Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Mynd / Aðsend
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og orku frá aðstandendum á erfiðum tímum,“ segir Lilja Margrét Olsen héraðsdómslögmaður.

Lilja Margrét Olsen héraðs­dómslögmaður er mjög fróð um erfðamál enda hefur hún haldið fjölmarga fyrirlestra um málið fyrir félög eldri borgara víða um landið. Það eru óteljandi spurningar sem koma upp þegar rætt er um og fjallað um erfðamál á einn eða annan hátt. Þarf ég að gera erfðaskrá? Erfist lífeyrir minn? Hvað er erfðafjárskattur hár? Hvað er fyrirframgreiddur arfur? Hvernig get ég tryggt að maki minn sitji í óskiptu búi eftir minn dag? Hvernig get ég tryggt að arfur eftir mig verði séreign barna minna? Allt eru þetta gildar og áhugaverðar spurningar. Blaðamaður settist niður með Lilju til að forvitnast frekar um erfðamál en fáum fyrst að kynnast henni aðeins.

Af Flugumýrarkyni

„Ég er Skagfirðingur en þó fædd og uppalin á suðvesturhorninu. Ég er af Flugumýrarkyni en móðir mín er þar fædd og uppalin. Ég ber sterkar taugar norður og dvel þar mikið hjá móðurfjölskyldunni. Ég lærði í Háskólanum á Bifröst, þaðan sem ég útskrifaðist sem lögfræðingur árið 2010. Ég tók strax sama ár réttindi til að flytja mál fyrir héraðsdómi. Ég hef verið starfandi lögmaður frá 2014. Ég hef setið í nefndum á vegum hins opinbera; barnaverndarnefnd og kjörstjórn. Þá hef ég starfað við friðargæslu á vegum utanríkisþjónustunnar. Ég hef gaman af því að vinna fyrir fólk og ánægðir viðskiptavinir eru bestu launin í þessu starfi,“ segir Lilja, sem vinnur hjá Katla lögmenn.

Þekking fólks mikilvæg

– Lilja hefur sett sig vel inn í erfðamál og hefur verið að halda fyrirlestra um slík mál. Hvað kemur til og af hverju hefur hún sett þig svona vel inn í þessi mál?

„Já, svarið er einfalt, því fljótlega eftir að ég hóf að stunda lögmennsku, fór ég að starfa fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Í kjölfarið leituðu félagsmenn til mín og oftar en ekki tengdust fyrirspurnir erfðamálum. Ég áttaði mig fljótlega á að fólk leiðir hugann ekki að þessum málum fyrr en í síðari hálfleik, ef svo má að orði komast. Þekking fólks mætti því vera meiri. Þessu vil ég breyta. Það er fátt sorglegra en dómsmál um erfðamál og þeim þarf að fækka. Það verður aðeins gert með því að fólk lýsi vilja sínum í lifandi lífi, einna helst með gerð erfðaskráa.“

Allir eiga að gera erfðaskrá

Lilja segir með skýrri rödd að það eigi allir að gera erfðaskrá.
„Já, því að þeir sem telja hana óþarfa eru á villigötum. Sumir vilja meina að þar sem hjón eigi aðeins börn saman, sé óþarfi að gera erfðaskrá. Hins vegar horfir það ekki til þess að börnin ganga í hjúskap og stundum hjúskaparslit. Þá þarf að tryggja að arfur haldist sem séreign barnanna. Þá er einnig algengt að fólk vilji jafna hlut stjúpbarna og eru til ákveðnar leiðir að því. Fyrir kemur einnig að aðstæður kalla á að fólk kjósi að arfleiða eitt barna af meiru umfram önnur. Þá er það gert með erfðaskrá. Í þeim tilvikum þar sem hjón eiga börn af fyrri samböndum er nauðsynlegt að gera erfðaskrá, vilji það að hið langlífara sitji í óskiptu búi eftir andlát þess skammlífara. Að öðrum kosti geta börn krafist skipta og greiðslu arfs,“ segir Lilja.

Séreignarsparnaður fólks erfist

– En hvað með lífeyri fólks, erfist hann eða?

„Já, séreignarsparnaður fólks erfist og hann skiptist við andlát. Það er að segja, ef fólk hefur ákveðið með erfðaskrá að langlífara sitji í óskiptu búi með öllum eignum og réttindum, þá gildir það að séreignarsparnaði undanþegnum. Ég mæli ávallt með því að fólk kynni sér réttindi til makalífeyris hjá sínum sjóðum því lengd þessara réttinda er misjöfn eftir sjóðum.“

Erfðafjárskatturinn

– Margir hugsa um erfðafjárskattinn, hvernig er það mál, er hann hár og af hverju þarf að greiða þennan skatt?

„Erfðafjárskattur er 10% af heildar­verðmætum allra fjárhagslegra verðmæta og eigna að frá­dregnum skuldum og útfararkostnaði. Stuðst er við fasteignamat fasteigna við útreikning en ekki þarf að afla markaðsverðmats. Ekki er greiddur erfðafjárskattur af fyrstu fimm milljónunum.

Makar greiða ekki erfðafjárskatt og hið sama gildir um sambýlisfólk sem erfir maka sinn samkvæmt erfðaskrá.

Fylla þarf út erfðafjárskýrslu þar sem allar eignir eru tilgreindar. Eyðublað er aðgengilegt á vef Sýslumanns en lögmenn taka einnig að sér þá vinnu fyrir fólk.

Margir telja erfðafjárskattlagningu ósanngjarna í eðli sínu þar sem þegar hefur verið greiddur skattur af launum og öðrum tekjum sem notaðar eru til verðmætasköpunar búa. Það er hins vegar svo að flest vestræn ríki afla tekna með þessum hætti, þ.e. þegar eignir og verðmæti skipta um hendur og er Ísland ekki undantekning á því,“ segir Lilja.

Fyrirframgreiddur arfur

– Stundum heyrir maður talað um fyrirframgreiddan arf. Hvað er þá átt við og hvernig fer það fram og hvað þarf helst að hafa í huga þar?

„Fyrirframgreiðsla arfs er þegar verðmæti eru gefin sem eru umfram það sem telst eðlilegar tækifærisgjafir. Þá vaknar oft sú spurning við hvaða fjárhæð er miðað. Við því er ekki til neitt einfalt svar. Ríkisskattstjóri hefur ekki birt nein ákveðin fjárhæðarmörk sem verðmæti gjafa tæki mið af án þess að teljast til skattskyldra tekna viðkomandi. Ef stuðst er við jólagjafir til starfsmanna til samanburðar er miðað við 130.000. Þegar arfur er greiddur fyrirfram, er gerð erfðafjárskýrsla og greiddur erfðafjárskattur í samræmi við hana. Skattleysismörk eiga ekki við um fyrirframgreiðslu arfs. Fyrirframgreiddur arfur liggur fyrir við andlát og kemur þá til frádráttar við uppgjör búsins síðar. Ekki þarf að greiða öllum erfingjum ef greiða á arf fyrirfram.“

Að sitja í óskiptu búi

– Að maki sitji í óskiptu búi, hvað þýðir það á mannamáli ? Og hvernig er hægt að tryggja að það gerist rétt?
„Að tryggja setu í óskiptu búi er hægt með tvennum hætti. Í fyrsta lagi geta börn veitt heimild til að eftirlifandi maki sitji í óskiptu búi eftir andlát annars hjóna. Og í öðru lagi er hægt að tryggja setu í óskiptu búi með erfðaskrá. Þetta ákvæði er orðið mjög algengt í dag, enda fjölskyldur oft samsettar af börnum af fyrri hjónaböndum.

Að sitja í óskiptu búi þýðir að ekki þurfi að skipta upp búinu og greiða út arf þess sem fellur frá. Hið langlífara situr því í búinu og lifir áfram við óbreyttar aðstæður svo lengi sem það kýs. Það má hins vegar ekki rýra verðmæti búsins þannig að það fari í bága við réttindi erfingja. Öll venjuleg viðskipti eins og húsnæðisskipti o.s.frv. eru heimil. Þá er ekki óeðlilegt að bú rýrni að einhverju marki á efri árum, en allt sem telst óeðlileg rýrnun á kostnað þeirra sem eiga tilkall til arfs eftir hið skammlífara, er óheimilt,“ svarar Lilja.

Hvað með börnin?

– Lilja er næst spurð hvort það sé hægt að tryggja það á einhvern hátt að arfur eftir fólk þegar það deyr verði séreign barna viðkomandi.

„Eins og áður sagði er mjög algengt í dag að fólk tilgreini að arfur eftir það sé séreign barna sinna. Þetta er gert í þeim tilgangi að ef börnin ganga í gegnum hjónaskilnað, er arfinum haldið utan við þau fjárskipti. Þetta verður aðeins gert með erfðaskrá.“

Upplýsa alla

– Hvað er það númer 1, 2 og 3 sem þarf að hafa í huga þegar fólk deyr upp á framtíð maka, barna og fjölskyldu sinnar?

„Að mínu mati er mikilvægt að tryggja að ekkert komi aðstandendum á óvart. Best er að upplýsa fólk um fyrirætlanir sínar eða að upplýsa að fyrir liggi erfðaskrá, svo það komi engum á óvart,“ segir Lilja. En hvað með þá sem hugsa ekkert um þessi mál og verða kannski bráðkvaddir eða deyja snöggt án þess að hafa hugsað út í „lífið“ eftir dauðann, hvað gera þeir og hvernig er staða þeirra? „Engar áhyggjur, því sem betur fer geyma erfðalögin nákvæmar leiðbeiningar um hvernig fara skuli með eignir hins látna,“ segir Lilja.

Erfðaskrá leysir úr mörgum málum

– Lilja leggur ofuráherslu á að það sé mikilvægt að lýsa vilja sínum í tíma.

„Já, því að missa nákominn aðila er áfall og að mörgu að hyggja þegar andlát ber að garði. Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og orku frá aðstandendum á erfiðum tímum. Umfram allt ráðlegg ég fólki að leyfa sér að ganga í gegnum sorgarferli og huga að andlegu hliðinni áður en hugað er að efnislegum verðmætum.

Fjárhagsleg málefni bíða enda gera lögin ráð fyrir að í fyrstu sé veitt heimild til greftrunar, svo skoðunaraðgang að fjármálum, áður en aðstandendur taka ákvörðun um hvort þau taki við réttindum og skyldum dánarbús, svokölluð einkaskipti. Að reikningar fari í vanskil um ein eða tvenn mánaðamót er alvanalegt í meðförum dánarbúa og ekki tilefni til þess að hafa áhyggjur af, líkt og margir halda. Í lögum er gert ráð fyrir að dánarbú séu gerð upp innan við sex mánuðum eftir andlátið. Sé vafi á hvernig haga skal meðferð dánarbús eða gerð erfðafjárskýrslu stendur ekkert í vegi fyrir því að leitað sé til lögmanns til ráðleggingar. Lögmaður getur þá gefið áætlaðan kostnað í þá vinnu,“ segir Lilja að lokum. 

Skylt efni: erfðaskrá

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt