Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Varpvistfræði æðarfugls við Breiðafjörð
Líf&Starf 2. september 2016

Varpvistfræði æðarfugls við Breiðafjörð

Höfundur: Vilmundur Hansen


Í dag ver Þórður Örn Kristjánsson doktorsritgerð sína við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Varpvistfræði æðarfugls (Somateria mollissima) við Breiðafjörð (Breeding ecology of the Common Eider (Somateria mollissima) in Breiðafjörður, West Iceland).

Vörnin fer fram í stofu 132 í Öskju klukka 13.00 og er athygli e vakin á því að spurningahluti doktorsvarnarinnar mun fara fram með aðstoð táknmálstúlks.

Ágrip af rannsókn
Breiðafjörður er mikilvægasta búsvæði æðarfugls (Somateria mollissima) á Íslandi, þar halda æðarfuglar sig árið um kring og hefur æðardúnn verið nýttur þar öldum saman af æðarbændum.

Markmið doktorsverkefnisins miðaði að bættum skilningi á varpvistfræði æðarfugla í Breiðafirði. Varphegðun kollna í þéttu varpi í Rifi (1,7 hreiður/m2) var skoðuð til að greina  hvort æðarkollur aðstoði hverja aðra við álegu og sinni því fleiri en einu hreiðri á álegutíma. Metið var hvort dúntekja hefði áhrif á orkubúskap álegufuglanna með því að athuga mun á léttingu álegukollna á dúnhreiðrum og á heyhreiðrum. Samtímis var rannsakað hvort kollur sem lágu á stórum urptum (≥7 egg) eyddu meiri orku en kollur með venjulega urptarstærð (≤6 egg). Ytri sníkjudýrum var safnað úr æðarhreiðrum og fjöldi dúnflóa (Cerotophyllus garei) borinn saman á milli æðarvarpa við Rif og í Hvallátrum. Að lokum var athugað hvort fæða fuglanna á varptíma (maí-júlí) væri breytileg yfir tíma og á milli kynja.

Í ofurþéttu varpi í Rifi staðfesti atferli litmerktra kollna að þær sinna hreiðrum hver annarrar auk sinna eigin. Ástæðan er sennilega sú að kollurnar ruglast vegna hins óeðlilega mikla þéttleika, sterk sjónræn örvun vegna fjölda óvarinna hreiðra nálægt þeirra eigin ýtir svo undir þessa hegðun. Einnig gætu kollurnar átt egg í fleiri en einni urpt í varpinu. Hár fjöldi flóa í þétta varpinu gæti verið ein ástæða þess að kollurnar fara oftar af hreiðri til að snyrta sig en hafa þá staðgöngukollur til að annast hreiðrin á meðan. Æðarkollur í strjálu æðarvarpi í Hvallátrum geta hins vegar skipt um hreiður milli ára ef mikið er um flær en ekki hefur orðið vart sömu áleguhegðunar og á Rifi.

Fæðurannsóknin leiddi í ljós að aðalfæða fuglanna að vor/sumarlagi (maí-júlí) reyndist vera flekkunökkvi (Toncella marmorea), sem hefur ekki verið talinn mikilvæg fæða æðarfugla.

Niðurstöður verkefnisins sýna að dúntekja og urptarstærð (2-9 egg) hafa lítil áhrif á afkomu æðarkollna á Íslandi, í það minnsta í venjulegu tíðarfari. Kollur sem hafa byggt upp góðan fituforða fyrir áleguna geta þannig tekist á við bæði dúntekju og aukaegg í urptina án þess að það komi niður á líkamsástandi þeirra eða varpárangri. Dúntekja á Íslandi getur því talist vistvæn hvað kollurnar sjálfar varðar, þar sem áhrif hennar á álegufugla eru óveruleg.

Andmælendur og leiðbeinendur
Andmælendur eru dr. Jonathan Green, dósent í sjávarlíffræði við Háskólann í Liverpool, Bretlandi, og dr. Sveinn Are Hanssen, vísindamaður við Norwegian Institute for Nature Research, Þrándheimi.

Aðalleiðbeinandi er dr. Jón Einar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, með honum sitja í doktorsnefnd dr. Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi, dr. Jörundur Svavarsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, Háskóla Íslands.

Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og varadeildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar, stjórnar athöfninni.

Um doktorsefnið
Þórður Örn Kristjánsson er fæddur 1981. Hann lauk BS-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og hlaut meistaranafnbót frá sama skóla 2008 þar sem hann rannsakaði áhrif dúntekju á hita, hegðun og varpárangur æðarfugla. Þórður er giftur Völu Gísladóttur og eiga þau tvö börn.
 

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...