Byggð stendur hallandi fæti
Á Rauðasandi í Vesturbyggð eru þrír bæir í byggð; Lambavatn, Stakkar og Melanes. Tveir fyrstnefndu bæirnir eru vestarlega á sandinum, á meðan síðastnefndi bærinn er austast á undirlendinu.

Á Lambavatni er rekið kúabú, á Stökkum eru ræktuð geldneyti og á Melanesi er ferðaþjónusta og sauðfé. Aðrir merkir bæir á Rauðasandi eru m.a. Saurbær í miðri byggðinni, sem er gamall kirkjustaður og bústaður höfðingja. Á Kirkjuhvammi, rétt austan við Saurbæ, er á sumrin rekið Franska kaffihúsið, sem er vinsæll áningarstaður ferðamanna. Einnig er bærinn Sjöundá, austan við Melanes, þekktur fyrir að vera vettvangur Sjöundármorðanna og viðfangsefni bókarinnar Svartfugls eftir Gunnar Gunnarsson. Fram til ársins 1994 tilheyrði sveitin Rauðasandshreppi, sem innihélt Rauðasand og sunnanverðan Patreksfjörð.

Íbúatal og þjónusta
Þjónusta hreppsins var staðsett í Örlygshöfn þar sem var grunnskóli, félagsheimili, sparisjóður, verslun og höfn. Nú hefur öll þessi starfsemi verið lögð niður og flutt á Patreksfjörð.
Samkvæmt Hagstofu Íslands var íbúafjöldi Rauðasandshrepps 93 einstaklingar árið 1993. Eftir að hreppurinn varð hluti af Vesturbyggð eru uppfærðar tölur ekki aðgengilegar hjá Hagstofunni. Íbúum á svæðinu telst þó til að núna, haustið 2022, séu níu einstaklingar með fasta búsetu í hinum forna Rauðasandshreppi, þar af fimm á Rauðasandi.