Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Besti hlutinn neðanjarðar
Á faglegum nótum 23. ágúst 2021

Besti hlutinn neðanjarðar

Höfundur: Vilmundur Hansen

Kartöflur rekja uppruna sinn til Andesfjalla í Suður-Ameríku. Villtar kartöflur hafa verið mikilvægar sem fæða allt frá því að menn byrjuðu að neyta þeirra fyrir 7 til 10 öldum síðan.

Kartöflur voru fyrst ræktaðar hátt til fjalla, þar sem þær hafa aðlagast köldum vaxtarskilyrðum og kann það að vera skýringin á því hversu vel þær hafa aðlagast veðurfari á norðurslóðum.

Kartöflur eru af náttskuggaætt og sýnir ættrækni sína í því að jurtin er öll eitruð að hnýðinu undanskildu. Hnýði sem vaxa nálægt yfirborðinu eru oft græn á litinn og eitruð, en eitrið hverfur við suðu.

Jurtin er fjölær og geta stönglar hennar náð 1,5 metra hæð. Blöðin fjöðruð, tennt og eilítið loðin, blómin með fimm krónublöðum, fölbleik eða hvít á litinn, berin sem myndast að lokinni blómgun eru græn og ekki ósvipuð óþroskuðum tómötum enda jurtirnar skyldar. Fræi kartaflna er yfirleitt ekki sáð nema til að fá fram nýja stofna í kynbótaskyni. Kartaflan sjálf er rótarhnýði og forðabúr plöntunnar sem myndast við endann á neðanjarðarrenglum.

Kartöflur voru fyrst ræktaðar á Íslandi af sænska baróninum F. W. Hastfer. Baróninn seti þær niður á Bessastöðum á Álftanesi vorið 1758 og fékk þokkalega uppskeru.

Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, séra Guðlaugur Þorgeirsson í Görðum á Álftanesi og séra Jón Bjarnason á Ballará munu svo hafa reynt kartöflurækt árin 1759 og 1760. Björn hvatti menn mjög til að rækta kartöflur en það mun hafa gengið illa fyrstu árin. Kartöflurækt hófst ekki fyrir alvöru hér á landi fyrr en á árunum 1807 til 1814, en þá var matarskortur í landinu og þá lærðu landsmenn að borða þær með bestu lyst.

Hér á landi eru ýmis íslensk afbrigði í ræktun, eins og til dæmis rauðar íslenskar. Talið er að ræktun þeirra hafi hafist hér á landi fyrir um 150 til 200 árum. Þær eru hnöttóttar með djúp augu og djúpan nafla. Hnýðið er rautt en kartaflan fölgul að innan með rauðum hring. Talið er að þessar kartöflur hafi komið hingað frá Danmörku. Ólafur Jónson tilraunastjóri valdi úrval af rauðum íslenskum til ræktunar og kallast þær Ólafsrauður.

Gullauga er gamalt norskt afbrigði sem farið var að rækta hér um miðja síðustu öld. Þær eru hnöttóttar með gult hnýði og gulan mjölva. Augun eru venjulega rauð.

Helga er afbrigði sem talið er að hafi myndast vegna stökkbreytingar á gullauga. Helgu svipar mjög til gullauga nema hvað hnýðið er rautt. Til eru nokkur fleiri afbrigði sem bera íslensk nöfn og má þar nefna bleikrauðar íslenskar, Akraneskartöflur, Akureyrarkartöflur, Helgu- hvammskartöflur, bláar kartöflur, akurblessun, jarðargull, stóri skoti, Blálandsdrottning, blálandskeisari og bláeygð. Fjöldi afbrigða sem hér hefur verið reyndur skiptir tugum. Nöfn afbrigða sem einstaklingar hafa flutt inn eru mjög á reiki.

Kartöflurækt og kartöfluneysla er svo almenn á Íslandi í dag að segja má að Íslendingar borði kartöflur með öllum mat og mörgum finnst máltíðin fátækleg séu ekki kartöflur í boði.

Gamall enskur málsháttur segir að sá sem sífellt gortar sig af forfeðrum sínum sé eins og kartafla. Bestu hlutar hans eru neðanjarðar.

Skylt efni: Ræktun kartöflur

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári
Fréttir 20. mars 2025

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári

Hagstofan gaf á mánudaginn út uppskerutölur úr grænmetisog salatræktun síðasta á...

Í fremstu röð í þrjátíu ár
Fréttir 20. mars 2025

Í fremstu röð í þrjátíu ár

Bændablaðið hefur í þrjátíu ár stuðlað að upplýsandi umræðu um landbúnað á víðum...

Vanburða innviðir hringrásarhagkerfis
Fréttir 20. mars 2025

Vanburða innviðir hringrásarhagkerfis

Ekkert eftirlit er á Suðurlandi með því að garðyrkjuúrgangur úr íslenskri útiog ...

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi
Fréttir 17. mars 2025

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi

Talsvert hefur verið fjallað um mikilvægi fæðuöryggis landsins að undanförnu, bæ...

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt
Fréttir 14. mars 2025

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt

Eitt af þróunarverkefnum búgreina sem nýlega var veittur styrkur úr matvælaráðun...

Tangi besta nautið
Fréttir 14. mars 2025

Tangi besta nautið

Tangi 18024 frá Vestra-Reyni undir Akrafjalli hlaut nafnbótina besta naut fætt á...

Áform dregin til baka
Fréttir 13. mars 2025

Áform dregin til baka

Áform fjármála- og efnahagsráðherra um frumvarp til breytingar á tollalögum, þar...

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins
Fréttir 13. mars 2025

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins

Kvíaból í Köldukinn var útnefnt fyrirmyndarbú nautgripabænda árið 2025 á deildar...