Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Að læra steinsteypugerð
Mynd / Bjarni Guðmundsson
Á faglegum nótum 9. febrúar 2022

Að læra steinsteypugerð

Höfundur: Bjarni Guðmundsson

Steinsteypa er ekki gamalt fyrirbæri sé miðað við tímann frá því jörðin tók að kólna. Í byrjun síðustu aldar var steinsteypa flestum Íslendingum framandi.

Þess vegna þótti það nokkur nýlunda þegar um steinsteypu og húsagerð var fjallað í rækilegum fyrirlestri á einu af fyrstu bændanámskeiðunum, sem haldin voru við Hvanneyrarskóla á öðrum áratug aldarinnar. Fyrirlesturinn hélt Jón þorláksson, sem þá var landsverkfræðingur. Fáir kunnu þá betur til hinnar nýju byggingartækni.

Mót til að steypa hleðslusteina.

Meðal forngripa sem varðveittust í Gömlu skemmunni á Hvanneyri fyrir tilstilli Guðmundar Jónssonar, síðar skólastjóra, og fleiri góðra manna, voru sérkennileg steypumót.
Sennilega eru það mótin sem Halldór skólastjóri Vilhjálmsson skrifaði svo um í skólaskýrslu sinni fyrir árin 1926-1928:

„Skólinn hefir loks eignast ágætt steinsteypumót og er meiningin að piltar læri að steypa steina í því framvegis. Áhugasömu og iðjusömu mennirnir, sem kunna að grípa hverja stund sem gefst, eru fljótir að steypa nokkra tugi steina, sem áður en varir eru orðnir hundruð - þúsundir. Nægilega mikið byggingarefni til þess að byggja heil hús á ódýrasta hátt, sem orðið getur. En enn vantar okkur góða tilsögn í húsagerð og þyrfti að senda færan mann út til þess að kynna sjer hana vel og rækilega.“

Eins og meðfylgjandi mynd gefur til kynna eru mótin traustlega gerður trépallur, sem á eru borð er mynda rétt horn. Á móti því hefur verið hægt að mynda annað horn með borðum, sem stillt skyldu af með okum/kubbum. Virðist þannig hafa mátt ráða stærð steinanna.

Sá er þó galli á gjöf Njarðar að við höfum ekki vissu fyrir því hvort hér er um sérsmíðuð mót að ræða, t.d. aðeins vegna kennslunnar, eða hvort þetta muni hafa verið staðalverkfæri sem víðar þekktist. Hefur einhver ykkar séð svona mót? Það er vitað að steypusteinagerð var stunduð víðar á fyrstu áratugum steinsteypualdar. Þannig var skrifaranum til dæmis sagt frá steypusteinagerð námspilta Núpsskóla í Dýrafirði undir lok fjórða áratugarins. Skyldu þeir steinar fara í húsbyggingu Kristins Guðlaugssonar, bónda á Núpi.

Ef til vill hafa einhverjir, sem lærðu steinsteypu- og steinagerð á Hvanneyri með þessum mótum, haldið henni áfram þegar heim kom. En þótt steypumót Hvanneyrarskóla hafi varðveizt skortir okkur örugga lýsingu á því hvernig steypuverkið gekk fyrir sig. Sé einhver lesandi aflögufær um þá vitneskju væri afar gagnlegt að heyra í honum eða frá honum um það.

Gripahús og jafnvel íbúðarhús voru hlaðin úr steyptum steinum, og þá steinum sem sérstaklega höfðu að efni og gerð verið þróaðir í því skyni. Sá byggingarmáti tengir með sínum hætti saman hina aldagömlu aðferð við húsbyggingar hérlendis, hleðslu úr torfi og grjóti, og steinsteypuöldina.

Bjarni Guðmundsson

Skylt efni: búfræðsla | steinsteypa

Sölufélagið í góðu lagi
Fréttir 17. júlí 2025

Sölufélagið í góðu lagi

Nú hafa Sölufélag garðyrkjumanna, Báran stéttarfélag og Framsýn stéttarfélag und...

Bændur harka af sér
Fréttir 16. júlí 2025

Bændur harka af sér

Ný rannsókn bendir til þess að fólk sem starfar í landbúnaði sé ólíklegt til að ...

Getur leyst plast af hólmi
Fréttir 16. júlí 2025

Getur leyst plast af hólmi

Frumkvöðlafyrirtækið Marea Iceland hyggst setja á markað umhverfisvænt húðunaref...

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar
Fréttir 16. júlí 2025

Auglýsingar um sveppadropa og -duft ámælisverðar

Verslunin Hugur Studio, sem rekin er af Hemmet ehf., hefur verið kærð fyrir afdr...

Átak um öryggi barna í sundi
Fréttir 16. júlí 2025

Átak um öryggi barna í sundi

Rauði krossinn á Íslandi hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um...

Pöddur í hundamat
Fréttir 15. júlí 2025

Pöddur í hundamat

Fyrirtæki hafa sett á markað hundamat úr skordýrum. Slíkt fæði hefur minna kolef...

Orkuskipti í Flatey
Fréttir 15. júlí 2025

Orkuskipti í Flatey

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Elías Jónatans...

Landeldi við Hauganes
Fréttir 15. júlí 2025

Landeldi við Hauganes

Laxós ehf. áformar uppbyggingu og rekstur fiskeldisstöðvar norðan Hauganess, þar...