Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Gamla bátalagið í Þýskuvör og Stórigarður, sem Björn Sigurðsson kaupmaður lét hlaða til skjóls fyrir bátana um aldamótin 1900. Við voginn stendur og þorpið í Flatey, en í baksýn má sjá Höfnina sem er skeifulaga klettaeyja sem var aðalskipalægið við Flatey
Gamla bátalagið í Þýskuvör og Stórigarður, sem Björn Sigurðsson kaupmaður lét hlaða til skjóls fyrir bátana um aldamótin 1900. Við voginn stendur og þorpið í Flatey, en í baksýn má sjá Höfnina sem er skeifulaga klettaeyja sem var aðalskipalægið við Flatey
Mynd / HKr.
Líf og starf 28. ágúst 2017

Þarf að flytja fé til slátrunar alla leið á Sauðárkrók

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Svanhildur Jónsdóttir er önnur tveggja sauðfjárbænda sem eftir eru í Flatey á Breiðafirði. Hún hefur verið viðriðin búskap í eyjunni frá því hún flutti þangað fyrir um hálfri öld, en líst illa á stöðu greinarinnar í dag. 
 
Svanhildur býr ásamt eiginmanni sínum, Magnúsi Arnari Jónssyni, á bænum Krákuvör, sem er ríkisjörð um miðbik eyjunnar. Hún hefur yfirumsjón með búskapnum, en eiginmaðurinn hefur séð um að ferja ferðafólk og farangur þeirra til og frá bryggju á dráttarvél. Tvær bújarðir eru á eyjunni, en að öðru leyti er eignarhaldið í höndum fjölmargra einstaklinga auk þess sem hreppurinn á nokkurn hluta. Í raun tilheyra um 40 eyjar og hólmar Flatey.
 
Með nokkrar skjátur
 
Svanhildur segir að þótt hún sé „með nokkrar skjátur“ þá skipti sú sauðfjárrækt ekki sköpum fyrir búið. 
„Ég er bara með um 50 hausa, enda ekki hægt að vera hér með margt fé. Lengst af minni búskapartíð hér í Flatey var sauðfé flutt í land á sumrin. Því fylgdi göngur á haustin sem var mjög gaman. Fólkinu fór síðan fækkandi og fénu líka og enginn mannskapur var lengur til að flytja féð í land. Nú er um helmingur fjárins hér í eyjunni en svo erum við með beit fyrir fé í Hergilsey, en þangað er ekki langt að flytja féð. Aðaltekjurnar í búskapnum núna eru þó af æðardúninum.“ 
 
Dúntekja í mörgum eyjum
 
Hún segir æðarrækt og dúntekju í eyjunum betur setta en víða á fastalandinu vegna þess að æðarfuglinn eigi sér þar færri óvini. 
 
„Hér hefur aldrei verið minkur og hefur aldrei verið í vestureyjum þó uppáfallandi hlaupadýr hafi komið í einhverjar eyjarnar. Hér er mikið af æðarfugli og varpið í vor gekk þokkalega. Var það í góðu meðallagi. Þá slapp til varðandi bleytu.“
 
Margar eyjar fylgja Flatey eins og títt hefur verið með gamlar eyjajarðir og dúnninn í þeim er að sjálfsögðu nýttur.
 
„Það er alltaf talað um heimaeyjuna og svo löndin (heimalönd) sem eru margs konar hólmar og eyjar sem gengt er í á fjöru. Það er alls staðar æðarfugl, en misjafnlega mikið af honum á hverjum stað.“ 
Svanhildur segir stöðuna í æðar­ræktinni hafa verið ágæta undanfarin ár. Það hafi allavega verið hægt að selja dúninn, sem ekki gekk alltaf vel fyrir nokkrum árum. Hún segir að eflaust muni hátt gengi krónunnar þó eitthvað koma niður á afkomu greinarinnar á þessu ári.  
 
Döpur staða í sauðfjárrækt
 
Hvað varðar sauðfjárræktina, þá segir Svanhildur stöðuna dapra, ekki síst hvað varðar slátrun. Sprettan í sumar hafi þó verið með ágætum svo ekki þurfi að kvarta yfir því.
 
„Meðan féð var flutt á land á sumrin var tekið undan ánum í landi og farið strax með lömbin í sláturhús. Við fórum lengst af með lömbin í Króksfjarðarnes. Það var ekki svo mikið mál. Nú fara mín lömb alla leið á Sauðárkrók. Þau eru flutt í land með Breiðafjarðarferjunni Baldri og þaðan með bíl í sláturhúsið á Sauðárkróki. Það er ferlegt að ekki skuli lengur vera eitt einasta sláturhús á Vestfjörðum eða Vesturlandi,“ segir Svanhildur.

9 myndir:

Skylt efni: Flatey

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...