evrópuríkja. Slíkt má nú sjá á landamærum Belarus sem okkur er gjarnt að kalla Hvíta-Rússland. Annað nýlegt dæmi af svipuðum toga er Írak.

Ef við lítum á stöðuna í dag þá er ljóst að sjúkdómaplágur hafa að mestu verið fjarri okkar hugsun í heilan mannsaldur. Við höfum allt fram undir 2020 verið nokkuð laus við áhyggjur af sjúkdómum sem gætu lagt heilu þjóðríkin á hliðina. Svo gerist það bara eins og hendi sé veifað að við sitjum uppi með heimsfaraldurinn Covid-19. Sjúkdómurinn er eitt, en hliðaráhrifin vegna truflana á virkni atvinnulífs og gangverks samfélaga er ekki síður alvarlegt.

Í heimsfaraldrinum sem nú hefur staðið yfir í nær tvö ár hefur víða um lönd verið lögð mikil áhersla á að halda matvælaframleiðslu gangandi. Þar vita menn af biturri reynslu að matvælaskortur getur fljótt orsakað upplausn og átök, því enginn kemst af án fæðu. Fæðuöryggi er því sannarlega ekkert til að gantast með.

Skortur á tilbúnum áburði í stærstum hluta framleiðslukerfis landbúnaðar í Evrópu þýðir einfaldlega að framleiðslugetan minnkar. Það á líka við íslenskan landbúnað. Íslenskir bændur hafa verið algjörlega háðir innflutningi á áburði síðan áburðarverksmiðjunni í Gufunesi var lokað í kjölfar bruna sem átti sér stað á páskadag 1990.

Að hluta til er Covid-19 kennt um stöðuna í áburðarframleiðslunni og greinum sem henni tengjast, en meginorsökin er þó orkuskortur og stórhækkað orkuverð í Evrópu. Það er því ekki laust við að menn hafi tekið andköf þegar Svein Tore Holsether, forstjóri YARA risafyrirtækisins í áburðarframleiðslunni, viðraði skoðun sína í viðtali við Fortune nú í nóvemberbyrjun (sjá bls. 23 í Bændablaðinu í dag).

Frá því í september hefur Yara verið að draga úr ammoníakframleiðslu sinni um allt að 40% vegna orkukostnaðar. Aðrir stórir framleiðendur hafa gert slíkt hið sama. Þetta mun grafa undan matvælaframleiðslu.

Holsether segir að seinkuð áhrif orku­kreppunnar á fæðuöryggi yrði ekki ósvipað áhrifunum sem orðið hafa á örflöguframleiðsl­una þar sem markháttuð iðnaðarvöruframleiðsla hefur snarminnkað. Þar hafa einmitt orðið víðtæk áhrif sem dregið hafa úr margháttaðri iðnaðarvöruframleiðslu, eins og á raftækjum og bílum.

 „En ef við fáum jafngildi svona ástands inn í matvælakeðjuna ... og fáum ekki mat, þá er það ekki bara pirrandi, heldur spurning um líf eða dauða,“ segir forstjóri YARA.

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti
Fréttir 25. apríl 2025

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti

Fyrirtækið Pure North í Hveragerði hefur nú náð að loka hringrás endurvinnslu á ...

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs
Fréttir 25. apríl 2025

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs

Reykjavík Open, sem hófst miðvikudaginn 9. apríl í Hörpu, hefur fyrir löngu fest...

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar
Fréttir 24. apríl 2025

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar

Fiskeldi á landi er vaxandi atvinnugrein, allnokkur stór eldisfyrirtæki eru í up...

Framleiðsla á Hrym í Búðardal
Fréttir 23. apríl 2025

Framleiðsla á Hrym í Búðardal

Fyrirhuguð er stórtæk framleiðsla á lerkiafbrigðinu Hrymi í Dalabyggð á næstu mi...

Skógur alltaf til bóta
Fréttir 22. apríl 2025

Skógur alltaf til bóta

Rannsóknir sýna að áhrif skógræktar á kolefnisforða jarðvegs eru nær alltaf orði...

Fjársjóður fjalla og fjarða
Fréttir 22. apríl 2025

Fjársjóður fjalla og fjarða

Tveggja daga íbúaþing, undir stjórn Sigurborgar Kr. Hannesdóttur, fór fram í Rey...

Er plantað nóg?
Fréttir 16. apríl 2025

Er plantað nóg?

Skógarbændur gegna mikilvægu hlutverki við landgræðslu og skógrækt. Þannig er sk...

Trump skellir í lás
Fréttir 16. apríl 2025

Trump skellir í lás

Alþjóðasamfélagið er skekið eftir tollahækkanir Trumps í þarsíðustu viku.