Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Guðrún hengir upp vettlingana eftir að farið hefur verið út á vatnið að veiða. Engin veiði er í gangi nú en beðið er vors og bjartari tíðar áður en bátum er á ný ýtt úr vör.
Guðrún hengir upp vettlingana eftir að farið hefur verið út á vatnið að veiða. Engin veiði er í gangi nú en beðið er vors og bjartari tíðar áður en bátum er á ný ýtt úr vör.
Mynd / MÞÞ
Viðtal 7. janúar 2021

Nýsköpun grunnur að því að ungt fólk geti byggt framtíð sína á heimaslóðum

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

Það er mjög mikill áhugi hér í Bárðardal og raunar samfélaginu öllu fyrir nýsköpun. Eins og fjallað var um í síðasta Bændablaði er m.a. í gangi samstarfsverkefni Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps, Nýsköpun í norðri. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þeirri þróun sem þar hefur verið undanfarið og allt hefur þetta jákvæð og uppbyggjandi áhrif hvert á annað. Ef til vill hefur COVID haft þessi áhrif, það er meiri tími til að vinna hugmyndum framgang í miðjum heimsfaraldri,“ segir Guðrún S. Tryggvadóttir, bóndi í Svartárkoti í Bárðardal, en þar eru nokkur áhugaverð verkefni í gangi um þessar mundir. 

„Öll eiga þau það sammerkt að fólk vill lifa hér og starfa og við merkjum það greinilega að unga fólkið okkar hefur áhuga fyrir að koma heim og sumt einmitt að mennta sig til að gera gert það.“

Svartárkot við Svartárvatn. Mikið vetrarríki er gjarnan á svæðinu við Svartárkot enda í námunda við hálendi Íslands. Mynd / Úr einkasafni

Guðrún segir að um þessar mundir sé unnið að framgangi samstarfsverkefnis þar sem bárðdælsk býli koma við sögu og snýst það um þróun og framleiðslu drykkjarafurða úr staðbundnu hráefni. 

„Ungt og efnilegt fólk úr Bárðardal spilar þar stórt hlutverk, en þetta verkefni er í raun grunnur að því að það geti flutt heim og byggt framtíð sína á  annars konar landbúnaði en nú er víðast hvar stundaður,“ segir Guðrún. Hún nefnir að verkefnið muni hafa jákvæð áhrif á samfélagið í Bárðardal og víðar, til að mynda í ferðaþjónustu þegar hjól þeirrar atvinnugreinar fara að snúast á ný. „Ég bind  miklar vonir við þetta verkefni og tel að það geti haft veruleg áhrif á framtíð dalsins, en vissulega er alltaf mikilvægt að svona verkefni fái fjármögnun,“ segir Guðrún.

Einstaklega góð hausttíð

Guðrún og hennar heimilisfólk hugar nú að jólahaldi líkt og aðrir landsmenn og segir að þar um slóðir setji heimsfaraldur sama mark á mannlífið og annars staðar. Allt samkomuhald hefur legið niðri síðustu vikur. „Við erum ánægð með hversu haustið var okkur almennt gott þó svo að september hafi verið dálítið misveðra. Mikil rigning og svo snjóaði líka en tók sem betur fer fljótt upp aftur, síðan tók bara við einstaklega góð hausttíð sem nýttist okkur vel til hefðbundinna haustverka. Það er alls ekki sjálfgefið að búa við gott veður hér uppi á hálendinu yfir haustmánuðina,“ segir Guðrún en veturinn getur allt eins byrjað í september. 

Haustinu í Svartárkoti fylgir stundum smávægilegt rafmagnsleysi áður en vatnið leggur. Það gerist stundum að „frýs fyrir, þá safnast grunnstingull fyrir á sigti á heima-rafstöðinni og lokar fyrir vatnsrennslið og er þá algengast að sé rafmagnslaust í u.þ.b. hálfan sólarhring.

„Það var alveg heil vika núna í haust sem rafmagnið fór flestar nætur, veðrið var bara þannig. En það kom ekki að sök því til staðar er varaafl sem tekur við, það er samt kannski ekki gott fyrir umhverfissamviskuna,“ segir hún. 

Ef veðrið er gott er um að gera að bregða sér út, renna sér á skíðum, brettum, snjóþotum eða sleðum og iðulega er farið í vélsleðaferðir eða smá jepparúnta. Mynd / Úr einkasafni

Heiðarlegar stórhríðar hafa sinn sjarma

Veðrið nú undanfarnar vikur hefur verið að mestu leyti til friðs segir Guðrún, en það hefur þó náð að trufla skólahald lítillega, það hefur  verið mjög mikið svell á vegum og ægileg hálka sem gerir vegina verulega varasama.

„Svona hálka er hundleiðinleg en það verður nú eiginlega að viðurkenna að heiðarlegar stórhríðar hafa alltaf vissan sjarma sé fólk ekki á ferðinni,“ segir Guðrún. Þokkalegan frostakafla gerði þó nýverið, frost fór þó ekki yfir 20 °C. Hún nefnir að ansi kalt geti orðið þegar frost nær 20 °C og vindur fylgi með. Þá velji menn sér verkefni í samræmi við veðurfarið, vinni í útihúsum, við bókhaldið, að hugmyndavinnu, framkvæmdum innandyra eða við nýsköpunarpælingar. Slík vinna henti vel við þær aðstæður, en eins er vélaskemman í Svartárkoti upphituð og lítið mál að vera þar við ýmis störf þó úti sé fimbulfrost.

Sóttvarnir koma í veg fyrir samkomuhald í Bárðardal

Guðrún segir að félagslíf í Bárðardal liggi allt niðri um þessar mundir vegna heimsfaraldursins og þar fari fólk að tilmælum um sóttvarnir líkt og annars staðar og það reyni vissulega á menn. Lengi hefur sú hefð verið við lýði í dalnum að kvenfélagið efni til jólatrésskemmtunar milli jóla og nýárs. Þá hefur fólk komið saman á aðventukvöldi og gjarnan hafa íbúar hist og spilað púkk á þrettándanum.

„Það verður ekki af neinu nú í ár, við verðum að læra að taka hlutunum ekki sem sjálfgefnum og meta það sem við höfum og eigum,“ segir Guðrún. 

Hún nefnir að margt sé til staðar til að gera þetta tímabil auðveldara, netsamband geri fólki kleift að hafa samskipti við ættingja og vini og eins sé heilmikil afþreying í boði í sjónvarpi, útvarpi og á netinu. 

„Við náttúrlega búum vel svona úti í sveit að hafa alla þessa náttúru sem nýtist vel til útivistar og hreyfingar.  Það er hægt að sinna vinnunni, stunda hreyfingu og fara um allt án þess að rekast á nokkurn mann, hvað þá að setja upp grímu.“

Systurnar Guðrún og Sigurlína Tryggva-dætur búa í Svartárkoti ásamt fjölskyldum sínum. Hér njóta þær sumarblíðunnar sem getur verið einstök ekki síður en vetrarríkið. Mynd / MÞÞ

Margar ómissandi hefðir á aðventu og um jólin

Guðrún segir að í Svartárkoti séu ýmsar hefðir ómissandi á aðventu og í jólahaldinu. Einn þáttur sem tengist árstímanum og er ekki síður mikilvægur en að kveikja á aðventukransinum, en það er að raða ánum undir hrútana. Það verkefni sjá hún og Magnús, mágur hennar, um. Sæðingar eru nýafstaðnar og svo er bara að bíða.

„Jólin og aðventan hér í Svartárkoti einkennast af samveru fjölskyldunnar. Við komum saman og skerum út laufabrauð, það er löng hefð fyrir því og mjög skemmtileg, alltaf verða til fínustu listaverk,“ segir Guðrún og bætir við hún viðurkenni fúslega að hafa í áranna rás dregið úr þegar kemur að jólabakstri, en uppáhaldskökurnar séu enn bakaðar. Sörur bakar hún alltaf en það er komin á það hefð þó ekki sé hún nú frá því Guðrún var að alast upp. 

Ein hefð er að sækja jólatré út í skóg. Það var nokkuð erfitt í fyrra, þegar allt var bókstaflega á kafi í snjó og þurfti að grafa sig niður á trén. 

Stórfjölskyldan ásamt vinafólki hefur komið saman og snætt skötu í hádeginu á Þorláksmessu, en Guðrún gerir ráð fyrir að nú sæki bara  heimamenn þá samkomu og engir utanaðkomandi. Um kvöldið hefur fjölskyldan safnast saman á heimili Sigurlínu systur hennar og Magnúsar manns hennar og þar hefur verið boðið upp á kex, osta og girnilega smárétti og hlustað á Frostrósir. 

Möndlugrautur er í boði í hádeginu á aðfangadag og um kvöldið er hefðbundin máltíð, jólalamb og hamborgarhryggur. 

„Við borðum alltaf hangikjöt í hádeginu á jóladag hjá mömmu.  Það er alltaf spilað mikið um jólin og stundum horft á Hobbitann og Hringadróttinssögu. Ef veðrið er gott leikum við okkur mikið úti við að renna á skíðum, brettum eða snjóþotum, förum á snjósleða eða smá jepparúnta.  En annars gengur þessi tími út á að njóta lífsins saman og slaka á,“ segir Guðrún. 

Um áramót er farið af bæ. Annað hvert ár til föðursystur Guðrúnar á Húsavík, sem heldur boð fyrir fjölskylduna á gamlárskvöld, en hitt árið er farið á heimaslóðir eiginmannsins, Hlina í Svarfaðardalinn. 

Skylt efni: Svartárkot | Bárðardalur

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt