Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Blautklútaklumpur og annað gúmmelaði úr togi við Akranes. Auk blautklútanna „veiddust“ ýmsar aðrar hreinlætisvörur, eins og dömubindi, eyrnapinnar, latexhanskar og umbúðir sem eiga líklega rætur að rekja til skólps. Myndir / Hafrannsóknastofnun
Blautklútaklumpur og annað gúmmelaði úr togi við Akranes. Auk blautklútanna „veiddust“ ýmsar aðrar hreinlætisvörur, eins og dömubindi, eyrnapinnar, latexhanskar og umbúðir sem eiga líklega rætur að rekja til skólps. Myndir / Hafrannsóknastofnun
Mynd / Hafrannsóknastofnun
Fréttir 30. september 2020

Blautklútaveiðar í Faxaflóa

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í Grunnslóðaleiðangri Haf­rann­sókna­stofnunar eru stundaðar rannsóknir á flatfisktegundum, sandsíli og sæbjúgum á grunnslóð allt í kringum landið. Í ár var nýs og óskemmtilegs meðafla vart, en blautklútar, ættaðir úr skólpi þéttbýlisstaða, voru algengir í togum við Faxaflóa.

Samkvæmt frétt á vef Haf­rann­­sóknastofnunar fengust blautklútar í flestum togum í Grunn­slóðarleiðangri við flóann en mest var magnið við Akranes og við mynni Borgarfjarðar, eða tæp 2 kíló við Akranes og rúmt kíló í Borgarfirði. Auk blautklútanna „veiddust“ ýmsar aðrar hreinlætisvörur, eins og dömubindi, eyrnapinnar, latexhanskar og umbúðir sem eiga líklega rætur að rekja til skólps. Hafra­nnsóknastofnun hefur ekki skráð hreinlætisvörur til „tegunda“ í leiðöngrum sínum en það er upplifun leiðangursmanna að magn hreinlætisvara sé mun meira í ár en árin á undan.

Ekki sturta niður rusli

Fólk er því hvatt til að passa sig að henda þessum hlutum í ruslið, en ekki sturta þeim niður, því að jafnvel þó að á umbúðunum segi að klútarnir séu niðursturtanlegir, þýðir það ekki að þeir brotni hratt niður í náttúrunni.

Stofnmæling flatfiska og sandsílis

Í leiðangrinum er togað með fjögurra metra bjálkatrolli á grunnsævi. Mark­mið leiðangursins er stofn­mæling á flatfiskum og sandsíli. Sérstaklega er verið að reyna að fá mat á nýliðun flatfiska.

Í ár var einnig bætt við leiðang­urinn togstöðvum til að fylgjast með þéttleika sæbjúgna en vonir standa til að niðurstöðurnar muni nýtast við ráðgjöf á þessum nýja nytjastofni er frá líður.