Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Bændur þurfa að standa saman
Af vettvangi Bændasamtakana 11. mars 2025

Bændur þurfa að standa saman

Höfundur: Atli Traustason, bóndi á Syðri-Hofdölum í Skagafirði.

Bændur hafa fylgst náið með myndun nýrrar ríkisstjórnar og því hvað hún gæti boðað fyrir landbúnað hérlendis.

Atli Traustason.

Nýr stjórnarsáttmáli vakti spurningar um hvernig staðið yrði að málefnum greinarinnar, en fáir hefðu þó átt von á því að jafnbratt yrði farið af stað og raun ber vitni.

Áform bæði atvinnuvegaráðherra og fjármálaráðherra um að veikja stuðning við íslenskan landbúnað með því að afnema undanþágur frá samkeppnislögum og breyta tollskrá vegna osta eru alvarlegt áhyggjuefni. Bændur eru nú komnir í þá stöðu að þurfa að verja grundvallaratriði – réttinn til að framleiða mat á Íslandi við eðlileg skilyrði.

Samstaða bænda skiptir sköpum

Bændur upplifa sig nú standa frammi fyrir miklum og nýjum áskorunum, á sama tíma og heimurinn er að breytast nær daglega. Aðstæður í alþjóðaviðskiptum, verðhækkanir á aðföngum og breytingar í stefnu stjórnvalda skapa óvissu sem bændur hafa sjaldan áður upplifað, allt á sama tíma. Í því ljósi er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að við bændur stöndum saman.

Það hefur verið ánægjulegt að sjá slagkraft bænda og hagsmunasamtaka í þessari baráttu. Þeir hafa talað skýrt og hátt, leitað samtals við stjórnmálamenn og bent á þær afleiðingar sem aðgerðir stjórnvalda geta haft. Þegar bændur koma saman og tala einum rómi, þá verður ekki fram hjá þeim litið, þeir eru hornsteinn í samfélagi okkar hérlendis.

Samtalið við stjórnmálamenn – og vonbrigðin með viðbrögðin

Bændur hafa ekki setið auðum höndum. Á fundum í síðustu viku sem var kjördæmavika með ráðherrum og þingmönnum, mættu bændur af krafti og komu málum sínum skýrt til skila. Þeir töluðu af festu og yfirvegun um nauðsyn stuðningskerfisins og gerðu stjórnmálamönnum ljóst hvaða afleiðingar fyrirhugaðar breytingar hefðu fyrir íslenskan landbúnað.

Fundirnir sýndu að samtalið skiptir miklu máli og að bændur eru reiðubúnir að taka þátt í umræðunni. En þrátt fyrir þessa kraftmiklu þátttöku, þá voru viðbrögð stjórnvalda ekki eins og vonast hafði verið eftir. Ræða ráðherra málaflokksins á fundi Félags atvinnurekenda voru kaldar kveðjur til bænda. Þeir sem höfðu vonast til að stjórnvöld myndu hlusta og skilja nauðsyn stuðningskerfisins fyrir íslenskan landbúnað fengu lítið annað en úreltar klisjur um mikilvægi samkeppni.

Það er áhyggjuefni að sumir þeirra sem tala hæst í þessu máli virðast hafa afar takmarkaða þekkingu á rekstrarumhverfi íslensks landbúnaðar. Þetta undirstrikar nauðsyn þess að bændur haldi áfram að útskýra af hverju vernd í formi undanþága frá samkeppnislögum og tolla er nauðsynleg.

Vanþekking og nauðsyn samtals

Það er eins og stjórnmálamenn haldi að íslenskur landbúnaður starfi á einhverjum frjálsum markaði þar sem allir hafi jöfn tækifæri til samkeppni. Það er einfaldlega ekki raunin. Íslenskir bændur eru í samkeppni við niðurgreiddan landbúnað í Evrópu og stórfellda matvælaframleiðslu í löndum þar sem aðstæður eru allt aðrar en hér. Að fjarlægja verndina þýðir einfaldlega að íslensk matvælaframleiðsla verður sett í ómögulega stöðu, við eigum einfaldlega ekki möguleika í þeim dansi.

Brýning til bænda – við megum ekki gefast upp

Þrátt fyrir vonbrigðin má aldrei gefast upp. Bændur þurfa að halda áfram að láta í sér heyra, halda áfram samtalinu og gera stjórnmálamönnum ljóst að þetta er ekki mál sem hægt er að sópa undir teppið. Við þurfum að tala skýrt, vera sýnileg í umræðunni og tryggja að enginn stjórnmálamaður komist upp með að veikja íslenskan landbúnað án þess að mæta harðri andstöðu.

Vantrú á kerfið – hver á að vernda íslenskan landbúnað?

Vantraustið á kerfið vex með hverjum deginum. Þegar bændur sjá hvernig á þeim er tekið, vakna spurningar: Hver á að vernda íslenskan landbúnað ef stjórnvöld vilja það ekki? Á að treysta því að réttarkerfið standi með bændum? Fær réttarkerfið tækifæri á því að fjalla um málefni landbúnaðar án afskipta pólitíkusa? Er pólitíska valdið tilbúið að hlusta á þá sem skapa matvælaöryggi þjóðarinnar?

Það er sorglegt að bændur þurfi að verja grundvallaratriði – að Ísland þurfi að geta haldið úti eigin matvælaframleiðslu. En við megum ekki láta undan. Þetta snýst ekki bara um bændur; þetta snýst um neytendur, um byggðir landsins og um framtíð Íslands sem matvælaframleiðslulands.

Ef stjórnvöld ætla að veikja íslenskan landbúnað, verða bændur að berjast gegn því af fullum krafti. Samstaða er okkar sterkasta vopn – og við munum ekki gefa eftir. Lifi íslenskur landbúnaður!

Bláskógabyggð fremst í flokki
Fréttir 12. nóvember 2025

Bláskógabyggð fremst í flokki

Bláskógabyggð hefur verið útnefnd í fyrsta sæti af fjórum „Sveitarfélögum ársins...

Þjónustumiðstöð byggð á Blönduósi
Fréttir 11. nóvember 2025

Þjónustumiðstöð byggð á Blönduósi

Á dögunum voru kynnt áform um opnun þjónustumiðstöðvar, sem Drangar ehf. ætla að...

Nýr verslunarstjóri í Hrísey
Fréttir 11. nóvember 2025

Nýr verslunarstjóri í Hrísey

Ásrún Ýr Gestsdóttir tók í haust við sem verslunarstjóri Hríseyjarbúðarinnar. He...

Kosið um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings
Fréttir 11. nóvember 2025

Kosið um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings

Dalabyggð og Húnaþing vestra eru nú á fullu í sameiningarviðræðum en ákveðið hef...

Lítil ummerki varnarefna í lofti yfir Íslandi
Fréttir 10. nóvember 2025

Lítil ummerki varnarefna í lofti yfir Íslandi

Veðurstofan hefur vaktað ýmis efni í úrkomu og lofti á Stórhöfða í Vestmannaeyju...

Hörð andstaða gegn breytingum í samkeppnisátt
Fréttir 10. nóvember 2025

Hörð andstaða gegn breytingum í samkeppnisátt

Umsagnarferli um umdeild frumvarpsdrög þar sem breyta á búvörulögum, lauk 24. ok...

Raflínunefnd umdeild
Fréttir 10. nóvember 2025

Raflínunefnd umdeild

Sveitarfélög og hagsmunasamtök landeigenda hafa gagnrýnt fyrirhugaða stofnun raf...

Auknar rekstrartekjur RML
Fréttir 10. nóvember 2025

Auknar rekstrartekjur RML

Stjórn Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) hélt ársfund í Borgarnesi til þe...