Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Beit á auðnum hamlar sjálfsgræðslu.
Beit á auðnum hamlar sjálfsgræðslu.
Mynd / Sveinn Runólfsson
Lesendarýni 24. febrúar 2016

Beitarþol er löngu úrelt hugtak

Höfundur: Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri
Það er talið fræðilega hægt að reikna út beitarþol á algrónu einsleitu landi í meðalárferði. Það er samt alls ekki hægt að reikna út beitarþol fyrir illa gróna afrétti og önnur röskuð beitilönd, þar sem uppblástur er til staðar, eins og raunin er á nær öllum afréttum á eldgosabelti landsins. 
 
Enn heyrast raddir um að Landgræðslunni beri að reikna út beitarþol einstakra eða jafnvel allra afrétta landsins.  Vonandi kemur þó að því að sumir þeirra, sem fjalla um beit á síðum Bændablaðsins, kynni sér nútíma vistfræði er varða verndun og nýtingu beitilanda. 
 
Upphaf beitarþolsrannsókna hér á landi 
 
Upp úr miðri 20. öld hófust rannsóknir á vegum Atvinnudeildar Háskóla Íslands til að meta beitarþol. Hálendi landsins var gróðurkortlagt og útreikningar á beitarþoli miðuðust við fóðurgæði gróðurs og hversu mikið mætti fjarlægja með beit. Beitarþolstölur reyndust alltof háar enda byggðar á alltof fáum breytum íslenskrar náttúru. Beitarþolsrannsóknirnar á þessum tíma töfðu því umbætur í gróðurvernd. 
Aðferðir við útreikninga á beitarþoli voru síðar þróaðar hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, RALA, á árunum 1965 til loka áttunda áratugar síðustu aldar. Þeir útreikningar byggðu á gróðurkortunum, sem sömu stofnanir stóðu að á þessum árum og tóku mið af stöðu þekkingar á þeim tíma. Gerð gróðurkortanna á þessum árum var mikið afrek. 
 
Ritið Jarðvegsrof á Íslandi markaði tímamót
 
Veruleg vinna var lögð í að þróa aðferðir til að meta beitarþol á næstu tveim áratugum. Þá var reynt að taka tillit til fleiri þátta en eingöngu uppskerumælinga kortlagðra gróðursvæða og fóðurþarfa búfjárins. Útreikningar á beitarþoli, eins og þeir voru stundaðir til síðustu aldamóta, miðuðu því við mælda uppskeru og hversu mikið væri óhætt að taka af henni, þannig að ástand gróðurs á viðkomandi svæði viðhéldist eða batnaði, auk þess sem byggt var á áætlaðri orkuþörf viðkomandi búfjártegundar. 
 
Sammerkt var með öllum beitarþolsútreikningum á þessum tíma að niðurstöður beitarþols afrétta voru langt umfram þann búfjárfjölda sem á afréttunum gengu. Fræðin þróuðust áfram og árið 1997 náðist tímamótaáfangi þegar ritið Jarðvegsrof á Íslandi var gefið út. Þar er að finna heildstæða lýsingu á ástandi landsins með hliðsjón af jarðvegsrofi. Þær niðurstöður sem þar fengust leiddu til þess að RALA afturkallaði í samráði við landbúnaðarráðuneytið allar beitarþolstölur sem stofnunin hafði gefið út, með bréfi dagsettu 10. nóvember 1999. Síðan hefur beitarþol aldrei verið reiknað út fyrir beitilönd nema hvað meirihlutar ítölu-nefndar og yfirítölunefndar vegna Almenninga gerðu það með umdeilanlegum og afar ófaglegum hætti, sem leiddi til fráleitrar niðurstöðu.
 
Lítil beit skaðar gróður á illa grónu landi
 
Þeir sem fjalla um þessi málefni verða að hafa í huga að framleiðni gróðurlenda er afar breytileg eftir tíðarfari, árstíma og fleiri þáttum. Því miður eru aðstæður bænda afar misjafnar hvað varðar möguleika þeirra og vilja til að seinka upprekstri þegar grær seint á afréttum eins og á sl. sumri. Ekki er hægt að reikna beitarþol á landi sem er lítt gróið og þar sem er mikið rof eða umhverfisskilyrði eru að öðru leyti mjög takmarkandi, því lítil beit hefur þar mjög mikil áhrif til hins verra. Rannsóknir hafa sýnt að beit getur hægt á eða komið í veg fyrir sjálfgræðslu, sem er ákjósanleg leið til endurheimtar vistkerfa þar sem viðhlítandi aðstæður eru fyrir hendi. 
 
Reglulegt eftirlit með ástandi raskaðra beitarlanda
 
Það er út í hött að reikna beitarþol á stórum og smáum gróðureyjum umluktum auðnum og landi með miklu jarðvegsrofi eins og á afréttum gosbeltisins, því þar gengur sauðfé ekki nema að litlu leyti. Sauðféð sækir í beit á nýgræðingi sem er að berjast við að nema land, í góðum árum, á örfoka landi. Á öðrum afréttum, sem oft eru vel grónir, verður að byggja á vöktun með vistfræðilegum nálgunum og miða við fyrirfram ákveðin viðmið og grípa inn í ef út af ber, það er miða við að landið sé í stöðugri framför og landnýting með sjálfbærum hætti. 
 
Á síðustu tveim áratugum hefur erlendis almennt verið horfið frá því að reikna beitarþol fyrir úthaga vegna þess hve breytilegt það er og háð aðstæðum hverju sinni.Okkar virtustu vísindamenn hafa á síðustu árum margoft bent á, að ákvörðun beitarþols er afar flókin vísindi og taka verður tillit til miklu fleiri vistfræðilegra þátta en gert var hér áður fyrr. Afar brýnt er að hafa í huga að úthagi þarf í flestum tilfellum að geta veitt fjölþætta vistkerfaþjónustu, auk beitarinnar, t.d. varðandi vatnsmiðlun, útivist, bindingu kolefnis og á eldfjallasvæðum gegnir öflugur hávaxinn gróður mikilvægu hlutverki við bindingu ösku. Enn heyrast þó háværar raddir um að Landgræðslunni beri að reikna beitarþol fyrir afrétti og önnur beitilönd, eins og t.d. á ráðstefnu Líffræðingafélagsins á sl. hausti.
 
Hvað hafa komandi kynslóðir gert?
 
Þegar horft er yfir gróðurtötra gosbeltisins og saga liðinna alda er höfð í huga er reyndar með ólíkindum hvað okkur hefur miðað hægt áfram í viðhorfum til gróðurverndar. Bændur hafa lyft Grettistaki í uppgræðslu en okkur gengur hægt að tileinka okkur raunverulega sjálfbæra landnýtingu. Örfáir einstaklingar innan bændastéttarinnar hafa sýnt skilningsleysi á mikilvægi þess að vernda landið. Þetta gera þeir í krafti gamalla – löngu úreltra – „hefða“. Þetta viðhorf getur hæglega eyðilagt ímynd bændastéttarinnar og um leið tilraunir hennar til að markaðssetja afurðir sínar undir merkjum sjálfbærrar landnýtingar.
 
Okkur ber skylda til þess að komandi kynslóðir taki ekki við rústuðum vistkerfum. Gömul saga segir frá áströlskum landeiganda, sem var þekktur fyrir lítinn skilning á þessum málum. Eitt sinn var hann spurður hvort hann vildi ekki bæta sig og koma landinu í betri rækt. Karlinn hugsaði sig um og sagði svo: „Komandi kynslóðir? Hvað hafa þær gert fyrir mig?“
 
Notum ekki úreltar aðferðir!
 
Öll löggjöf hér á landi er lýtur að nýtingu lands til beitar er í molum og byggir á löngu úreltum fræðum þ.m.t. lög um ítölu. Ég vil líkja hugleiðingum manna er telja að unnt sé að reikna beitarþol illa farinna gróðurlenda við baráttuna við „vísindi“ þeirra sem héldu því fram fyrr á öldum að jörðin væri flöt.
 
Kveðum niður beitarþolsdrauginn
 
Eins og Cató hinn gamli predikaði um að leggja Karþagó í eyði fyrir um 2.000 árum, þá legg ég enn einu sinni áherslu á að gamli draugurinn um beitarþol verði kveðinn niður, í eitt skipti fyrir öll.
 
Sveinn Runólfsson,
landgræðslustjóri

2 myndir:

Skylt efni: beitarþol | beit | afréttir

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi
Fréttir 26. september 2023

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi

Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands vinna fjölbreyttar rannsóknir og tilraunaver...

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar
Fréttir 26. september 2023

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar

25 af 33 eyfirskum bændum sem spurðir voru, sögðu að þeir myndu myndu nýta sér k...

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru
Fréttir 25. september 2023

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru

Lífræni dagurinn var haldinn hátíðlegur víðs vegar um landið laugardaginn 16. se...

Ágúst verður forstöðumaður
Fréttir 25. september 2023

Ágúst verður forstöðumaður

Ágúst Sigurðsson hefur verið skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stof...

Skeljungur kaupir Búvís
Fréttir 25. september 2023

Skeljungur kaupir Búvís

Samningar hafa tekist um kaup Skeljungs á öllu hlutafé í Búvís. Bæði fyrirtækin ...

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins
Fréttir 22. september 2023

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins

Heimildamyndin Konungur fjallanna var frumsýnd 12. september í Bíóhúsinu á Selfo...

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi
Fréttir 22. september 2023

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi

Nú í haust verða íslenskar sauðfjárafurðir af vel grónu og sjálfbæru beitilandi ...

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum
Fréttir 21. september 2023

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum

Laugardaginn 2. september var réttað í Ljárskógarétt í Dölum, rétt norðan Búðard...