Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Hannes Snorrason, eftirlitsmaður hjá Vinnueftirlitinu, segir að lítið eftirlit sé í landbúnaði því fjármunir séu af skornum skammti. Áður var kerfisbundið farið í heimsóknir til bænda til þess að skoða vélakost og vinnuaðstæður en það sé liðin tíð.
Hannes Snorrason, eftirlitsmaður hjá Vinnueftirlitinu, segir að lítið eftirlit sé í landbúnaði því fjármunir séu af skornum skammti. Áður var kerfisbundið farið í heimsóknir til bænda til þess að skoða vélakost og vinnuaðstæður en það sé liðin tíð.
Mynd / TB
Viðtalið 10. ágúst 2020

„Fólk sér ekki hætturnar“

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Vinnuslys eru afar kostnaðarsöm fyrir samfélagið og geta reynst einstaklingum sem lenda í þeim þungbær. Vinnuveitendur bera mikla ábyrgð og það er þeirra að sjá um að aðstæður á vinnustað séu til fyrirmyndar. Hannes Snorrason starfar við fyrirtækjaeftirlit hjá Vinnueftirlitinu. Hann segir að lítið eftirlit sé í landbúnaði því fjármunir séu af skornum skammti og áhættumat um eftirlit ráði áherslum. Hannes er með starfsstöð á Selfossi en honum er falið að sjá um eftirlit í sjávarútvegi og landbúnaði, allt frá Vesturlandi og austur í V-Skaftafellssýslu. Að auki sinnir hann ýmsu öðru eftirliti á Suður­landi. Hann kemst ekki yfir nema hluta af því sem honum er falið en til þess að svo mætti vera þyrfti að fjölga eftirlitsmönnum að hans mati.
 
„Ég er útlærður vélfræðingur og með meistarabréf í vélvirkjun. Ég hef unnið á sjó og í landi í þeim fögum sem og við ýmislegt annað, t.d. við stjórnun og viðgerðir á alls konar vinnuvélum. Fyrir 15 árum hóf ég störf hjá Vinnueftirlitinu þar sem ég byrjaði að skoða vinnuvélaskráð tæki og vinnuvélar. Eftir ýmsar breytingar á starfinu var ég  kominn inn í fyrirtækjaeftirlitið einvörðungu og hættur skoðun vinnuvéla. Þar með fór ég að skoða fyrirtæki almennt og undanfarin ár verið með áherslu á vélar og búnað. Mér voru faldar tvær yfiratvinnugreinar að vinna í: fiskveiðar, fiskverkun og fiskeldi ásamt því að hafa eftirlit með landbúnaði.“ 
 
Landbúnaðurinn ekki í forgangi
 
Hannes segir að hefðbundinn landbúnaður sæti afgangi í fyrirtækjaeftirliti því velja þurfi á milli þess að skoða stóra vinnustaði með mikla hættu og mörgu starfsfólki eða heimsækja vinnustaði með fáum starfsmönnum eins og hefðbundin bændabýli. „Í fullkomnum heimi þá gæti þurft marga eftirlitsmenn í hvorum geira fyrir sig, sjávarútvegi og landbúnaði. Ég er með þessa tvo stóru geira á minni könnu en fæ vissulega hjálp frá eftirlitsmönnum víða um land. Aðrir eftirlitsmenn eru þó með sínar eigin yfiratvinnugreinar sem þeir þurfa að líta eftir. Í grunninn þarf ég að sinna öllu suðvesturhorninu og kemst ekki yfir nema brot af því sem þarf að gera. Ég get því ekki sinnt skoðunum í landbúnaði eins og þörf væri á,“ segir Hannes.
 
Vinnueftirlit í hefðbundnum land­búnaði var umtalsvert á fyrri árum þegar bændur voru heimsóttir reglulega og vélakosturinn tekinn út. „Það byggðist á því að eftirlitsmenn fóru út á land og tóku fyrir viss svæði og heimsóttu bæi. Þá var aðallega verið að skoða vélbúnaðinn, þ.e. dráttarvélar, heyvinnuvélar og slík tæki. Farið var yfir bremsur og stýri, hlífar yfir aflúrtök og ýmis almenn öryggisatriði og mikil áhersla lögð á drifsköft. Enn lengra síðan voru veltibogarnir t.d. áhersluatriði. Þarna voru ekki komin tæki eins og liðléttingar sem eru nú á öðrum hverjum bæ. Í dag eru liðléttingarnir skoðaðir árlega þar sem þeir eru vinnuvélaskráðir og því tekið gjald fyrir skoðunina. Almenn skoðun fyrirtækja eða býla er hins vegar ekki gjaldskyld.“
 
Hannes segir að síðar hafi skoðunin orðið víðtækari og ekki einskorðast við vélar og tæki. „Lögð var áhersla á að kynna áhættumat starfa og við fórum t.d. að skoða aðstæður í mjólkurhúsum, hvernig var búið um eiturefni sem notuð voru við þrif á mjaltakerfum. Einnig hvernig frágangur var við haughús og hvort væri hægt að detta ofan í þau eða í gegnum hlemma eða ófullkominn frágang. Því miður var þetta sum staðar í ólagi. Málið er að menn ætla ekki að hafa hlutina svona, þeir verða bara samdauna sínu umhverfi og sjá ekki hætturnar. Það er í raun ekkert öðruvísi en á öðrum vinnustöðum.  Áætlað var að skoða hvert býli á fjögurra ára fresti en hér á Suðurlandi a.m.k. var langt í frá að það tækist miðað við þann tíma sem gefinn var í þetta. Ástæðan var sú að við vorum það fáir eftirlitsmenn sem vorum í þessu, margir bæir og stuttur tími áætlaður í verkið á hverju ári. Mögulega var hægt að fylgja þessari áætlun á öðrum stöðum á landinu þar sem voru færri bæir á hvern eftirlitsmann,“ segir Hannes.
 
Hætt að fara í kerfisbundnar skoðanir á býli
 
Það fór svo að tekin var ákvörðun innan Vinnueftirlitsins að breyta áherslunum í fyrirtækjaskoðunum.  „Það var farið að áhættumeta eftirlitið hjá stofnuninni og spurt í hvað við værum að eyða kröftunum okkar. Ef að ég ætti að velja sjálfur hvort ég ætti að fara í 50 manna fyrirtæki í fiskvinnslu með mörgum hættum eða tveggja manna bændabýli með miklum áhættum þá vil ég helst ekki þurfa þess. Eyða í það jafn miklum tíma jafnvel. Hvort á ég að velja? Það er vont að þurfa að velja svona,“ segir Hannes og heldur áfram. „Vinnueftirlitið tók af skarið með þetta og sagði einfaldlega að það yrði ekki skoðað í landbúnaði í bili, nema eitthvað sérstakt kæmi upp. Þá var átt við kvartanir og slys. Það var sem sagt hætt að fara í kerfisbundnar skoðanir á hefðbundin býli. Þetta fannst mér persónulega mjög vont en ég skil alveg rökin.“
 
 
Fjárveitingar duga ekki til
 
Að mati Hannesar eru of fáir eftirlitsmenn starfandi og þess vegna sé ekki hægt að sinna eftirliti eins og þyrfti. „Við erum einfaldlega ekki að sinna eftirliti sem skyldi, til dæmis í landbúnaði. Við höfum ekki fjármagn, ekki mannskap og ekki getu. Það þyrfti meiri peninga ef það ætti að sinna þessu sómasamlega. Skoðun hjá fyrirtækjum er á fjárlögum og inni í þeim fjárveitingum sem Vinnueftirlitið fær árlega. Þær duga bara ekki til svo hægt sé að sinna öllu. Ég tel okkur vera langt undir því að geta sinnt okkar hlutverki samkvæmt lögum því stofnunin er svo fjársvelt. Miðað við löndin sem við berum okkur oft saman við þá erum við með miklu færri eftirlitsmenn á hverja 10 þúsund starfandi en þau. Að auki tel ég að við séum með síðri reglugerðir að hluta til og ekki eins stíf viður­lög við brotum. Við höfum til dæmis ekki þau völd að geta beitt beinum sektum þegar hlutirnir eru augljóslega ekki í lagi og valda mikilli hættu.“
 
 
Landbúnaður í stöðugri þróun
 
Þrátt fyrir að skoðanir á býlum séu ekki lengur við lýði er ýmislegt gert fyrir landbúnaðinn. Nýlega lauk sérstöku samstarfsverkefni við Landbúnaðarháskólann sem sneri að gerð kennsluefnis. Einnig hafi verið skoðað hjá Landbúnaðarháskólanum og Skógræktinni og er Vinnueftirlitið í góðu samstarfi við þessa aðila. Þá hafi Vinnueftirlitið, í samvinnu við Bændasamtökin og Evrópsku vinnuverndarstofnunina, komið á fót rafrænu áhættumati fyrir bændur sem heitir Oira. Það verkfæri er komið í loftið til skoðunar en er þó enn í þróun og verður kynnt með meiri þunga þegar þeirri vinnu lýkur.
 
„Við höfum verið að sinna ýmsum verkefnum sem gaman er að segja frá. Við erum til dæmis að horfa á nýjar búgreinar eins og skógrækt þar sem stundað er skógarhögg sem er afar áhættusöm iðja. Það eru um 700 skógarbændur á landinu og veitir ekki af að sinna þeim. Það eru stór fyrirtæki og stofnanir í geirum tengdum þessum málaflokki sem og garðyrkju og skrúðgarðyrkju. Ég er búinn að skoða nokkra aðila eins og Skógræktina og í góðri samvinnu við þá að leiðbeina um vinnuverndarstarf og ýmislegt því tengdu. Vinnueftirlitið hefur að auki skoðað hinar ýmsu starfsstöðvar hjá Landbúnaðarháskólanum. Þetta eru aðilarnir sem kenna fólkinu okkar og að sjálfsögðu þarf allt að vera í lagi þar. Við hjá Vinnueftirlitinu erum því ekki alveg að skilja landbúnaðinn út undan,“ segir Hannes. 
 
Vinnuslys í landbúnaði
 
Aðspurður um tíðni vinnuslysa í landbúnaði segir Hannes að það sé vitað að vinna með og í kringum dýr er stærsti áhættuþátturinn. Í samantekt sem gerð var árið 2004 um slys meðal bænda á Íslandi á vegum Vinnueftirlitsins, kom í ljós að tæpur helmingur slysa til sveita var vegna umgengni við skepnur. Næstmesta hættan er í kringum viðhald og endurbyggingar en 16,5% slysa urðu við þau störf. 11,3% slysa urðu við viðhaldsstörf á vélum. 
 
En eru bændur samviskusamir að tilkynna slys?
 
„Það virðist því miður ekki í nógu góðu lagi. Bændur þurfa líklega að vera duglegri að tilkynna vinnuslys. Það byggist eflaust á því að þeim finnst ekki taka því ef slysið er minni háttar en það er þó lagaleg skylda að tilkynna vinnuslys sem veldur meiri fjarveru en bara slysdaginn. Minni háttar slys sem valda fjarveru er auðvelt að tilkynna á Mínum síðum á heimasíðu Vinnueftirlitsins og er aðallega til þess gert að hægt sé að vinna í tölfræðinni og breyta eða leggja áherslur á vissa þætti í eftirlitinu. Auðvitað er tilgangurinn líka að skrá slysin á formlegan hátt svo þau gögn séu til hjá opinberum aðila. Við fáum oftast inn til okkar tilkynningar um alvarleg slys þar sem kallaður er til sjúkrabíll eða lögregla. Þegar hringt er í 112 er spurt hvort um sé að ræða vinnuslys og þaðan er haft samband við viðbragðsaðila og Vinnueftirlitið eftir atvikum. Við erum þó stundum að heyra af slysum í fréttum sem hafa ekki verið tilkynnt og á þetta við um alla, ekki bara bændur.“
 
Hannes segir að þegar fólk tilkynni slys fari í gang ákveðið ferli. Best sé að hringja í 112 þegar slys ber að höndum. „Þegar alvarleg slys eru tilkynnt ber að rannsaka orsakirnar. Við metum það í samráði við lögreglu og mögulega aðila á staðnum hvort við förum á slysstað og hvort vernda þurfi slysavettvanginn. Þegar þangað er komið reynum við að meta hvernig slysið átti sér stað og gerum skýrslu. Okkar hlutverk er ekki að finna blóraböggla heldur að reyna að koma í veg fyrir frekari slys sem að gæti gerst við sömu eða svipaðar aðstæður. Ef eitthvað er enn þá hættulegt þá getum við bannað vinnu eða notkun á vélum þar til úrbætur hafa verið gerðar. Alltaf er skrifuð skýrsla og teknar myndir. Við alvarleg slys eru venjulega gerðar umsagnir um vinnuslys sem er dýpri skýrsla sem gefur ákveðnar niðurstöður. Tilgangur okkar í þessu er alltaf forvarnarstarf en ekki að benda á sökudólga. Við gerum kröfur um að aðstæður séu lagfærðar og göngum eftir því.“
 
Nú hafa búin stækkað og bændum fækkað síðustu áratugi. Hvernig horfir staðan við þér sem eftir­litsmanni þegar litið er til öryggismála í landbúnaði í dag?
 
„Það hefur margt breyst. Allir sem vinna í landbúnaði þekkja það. Nútíma­bændur eru vel upplýstir, vel mennt­aðir og nota þá tækni sem býðst í sínum búrekstri. Þeir eru oftast með nýjustu tækni og sá tæknibúnaður er oft og tíðum nokkuð öruggur. Það koma hins vegar nýjar hættur þó þær gömlu hverfi eða minnki. Sjálfvirkni hefur aukist gríðarlega og þá skapast nýjar hættur. Grunnreglan er alltaf að útiloka hættuna ef það er mögulegt og er það ábyrgðarhluti að setja upp nýjan búnað sem uppfyllir mögulega ekki öryggisviðmið og reglur þar um.“
 
Hraðskreiðar dráttarvélar þarf að skoða
 
Hefðbundnar dráttarvélar eru ekki skoðunarskyldar í dag samkvæmt lögum en fyrr á árum sá Vinnu­eftirlitið um að fara á bæi og skoða þær. Nú er þó komið ákvæði í nýju umferðarlögin sem segir að allar dráttarvélar sem komast yfir 40 km hraða á klukkustund skuli skoða reglulega.
 
Á sínum tíma reyndum við að sinna eftirliti með dráttarvélum í heimsóknum á bæi en það er liðin tíð í bili að minnsta kosti. Núna sér Vinnueftirlitið um að skoða liðléttinga og önnur vinnuvélaskráð tæki en obbinn af dráttarvélunum verður út undan.“
 
Hannes segir að fyrirtækjaeftirlit og vinnuvélaeftirlit sé tvennt ólíkt. „Ef við berum fyrirtækjaeftirlit saman við vinnuvélaeftirlit þá eru gjöld tekin fyrir hverja skoðun í því síðarnefnda. Þar af leiðandi er hægt að ráða fleiri eftirlitsmenn þar sem verkefnin eru greidd af eigendum tækjanna, þ.e. skráðum vinnuvélum eins og liðléttingum, gröfum, lyfturum og slíku. Dráttarvélin er hins vegar út undan. Það er ekkert í lögum eða reglum Umferðarstofu um að dráttarvélar skuli skoðast árlega eða reglulega að frátöldum fyrrnefndum lagabreytingum um hraðskreiðari vélar. Dráttarvél sem búið er að að setja á ámoksturstæki eða tengja tæki við með drifsköftum eða glussaslöngum, er ekki lengur dráttarvél í lagalegum skilningi Vinnueftirlitsins heldur vinnuvél. Þar af leiðandi ætti hún að vera skráð hjá Vinnueftirlitinu en er í raun skráð hjá Umferðarstofu. Vinnueftirlitið hefur skráð hjá sér, í svokallaðri skoðunarskráningu, dráttarvélar sem eru hjá verktökum. Þetta má gagnrýna og spyrja af hverju dráttarvélar hjá bændum eru ekki líka skoðaðar undir sömu formerkjum. Þeir eru í raun ekkert öðruvísi, þ.e. báðir að vinna. Því eru óskoðaðar og stundum mjög stórar dráttarvélar á ferð um vegi landsins með alls konar búnað meðferðis eða í eftirdragi. Þetta er eitt af stóru vandamálunum sem þyrfti að laga að mínu mati.“ 
 
Að mati Hannesar þyrfti sömu­leiðis að leiðrétta undanþágu sem bændur hafa frá því að vera með réttindi á dráttarvélar heima á sínum býlum. Sú undanþága nær hins vegar ekki til annarra véla eins og liðléttinga. Í grunninn er dráttarvélin skráð hjá Umferðarstofu og þarf því bílpróf til aksturs úti á vegi en ekki vinnuvélaréttindi. „Skoðun dráttarvéla og réttindamál á dráttarvélar verður að lagfæra í kerfinu. Það er mjög áríðandi og skýtur skökku við allt annað sem er í gangi. Vinnueftirlitið hefur talað um þetta í mörg ár en málið virðist alltaf stoppa í kerfinu, hverju sem um er að kenna.“
 
Öflugt eftirlit er nauðsyn
 
Í lokin berst talið að úrbótum í vinnuverndarstarfi bænda og hvaða ráð séu til að fækka slysum enn frekar í landbúnaði. Hannes telur að aðalatriðið sé virkt og gott eftirlit í bland við ráðgjöf og fræðslu.
 
 „Partur af því að koma í veg fyrir slæm slys eru upplýsingar og þjálfun en stóri parturinn er að viðhafa virkt eftirlit og lagfæra það sem ekki er í lagi. Útilokum hætturnar eins og hægt er og eflum forvarnir. Það má ekki gleyma því að Vinnueftirlitið er eftirlitsstofnun. Okkur ber að líta eftir hag þeirra sem eru að vinna, þeirra öryggi og aðstæðum. Ef ekki er hægt að gera það nema með beinum kröfum, þá verður svo að vera. Við reynum alltaf að fara mjúku leiðina, maður gerir kröfur og upplýsir í leiðinni, reynir að fá fólk með sér og klára málin án einhverrar hörku eins og með beitingu dagsekta. Það vilja allir hafa vinnuumhverfið í lagi en það er bara spurning hvernig við náum því fram. Gott eftirlit sem fylgt er eftir í samstarfi við hagsmunasamtök er það sem er árangursríkast að mínu mati. Ég geri kröfur sem ég get byggt á lögum og reglum enda mitt hlutverk en ég verð að hafa þekkingu á hlutunum. Sú þekking eflist með samtali við fólkið sem vinnur störfin. Auðvitað er mitt hlutverk líka að fræða, upplýsa og hjálpa en ég verð samt að standa í lappirnar með hagsmuni starfsmannsins að leiðarljósi ef ekki er farið eftir því sem beðið er um og ég get staðið við samkvæmt lögum og reglum.
 
Í öllu mínu eftirliti í gegnum tíðina kem ég alltaf að því sama. Fólk sér ekki hætturnar eða það sem betur má fara. Það vill vel en sér ekki umhverfið eins og aðkominn eftirlitsmaðurinn. Það er samdauna umhverfinu eða tekur því sem sjálfsögðu. Þetta á líka við um fyrirtæki sem gera sitt besta í vinnuverndinni og sýnir mögulega hversu stutt við erum komin í hinum almenna skilningi á hugmyndafræðinni. Úrbætur þurfa ekki alltaf að kosta mikið eða mikla fyrirhöfn en auðvitað verður að bregðast við þegar þörf er á, öllum til hagsbóta. Þess vegna segi ég: það þarf gott eftirlit með vinnustöðum landsins en á hliðarlínunni þarf að vera góð upplýsingagjöf og fræðsla,“ segir Hannes Snorrason.
 
 

Áhættumat í fyrirtækjum og hjá bændum

Með tilkomu reglugerðar frá 2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum er öllum atvinnurekendum skylt að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði sem inniheldur skriflegt áhættumat starfa. Í grófum dráttum gengur áhættumatið út á að greina hættur í vinnuumhverfinu, skrá þær niður og meta áhætturnar sem þeim fylgja. Síðan er gerð áætlun þar sem úrbætur eru ákveðnar og tímasettar og þeim forgangsraðað eftir áhættustigi. Hannes segir að sárafáir bændur séu með áhættumat og þurfi að taka sig á við gerð þess. Slíkt eigi líka við um mörg fyrirtæki.
 
„Það eiga allir að gera áhættumat sem er lagaleg skylda, hvort sem þú ert einn að vinna eða með fleirum. Ef þú ert með menn í vinnu berð þú að sjálfsögðu ábyrgð á þeim og þér ber að gera áhættumat fyrir starfsemina. Áhættumatið er formleg leið að fara yfir vinnuumhverfið og er í raun og veru einfalt að framkvæma. Það eru til alls kyns gátlistar, vinnuumhverfisvísar og aðrar upplýsingar til að hjálpa manni við þetta. Áhættumatið er unnið þannig að maður fer skipulega yfir vinnuumhverfið með starfsmönnum og gerir það skriflega. Útbýr úrbótaáætlun og lagar það sem þarf að laga. Niðurstöður í lokin sýna hvað er viðvarandi en út úr því geta orðið til vinnu- eða verklagsreglur. Í fullkomnum heimi þyrfti ekkert vinnueftirlit því allir gerðu svo gott áhættumat og færu svo vel eftir því. Þegar talað er um áhættu þá er ekki verið að tala um slysahættur eingöngu heldur allt vinnuumhverfið. Líkamsbeiting, aðstaða, hitastig, loftræsting og lýsing sem og sálfélagslegar aðstæður skipta máli. Það eru líklega sárafáir bændur sem eru með áhættumat í fullkomnu lagi miðað við þær kröfur sem eru gerðar til þess. Að því sögðu þá á það líka við um fyrirtækin í landinu. Ég hef aldrei komið inn í fyrirtæki þar sem áhættumatið er það gott að það þurfi ekki að bæta úr eða lagfæra. Þetta er aldrei búið og þarf stöðugt að vera í endurskoðun.“
 
Bændur sem vilja gera áhættumat geta nálgast gögn á vef Vinnueftirlitsins og einnig fyllt út rafrænt áhættumat, Oira, sem er að finna á vef BÍ, bondi.is og á vef Vinnueftirlitsins. 

 

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtalið 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtalið 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Líf og starf 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt

Nýsköpun grunnur að því að ungt fólk geti byggt framtíð sína á heimaslóðum
Viðtalið 7. janúar 2021

Nýsköpun grunnur að því að ungt fólk geti byggt framtíð sína á heimaslóðum

Það er mjög mikill áhugi hér í Bárðardal og raunar samfélaginu öllu fyrir nýsköp...

„Fólk sér ekki hætturnar“
Viðtalið 10. ágúst 2020

„Fólk sér ekki hætturnar“

Vinnuslys eru afar kostnaðarsöm fyrir samfélagið og geta reynst einstaklingum se...

Skýr stefna að bjóða eingöngu upp á íslenskt kalkúna- og kjúklingakjöt
Viðtalið 20. júlí 2020

Skýr stefna að bjóða eingöngu upp á íslenskt kalkúna- og kjúklingakjöt

Á Reykjum í Mosfellsbæ búa þau Jón Magnús Jónsson og Kristín Sverrisdóttir. Þau ...

Þörungabyltingin er farin af stað
Viðtalið 10. mars 2020

Þörungabyltingin er farin af stað

Sjöfn Sigurgísladóttir hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri líftæknifyrir...

Hefur bara komið á Vestfirðina á Íslandi, aldrei neitt annað, hvað þá til Vestmannaeyja eða útlanda
Viðtalið 8. október 2019

Hefur bara komið á Vestfirðina á Íslandi, aldrei neitt annað, hvað þá til Vestmannaeyja eða útlanda

Guðmunda Tyrfingsdóttir, bóndi á bænum Lækjartúni í Ásahreppi, er mögnuð kona se...