Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Kristín Sverrisdóttir og Jón Magnús Jónsson, bændur á Reykjum. Þau hafa skýra sýn á gildi þess að framleiða mat á Íslandi og sterkar skoðanir á rekstrarumhverfi íslensks landbúnaðar.
Kristín Sverrisdóttir og Jón Magnús Jónsson, bændur á Reykjum. Þau hafa skýra sýn á gildi þess að framleiða mat á Íslandi og sterkar skoðanir á rekstrarumhverfi íslensks landbúnaðar.
Mynd / TB
Viðtalið 20. júlí 2020

Skýr stefna að bjóða eingöngu upp á íslenskt kalkúna- og kjúklingakjöt

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Á Reykjum í Mosfellsbæ búa þau Jón Magnús Jónsson og Kristín Sverrisdóttir. Þau eru þriðja kynslóð á býlinu en það er hvað þekktast fyrir kalkúnarækt og brautryðjendastarf í alifuglaframleiðslu á Íslandi.
 
Börn þeirra eru Hrefna, María Helga, Jón Magnús og Sverrir. Bæði stunduðu þau hjónin nám við framhaldsdeild Bændaskólans á Hvanneyri. Jón Magnús lauk síðar BS-gráðu í alifuglarækt í Madison, Wisconsin í Bandaríkjunum og Kristín BS-gráðu í almennri búfjárrækt frá Hvanneyri. Saman reka þau Reykjabúið og eru eigendur Ísfugls sem slátrar og markaðssetur afurðir búsins og fleiri bænda. Hjá Ísfugli var mörkuð sú stefna að selja einvörðungu íslenskt alifuglakjöt. Jón Magnús og Kristín hafa skýra sýn á gildi þess að framleiða mat á Íslandi og sterkar skoðanir á rekstrarumhverfi íslensks landbúnaðar. Jón Magnús segir að núverandi tollaumhverfi sé bændum erfitt og hvetji til innflutnings. Bændur geti auðveldlega annað markaðnum og það sé hægur vandi að reka landbúnað á Íslandi ef þjóðin sameinast um það.
 
Kristín og Jón Magnús hafa í mörg horn að líta á degi hverjum. Á Reykjabúinu eru um 10 stöðugildi og hjá Ísfugli eru um 40 starfsmenn.
 
Reykjabúið framleiðir fyrst og fremst kalkúna- og kjúklingakjöt en á Reykjum er einnig haldinn kalkúna- og holdastofn til framleiðslu frjóeggja. Þá er lítil heimaverslun á Reykjum þar sem seldar eru kalkúnaafurðir beint til neytenda. Árið 2012 tóku þau alfarið yfir rekstur Ísfugls sem er til húsa á Reykjavegi skammt frá búinu.
 
Jón Magnús er alinn upp á Reykjum en Kristín er Reykvíkingur sem kynntist sveitastörfum frá barnsaldri hjá móðursystur sinni á Oddgeirshólum í Flóa. Á Reykjum hófst hænsnarækt árið 1946 og kalkúnarækt í litlum mæli stuttu síðar. 
 
Varphænur í Reykjabíói
 
„Það er í raun grunnurinn að því búi sem við erum með í dag. Hér var hafin ræktun á varphænum á tveimur hæðum í gömlu bíói frá stríðsárunum, Reykjabíói,“ segir Jón Magnús. Faðir hans, Jón Magnús Guðmundsson, kom heim úr námi í Bandaríkjunum í búfjár- og hænsnarækt árið 1947 og hóf hænsnarækt samhliða kúabúskap. 
 
„Hann keypti svo hænsnabúið á sjötta áratugnum og í kjölfarið hófst framleiðsla kjötfugla á Reykjum. Pabbi fór aftur til Bandaríkjanna skömmu síðar að kynna sér strauma og stefnur í búgreininni, og eftir heimkomu hófst hann handa snemma á sjöunda áratugnum við að byggja kjúklingasláturhús. Eftir það hófst innflutningur á fuglastofnum fyrir kjötfuglaeldi. Fram að því höfðu Íslendingar látið sér nægja að borða afgangs fugla frá eggjaframleiðslu!“ segir Jón Magnús.
 
Hefðbundin eggjaframleiðsla hefur ekki verið að neinu ráði á Reykjum að sögn Jóns. „Amma mín, Ingibjörg Pétursdóttir, var með töluvert af hænum og seldi nágrönnum og fleirum egg. Annars var hér fyrst og fremst útungun og framleiðsla á varphænum og kjúklingum. Þetta bú hefur aldrei verið í framleiðslu neyslueggja.“ 
 
Reykir í Mosfellsbæ. Skógurinn hefur dafnað vel og skýlir útihúsum og garðlöndum. Reykjabúið framleiðir fyrst og fremst kalkúna- og kjúklingakjöt en á Reykjum er haldinn kalkúna- og holdastofn til framleiðslu frjóeggja. 
Mynd / Sverrir Jónsson
 
Þriðja kynslóð tekur við búskapnum
 
Jón Magnús og Kristín eru af þriðju kynslóðinni sem býr á Reykjum. Þau keyptu búið af fjölskyldunni árið 2005.
 
Hvaða stefnu tókuð þið í búskapnum árið 2005 þegar þið eignuðust búið?
 „Við rýndum í reksturinn og reyndum að hagræða eins og kostur var,“ segir Kristín og bætir við að ýmsu hafi verið breytt í rekstrinum á þeim tímamótum, bætt við fleiri eldishúsum fyrir kalkúna og kjúklinga og framleiðslan aukin.
 
Hörð samkeppni á kjötmarkaði
 
Það hefur orðið gríðarleg aukning í sölu á alifuglakjöti síðustu 20 árin og mikil áskorun að sjá markaðnum fyrir vörum, að sögn bændanna á Reykjum. Á markaðnum eru tvö önnur fyrirtæki, Reykjagarður og Matfugl, sem eru ámóta stór og með íslenskar kjúklingaafurðir. Ísfugl er með um 20% markaðshlutdeild í alifuglakjöti, og hefur þetta hlutfall verið svipað á síðustu árum. Innflutningur hefur aukist mikið sem hefur að einhverju leyti haldið aftur af framleiðsluaukningu hjá bændum. 
 
Jón Magnús segir að samkeppnin sé mjög hörð og menn þurfi alltaf að vera á tánum. „Við erum með um 20% af hvítakjötsframleiðslunni ef kalkúnninn er tekinn með. Það hlutfall hefur haldið sér síðustu ár en við höfum stækkað í takti við það sem okkar viðskiptavinir hafa tekið við. Það hefur gengið vel að afsetja vörur.“
 
Kristín segir að það séu ýmis tækifæri fólgin í því að vera litli aðilinn á markaðnum. „Við getum brugðist hratt við óskum viðskiptavina og sérhæft okkur á vissum sviðum.“ 
 
Meiri vinnsla skilaði aukinni sölu
 
Kristín segir að fyrstu árin hjá þeim hafi kalkúnasalan nær eingöngu verið yfir jól, áramót og páska. „Þá var bara heill fugl og við vorum ekkert að úrbeina eða gera neitt annað við vöruna. Fljótlega fórum við hins vegar að vinna kalkúninn meira og þá varð strax söluaukning. Nú er það sama að gerast hér og erlendis að markaðurinn fyrir heilan fugl er að minnka en mikil eftirspurn eftir bringum og öðrum bitum. Ísfugl fór fljótlega að þróa jólavörur úr kalkúnakjöti auk þess að selja í veislur og veitingahús. Þessi vinna hefur haldið áfram síðan við eignuðumst fyrirtækið.“
 
Reka útungunarstöð og stofneldi
 
Reykjabúið rekur eigin einangrunar­stöð fyrir kalkúnaræktina í Land­eyjum. Erfðaefni kemur að utan og eggin eru látin klekjast út í stöðinni. Uppfylltar eru strangar kröfur um mótefnaprófanir og blóðprufur. Í kjúklingaræktinni er Reykjabúið í samvinnu við Stofnunga, sem er einangrunarstöð í eigu fleiri framleiðenda. Í útungunarstöð Reykjabúsins að Flugumýri í Mosfellsbæ er ungað út kalkúnum og kjúklingum til eigin framleiðslu og fyrir aðra bændur sem framleiða kjúklinga fyrir Ísfugl.
 
„Við þurfum að fjármagna stofneldið og það er heilmikið umstang í kringum það, reka útungunarstöð og flytja inn erfðaefni frá útlöndum. Verðið á íslenska kjúklingnum markast að hluta til af þessu og þarf að hafa í huga þegar rætt er um innflutning á ódýrara kjúklingakjöti erlendis frá,“ segir Kristín.  
 
 
Jón Magnús grípur boltann á lofti þegar talið berst að innflutningi og samanburði á íslenskri og erlendri framleiðslu. „Kjötið sem flutt er hingað til lands er ekki frá neinum venjulegum búum. Þetta eru risastór bú þar sem hagkvæmnin er keyrð í botn. Við erum á pínulitlum markaði hér heima og einfaldlega aðrar stærðir um að ræða en hjá kollegum okkar erlendis.“
 
Reksturinn byggir á samstarfi við aðra bændur
 
Reykjabúið er með eldi víðar en í Mosfellssveitinni, ýmist í leigu- eða eigin húsnæði. Í áranna rás hefur þróunin verið þessi og er t.d. heilmikil framleiðsla í Ölfusinu. Kristín segir að samstarfið gagnist báðum aðilum. „Þetta fyrirkomulag hefur í raun stutt við búskap á viðkomandi jörðum. Bændur geta einnig nýtt hænsnaskít til áburðar á tún og garða. Þar sem ekki er búskapur er skíturinn meðhöndlaður sem úrgangur en ekki verðmæti. Þess vegna er dýrmætt að starfsemin sé að hluta til í sveitum.“
 
Garðlönd á Reykjum II þar sem hænsnaskítur frá kjúklingaræktinni er nýttur til að tryggja að næringarefni fari ekki í súginn. Garðyrkjufyrirtækið Garðagróður sér um ræktunina en það er í eigu bræðranna Helga og Bjarna Ásgeirssona, frænda Jóns Magnúsar og ábúenda á Reykjum II.
 
Jón Magnús segir að dreifð starfsemi sé ekki síður gagnleg í ljósi smitvarna þar sem áhættan er minni vegna fjarlægðar milli búa. „Okkur hefur gengið mjög vel hingað til að verjast salmonellu og kampýlóbakter. Heilbrigði fuglsins er almennt gott og staðan ágæt.“  
 
En skyldi þetta rekstrarmódel lifa inn í framtíðina? 
 „Auðvitað er hagkvæmt að vera með eitt stórt bú á sama stað,“ segir Kristín, en bætir við að það útiloki ekki hitt fyrirkomulagið. Þau Jón Magnús og Kristín segjast bæði hafa þá sýn að kjúklingaeldið verði samhliða einhverju öðru. Það passi vel í sveitirnar og samræmist góðri byggðastefnu. 
 
 
Markaðurinn vill ferska vöru
 
Því hefur löngum verið haldið fram að samkeppnin í kjúklingaræktinni sé hörð, sveiflurnar miklar og tengsl framleiðenda náin við markaðinn. Jón segi að nú um stundir séu vel yfir 95% framleiðslunnar seld fersk til neytenda og hefur orðið mikil breyting á síðustu árum. Markaðurinn vill ófrosna vöru. 
 
Kórónuveiran setti strik í reikninginn
 
Þegar kórónufárið brast á í mars urðu miklar breytingar á matvörumarkaði nánast á einni nóttu. Reykjabúið og Ísfugl fóru ekki varhluta af því frekar en önnur fyrirtæki. „Framleiðslan var á fullum snúningi og það tekur sinn tíma að breyta henni. Við þurftum að endurskipuleggja sláturhúsið og setja fólk á vaktir til þess að þurfa ekki að loka ef smit breiddist út. Það gekk mjög vel og það urðu engar sýkingar á meðal starfsfólks sláturhússins. Salan datt verulega niður um tíma, en hefur smám saman verið að lagast,“ segir Jón Magnús. 
 
„Það sem gerðist hins vegar var að sala í verslunum jókst mjög mikið og tók að hluta þá sölu sem var á veitingamarkaðnum,“ segir Kristín. Eftir að ástandinu lauk jókst salan aftur til mötuneyta en viðskipti við hótel og veitingastaði hafa ekki enn náð fyrri stöðu. Ekkert er vitað hvernig það á eftir að þróast.
 
Hjá Ísfugli er lögð áhersla á að kynna uppruna kjötsins. Á umbúðum eru myndir af bændum svo neytandinn geti séð frá hvaða Ísfuglsbónda kjötið kemur.
 
Sérstaða Ísfugls á markaði
 
Ísfugl hefur markað sér þó nokkra sérstöðu á markaði með kjúkling og kalkún. Á umbúðum eru myndir af bændum svo neytandinn geti séð frá hvaða Ísfugls-bónda kjötið kemur, en fyrirtækið selur eingöngu íslenskt kjöt. Auk Reykjabúsins eru fleiri bændur sem framleiða kjúklinga fyrir Ísfugl. Þeir eru Jón Ögmundsson, Hjallakróki í Ölfusi, Ögmundur Jónsson og Kristján Karl Gunnarsson á Neslæk í Ölfusi, Jóhannes Sveinbjörnsson og Ólöf Björg Einarsdóttir á Heiðarbæ í Þingvallasveit og Þorsteinn Sigmundsson og fjölskylda í Elliðahvammi. Samstarfið byggir á traustum grunni og hefur gengið mjög vel.
 
Eingöngu íslenskt kjöt og trúverðugleikinn skiptir öllu máli 
 
„Við höldum mjög stíft í okkar stefnu, að selja eingöngu íslenskt kjöt frá Ísfuglsbændum. Þegar innflutt kjöt fór að ryðja sér til rúms á íslenskum markaði var fljótlega tekin sú ákvörðun að Ísfugl skyldi ekki bjóða upp á erlent kjöt, jafnvel þótt skortur væri á ákveðnum bitum. Okkar stefna er að selja eingöngu innlent hráefni og við teljum að það sé hagstætt fyrir bændurna. Það eru algjörlega skýr skilaboð til okkar viðskiptavina, sem kunna að meta þá stefnu og treysta okkur,“ segir Jón Magnús.
 
„Ákvörðunin um að selja eingöngu innlent hráefni þurfti umræðu á sínum tíma,“ segir Jón Magnús. En í dag eru kröfur neytenda um hollustu, góða og ferska vöru, orðnar æ háværari.
 
Vinnumenn í hádegishléi frá girðingarvinnu. Jón Magnús Jónsson, Þyrnir Hálfdán Þyrnisson og Egill Steingrímur Árnason.
 
Lágir tollar hvetja til innflutnings
 
Jón Magnús hefur sterkar skoðanir á tollamálum og segir fullum fetum að hagsmunum innlendra búvöruframleiðenda hafi verið fórnað í síðustu tollasamningum við Evrópusambandið. Hann bendir á að magnið sem nú er leyfilegt að flytja inn af kjúklingakjöti á lágum tollum jafngildi ársframleiðslu Ísfugls. Stærsta áskorunin sé að takast á við samkeppni við innflutt kjöt.
 
„Eins og kerfið er í dag þá er verið að flytja inn töluvert magn af kjúklingi. Samningur sem gerður var árið 2015 hefur verið mjög slæmur fyrir hinn almenna bónda. Það er til dæmis í samningnum töluverður hvati fyrir kjötvinnslur að velja erlendar vörur fram yfir íslenskar. Ástæðan er sú að hægt er að kaupa ódýrara hráefni erlendis frá. Það þarf að átta sig á því að svona lítil framleiðsla framleiðsla eins og er á Íslandi er dýrari en í stórum einingum í Evrópu. Þar eru risafyrirtæki á kjötmarkaði með mikla stærðarhagkvæmni og staðsett í kornræktarlöndum. Það verður bara að opna augun fyrir því að við eigum ekkert í þessa samkeppni ef verðið á að stýra ferðinni. Og þetta á við um alla íslenska landbúnaðarframleiðslu.“
 
Jón Magnús segir að það séu margar spurningar sem við sem þjóð þurfum að svara um okkar matvælaframleiðslu. „Ætlum við að kaupa allan mat að utan eða viljum við framleiða hann sjálf? Mér finnst miklu frekar að stjórnvöld ættu að leggjast yfir það hvernig við getum skapað betri skilyrði til framleiðslu á búvörum hér á sem hagkvæmastan hátt. Aðgerðir sem gera framleiðendum kleift að lækka kostnaðinn, t.d. að lækka álögur og skatta á greinarnar og laga tollaumhverfið.“ 
 
Viljum við flytja inn mat sem hægt er að framleiða hér heima?
 
Jón Magnús segir að valið standi um að flytja inn mat erlendis frá eða framleiða hér heima. „Allur innflutningur minnkar það magn sem íslenskir bændur framleiða og tekur hagkvæmnina út úr greininni. Það verða einfaldlega færri kíló í framleiðslu, og dýrari vegna þess. Þetta er algjört grundvallaratriði. Okkar vara er ekkert að flæða yfir á aðra markaði þannig að hvert einasta kíló sem er flutt inn þýðir minni framleiðslu hér heima,“ segir Jón Magnús. 
 
Sveitaverslunin á Reykjum er opin síðdegis tvisvar í viku. Lokað í júlí en opnar 5. ágúst. Upplýsingar um búið og verslunina má finna á vefsíðunni kalkunn.is
 
Hollusta og rekjanleiki
 
Hann segir jafnframt að það sem hafi bjargað íslenskri kjúklingarækt á síðustu árum sé neysluaukning. Nú er neyslan hins vegar komin yfir 30 kg á ári á mann og ekki viðbúið að hún aukist í sama hlutfalli og áður á næstu árum. Þetta er mesta neysla á fuglakjöti á Norðurlöndunum. 
 
Ísfugl hefur á síðustu árum lagt mikla áherslu á að kynna bændurna sem leggja fyrirtækinu til hráefni og leggja áherslu á að það sé framleitt á Íslandi. Kristín og Jón Magnús segja að neytendur kunni að meta að fá ítarlegar upplýsingar um framleiðsluna. 
 
„Yfirgnæfandi meirihluti neytenda vill innlenda framleiðslu en menn eru engu að síður mjög verðnæmir,“ segir Kristín. Þau segja að merkingar í verslunum hafi batnað mikið á síðustu árum en á veitingastöðum og í mötuneytum þurfi að gera betur. „Spurning er  hvort búið sé að flytja matvöruna um hálfan hnöttinn eða á hún uppruna sinn hér í bakgarðinum?“ segir Jón Magnús.
 
Gott starfsfólk er lykillinn að góðum rekstri
 
Á Reykjabúinu eru um 10 stöðugildi og hjá Ísfugli eru um 40 starfsmenn. Reksturinn er stöðugur og það er mikil samheldni í fyrirtækjunum.  „Við erum mjög lánsöm með starfsfólk og sumir hafa starfað hjá búinu og Ísfugli í áratugi. Það er lykillinn að góðum rekstri,“ segir Jón Magnús að lokum. 
 
Jón Magnús og Kristín eru samstiga í rekstri Reykjabúsins. Jón segir að það séu margar spurningar sem við sem þjóð þurfum að svara um okkar matvælaframleiðslu. „Ætlum við að kaupa allan mat að utan eða viljum við framleiða hann sjálf?“ 
 
Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtalið 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtalið 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtalið 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtalið 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtalið 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Líf og starf 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt

Nýsköpun grunnur að því að ungt fólk geti byggt framtíð sína á heimaslóðum
Viðtalið 7. janúar 2021

Nýsköpun grunnur að því að ungt fólk geti byggt framtíð sína á heimaslóðum

Það er mjög mikill áhugi hér í Bárðardal og raunar samfélaginu öllu fyrir nýsköp...

„Fólk sér ekki hætturnar“
Viðtalið 10. ágúst 2020

„Fólk sér ekki hætturnar“

Vinnuslys eru afar kostnaðarsöm fyrir samfélagið og geta reynst einstaklingum se...