Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Að snúa hnífnum í sárinu
Lesendarýni 7. júní 2021

Að snúa hnífnum í sárinu

Höfundur: Ásthildur Lóa Þórsdóttir

Ég hef verið formaður Hagsmuna­samtaka heimilanna frá 2017. Fram að þeim tíma höfðum við hjónin háð harðvítuga baráttu frá hruni til að halda okkar eigin heimili en bankinn naut aflsmunar og heimili okkar var að lokum boðið upp, vegna ólöglegra lána, árið 2017. Okkur var refsað fyrir að vera fórnarlömb fjármálaglæps og það sama átti við um þúsundir annarra.

Við fengum upp á náð og miskunn bankans að leigja heimili okkar fram á mitt sumar 2019 þegar bankinn neitaði að framlengja leigusamninginn. En þá var mælirinn fullur hjá okkur og við ákváðum að fara hvergi heldur taka slaginn alla leið, enda engu að tapa lengur. Þá fyrst var bankinn tilbúinn í „samningaviðræður“ og að lokum fengum við að kaupa aftur okkar réttmætu eign sem stolið hafði verið af okkur.

Hér er stiklað á stóru en það er staðreynd að ALLT í kringum þetta mál var ólöglegt. Ég get ekki rakið þau mál öll hér, enda sagan löng, en það að ganga í gegnum þetta og upplifa óttann og varnarleysið sem stafaði af þessari stöðugu ógn sem við bjuggum við í 11 ár, opnaði augu mín fyrir því hvernig „kerfið“ á Íslandi virkar og hversu rotið það er.

Ein af ástæðum þess hversu erfitt er að uppræta þetta er að það trúir þessu enginn fyrr en hann lendir sjálfur í hakkavélum „kerfisins“. Ég er því miður ekki bara að tala um bankana. Þeir voru slæmir en þeir hefðu aldrei getað gert það sem þeir gerðu nema af því að framkvæmdarvaldið, dómsvaldið og löggjafarvaldið bjuggu í haginn fyrir þá og veittu þeim skjól til að athafna sig. Þau slógu sterkri skjaldborg um fjármálakerfið.

Það er staðreynd, staðfest af dómsmálaráðherra, að 10.000 fjölskyldur misstu heimili sín á nauðungarsölum í kjölfar hrunsins. Að auki er varlegt að áætla að a.m.k. jafn margar fjölskyldur hafi misst heimili sín vegna einhvers konar nauðarsamninga við bankana. Til að ýkja vandann örugglega ekki hafa Hagsmunasamtök heimilanna talað um 15.000 fjölskyldur.

15.000 fjölskyldum, konum, mönnum og börnum, var hreinlega fórnað fyrir fjármálakerfið.

Varlega áætlað eru það 45.000 einstaklingar.

Þá eru samt ótaldar þær þúsundir fjölskyldna sem hafa haft snöru „nauðarsamninga“ við bankana um hálsinn alla tíð síðan og sjá aldrei til sólar í fjármálum. Það segir sína sögu að 2008–2020 hafa verið gerð 187.974 fjárnám og þar af eru 147.030 árangurslaus. Við erum ekki nema 360.000.

Fyrrgreindar tölur eru ekki prentvilla heldur tölur frá dómsmálaráðherra í svari við fyrirspurn sem lögð var fram í þinginu að beiðni Hagsmunasamtaka heimilanna.

Til að bæta gráu ofan á svart, þá láta þeir stjórnmálamenn sem að þessu stóðu og þeir flokkar sem fórnuðu heimilunum, eins og þetta hafi aldrei gerst og snúa þannig daglega hnífnum í sárum fórnarlamba sinna. Þau voga sér jafnvel að tala um „flökkusögur“ þrátt fyrir þessar staðfestu tölur.

Fórnarlömb þessara skelfilegu aðgerða eiga rétt á viðurkenningu, réttlæti og uppreist æru!

Því það skiptir ÖLLU MÁLI fyrir hverja einustu fjölskyldu, að ekki sé hægt að svipta hana heimili sínu og skjóli, til að bæta fyrir „mistök“ annarra.

Það skiptir ÖLLU MÁLI fyrir þig og þína fjölskyldu að þið njótið verndar réttarkerfisins og að það taki ekki þátt í svona ljótum „leikjum“ heldur dæmi samkvæmt þínum lögbundnu réttindum.

Það reynir ekki á réttindi okkar þegar allt leikur í lyndi. Það reynir fyrst á þau þegar eitthvað bjátar á.

Íslensk stjórnvöld kolféllu á prófinu en þau einfaldlega „rifu einkunnarspjaldið í tætlur“ og stungu svo höfðinu í sandinn til að hvorki heyra né sjá, og alls ekki svara, neinum neyðarópum örvæntingarfullra foreldra sem allt í einu stóðu á götunni með börnin sín og neyddust til að fara inn á miskunnarlausan leigumarkað, beint í hendur „gammanna“ þar.

Öll fórnarlömb eiga rétt á að brot gegn þeim séu viðurkennd. Líka fórnarlömb fjárhagslegs ofbeldis. Líka þegar ríkið er gerandinn.

Viðurkenning, réttlæti og uppreist æru er krafa þessara fjölskyldna því þetta má ALDREI endurtaka sig.

Almenningur er ekki fóður fyrir bankana!

Fólkið fyrst og svo allt hitt.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður Hagsmunasamtaka heimilanna
og frambjóðandi Flokks fólksins

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti
Fréttir 25. apríl 2025

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti

Fyrirtækið Pure North í Hveragerði hefur nú náð að loka hringrás endurvinnslu á ...

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs
Fréttir 25. apríl 2025

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs

Reykjavík Open, sem hófst miðvikudaginn 9. apríl í Hörpu, hefur fyrir löngu fest...

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar
Fréttir 24. apríl 2025

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar

Fiskeldi á landi er vaxandi atvinnugrein, allnokkur stór eldisfyrirtæki eru í up...

Framleiðsla á Hrym í Búðardal
Fréttir 23. apríl 2025

Framleiðsla á Hrym í Búðardal

Fyrirhuguð er stórtæk framleiðsla á lerkiafbrigðinu Hrymi í Dalabyggð á næstu mi...

Skógur alltaf til bóta
Fréttir 22. apríl 2025

Skógur alltaf til bóta

Rannsóknir sýna að áhrif skógræktar á kolefnisforða jarðvegs eru nær alltaf orði...

Fjársjóður fjalla og fjarða
Fréttir 22. apríl 2025

Fjársjóður fjalla og fjarða

Tveggja daga íbúaþing, undir stjórn Sigurborgar Kr. Hannesdóttur, fór fram í Rey...

Er plantað nóg?
Fréttir 16. apríl 2025

Er plantað nóg?

Skógarbændur gegna mikilvægu hlutverki við landgræðslu og skógrækt. Þannig er sk...

Trump skellir í lás
Fréttir 16. apríl 2025

Trump skellir í lás

Alþjóðasamfélagið er skekið eftir tollahækkanir Trumps í þarsíðustu viku.