Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Ólöf Ósk Guðmundsdóttir, brautarstjóri búfræðibrautar, Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir, fyrrverandi skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar, og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, við undirritun á endurnýjun samningins.
Ólöf Ósk Guðmundsdóttir, brautarstjóri búfræðibrautar, Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir, fyrrverandi skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar, og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, við undirritun á endurnýjun samningins.
Fréttir 6. maí 2020

Sameiginleg gráða til stúdentsprófs og búfræðings eða garðyrkjufræðings

Höfundur: Vilmundur Hansen

Undanfarin ár hefur verið boðið upp á sameiginlega braut Menntaskóla Borgarfjarðar og Landbúnaðarháskóla Íslands.  Þar geta nemendur tekið tveggja ára nám í MB þar sem megin­áherslan er á kjarnagreinar til stúdentsprófs og valdar raunvísindagreinar.

Seinni tvö árin eru tekin á Hvanneyri þar sem starfsmenntanám í búfræði fer fram. Nemandinn útskrifast þá með stúdentspróf frá MB og sem búfræðingur frá LbhÍ. Námið ætti að veita nemendum góðan undirbúning undir störf í garðyrkjugreinum og landbúnaði en einnig undir frekara háskólanám í náttúruvísindum, búvísindum, dýralækningum eða umhverfisfræðum svo dæmi séu tekin.

Bragi Þór Svavarsson, skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar, segir að við Menntaskóla Borgar­fjarðar hafi frá upphafi verið lögð mikil áhersla á að vera í nánu samstarfi við fyrirtæki og stofnanir í nærumhverfi. „Samstarf MB og LbhÍ hefur því verið afar ánægjulegt og komið sér mjög vel fyrir nemendur MB að geta valið sér námsbrautina  Náttúrufræðibraut – búfræðisvið.“
Samningurinn endurnýjaður

Rektor LbhÍ segri að í framhaldi af undirritun samningsins hafi verið rætt við stjórnendur MB um að út­víkka samninginn til þess að hann tæki einnig til garðyrkjugreina LbhÍ að Reykjum auk þess sem rætt var við Olgu Lísu Garðarsdóttur, skólameistara Framhaldsskóla Suðurlands, um möguleika á sambærilegu samstarfi.“

Spennandi möguleikar

Nú stendur til að bæta við þetta samstarf og bjóða upp á að taka sameiginlega gráðu til stúdentsprófs og garðyrkjufræðings. Þá mun nemandinn byrja nám sitt í MB og taka seinni tvö árin á Reykjum í Ölfusi þar sem starfsmenntanám í garðyrkju fer fram.

Að sögn Guðríðar Helgadóttur, starfsmenntanámsstjóra við LbhÍ, hefur lengi verið draumur innan garðyrkjunnar að fara af stað með sams konar fyrirkomulag og í búfræðinni, að vinna með framhaldsskólum að sameiginlegri prófgráðu stúdentsprófs og sérhæfðs starfsmenntanáms.

„Við vonum að sem flest ungt fólk sjái kosti þess að mennta sig í garðyrkju, það vantar fólk í garðyrkjuna,“ segir Guðríður.