Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Drífa og Doppa elska fíflablöð
Viðtal 11. júní 2015

Drífa og Doppa elska fíflablöð

Höfundur: Vilmundur Hansen

Áhugi borgarbúa á ræktun af öllu tagi er alltaf að aukast. Eftirspurn eftir grenndargörðum er meiri en svo að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu nái að anna eftirspurninni. Þeim fjölgar einnig sem halda hænur í garðinum.
„Mig hefur lengi langað í hænur og draumurinn varð að veruleika í fyrravor þegar konan og börnin gáfu mér þrjá landnámshænur og lítinn skúr, sem var gamall sjónvarpsskápur, undir þær þegar ég varð fimmtugur,“ segir Bragi Halldórsson, hænsnahaldari og íbúi í Kópavogi.

Sex ungar úr átta eggjum

„Einn unginn reyndist vera hani og honum var skilað aftur upp í Mosfellsdal, þaðan sem fuglarnir eru upprunnir, og hefur væntanlega verið étinn. Ég hélt því tvær landnámshænur, Drífu og Doppu, í vetur en í vor fékk ég átta frjóvguð egg fyrir þær til að liggja á og úr þeim sex lifandi unga.
Auk litla skúrsins sem fylgdi hænunum er þokkalega stór og einangraður skúr í garðinum þar sem hænurnar átta eru í dag. Ég er líka búinn að smíða girðingu utan um útisvæðið þeirra.“

Gikkir á fæðu

Bragi segir lítið mál að gefa hænunum að éta. „Það er hægt að kaupa handa þeim hænsnakorn en sjálfar velja þær allt annað framyfir það ef þær hafa val. Ég sleppi þeim stundum út fyrir girðinguna og í garðinn í góðu veðri enda eru þær búnar að tæta allt upp í gerðinu. Kettirnir í hverfinu eiga til að hrella hænurnar en eiga lítið í þær ef í hart fer. Þar er helst að þeir geti gert ungunum mein og ég verð því að gæta þeirra þegar þær fá að fara út í garð.
Uppáhaldsfæða hænsnanna eru fíflablöð, arfi og skordýr auk þess sem þær éta allar grænfóður- og kornmetisleifar sem falla til á heimilinu. Hænurnar hreinsa arfann úr beðunum á stuttum tíma og eru líka sólgnar í mosa og bestu mosatætarar sem ég veit um.“

Bannað að vera með hana

Samkvæmt samþykkt borgarráðs Reykjavíkur er leyfilegt að vera með fjórar hænur í garðinum en ekki hana og hafa þarf myrkur hjá hænunum frá klukkan níu á kvöldin til sjö á morgnana.
Á lóðum þar sem veitt er leyfi til hænsnahalds þarf að vera hæfilega stór hænsnakofi sem rúmar þann fjölda af hænum sem leyfi er veitt fyrir. Hænsnakofi fyrir 4 hænur þarf að vera að lágmarki tveir fermetrar að stærð. Í kringum kofann skal vera hænsnahelt gerði, hæfilega stórt fyrir útiveru hænsnanna. Hænsnakofi og gerði skulu vera vel innan lóðarmarka viðkomandi lóðar, að lágmarki þrír metrar. Byggingarleyfi fyrir hænsnakofa og girðingar við þá er háð gildandi ákvæðum byggingarreglugerðar eins og hún er á hverjum tíma.
Lausaganga hænsna er með öllu óheimil og ber hænsnaeigandi fulla vörsluskyldu. Hænsnaeigandi er að öllu leyti ábyrgur fyrir hænsnum sínum og ber að koma í veg fyrir að hænsnahaldið valdi ónæði í umhverfinu, svo sem vegna hávaða, ólyktar og hvers konar óþrifnaðar. Hænsnaeiganda ber einnig að sjá til þess að hænsnahaldið laði ekki að meindýr.
Sleppi hæna frá eiganda eða umráðamanni skal viðkomandi tafarlaust gera ráðstafanir til að handsama hana. Hænur í lausagöngu skal færa í geymslu á vegum Reykjavíkurborgar. Ef hænu er ekki vitjað innan einnar viku frá handsömun, er heimilt að ráðstafa henni til nýs eiganda eða selja hana fyrir áföllnum kostnaði. Að öðrum kosti skal hún aflífuð.
Hafi hæna verið handsömuð er óheimilt að afhenda hana fyrr en að lokinni greiðslu áfallins kostnaðar. Sé eigandi ekki með leyfi fyrir hænsnahaldi skal afla leyfis og greiða það áður en hæna fæst afhent.  Kostnaður við handsömun, geymslu eða aflífun hænu skal að fullu greiddur af eiganda.
Þá þarf hænsnabóndi í Reykjavík að þrífa hænsnakofann að lágmarki vikulega.
Svipaðar reglur í Kópavogi

Bragi segir að reglur um hænsnahald í Kópavogi séu ekki formlegar en að tekið sé mið af gildandi reglum í Reykjavík. „Ég hafði samband við heilbrigðiseftirlitið í Kópavogi og spurðist fyrir hjá þeim um hænsnahaldið. Þar var mér sagt að það væri bannað að vera með hana til að valda ekki ónæði og að ef útisvæði hænanna væru um tuttugu metrar frá nærliggjandi húsum þyrfti ekki leyfi frá nágrönnunum til hænsnahaldsins.“


14 egg á viku

„Meðan á varptíma stendur eru Doppa og Drífa að gefa af sér sitthvort eggið á hverjum degi, Fjórtán egg á viku eru yfirdrifið fyrir fjölskylduna og við gefum því vinum og fjölskyldu heilmikið af eggjum.“
Bragi segist ekki vita til annars en að nágrannar sínir hafi gaman af sambýlinu við hænurnar. „Satt best að segja finnst þeim þær algjört æði og ég tala ekki um krakkana í hverfinu sem hreinlega elska þær og koma að gefa þeim fíflablöð að borða.“

Gefa unga í sveitina

Bragi segir að í sínum huga tengi hann hænsnahald í byggð bæjarbúa betur en við sveitina. Mosfellsdalurinn er dæmi um svæði sem er á mörkum bæjar og sveitar, eins konar jaðarsveit. Við fengum hænurnar og eggin þaðan. Vinir okkar sem búa í Mosfellsdalnum urðu fyrir því óhappi að minkur drap allar hænurnar þeirra og nú ætlum við að gefa þeim nokkra unga og hefur dæmið því snúist við.“

Skylt efni: hænur | borgarbændur

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt