Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hjördís Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri ALDIN Biodome, og Karen Róbertsdóttir, tilraunastjóri ræktunarinnar við hafrareitinn.
Hjördís Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri ALDIN Biodome, og Karen Róbertsdóttir, tilraunastjóri ræktunarinnar við hafrareitinn.
Mynd / smh
Líf og starf 18. ágúst 2021

Affallsvatn í Elliðaárdal nýtt til tilraunaræktunar á matjurtum

Höfundur: smh

Í suðurjaðri Elliða­árdals Reykja­víkur hefur verið skipulagt svæði undir svokallaðan borgargarð, með því markmiði að tengja manneskjuna og náttúruna saman á alveg nýjan hátt. Verkefnið ber heitið ALDIN Biodome en eitt af undirverkefnunum þess er að rannsaka hvernig nýta megi betur ýmsar auðlindir Íslands, til dæmis affallsvatn til útiræktunar á nytjaplöntum til að lengja ræktunartímabilið og að rækta tegundir sem ekki vaxa almennt utandyra hérlendis.

Einungis er eitt ár frá því að tilraunaverkefnið var sett af stað en það lofar nú þegar mjög góðu.

Karen Róbertsdóttir, ylræktar­nemi við Landbúnaðar­háskóla Íslands og einn hluthafa í ALDIN Biodome, hefur umsjón með ræktunartilraunum á svæðinu og segir hún að í tilraunum hennar sé notast við affallsvatn frá Stekkjahverfi Breiðholts sem flæðir að öllu jöfnu í fráveituna og síðan beint í sjóinn. Alls séu þetta um 100 lítrar á sekúndu af 28,5 gráðu heitu vatni – stundum enn heitara. Verkefnið hlaut styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Karen uppsker gulrófu úr vermireit, en á hægri myndinni má sjá gulrófur úr samanburðarreit sem eru mun minni.
Margs konar plöntur eru ræktaðar til samanburðar

„Við notum aðeins pínulítið brot af þessu vatni, í kringum 0,2 lítra á sekúndu til að hita jarðveginn í um 200 fermetrum (af 317m2 garði – viðmiðunarbeð ekki hituð). Vatn flæðir um beð í PEX rörum sem við höfum sett upp með mismunandi hætti; á mismunandi dýpi, stundum með bakvatni, stundum án bakvatns, án einangrandi efnis á yfirborði; með trjákurli eða vikri sem einangrun, með einangrun í skurðum á milli raða, án skurða og svo framvegis. Svo ræktum við margs konar plöntur til að sjá muninn á ræktun með og án hita.

Markmiðið er að læra meira, í þágu ALDIN Biodome, bænda og bæjarbúa almennt – sem mun gagnast í landslagshönnun, fyrir heimilisgarða og í öðrum ræktunarverkefnum. Að leggja PEX-rör í jörðu er mun ódýrara en til dæmis að byggja gróðurhús – og þótt það sé ekki eins áhrifamikið þá geta áhrifin verið mjög mikil,“ segir Karen.

Sjálfbær borgarbúskapur

Að sögn Karenar tók nokkuð langan tíma að fá leyfi til framkvæmda á staðnum og notkunar á affallsvatninu síðasta sumar en það þurfti einnig tíma til til að leggja rörin og undirbúa ræktunina, en fyrstu plönturnar voru gróðursettar í ágúst á síðasta ári.
„Hugmyndafræði ALDIN Biodome byggir á sjálfbærum borgarbúskap þar sem lagt er upp með að fólki verði boðin nánd við gróskumikið umhverfi í hlýju loftslagi, að hlúa að sínu innra sjálfi, ígrunda og meta náttúruna,“ segir hún.

Karen gaf út ritgerð í október á síðasta ári í tengslum við þetta nýsköpunarverkefni sem ber heitið „Matjurtarækt utandyra fram á vetur, lenging ræktunartímabils með hitun jarðvegs“ og fjallar um tilraunaræktunina í Elliðaárdal. Hægt er að nálgast ritgerðina í gegnum vef ALDIN Biodome á slóðinni: aldin-biodome.is.

Hafrarnir í vermireitnum eru komnir miklu lengra í þroska, miðað við samanburðarreitinn, og stutt í að hægt sé að fara að skera þá.

Nokkurn mannskap þurfti við uppsetninguna

Í samvinnu við Veitur ohf. fékkst leyfi til að tengjast affallsvatninu við Stekkjarbakka en tengingin var kostuð af ALDIN Biodome sem greiðir einnig fyrir notkun affallsvatnsins samkvæmt mæli. Vatnið er flutt í 24 mm rörum niður í garðinn þar sem því er dreift um tíu beð í svokölluðum snjóbræðslurörum í gegnum tengibox með hita- og þrýstimælum.

„Nokkurn mannskap þurfti til að setja upp tilraunina síðastliðið sumar og góða aðstoð frá aðilum eins og Barr verktökum. Aðrir þátttakendur í tilrauninni þá voru Jón Þórir Guðmundsson, ávaxtaræktandi á Akranesi, og EFLA verkfræðistofa. En eftir að tilraunin var uppsett hef ég séð að langmestu leyti um framkvæmd og mælingar en aðalleiðbeinandi minn í verkefninu er Hjördís Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri ALDIN Biodome,“ segir Karen.

Tómataplöntur með hita í jarðveginum annars vegar og „kaldan jarðveg“ hins vegar. Mikill munur er á vaxtarþroskanum.
Stefnt á að fjármögnunarferli ljúki á haustmánuðum

Að sögn Hjördísar hefur ALDIN Biodome lokið öllum skipulagsferlum tengt lóðinni og fjármögnunarferli stendur yfir sem stefnt er á að klárist í haust. „Ráðnir hafa verið til verkefnisins aðilar með hönnunarreynslu á heimsmælikvarða á þessu sviði sem hafa sérstakan áhuga á sjálfbærni, hagkvæmri orkunýtingu og lærdómsríkri upplifun af framandi náttúru.

Stefnt er á að opna dyr fyrir almenning árið 2024, en næstu þrjú sumur verður tilraunaræktuninni haldið áfram samhliða uppbygg­ingunni,“ segir hún.

„Það má segja að þessi ræktunartilraun sé minnsta mögulega útgáfan af ALDIN Biodome, því við erum að breyta umhverfisaðstæðum staðbundið, til að eiga möguleika á að rækta plöntur sem venjulega vaxa ekki á Íslandi eða eru ræktaðar yfir lengri tíma en við ætlum að gera. ALDIN snýst um að skapa aðstæður innan- og utandyra fyrir ræktun en á sama tíma aðlaðandi stað þar sem fólk getur látið sér líða vel.

Ég fékk hugmyndina fyrir um sjö árum og hef unnið að þessu samfellt í sex ár, þar af tóku skipulagsferlarnir um þrjú ár. Hugmyndin á rætur að rekja til námsins míns í skipulagsfræðum í Hollandi,“ segir Hjördís ennfremur.

Teikning af hitabeltishlutanum Hraunprýði, þar sem fyrirhugað er að hafa matjurtaskóga. Teikning / ALDIN Biodome
Visthvelfingar með þremur sérrýmum

Aðalstarfsemi ALDIN Biodome fer fram undir visthvelfingum sem skiptast niður í þrjú sérrými. Það fyrsta sem gestir ganga í gegnum er Dalbær – eins konar garðyrkjurými og torg sem verður að mestu undir torfþaki. Þar er ætlunin að gefa innsýn í ræktunaraðferðir og uppskeru. Áhersla er lögð á að gestir upplifi allt ræktunarferli borgarbúskaparins af beði á borð, fyrsta flokks hollustu og ferskleika. Þar verður markaður sem býður upp á matjurtir úr ræktunarrýminu og græna sérvöru. Á svæðinu verður aðstaða til fræðslu fyrir hópa, veitingastaður og kaffihús.

Úr Dalbæ er gengið inn í tvö mismunandi loftslagsstýrð visthvolf, annars vegar Laufás sem er með Miðjarðarhafsloftslagi og hins vegar Hraunprýði með hitabeltisloftslagi. Í Laufási og Hraunprýði verða matjurtaskógar sem innihalda stórbrotið safn plantna og jurta með forvitnilegan fróðleik framandi landa. Þar er boðið upp á afþreyingu í bland við upplifun af umhverfinu. Í Laufási verður hægt að finna sér stað undir trjákórónum til að vinna og halda fundi. Í Hraunprýði verður aðstaða til að stunda jóga og hugleiðslu. Hægt verður að leigja hvelfingu eða hvelfingarnar undir viðburði svo sem brúðkaup og ráðstefnur og skapa þannig ógleymanlega umgjörð utan um mikilvægar athafnir.

Mynd þar sem búið er að tölvuteikna hvelfingarnar inn á suðurjaðar Elliðaárdalsins. Mynd / ALDIN Biodome

Innisvæðin þrjú heita eftir þremur bæjum sem stóðu á nærsvæði ALDIN Biodome.

Á útisvæðinu er áherslan lögð á samspil milli þeirrar náttúru sem fyrir er og úrvali plantna sem gróðursettar hafa verið og falla vel að umhverfinu með dvalar- og leiksvæðum.

Hjördís stendur við norðurbakka svæðisins sem hefur verið skipulagt undir ALDIN Biodome, við brúnina verður útsýnispallur yfir dalinn.

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt
Fréttir 14. mars 2025

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt

Eitt af þróunarverkefnum búgreina sem nýlega var veittur styrkur úr matvælaráðun...

Tangi besta nautið
Fréttir 14. mars 2025

Tangi besta nautið

Tangi 18024 frá Vestra-Reyni undir Akrafjalli hlaut nafnbótina besta naut fætt á...

Áform dregin til baka
Fréttir 13. mars 2025

Áform dregin til baka

Áform fjármála- og efnahagsráðherra um frumvarp til breytingar á tollalögum, þar...

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins
Fréttir 13. mars 2025

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins

Kvíaból í Köldukinn var útnefnt fyrirmyndarbú nautgripabænda árið 2025 á deildar...

Lyfta heildinni með samstarfi
Fréttir 12. mars 2025

Lyfta heildinni með samstarfi

Eitt af helstu málunum sem voru rædd á fundi loðdýrabænda var áætlun um dýraskip...

Hrossabændur vilja aðkomu að búvörusamningum
Fréttir 12. mars 2025

Hrossabændur vilja aðkomu að búvörusamningum

Nokkuð fámennt var á fundi hrossabænda á deildarfundi búgreina en þar var rætt u...

Búvélasali nýr formaður FA
Fréttir 12. mars 2025

Búvélasali nýr formaður FA

Friðrik Ingi Friðriksson, forstjóri og eigandi Aflvéla og Burstagerðarinnar, var...

Vill sjá fæðuöryggi rætt á matvælaþingi
Fréttir 11. mars 2025

Vill sjá fæðuöryggi rætt á matvælaþingi

Í hugtakinu fæðuöryggi felast mörg og ólík viðfangsefni. Þau voru rædd á málþing...