Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Sigert Patursson, formaður Bónda­félags Føroya.
Sigert Patursson, formaður Bónda­félags Føroya.
Mynd / smh
Viðtal 9. apríl 2018

Framtíð landbúnaðar í Færeyjum er björt

Höfundur: Vilmundur Hansen

Meðal góðra gesta á nýafstöðnu búnaðarþingi var Sigert Patursson, formaður Bóndafélags Føroya til fimm ára. Sigert er kúabóndi í Hoyvíksgarði á Straumey sem er skammt frá Hoyvík, auk þess sem hann er með 270 kindur.

Í Hoyvik eru milli 130 og 140 nautgripir og þar af 60 mjólkurkýr í fjósi með einum mjaltaþjóni. Sigert segir að búið sé stórt á færeyska vísu og mjólkurframleiðendum hafi fækkað í Færeyjum síðustu tvo áratugi. „Fyrir 15 árum voru mjólkurframleiðendur á eyjunum 68 en í dag eru þeir 25 og framleiða næga mjólk og mjólkurafurðir til að fullnægja innanlandsmarkaði.“

Sigert er kúabóndi í Hoyvíksgarði sem er skammt frá þorpinu Hoyvík á Straumey. Mynd/SP

Að sögn Sigerts er þetta í fyrsta sinn sem hann kemur á Búnaðarþing og reyndar í fyrsta sinn sem fulltrúa færeysku bændasamtakanna er boðið að þing að þessu tagi. „Ég hef áður heimsótt Ísland en aldrei sótt svona þing áður og ég er óneitanlega mjög ánægður með þátttökuna og fræddist mikið á því að sitja þingið og vil nota tækifærið hér til að þakka fyrir mig.“

Sauðfjár- og nautgriparækt

Sigert segir að í dag takmarkist búfjárhald í Færeyjum við nautgriparækt til mjólkur- og kjötframleiðslu og sauðfjárrækt og heimaræktun á gæsum, kjúklingum og eggjaframleiðslu til heimanota. Allt annað er innflutt.

„Framleiðsla á nautakjöti hefur dregist saman undanfarin ár en það er stefna landbúnaðarráðuneytisins að auka hana aftur með styrkjum til bænda.“

Í Færeyjum er að finna tvo stofna nautgripa. Sigert segist aðallega ala norska RNF nautgripi en að aðrir bændur séu með blöndu af RNF og dönskum Holstein-gripum eða eingöngu Holstein.

„Sauðfé í Færeyjum er í kringum 70 þúsund og gengur úti svo til allt árið og kjötið því ódýrt í framleiðslu. Fénu er gefið á veturna og á vorin sé þess þörf fyrir burð. Vegna þessa bera ærna yfirleitt bara einu lambi og þar sem Færeyingar borða mikið af lambakjöti flytjum við mikið af því inn bæði frá Íslandi og Nýja-Sjálandi. Innflutningurinn á ári er svipaður að magni og við framleiðum í Færeyjum.“

Innflutningur á kjöti

„Eitt af því sem gerir færeyskum bændum erfitt fyrir er innflutningur á kjöti, hvort sem það er ferskt eða frosið. Áður var bannað að flytja inn hrátt kjöt en vegna tollasamninga um útflutning á fiski var innflutningurinn á landbúnaðarvörum gefin frjáls fyrir nokkrum árum. Framleiðsla á landbúnaðarvörum er kostnaðarsöm í Færeyjum og því erfitt fyrir innlenda framleiðslu að keppa við innflutta. Staðan í dag er því þannig að bændur verða að reiða sig á stuðning frá ríkinu til að standa undir kostnaði og keppa við erlenda framleiðslu.“

Sigert segir að þrátt fyrir að verð á færeysku lambakjöti sé hærra en á innfluttu seljist innlend framleiðsla vel. „Færeyingar eru hrifnir af færeysku lambakjöti og flestir kjósa það fram yfir innflutt. Ég á því von á að það haldi áfram að seljast vel, auk þess sem ferðamannaiðnaður er vaxandi og ferðamenn vilja gjarnan smakka innlenda framleiðslu.

Færeyski matsölustaðir og kokkar í Færeyjum sýna einnig aukin áhuga á að bjóða og matreiða úr innlendu hráefni alveg eins og mér skilst að sé í tísku á Íslandi.“

Garðyrkja og ræktun

Að sögn Sigerts hefur innflutningur á hráu kjöti ekki borið með sér neina búfjársjúkdóma sem hafa borist í búfé í Færeyjum svo hann viti til, að minnsta kosti ekki enn.

„Ástandið er aftur á móti verra þegar kemur að garðyrkju og mörg vandamál hafa komið upp. Innflutningur á matjurtum og plöntum er frjáls til Færeyja og fyrir nokkrum árum barst okkur spánarsnigill sem étur allar plöntur sem hann nær til og veldur miklum skaða í ræktun.

Um 20% af innanlandsneyslu á kartöflum eru ræktuð í Færeyjum auk þess sem við ræktum einnig korn í tilraunaskyni og lítilsháttar af grænmeti og þá aðallega með heimaræktun. Annað er flutt inn.
Þrátt fyrir að matjurtarækt sé vaxandi er ekki enn sem komið er ræktað grænmeti eins og tómatar og agúrkur til framleiðslu í gróðurhúsum. Á sjöunda og áttunda áratugnum var lítilsháttar gróðurhúsaframleiðsla á grænmeti í Færeyjum en hún lagðist af vegna ódýrs innflutnings og smæðar markaðarins.

Skógrækt Færeyja er ríkisrekin og rekur garðyrkjustöð sem ræktar skógræktarplöntur og garðplöntur sem eru seldar almenningi. Einnig er talsvert flutt inn af garðplöntum og er líklegt að spánarsnigillinn hafa borist með þeim.

Vespur eru einnig tiltölulega nýjar í Færeyjum og allt bendir til þess að þær hafi fylgt með þökum sem voru fluttar inn til að leggja á fótboltavöll, eins furðulegt og það kann að hljóma.“

Sigert segir að plöntur sem fluttar hafa verið inn sem garðplöntur hafi í mörgum tilfellum náð fótfestu í náttúrunni og séu víða talsvert ágengar og fjölgi sér mikið á kostnað innlends gróðurs og gróðursamfélaga.

„Það er því ekki alltaf til bóta að gefa allt frjálst og hleypa öllu inn í landið án eftirlits.“
Margir smábændur

Í Færeyjum er mikill fjöldi smábýla að sögn Sigerts. „Um helmingur lands í Færeyjum er í einkaeigu og helmingurinn er í eigu ríkisins. Bændur sem hafa til þess leyfi og mega nytja land í eigu ríkisins og selja nýtingarréttinn en þeir geta ekki selt landið sem slíkt.

Land í einkaeigu er í eigu margra og hver um sig á litlar jarðir eða skika. Margir, bæði menn og konur, eiga fáeinar kindur og jafnvel bara eina kind og við lítum ekki í raun á það fólk sem bændur heldur áhugafólk um sauðfjárrækt.

Bændur sem lifa á búskap, nautgripa- eða sauðfjárrækt eða stunda aðra vinnu samhliða búskap eru á milli 50 og 60.“

Styrkir til landbúnaðar

„Ríkið styrkir mjólkurframleiðslu um 50 aura danskra króna á lítrann auk þess sem bændur fá einnig styrk vegna framleiðslu á heyi Ef allt er tekið saman og miðað við framleiðslu á mjólk er upphæðin 1 króna og 30 aurar danskar á lítra.

Lambakjötsframleiðsla í Færeyjum er án allra ríkisstyrkja en bændur fá 7 krónur danskar fyrir hvert kíló af nautakjöti.

Þeir sem eiga kindur geta aftur á móti sótt um niðurfellingu á 75% af virðisaukaskatti vegna sölu á lambakjöti.“

Samhliða kúabúskap heldur Sigert sauðfé.

Áhersla á aukið eldi og ræktun

„Núverandi landbúnaðarráðherra vil leggja áherslu á aukna landbúnaðarframleiðslu, hvort sem það er í framleiðslu á kjöti eða kartöflu- eða grænmetisrækt. Við erum ekki enn farin að ræða um grænmetisræktun undir gleri þrátt fyrir möguleika á að vinna jarðvarma eða beisla vindorku og hita gróðurhúsin þannig. Möguleikarnir eru margir en allt veltur á því að fólk vilji kaupa framleiðsluna og hægt sé að framleiða vöruna á því verði sem fólk er til í að borga fyrir hana.“

Sigert segir að í Færeyjum, líkt og annars staðar í heiminum, vilji fólk að matur sé ódýr og að það sé tilbúið að greiða hátt verð fyrir nánast hvað sem er nema mat.

„Fólk er eða var til í að borga háar upphæðir fyrir nánast allt nema það allra nauðsynlegasta, sem er náttúrulega góður og hollur matur. Þetta er smám saman að breytast og ég held að fólk sé orðið meira meðvitað um mat og matvælaframleiðslu og hvað góður matur skiptir miklu máli.

Margir í dag vilja kaupa vistvæna framleiðslu og það er áskorun fyrir bændur í Færeyjum að bjóða upp á hana. Ég sé þó ekki fram á að við getum boðið upp á vistvæna framleiðslu í miklu magni í náinni framtíð. Jarðvegur í Færeyjum er næringarefnasnauður og þarf áburð til ræktunar.

Uppeldi á fiskeldisseiðum í Færeyjum er sífellt meira að flytjast í kvíar á landi áður en þau fara í sjó. Sem stendur erum við með tilraun, í samstarfi við fiskeldisfyrirtæki, um að nota úrgang sem fæst við endurvinnslu eldisvatnsins og mykju sem áburð.“

Framtíðin er björt

Aðspurður segir Sigert að staða landbúnaðar í Færeyjum sé ágæt og hann telji framtíðina bjarta. „Okkar helsta vandamál er skortur á landi og ekki síst ræktunarlandi. Í Færeyjum er það þannig að þegar ríkið selur land vegna útþenslu þéttbýliskjarna fer hluti andvirðisins í sjóð sem bændur geta sótt um fé til vegna framkvæmda til að brjóta land til ræktunar eða bygginga gripahúsa.“

Líkt og annars staðar í heiminum er sífellt meira af náttúrulegu landi brotið til ræktunar. Sigert segir að þessu sé svipað farið í Færeyjum. „Við verðum einfaldlega að brjóta meira land til ræktunar ef við ætlum að auka landbúnaðarframleiðslu. Í dag eru einungis 2% af landi í Færeyjum ræktað og ólíklegt að það sé hægt að rækta meira en 6 til 7% vegna þess að mikill hluti eyjanna er fjalllendi en ég sé aukna ræktun ekki sem vandamál í nánustu framtíð. Að vísu er land víða í beit en ég sé það heldur ekki sem vandamál.“

Skylt efni: Færeyjar

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt