Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hjónabandið eins og það er oft skipað í dag. Talið frá vinstri: Auður Halldórsdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Kristín Anna Jensdóttir og Jens Sigurðsson.
Hjónabandið eins og það er oft skipað í dag. Talið frá vinstri: Auður Halldórsdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Kristín Anna Jensdóttir og Jens Sigurðsson.
Viðtal 29. júní 2017

Þar heldur Hjónabandið upp fjörinu

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Við þjóðveginn inn Fljótshlíð á Suðurlandi, neðan við Kirkjulæk, er stórt tjaldstæði sem hefur öflugan hóp fastagesta sem gaman hafa af ferðalögum um Ísland. Þar er ágæt aðstaða og auk þess bar á kaffihúsinu Langbrók. Auk veitinga bjóða staðarhaldarar þar oft upp á lifandi músík yfir sumarið og þá mest eigin tónlist.
 
Það voru hjónin og bændurnir Ingibjörg Sigurðardóttir og Jón Ólafsson á Kirkjulæk sem settu þetta tjaldstæði á fót fyrir 17 árum. Þar hafa hópar verið að koma t.d. í kjötsúpu og annan viðurgjörning og fá þá jafnvel í kaupbæti músik sem flutt er af staðarhöldurum.
 
Langbrók er í dag eina tjaldstæði svo vitað sé utan Reykjavíkur sem hægt er að treysta á að sé opnað strax að vori. Þar var reyndar opnað um páskana, sem voru um miðjan apríl að þessu sinni, og mættu þá strax fastagestir með hjólhýsi sín sem hafa aðsetur á Langbrók allt sumarið. 
 
Eftirspurn eftir tjaldstæðum á vorin illa sinnt
 
Vaxandi eftirspurn er eftir því að tjaldstæði séu opnuð í maí, enda byrja húsbílar, hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagnar að streyma úr vetrargeymslum strax 1. maí. Sérkennilegt er hversu fáir tjaldstæðarekendur leggja sig eftir að sinna þeirri eftirspurn. Með auknum straumi erlendra ferðamanna hefur eftirspurnin líka aukist eftir tjaldstæðum með hreinlætisaðstöðu fyrir utan háannatíma sumarsins. 
 
Menn hafa  vissulega bent á að tún séu blaut og gljúp svo snemma vors sem og seint á haustin, en það er hlutur sem má leysa ef áhugi er fyrir hendi. Á nokkrum tjaldstæðum landsins hefur verið leyst úr því með malarbornu stígakerfi fyrir bíla og hólfuðum stæðum. Það er til fyrirmyndar, þótt þau tjaldstæði séu enn ekki nýtt utan aðal sumartímans. 
 
Blaðamanni Bændablaðsins, sem notið hefur gestrisni staðarhaldara á Langbrók ítrekað, lék forvitni á að vita meira um tilurð þessa fyrirbæris. Einnig um ástæður tónlistarflutnings sem þar er framinn í litlu kaffihúsi úti á túni í miðri sveit, langt frá skarkala borgarlífsins. 
 
Hættu búskap og seldu mjólkurkvótann
 
„Þetta byrjaði þannig að árið 2000 hættum við hjónin með kýrnar á Kirkjulæk. Seldum kvótann og byggðum þetta í staðinn,“ segir Ingibjörg.
 
„Við vorum búin að vera kúabændur á Kirkjulæk í 18 ár þegar við ákváðum að bregða búi. Jón, maðurinn minn, var smiður og starfaði sem slíkur meðfram búinu og fór þá í að byggja upp aðstöðu hér á Langbrók, eða Brókinni eins og við segjum gjarnan. 
 
Það voru mikil viðbrigði að hætta búskapnum. Við vorum með tiltölulega lítið bú, um eða yfir 20 kýr, sem var ekki nóg til að halda uppi nauðsynlegri starfsemi. Það var því ekki nema um tvennt að velja, annaðhvort að stækka búið og byggja nýtt fjós, eða hætta búskap. Við völdum seinni kostinn. 
 
Við komum upp aðstöðunni hér á Langbrók og héldum henni gangandi, en Jón veiktist árið 2007 og dó 2008. Síðan hef ég verið hér og notið aðstoðar vinahjóna minna, Auðar Halldórsdóttur kennara og Jens Sigurðssonar, tónlistarkennara á Hvolsvelli.“
 
Þetta samstarf Ingibjargar, Jóns og vina þeirra snerist þó ekki bara um reksturinn á tjaldstæðinu, því það átti sér mun dýpri rætur og einkum í gegnum músik. Þau stofnuðu nefnilega hljómsveit árið 1996 ásamt þriðju hjónunum sem heltust úr lestinni er þau skildu. Hin fjögur héldu hins vegar áfram spilamennsku sér og öðrum til skemmtunar. 
 
Aðsóknin að tjaldstæðinu Langbrók fer stöðugt vaxandi og engum blöðum er um það að fletta að hróður hljómsveitarinnar á sinn þátt í því. Segir Ingibjörg að það séu ekki síst útlendingar sem eru farnir að venja komur sínar þangað í auknum mæli. Sumir hafi jafnvel frétt af spilamennskunni á staðnum af afspurn. 
 
Hófu ferilinn á árunum 1995 til 1996
 
Upphaflega fóru þau að spila saman í tengslum við Samkór Rangæinga 1995. Opinberlega spiluðu þau þó ekki saman fyrr en 1996 er þau tóku að sér að spila á þorrablóti í sveitinni. Eftir það var ákveðið að nafn hljómsveitarinnar yrði Hjónabandið. 
 
Með eigin útihátíð
 
Áður en tjaldstæðið á Langbrók kom til tróð Hjónabandið upp á eigin útihátíð sem efnt var til á Kirkjulæk undir nafninu „Veltingur“. Þetta var eins konar fjölskylduhátíð fyrir heimilisfólkið, vandamenn,  nágranna og ekki síst krakkana sem voru þá ekki nógu gamlir til að fá að fara á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Kveikt var upp í grilli og nágrannar komu með sínar steikur til að elda þar saman. Veltingur varð síðan að föstum árlegum lið, en þegar krakkarnir voru orðnir nógu gamlir til að fara á Þjóðhátíð var ákveðið að færa Velting á helgina fyrir þjóðhátíð svo enginn þyrfti að missa af Veltingi. Þannig er það enn þann dag í dag. 
 
Eftir að búið var að reisa kaffihúsið á Langbrók var útihátíðin Veltingur fluttur þangað. Nú mætir fólk hundruðum saman á Velting á hverju sumri, bæði heimafólk og ferðamenn í húsbílum, hjólhýsum, tjaldvögnum og tjöldum.
 
Úr þekktum slögurum í eigin lagasmíð
 
Auður Halldórsdóttir segir að lagavalið í upphafsárunum hafi verið úr ýmsum áttum, vinsælir slagarar og annað, en ekkert samið af meðlimum sveitarinnar. Þegar þriðjungur bandsins hvarf á braut vegna skilnaðar breyttist staða þeirra sem eftir voru og tekið var til að reyna að semja eigin lög og texta. 
 
„Jón kom gjarnan með textana og við byrjuðum að syngja þá og úr varð alls kyns vitleysa sem stundum varð að alvöru lögum,“ segir Auður. 
 
Hafa unnið lagasamkeppni á hverju einasta ári
 
Hún segir að líkt og á Þjóðhátíð þá hafi þótt nauðsynlegt að semja lag fyrir Velting. 
 
„Efnt var til mikillar lagasamkeppni sem reyndar var ekkert auglýst og við sendum þar alltaf inn lag. Vegna þess að við auglýstum ekki, þá fengum við heldur ekki sent lag frá neinum öðrum hljómsveitum. Til að hafa allt utanumhald eins einfalt og mögulegt var, þá vildi svo til að dómnefndin hefur alltaf verið skipuð meðlimum Hjónabandsins. Svo undarlega hefur síðan viljað til að við höfum unnið þessa lagasamkeppni á hverju einasta ári.“  
 
Aðspurð hvort þessi einstaki árangur markist af yfirburða hljómlistargáfum meðlima hljómsveitarinnar og gæðum Hjónabandsins, telja þau það augljóst.
 
„Ekki er svo verra að dómararnir eru alveg frábærir,“ segir Auður. „Hér viðgengst heldur enginn klíkuskapur.“
 
Tvenn Hjónabönd hvort á sínu landshorninu
 
Þess má geta að nafn hljóm­sveitarinnar Hjónabandsins í Fljótshlíð á ekkert skylt við aðra hljómsveit eða dúett með sama nafni sem starfað hefur lengi við góðan orðstír vestur í Önundarfirði. Enda vissu meðlimir hvorugra sveitanna af hinum þegar nöfnin komu til. Vestur á fjörðum eru það hjónin og bændurnir Árni Brynjólfsson og Erna Rún Thorlacius á Vöðlum í Önundarfirði sem standa að Hjónabandinu sem líklega er það elsta á landinu. Það var stofnað haustið 1993. Spiluðu þau af krafti lengi vel á böllum á Flateyri, Þingeyri, Ísafirði, Bolungarvík og víðar um land og þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu við miklar vinsældir. Segir Árni að þau hafi verið að spila alveg fram undir þetta, en mjög hafi þó dregið úr spilamennskunni í seinni tíð og t.d. lítið verið spilað síðasta árið. Hann segist reyndar hafa heyrt óljóst af þriðja Hjónabandinu sem eitthvað muni hafa troðið upp á höfuðborgarsvæðinu. 
 
Hjónabandið hefur gefið út þrjá diska
 
Við erum búin að gefa út þrjá hljómdiska,“ segir Ingibjörg. „Sá fyrsti kom út 2006 og hét „Diskur ársins“ og annar diskurinn hét „Í minningu Jóns“ og kom út árið 2009. Í fyrra, 2016, kom svo út þriðji diskurinn og ber hann nafnið „Dagurinn í dag“.
 
„Jón var búinn að spila bassann inn á fjögur lög áður en hann dó og var búinn að syngja inn á eitt lag. Við bættum svo við lögum til að klára diskinn, Í minningu Jóns.“
 
Auður segir að eftir andlát Jóns hafi þau þrjú sem eftir sátu haldið ótrauð áfram að spila og semja. Eiginmaður hennar, Jens Sigurðsson, segir að það hafi svo sem ekki verið annað í spilunum en að halda áfram, enda hafi það verið gert að ósk Jóns heitins. 
 
Með þeim þremenningum treður upp annað slagið Kristín Anna, dóttir Jens og Auðar. Hún er hörku söngkona með fallega rödd og söng m.a. tvö lög á nýjasta diski hljómsveitarinnar. Hún hefur líka verið að læra söng og hefur lokið burtfararprófi frá Söngskóla Reykjavíkur. Hún hefur verið með annan fótinn í Bandaríkjunum þar sem hún stundar nám í talmeinafræði. Hún heldur samt tryggð við sönginn ytra og er þar m.a. í agapella sönghópi. Faðir hennar, Jens, segir að hún hafi alla háu tónana frá sér og hann eigi því ekkert eftir nema bassatónana. 
 
Útiloka ekki frekari útgáfu
 
Aðdáendur Hjónabandsins eru þegar farnir að spyrja hvenær næsti diskur komi út. Þau útiloka ekki að slíkt geti orðið að veruleika í framtíðinni. Alltaf sé verið að semja eitthvað nýtt þegar vel liggur á þeim. 
„Þetta kemur svona í törnum að við hrökkvum í stuð,“ segir Auður. „Nú erum við að bíða eftir textum. Annars hefur Jenni samið lögin, en þau breytast oft þegar við erum að útsetja þau. Það leggja allir eitthvað til málanna við að semja og þetta verður því svona rétt eins og naglasúpa,“ segir Auður. 
„Oft koma út úr þessu ágætis lög þótt við byrjum bara með nagla í upphafi.“
 
Lagahöfundurinn Jens mátti til að setja smá pressu á Auði og Ingibjörgu, enda búið að nefna það að beðið væri eftir textum. 
 
„Þær eru svolítið tregar til að byrja að koma sér af stað í textagerðinni, blessaðar,“ segir hann sposkur á svip.  
 
Auður gefur þá skýringu að það sé bara þannig með konur að þær þurfi alltaf að vera að gera eitthvað annað í leiðinni og þá vilji stundum gleymast að ætlunin hafi verið að semja texta. Ingibjörg mátti svo til að senda Jenna smá pillu.
 
„Þegar við erum að byrja að syngja eitthvað nýtt, þá á Jenni það til að fara að raula eitthvað allt annað.“ 
Skýringin á því háttalagi fylgdi þó líka sögu, því á einni æfingunni hafi góður og söngelskur vinur úr sveitinni mætt á staðinn og var aðeins í kippnum. Pantaði hann óskalag og engar refjar. Í miðri nýsmíðinni tók Jens því U-beygju við tónlistarsköpunina og hóf upp raust og kyrjaði „Kvöldið er fagurt“ af miklum móð með gestinum góða. 
 
„Við þetta þurrkaðist nýsköpunin algjörlega út af harða diskinum hjá okkur konunum,“ sagði Auður. 
 
Í tónleikaferð um landið bláa
 
Ýmis „gigg“ hafa slæðst á fjörur hljómsveitarmeðlima auk þorrablótaspilunar og fleira. Eftir útgáfu á  plötu hljómsveitarinnar númer eitt voru haldnir útgáfutónleikar á Grensásdeild Landspítalans. Eftir disk númer tvö var henni svo að sjálfsögðu fylgt eftir með tónleikaferð. Var farið á vel flest elliheimili á svæðinu frá Vík í Borgarnes. Vart þarf að nefna að fullt var út úr dyrum á hverjum stað. Bandið hefur einnig spilað á Sólheimum og í afmælum og við ýmis tækifæri. 
 
Fá gullplötur þegar hentar
 
Það er greinilegt á samtölum við hljómsveitarmeðlimi að þetta er afar gott Hjónaband. Auk Kristínar Önnu, dóttur Jóns og Auðar, hafa bræðurnir Ómar Smári og Andri Geir Jónssynir lagt þeim lið þegar á þarf að halda auk Árna Ólafssonar, tengdasonar Ingibjargar. Á útihátíðinni Veltingi hafa enn yngri meðlimir fjölskyldnanna svo tekið „coverlög“ Hjónabandsins og spilað af miklum móð. Börnin hafa einnig tekið að sér að útbúa gullplötur sem allar alvöru hljómsveitir fá fyrir metsölu á sínum diskum. Fer afhending gullplötunnar að sjálfsögðu fram við virðulega athöfn á Veltingi þegar henta þykir. Það er hins vegar útgefandinn sjálfur, sem í þessu tilfelli vill svo til að er hljómsveitin Hjónabandið, sem ákveður hvenær ástæða sé til að bandið fái slíka viðurkenningu. Eru gullplöturnar svo að sjálfsögðu hengdar upp í félagsheimili stórsveitarinnar á Langbrók. 
 
Frægðin ræðst oft meira af kunningsskap en getu
 
Heimsfrægðin hefur eitthvað látið standa á sér. Eigi að síður spiluðu þau eitt sinn fyrir bandarískan hóp ferðamanna sem undraðist að þau væru ekki orðin víðfræg. Einn úr þeim hópi vatt sér þó að þeim eftir þá einkatónleika og sagði að það skipti ekki máli hversu góð þau væru, heldur hverja þau þekktu. Eru það sannarlega orð að sönnu því margir frægir tónlistarmenn hafa komist ansi langt á einhverju allt öðru en hæfni, getu og kunnáttu í tónlist. Þá verður það að segjast um margar íslenskar útvarpsstöðvar að mjög erfitt virðist vera að koma þar einhverju í spilun nema að hljóta náð í innsta hópi invígðra sem þar velja lög til spilunar. Meðlimir Hjónabandsins segjast hafa reynt að koma sínum plötum á framfæri á útvarpsstöðunum, en þau nenni hreinlega ekki að taka þátt í þeim klíkuskap sem þar viðgengst. „Við þurfum þess ekki heldur,“ segir Auður, enda séu þau fyrst og fremst að þessu sér til gamans. 
 
Hjónabandið treður upp þegar vel liggur á meðlimum
 
Þess má geta að auk þess sem oft má búast við að hljómsveitin  troði upp á tjaldstæðinu þegar vel liggur á þeim, þá verður næsti Veltingur haldinn síðustu helgina í júlí. 
 
„Það er svo sem ekkert hægt að ganga að okkur sem vísum á Langbrók. En þegar við erum í stuði og það er fjör í kofanum, þá sláum við í. Það kemur líka fyrir að við hrökkvum í gírinn um miðjan dag við að spila og semja. Ef margir gestir eru á svæðinu erum við líka vís með að taka lagið,“ segir Ingibjörg Sigurðardóttir. 

8 myndir:

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt