Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hlynur, Hannes, Kjartan og Jóhann eru upphafsmenn Brothers Brewery.
Hlynur, Hannes, Kjartan og Jóhann eru upphafsmenn Brothers Brewery.
Líf og starf 27. janúar 2023

„Þetta getur varla verið svo flókið“

Höfundur: Höskuldur og Stefán

„Þetta getur nú ekki verið svo flókið, við hljótum að gera gert þetta.“ Hver hefur ekki látið svona setningar falla á góðri stundu í sumarbústað án frekari afleiðinga?

Tveir félagar skoða miða á bjórflösku og sjá að það eru bara fjögur hráefni listuð á þessum Erdinger bjór sem þeir voru að drekka. Þar af er vatn eitt af þeim og ger annað, þannig að raunverulega eru þetta tvö hráefni sem þarf að hafa áhyggjur af. Sósan með matnum var með átta hráefnum. Alla jafna er það ekki fréttnæmt að svona samtal eigi sér stað, nema þegar félagarnir eru Kjartan Vídó og Jóhann Guðmundsson, Vestmannaeyingar í húð og hár.

Það hefur nefnilega löngum verið sagt að í Vestmannaeyjum hafi aldrei ríkt sérstakt áfengisbann og fæstir þar kannast við að bjór hafi ekki verið leyfður. Það var því eðlilegt framhald af þessum bústaðarumræðum að láta reyna á fullyrðinguna og félagarnir hóuðu í bræður sína, Davíð og Hlyn, fjárfestu í frumstæðum bruggtækjum og hófu að prófa sig áfram með bjórframleiðsluna. Nafnið kom þannig hálfpartinn af sjálfu sér, Brothers Brewery var fætt í sinni fyrstu mynd árið 2012.

Fljótlega datt þó einn bróðir úr skaftinu og annar kom í staðinn, Hannes Eiríksson, og þrátt fyrir að sá héti hvorki Vídó né væri Guðmundsson að þá átti hann bæði bílskúr og var stálsmiður, sem átti heldur betur eftir að koma sér vel.

Eftir áhugaverðar umræður var ákveðið að bræðrahópur óskyldur skyldi brugga saman bjór fyrir veitingastað í Vestmannaeyjum. Viðtökurnar voru vonum framar.

Lítið sást af brugglaunum

Upphaflega var framleiðslan öll til einkanota. Félagarnir voru þó gjafmildir á framleiðsluna og töldu sig ekki of góða til að leyfa öðrum að njóta framtaksins, við misgóðan orðstír. Þannig vildi það til að Einar Björn Árnason matreiðslumeistari datt í skúrinn til þeirra eitt kvöldið og upp hófust umræður um að framleiða bjór til að para með mat. Þurr Saison í góðu jafnvægi var við hönd og niðurstaðan varð sú að slá til, bræðrahópurinn óskyldi skyldi brugga bjór fyrir veitingastaðinn Einsa kalda og veitingastaðurinn skaffa aðstöðuna til verksins. Veitingastaðurinn fékk leyfi til að framleiða bjór og voru tæki og tól sem Hannes hafði endurbætt flutt í eitt hornið þar sem þeir brugguðu.

Upphaflega var markmiðið að brugga um 150 lítra, þar sem að þriðjungur átti að ganga í brugglaun og þar með til einkanota, en strax varð ljóst að lítið sást af þeim, þar sem viðtökurnar voru vonum framar. Gekk það svo langt að félagarnir áttu sjaldnast eigin bjór og ef þeir ætluðu að fá sér eigin framleiðslu þurfti að greiðast fyrir það á barnum. Fyrst um sinn var ástandið þannig að erfiðlega gekk að hafa smakkbakka frá þeim í sölu, því bjórinn var oft búinn þannig að ljóst var fljótt í hvað stefndi. Til viðbótar við þetta mættu þeir svo á Bjórhátíðina á Hólum sumarið 2016 þar sem Brothers Brewery brugghúsið vann til fyrstu verðlauna í samkeppni um bjór hátíðarinnar það árið, en það eru gestir bjórhátíðarinnar sem greiða atkvæðin í þeirri keppni. Skemmst er frá því að segja að varla var aftur snúið, þeir gengu í það að panta sér bruggtæki að utan, einir fyrstu til að kaupa tæki sem síðar áttu eftir að rata í ansi mörg brugghús, útvega húsnæði sem þeir fengu í nóvember sama ár og loks fengu þeir starfsleyfi fyrir bjórgerð 16. desember 2016.

Þegar bugghúsið vann til fyrstu verðlauna í samkeppni um bjór hátíðarinnar á Hólum var ekki aftur snúið.

Bera nöfn heimamanna

En í upphafi skyldi endinn skoða. Upphaflega markmiðið var í sjálfu sér ekki að framleiða bjór fyrir aðra en þá sjálfa, þannig að nafngiftin tók mið af því en ljóst er af framansögðu að það sprakk fljótlega í andlitið á þeim. Síðar hafa þeir félagar sagt frá því að ef þá hefði órað fyrir þeim árangri sem brugghúsið myndi ná hefðu þeir alltaf valið því annað nafn, meira lýsandi fyrir paradísareyjuna Vestmannaeyjar, meðan hitt vísaði til upphafsins. Þess í stað tóku nafngiftir á bjórunum frá Brothers Brewery meira frá heimaslóðunum. Bjórana 23.1.73 og Eldfell t.d., sem voru með fyrstu bjórunum í almennri sölu, þarf vart að útskýra, verðlaunabjórinn Togari var bjór sem gerður var fyrir sjómannadaginn upphaflega en svo fóru sumir bjórarnir að bera nöfn heimamanna. Sá langlífasti af þeim er Gölli IPA sem nefndur var eftir sjómanninum Árna Valdasyni, sem var svo annálaður fyrir hreystimennsku, bæði á sviðum vinnu og skemmtana, að hann lifir enn í vísnaminni Vestmannaeyja. Heimir Pale ale og fleiri góðir hafa litið dagsins ljós, en óljóst er og ósagt látið í hvaða eyjabúa IPA bjórinn „Dirty Julie“ vísar í.

Bjórhátíðin í Vestmannaeyjum eru vel sóttar.

Vatnið betra og sólin skærari

Eftir að hafa stækkað við sig enn frekar árið 2018, þá hafa þeir félagar núna haldið úti bjórhátíðum síðustu sumur sem hafa verið virkilega vel sóttar hátíðir og hafa færri komist að en vilja. Þessi bjórhátíð hefur haft yfir sér sama anda og öll starfsemin hingað til, fjölskylda og vinir hafa tekið höndum saman til að láta hana ganga upp og ef þú ert með millinafnið Vídó eru afar góðar líkur á því að finna þig einhvers staðar í kringum þessa hátíð eða í kringum starfsemina ef út í það er farið.

Í dag rekur Brothers Brewery bruggstofu í hjarta Vestmannaeyja, eru með 15 manns í vinnu og samhentur hópur vina og vandamanna lætur dæmið ganga upp. Bræður, konur, mæður, eiginmenn, afar og börn hlaupa til og frá og ganga þar í öll verk. Matur er seldur af nærliggjandi veitingastöðum og stríður straumur heimafólks og ferðamanna liggur á barinn. Ástríðan fyrir verkefninu og velvild nærsamfélagsins má hverjum vera ljós þegar komið er til Eyja en oft getur reynst erfitt að fá sæti, slík er ásóknin.

Bruggtækin eins og þau voru í horninu í eldhúsinu hjá Einsa kalda.

Einhvern tíma varð öðrum greinarhöfundi það á að spyrja ónefndan forkólf úr eigendahópnum hvort þeim hefði í ljósi eftirspurnar ekki dottið í hug að færa sig á stærri markað, t.d. til Reykjavíkur. Eftir langa ræðu um kosti paradísareyjunnar Vestmannaeyja þar sem meira að segja vatnið bragðaðist betur, eftir að því hafði verið dælt frá landi, sólin skini skærar og allt a.m.k. helmingi betra en á norðureynni var ljóst að spurningin var greinilega móðgandi. Vestmannaeyjar voru það, Vestamannaeyjar eru það og Vestmannaeyjar skyldi það vera: Þar slær hjarta Brothers Brewery.

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...