Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
„Landhremming“ ört vaxandi í Evrópu
Fréttir 29. september 2015

„Landhremming“ ört vaxandi í Evrópu

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Í sumar kynnti Evrópuþingið rannsókn sem sýnir að alþjóðlegir fjárfestar hafa fyrir löngu byrjað að festa klær sínar í ræktarland í Evrópu með svokallaðri landhremmingu eða „Land Grabbing“. Er það þvert á fullyrðingar manna um að Evrópa væri undanskilin ásókn fjárfesta í ræktarland.

Rannsóknin var unnin af Transnational Institute í Amsterdam. Í rannsókninni kom í ljós að sú útbreidda skoðun að ásælni útlendinga í ræktarland ætti sér nær eingöngu stað í Afríku og í hluta af Asíu, stenst ekki lengur. Þvert á móti hefur komið í ljós að mjög fjölbreyttur hópur ólíkra fjárfesta, þar á meðal bankar, fjárfestingasjóðir og einkafyrirtæki, eru að hasla sér völl í kaupum á ræktarlandi í Evrópu.

„Það eru yfirgnæfandi sannanir fyrir því að landhremming eigi sér stað í ESB-löndunum í dag.“ Þá segir í skýrslunni að þó að þetta sé enn í frekar takmörkuðum mæli miðað við það sem þekkist í Afríku, Asíu, Suður-Ameríku og í fyrrum Sovétlýðveldum, þá sé þetta fyrirbæri sem „veki mönnum hroll innan ESB“ (creeping phenomenon in the EU).

Þörf á að endurskoða frjálst flæði fjármagns

Martin Häusling, þingmaður græningja á Evrópuþinginu, hefur gagnrýnt að sú stefna ESB að leyfa frjálst flæði fjármagns þvert á landamæri innan Evrópu, sé að valda vandræðum. Endurskoða þurfi þessa stefnu með hliðsjón af sjálfbærum landbúnaði í aðildarríkjum ESB.
Í rannsókninni kemur m.a. fram að í Rúmeníu er nú á milli 30–40% alls ræktarlands undir stjórn erlendra fjárfesta. Þróun er einnig sögð alvarleg í Búlgaríu og Póllandi. Enn sem komið er sé ástandið ekki eins slæmt í Eystrasaltslöndunum, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, sem og í Tékklandi og í Slóvakíu. Hafa fjárfestar sótt í mjög lágt verð á landi í þessum löndum í samanburði við verð á ræktarlandi í Vestur-Evrópu. 

Samkvæmt rannsókninni koma atkvæðamestu fjárfestarnir (land grabbers) frá vestur-Evrópu, Kína, Kúveit og Katar.

Þetta fyrirbæri, „landhremming“, er að mati skýrsluhöfunda að leiða til hnignunar dreifbýlisins og um leið niðurbrots á hugmyndum Evrópubúa um fjölskyldubúskap. Þá kemur þetta líka í veg fyrir að ungt fólk hasli sér völl í landbúnaði.

Transnational Institute varar sterklega við því að raunáhrif að áframhaldandi landhremmingu fjárfesta muni leiða til þess að fæðuöryggi Evrópubúa verði stefnt í voða og að hætta sé á auknu atvinnuleysi.

Knúið í gegn með beitingu á fjármálalegu ofurvaldi

Þá kemur fram í skýrslunni að mikill skortur sé á gagnsæi þegar kemur að viðskiptum með ræktarland. Þá séu þau oft knúin fram í ofurvaldi fjármagns. Einnig sé oft um leynileg „vasaviðskipti“ að ræða og er þar m.a. bent á landhremmingu í Ungverjalandi. Slík viðskipti séu ekki uppi á yfirborðinu og aðeins um vasabókhald að ræða sem ekki komi upp á yfirborðið fyrr en banni við sölu á landi til útlendinga verði aflétt. Þá fyrst verði gjörningarnir skráðir opinberlega. Þangað til sýna opinber gögn að landið sé í eigu ungverskra ríkisborgara. Þá hefur Hungarian County Agricultural Chamber sýnt fram á 16 mismunandi afbrigði slíkra samninga. Áætlar ráðið að um ein milljón hektara ræktarlands í Ungverjalandi hafi skipt um hendur með slíkum vasasamningum við erlenda einstaklinga og fyrirtæki á undanförnum tveimur áratugum. Þar séu raunverulegir kaupendur m.a. frá Austurríki, Þýskalandi, Hollandi, Danmörku og Bretlandi. Áætlað hefur verið að þar sé um að ræða viðskipti upp á um 1,1 til 1,8 milljónir evra.

Leppar notaðir til að kaupa upp land

Í skýrslunni kemur einnig fram að þótt talið hafi verið að landhremming hafi verið frekar lítil í Póllandi á árunum 1999 til 2005, eða innan við 1% af ræktarlandinu, þá sé staðan þar gjörbreytt. Þótt pólsk lög banni enn eignarhald útlendinga á landi þar til í maí 2016, þá hafa pólskir bændur upplýst að um 200.000 hektarar í West Pomerania-héraði hafi verið keypt upp. Þar sé um að ræða fyrirtæki af hollenskum, dönskum, þýskum og breskum uppruna. Þessi viðskipti hafi farið fram í gegnum pólska leppa, „dummy buyers“, sem oft eru smábændur. Þeir séu í raun leigðir til að kaupa land og framselji síðan samningana til erlendra fjárfesta.

Í Slóvakíu mega útlendingar kaupa land svo fremi að þeir setji upp löglega starfsemi í landinu. Þar eiga útlendingar samkvæmt skýrslunni um 20.000 hektara, eða um 1% ræktarlandsins.

Í Tékklandi áttu útlendingar um 90.000 hektara þegar árið 2006, eða um 2,1% alls ræktarlands.

Í Litháen áætluðu sérfræðingar árið 2007 að útlendingar ættu 12–15.000 hektara, eða um 0,5% ræktarlandsins. Þar af ættu um 30 einstaklingar af erlendum þjóðernum um 10–12.000 hektara.

Í Lettlandi áttu sér stað 427 landsölur með þátttöku erlendra fjárfesta á árinu 2005. Slíkar sölur voru 512 árið 2006. Samsvara þessi viðskipti kaupum á um 2% alls ræktarlands þar í landi aðeins á þessum tveimur árum.

Erlendar fjárfestingar aukast hröðum skrefum

Í skýrslunni kemur fram að mestu viðskiptin með ræktarland hafi átt sér stað í Austur-Evrópu-löndum ESB á liðnum árum. „Heitustu“ löndin þessa stundina eru sögð Rúmenía, Búlgaría, Ungverjaland og Pólland. Beinar erlendar fjárfestingar í þessum löndum eru sagðar hafa aukist hröðum skrefum á síðustu árum. 

Menn ættu líka að hafa áhyggjur af jaðarlöndum ESB

Bent er á að á meðan landhremming í löndum Evrópusambandsins ætti að vera ráðamönnum verulegt áhyggjuefni, þá ætti líka að hafa áhyggjur af stórtækum landakaupum í löndum í jaðarlöndum Evrópusambandsins.

Um 4,3 milljónir hektara seldir í jaðarlöndunum

Vísað er til gagnagrunns Land Matrix þar sem fram kemur að viðskipti með 4,3 milljóna hektara landbúnaðarlands hafi verið að eiga sér stað í löndum sem liggja að ESB. Þetta er meira en áður hefur komið fram. Þar sé einkum um að ræða ræktarland í Úkraínu og í Rússlandi, en einnig í löndum við Miðjarðarhaf. Takmörkuð landakaup innan ESB-landanna kunni að stigmagnast í tengslum við þessi kaup í jaðarlöndunum. 

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...

Margir fengu vel í soðið
Fréttir 6. desember 2023

Margir fengu vel í soðið

Útlit er fyrir að rjúpnaveiði hafi í ár verið allt að 20% meiri en í fyrra. Meða...