Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Álalogia
Á faglegum nótum 22. febrúar 2021

Álalogia

Höfundur: Vilmundur Hansen

Íslendingar hafa lengst af verið hræddir við ála og jafnvel talið þá eitraða, þrátt fyrir að álar hafi þótt herramannsmatur annars staðar í heiminum. Álagöngur í ár og vötn í Evrópu hafa dregist gríðarlega saman og jafnvel talið að hann sé í útrýmingarhættu þar.

Til ættkvíslarinnar Anguill­idae teljast 16 til 20 tegundir ála sem eru nokkuð ólíkar að útliti og finnast víða um heim að Suður-Atlantshafi og austanverðu Kyrrahafi undanskildu. Tvær tegundir ála eru þekktar í Atlantshafi, önnur er evrópski állinn (Anguilla anguilla) en hinn ameríski állinn (Anguilla rostrata). Evrópski og ameríski állinn eru ólíkir að því leyti að sá evrópski hefur að meðaltali 114 hryggjarliði en sá ameríski sjö færri, eða 107. Hluti ála á Íslandi hafa færri hryggjarliði en evrópski állinn en fleiri en sá ameríski og eru sérstakir að því leyti og nýjar erfðarannsóknir sýna að hér sé um að ræða blendinga á milli þessara tveggja tegunda.

Bolurinn er sívalur, langur og mjór. Hausinn er fremur langur en kjafturinn lítill með smáum en hvössum tönnum. Neðri skolturinn stendur framar en sá efri og ná munnvikin rétt aftur fyrir augun. Bakugginn sem er á álnum ofanverðum, og hefst talsvert aftan við eyruggana, er samvaxinn gotraufarugganum sem er á neðra borði hans þannig að állinn hefur ekki eiginlegan sporð. Tálknopin eru lítil og tálknlokin hulin roði. Állinn fær ekki hreistur fyrr en á þriðja eða fjórða ári og er það smátt. Hann hefur aftur á móti þykkt roð sem er hulið slími og varnar því að állinn þorni upp þegar hann ferðast um á þurru landi til að komast á milli vatna eða framhjá fossum. Dæmi eru um að álar skríði upp nokkurra metra hátt berg til að sníða hjá fossum. Þjóðsagan segir að áll finnist í vatninu fyrir ofan Systrafossa við Kirkjubæjarklaustur. Sé sagan sönn verður állinn að klifra mjög háan og þverhnýttan klett til að komast þangað. Orðatiltækið háll eins og áll er dregið af því að slímið gerir hann hálan og því erfitt að hafa hendur á honum.

Lengsti áll sem mældur hefur verið hér á landi er 130 sentímetrar og vó 6,5 kíló. Fullvaxnir álar á Íslandi verða þó sjaldan lengri en metri á lengd og fjögur kíló að þyngd. Hængar eru minni en hrygnur og sjaldnast lengri en 50 sentímetrar hér á landi.

Heimkynni evrópska álsins er á Íslandi, Færeyjum og Bretlandi. Frá Norður-Noregi að Miðjarðarhafi og austur að Svartahafi. Hann finnst í ám og vötnum í Mið-Asíu og þeim löndum Afríku sem liggja að Miðjarðarhafi, auk þess sem hann er þekktur á Azoreyjum, Madeira og Kanaríeyjum og við norðvesturströnd Afríku suður til Senegal. Ameríski állinn finnst í austanverðri Norður-Ameríku og á Grænlandi.
Hér á landi finnast álar í fersku vatni víða um land og á sumum svæðum einnig í sjó við ströndina. Hann er algengastur á láglendi í flóum, tjörnum og sjávarlónum á Suðausturlandi og á vestanverðu Norðurlandi en minna er um hann á austanverðu Norðurlandi og Austurlandi. Ála er þó að finna um allt land. /VH

Skylt efni: áll fiskar

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári
Fréttir 20. mars 2025

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári

Hagstofan gaf á mánudaginn út uppskerutölur úr grænmetisog salatræktun síðasta á...

Í fremstu röð í þrjátíu ár
Fréttir 20. mars 2025

Í fremstu röð í þrjátíu ár

Bændablaðið hefur í þrjátíu ár stuðlað að upplýsandi umræðu um landbúnað á víðum...

Vanburða innviðir hringrásarhagkerfis
Fréttir 20. mars 2025

Vanburða innviðir hringrásarhagkerfis

Ekkert eftirlit er á Suðurlandi með því að garðyrkjuúrgangur úr íslenskri útiog ...

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi
Fréttir 17. mars 2025

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi

Talsvert hefur verið fjallað um mikilvægi fæðuöryggis landsins að undanförnu, bæ...

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt
Fréttir 14. mars 2025

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt

Eitt af þróunarverkefnum búgreina sem nýlega var veittur styrkur úr matvælaráðun...

Tangi besta nautið
Fréttir 14. mars 2025

Tangi besta nautið

Tangi 18024 frá Vestra-Reyni undir Akrafjalli hlaut nafnbótina besta naut fætt á...

Áform dregin til baka
Fréttir 13. mars 2025

Áform dregin til baka

Áform fjármála- og efnahagsráðherra um frumvarp til breytingar á tollalögum, þar...

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins
Fréttir 13. mars 2025

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins

Kvíaból í Köldukinn var útnefnt fyrirmyndarbú nautgripabænda árið 2025 á deildar...