Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
„Ég fór á bak hinum og þessum hestum hjá öllum sem hleyptu mér á bak löngu áður en ég eignaðist minn fyrsta hest. Hann fékk ég ekki fyrr en ég var orðin 12 ára. Síðan hefur þetta bara smá versnað.“
„Ég fór á bak hinum og þessum hestum hjá öllum sem hleyptu mér á bak löngu áður en ég eignaðist minn fyrsta hest. Hann fékk ég ekki fyrr en ég var orðin 12 ára. Síðan hefur þetta bara smá versnað.“
Viðtal 9. janúar 2015

Ég er forfallinn hestamaður

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Hulda G. Geirsdóttir hestakona og útvarpsmaður með meiru, lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Félags hrossabænda um komandi áramót, en 18 ár eru þá liðin síðan hún hóf þar fyrst störf. 
 
„Ég hef starfað hér í tveimur hollum. Ég byrjaði fyrst hjá Félagi hrossabænda 1996 og var í fullu starfi til ársins 2000. Ég var þá fyrst og fremst starfandi sem markaðsfulltrúi, en ekki eiginlegur  framkvæmdastjóri félagsins, fyrr en þá í restina. Ég fór síðan að vinna sem ritstjóri hjá Eiðfaxa og  svo að eiga mín börn og gera ýmsa aðra hluti. 
 
Í ársbyrjun 2007 var ég svo beðin um að koma hingað aftur og hef verið hér síðan.“
 
− Það hefur trúlega verið í mörg horn að líta í þessu starfi?
„Já, það hefur sannarlega verið það. Ég hef verið hér í hlutastarfi frá 2007 og þegar maður er eini starfsmaðurinn þá gengur maður í allt mögulegt. Þess vegna er enginn dagur eins og ég hef  séð um allt frá stjórnsýslu og fjármálum félagsins yfir í alls kyns smáverk eins og að bera kassa og setja saman húsgögn.“
 
Lokaverkefnið er myndskreytt kennslubók fyrir börn
 
„Mitt starf hefur annars að stórum hluta gengið út á kynningarmál. Ég hef lagt mikla áherslu á að útbúa kynningar- og fræðsluefni  fyrir fólk  innanlands og utan sem vill kynna sér íslenska hestinn. Við hjá Félagi hrossabænda höfum verið  leiðandi í því að búa til slíkt efni og eiga á lager þegar fólk sem er að kynna hestinn þarf á því að halda. Núna erum við að leggja lokahönd á skemmtilega myndskreytta bók fyrir börn með fræðslu um íslenska hestinn. Ég stefni á að klára þetta verkefni áður en ég kveð ásamt nýrri heimasíðu sem er reyndar komin í loftið, en verið að fínpússa. 
 
Þetta hefur verið mjög ánægjulegur tími og það sem mér hefur kannski fundist einna skemmtilegast  er hvað ég hef kynnst óhemju mörgu góðu fólki út um allt land sem ég hefði að öðrum kosti kannski aldrei fengið tækifæri til að hitta. Þá hef ég ferðast töluvert í þessu starfi bæði innanlands og utan og þannig hef ég líka komið á marga staði sem ég hefði annars ekki farið til. 
 
Starfið hér hefur  gefið mér mjög margt, bæði hvað faglega reynslu varðar og eins varðandi samskipti og vinskap. Ég hef unnið með og fyrir afskaplega margt gott fólk og ég  á eftir að sjá eftir þeim hluta, en ég mun halda áfram að hitta hestamenn og bændur þótt það verði annars staðar en í Bændahöllinni.“
 
− Landsmót hestamanna hefur líka snert feril þinn í þessu starfi, hvað getur þú sagt mér um þau mál?
„Ég hef komið að landsmótum með ýmsum hætti. Ég hef verið að vinna við þau sem fjölmiðlafulltrúi, sem þulur, sem dómari  og unnið þar  fyrir sjónvarp, útvarp og prentmiðla. Þannig þekki ég orðið flestar hliðar á þeim viðburði.“
 
Vill veg Landsmóts hestamanna sem mestan
 
Nú hafa oft verið átök um staðarval fyrir landsmót, hvernig lýst þér á þessa lendingu ef af verður að halda landsmótið á Hólum?
„Ég hef alveg haldið mig til hlés í þessari landsmótsumræðu. Ég vil bara veg landsmótsins sem mestan. Þetta er stórmerkilegt fyrirbæri og ég treysti því fólki sem fer með þessi mál til að klára þau og reyna að gera það á sem bestan hátt. Ég mun alla vega halda áfram að mæta á landsmót hvar svo sem þau verða. 
Ég sé alveg fyrir mér að landsmót  geti verið á fleiri en einum stað, en finnst þó líka koma til greina að festa það við einn stað. Menn þurfa þó að leggja það niður fyrir sér hvernig þeir  vilja hafa þetta. Á að reka landsmót sem fyrirtæki eða ætla menn að hafa önnur sjónarmið ofar á blaði eins og félagsleg sjónarmið og byggðasjónarmið? Um þetta verða menn að taka ákvörðun.“
 
Meiri kröfur fækka mögulegum mótsstöðum
 
− Nú eru kröfur varðandi umgjörð hrossa á landsmóti stöðugt að aukast sem útheimtir þá mikinn húsakost á mótstað. Útiloka slíkar kröfur ekki strax ákveðna staði sem áður hafa verið inni í myndinni?
„Jú, ef menn vilja leggja þá línu að kröfurnar um landsmót gangi fyrst og fremst út á aðstöðuna, þá fækkar auðvitað möguleikunum. Ef línan er hins vegar lögð þannig að líka þurfi að gera ráð fyrir ákveðinni sveitastemningu, eða sjónarmiðum áhorfenda, þá er kannski verið að tala um annað dæmi. Í þessu liggur spurningin. Þarf að reka þetta eins og fyrirtæki með hagnaðarsjónarmiðin efst á blaði, eða erum við að tala um einhvers konar félagslegt fyrirbæri? Mér finnst  menn  ekki hafa gert þetta endanlega upp við sig enn þá.“
 
Treystir því að hestamenn klári þetta
 
Hulda segir að í raun sé hægt að ræða endalausar útfærslur á slíku mótshaldi. Allar hafi þær komið upp í umræðunni í gegnum tíðina.
„Einhvern tíma verða menn þó að leggja einhverja línu og vera samtaka um að fylgja henni. Í mínum huga er alveg sama hvaða leið verður farin í þessum landsmótsmálum, það verða aldrei allir ánægðir. Það þarf samt að tryggja hagsmuni fyrirbærisins landsmóts og þeirra sem að því standa. Ég treysti því að hestamenn klári það.“ 
 
Ég er forfallinn hestamaður
 
− Ert þú ekki sjálf í hestamennsku?
„Jú, ég er forfallinn hestamaður og hef verið frá því ég var pínulítil stelpa. Ég tók það algjörlega upp hjá sjálfri mér að fá hestadellu. Það er enginn, hvorki í móður- né föðurfjölskyldu minni, sem stundar hestamennsku eða hefur nokkurn tíma gert. 
Ég er fædd í Vestmannaeyjum og uppalin í Keflavík og ég var svo heppin að nágranni minn, Arnoddur Tyrfingsson, rak  reiðskóla þegar ég var lítil hestasjúk stelpa. Ég fékk að þvælast með  honum og krökkunum hans sem tóku mér afskaplega vel.  Svo voru fleiri karlar í Keflavík eins og Brynjar Vilmundarson, sem síðar varð þekktur hrossaræktandi á Feti, Ingvar Hallgrímsson og Hákon heitinn Kristinsson úr Skarði í Landsveit sem hlúðu svolítið að þessari dellu minni og leyfðu mér að þvælast með sér. Ég á þeim og fleirum mikið að þakka. Ég fór á bak hinum og þessum hestum hjá öllum sem hleyptu mér á bak löngu áður en ég eignaðist minn fyrsta hest. Hann fékk ég ekki fyrr en ég var orðin 12 ára. Síðan hefur þetta bara smá versnað,“ segir Hulda og brosir.
 
Sælureitur fjölskyldunnar
í Holta- og Landsveit
 
„Í dag á ég hesthús á Sprettssvæðinu, á Kjóavöllum í Kópavogi. Síðan keyptum við fjölskyldan hluta úr jörð í Holtum í Holta- og Landsveit, sem við köllum Holtabrún og er út úr jörðinni Hallstúni. Þar erum við með lítið sumarhús og höldum okkar hesta á sumrin og haustin. Þar er sko sælan,“ segir Hulda og hlær. 
 
− Ertu þá búin að véla alla fjölskylduna inn í þetta?
„Já, ég kynntist manninum mínum, Bjarna Bragasyni, í gegnum hestamennskuna sem var mjög heppilegt. Svo á ég tvö börn sem líka taka þátt. Dóttir mín, sem er níu ára, hefur mikinn áhuga á hestum og er mjög efnilegur hestamaður. Sonur minn, sem er tólf ára, hefur líka gaman af hestunum, en er kannski ekkert síður áhugasamur um búskap almennt. Hann er ekkert minna áhugasamur um kindur og ýmislegt annað. 
Það er gaman að geta verið öll saman í þessu og það skapast  svolítið ný vídd í hestamennskunni þegar börnin geta   verið með manni. Ég held að það séu ekki til mörg betri áhugamál fyrir fjölskyldu til að stunda saman.“
 
Hestamennska er ekki hættulegri en annað sport
 
− Er hestamennska ekki stórhættulegt sport, fólk að detta af baki og slasa sig?
„Ég er nú búin að fá margar byltur um ævina, en stend samt enn þá í báðar lappir. Hestamennskan er í sjálfu sér ekkert hættulegri en annað sport, eins og skíðaíþróttir, bílaíþróttir, mótocross eða jafnvel boltaíþróttir. Fólk getur brotið bein í hvaða sporti sem er og slasað sig í alls konar íþróttum. Þetta snýst um að kunna á hesta og þekkja þeirra viðbrögð og hegðan og svo auðvitað nota þau öryggistæki sem eru í boði.“
 
Fásinna að ríða út án þess að vera með hjálm
 
„Ég er mikill talsmaður hjálma­notkunar og tel það algjöra fásinnu að ríða út án þess að vera með hjálm. Ég skil ekki fólk sem lætur sér detta það í hug. Hvað þá fólk sem á börn eða er fyrirmyndir barna. Ég hvet okkar fremstu knapa eindregið  til að sýna sig sem fyrirmyndir með því að nota hjálm, alltaf. Þetta er eins og að setja á sig öryggisbelti sem er bara partur af því að setjast inn í bíl.“
 
Hulda segir reyndar að ekki sé langt síðan hestamenn hafi almennt farið að nota hjálm.
„Þegar ég var krakki reið ég ekkert út með hjálm. Í dag myndi mér ekki detta það í hug, enda vonandi þroskaðri og fróðari um hættuna. Sem betur fer hefur þetta mikið breyst og hjálmarnir eru líka orðnir vandaðri, léttari og þægilegri.“
 
Ætlar að gefa hestamennskunni meiri tíma
 
− Þú ætlar sem sagt ekkert að leggja hestamennskuna á hilluna þegar þú hverfur úr þessu starfi?
„Nei, ég ætla frekar að gefa í á því sviði. Fram að þessu hefur mig kannski aðeins skort tíma til að sinna hestamennskunni. Mig langar svolítið að gefa henni meiri tíma. Ég hef verið að rækta og á fullt af efnilegum ungum hrossum sem eru spennandi verkefni.  Vonandi tekst mér það ef ég sökkvi mér ekki á kaf í eitthvað annað.“
 
Hulda segir að henni hafi gengið ágætlega að selja það sem hún hafi þurft að selja úr sinni ræktun. Hún hafi þó ekkert verið að leggja sérstaka áherslu á að rækta beinlínis til að selja. Einnig þurfi menn þá að vera gallharðir á að losa sig við þá hesta í sláturhús sem enginn hafi gagn af. Ekki gangi að safna hestum bara til að safna.
„Það kostar mikið að ala hross upp og temja. Það gengur því ekki í þessari búfjárrækt frekar en öðrum að  halda öllu sem fæðist.“
 
Heldur áfram á Rás 2
 
− Nú þekkja margir þína rödd úr útvarpinu, verður þú ekki áfram á þeim vettvangi?
„Jú, ég  verð  áfram í dagskrárgerð á Rás 2. Annars veit maður svo sem ekkert hvað gerist í framhaldinu þar. Það er mikil óvissa um starfsemi RÚV og maður á eftir að sjá hvernig það fer. Ég hef mjög gaman af því að vinna við útvarp og þykir vænt um RÚV. Ég tel það hafa mikilvægu hlutverki að gegna og þar starfar ótrúlega hæfileikaríkt og duglegt fólk. 
 
Svo verð ég í lausamennsku við hin ýmsu verkefni og er opin fyrir nýjum tækifærum. Ég hefði til dæmis mikinn áhuga á því að sitja í stjórnum fyrirtækja ef menn vantar öfluga konu í slíkt. Ég hef nýverið tekið sæti í endurskoðunarnefnd Lífeyrissjóðs bænda og hef mikla reynslu af félagsmálastörfum og ýmiss konar nefndasetu. Ég hef líka  þekkingu á rekstri smærri fyrirtækja og félaga eins og Félagi hrossabænda. Síðan höfum við fjölskyldan rekið okkar eigið fyrirtæki um nokkurra ára skeið. Það er því margt sem kemur til greina. Ég verð með allar dyr galopnar og mun bara sjá til hvað kemur inn, það hafa allir gott af því að breyta til,“ segir Hulda G. Geirsdóttir. 

9 myndir:

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt