Bjargaði íslensku kartöflunum
Sigurgeir Ólafsson plöntusjúkdómafræðingur lést á dögunum, en hann markaði djúp spor á vettvangi plöntusjúkdómavarna á Íslandi þar sem hann starfaði um áratugaskeið. Hann bjargaði íslensku kartöfluyrkjunum, sem voru á hraðri leið til glötunar vegna úrkynjunar, með því að hefja stofnræktun þeirra fyrir rúmum 40 árum þar sem hann bjó til nýja veirufría stofna af gömlu yrkjunum með vefjaræktunartækni.

Sveinn Sæland, blómabóndi á Espiflöt í Reykholti.
Sveinn Sæland, garðyrkjubóndi á Espiflöt í Reykholti og fyrrverandi formaður Sambands garðyrkjubænda, átti um árabil í samstarfi við Sigurgeir.
„Ég þekki hann best af hans störfum sem eftirlitsmanns með íslenskri garðyrkju og innflutningi á plöntum – en við þekktumst í um 45 ár, eða frá því við vorum báðir við nám í Kaupmannahöfn. Garðyrkjubændur báru óttablandna virðingu fyrir honum, því þegar hann birtist á vettvangi þá gat voðinn verið vís ef bændur hefðu eitthvað verið að slugsa varðandi sjúkdómahættu á sínum býlum.“
Gekk sjálfur í málið
Sveinn segir að Sigurgeir hafi verið nákvæmur, strangur og með fastmótaðar hugmyndir – en um leið sanngjarn. „Til marks um þetta má nefna að þegar fyrsta blómatriphs kom til landsins, sem er meindýr í blómarækt, tók hann það mjög föstum tökum að útrýma þessum skaðvaldi á bæjum. Hann fylgdi vel eftir þeim bændum sem höfðu fengið þetta inn á býlin og ef menn fylgdu ekki þeim fyrirmælum sem hann lagði fyrir þá, mætti hann einfaldlega á staðinn með sín tæki og gekk sjálfur í málið,“ segir Sveinn.
„Hans aðalstarf sneri að garðyrkjunni í heild sinni og fólst meðal annars í því að hafa eftirlit með innflutningi. Engin vara skyldi fara inn í landið, hvort sem það voru plöntur, græðlingar eða blóm, sem ekki hefði viðeigandi heilbrigðisvottorð.
Hann fór yfir allan þennan innflutning samviskusamlega og af mikilli natni. En því miður hefur verið losarabragur á þessum hlutum síðan hann hætti og stundum er það bara tilviljunum háð hvort þessum atriðum er fylgt nægilega vel eftir,“ bætir Sveinn við. Samband garðyrkjubænda heiðraði Sigurgeir 2019 og var einhugur um það val á meðal garðyrkjubænda, að sögn Sveins.

Stofnræktunin á kartöfluyrkjum
Blaðamaður heimsótti Sigurgeir í húsnæði Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti í október 2018, þar sem hann var með starfsstöð. Þá var hann formlega hættur störfum hjá Matvælastofnun en sinnti enn vefjaræktuninni af mikilli ástríðu fyrir kartöflubændur og var umhugað um að áfram yrði vel haldið utan um hana og stofnræktunina á kartöfluyrkjunum.
Þar sagði hann að kartaflan væri sérstök að því leyti að útsæði væru vatnsauðug og næringarrík stöngulhnýði en ekki þurr fræ eins og hjá öðrum nytjajurtum. Því væri greið leið fyrir smitefni í gegnum útsæðið í ræktun kartaflna ef ekki er ástunduð sérstök smitfrí stofnræktun á útsæði. Kartöflubændur þurfi því að endurnýja reglulega sitt útsæði, en flestum öðrum nytjajurtum sé hægt að fjölga með fræsöfnun og þurrkun – sem lágmarki líkur á slíku smiti. Hægt sé að flytja inn stofnútsæði erlendis frá, en ekki af íslensku yrkjunum Gullauga, Helgu og Rauðum íslenskum.

Vefjaræktaðar plöntur.
Vefjaræktunin aftur farin af stað
Einar Grétar Jóhannsson, Eyrarlandi í Eyjafirði, starfaði í áratugi með Sigurgeiri að ræktun stofnútsæðis, en einungis þrír kartöflubændur hafa séð um þessa hlið kartöfluræktar á Íslandi. „Sigurgeir var guðfaðir þessa verkefnis að bjarga íslensku yrkjunum.
Gæði íslenskra kartaflna voru orðin afar bágborin þegar Sigurgeir hefst handa í björgunarstörfum sínum. Kannski var fyrst og fremst kunnáttuleysi um að kenna að staðan var orðin þannig.
Mér er minnisstætt þegar hann mætti eitt sinn á fund okkar kartöflubænda, sem voru nú miklu fleiri á þeim tíma en þeir eru í dag, að hann sýndi okkur á sjálfum kartöflunum hvað nákvæmlega var að þeim sem við höfðum ekki hugmynd um. Þarna voru skýr einkenni um ýmsa sjúkdóma, eins og vírusa, sem höfðu áhrif á útlit og sprettu – sem við lærðum svo að þekkja. Þetta segir margt um hans góðu mannkosti, en hann var einstaklega vandvirkur í öllu og vildi gera eins vel og hægt var.
Það er honum að þakka að við erum enn með þessa íslensku stofna okkar sem voru að úrkynjast. Þegar Sigurgeir hætti alveg vefjaræktuninni tók því miður enginn við henni og þessi ræktun lá niðri í fáein ár.
Sem betur fer fór hún aftur í gang á síðast ári hjá Matís, sem þýðir að við stofnræktendur fáum aftur alveg veirufrítt útsæði á þessu vori aftur til ræktunar í gróðurhúsum okkar. Sigurgeir hefði glaðst yfir því að þetta sé komið aftur í réttan farveg,“ segir Einar Grétar.