Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Malgorzata Kowaszen, Þórey Guðjónsdóttir og Argitxa Etchebarne sóttu viðburðinn Rabarabaradraumóra á dögunum.
Malgorzata Kowaszen, Þórey Guðjónsdóttir og Argitxa Etchebarne sóttu viðburðinn Rabarabaradraumóra á dögunum.
Fréttir 31. júlí 2020

Rabarabaradraumórar

Höfundur: Erla Gunnarsdóttir
Á dögunum var viðburðurinn Rabarabaradraumórar haldinn að Vöglum til að kynna verkefnið HÖNNÍN, sem er samstarfsverkefni NÍN, Listaháskólans, Háskólans á Akureyri, Þekk­ingar­nets Þingeyinga og Nýsköpunar­sjóðs náms­manna. Þar voru meðal annars teknar til skoðunar nýjar leiðir við nýtingu á rabarbara og var afraksturinn stórskemmtilegur að sögn forsvarsmanna verk­efnisins. 
 
Ása Gunnlaugsdóttir er einn af aðgerðarstjórum hjá Nýsköpun í norðri sem kom að verkefninu.
„Þetta voru nýútskrifaðir hönnuðir úr Listaháskóla Íslands, Hlín Blöndal (BA, arkitektúr), Sylvía Dröfn Jónsdóttir (BA, vöruhönnun) og Malgorzata Kowasz (MA, hönnun), sem hafa kannað rabarbara og hvaða möguleika hann býður upp á. Þetta er ein af fáum jurtum sem getur vaxið hvar sem er á Íslandi og er gríðarlega vannýtt. Það voru virkilega spennandi afurðir sem komu út úr verkefninu og við­burðurinn á Vöglum var mjög vel sóttur,“ segir Ása. 
 
Jurtin nýtt til hins ýtrasta
 
Viðburðurinn var haldinn að Vöglum og höfðu nem­endurnir skreytt gróðurhúsið með lituðu efni úr rabar­bara en ásamt því kynntu þær rafræna bók með öllu ferlinu sem þær höfðu farið í gegnum með tilraunum á jurtinni.
„Þær gerðu rabarbarapitsur og síðan reyktu þær rabarbara en þær komust inn í gamalt reykhús í Svartárkoti í Bárðardal og gerðu barbeque-sósu með reyktum rabar­bara í. Einnig kynntu þær tvær tegundir af kimchi, sem er kóresk aðferð við að súrsa og geyma mat, sem var virkilega gott,“ útskýrir Ása og segir jafnframt:
„Útkoman var mjög áhugaverð. Það þarf að þróa þetta meira og rannsaka áður en hægt væri að þróa vörur á markað en það er vel raunhæft. Fólk úr sveitinni og gestir sem komu voru virkilega áhugasöm um þennan rabarbaraleiðangur. Þessi samvinna háskóla og atvinnulífs skiptir miklu máli og með þessu er verið að hugsa um framtíðina í sveitinni.“