Mynd/HKr. Maggý kunni augljóslega hvert einasta handtak.
Líf og starf 03. desember 2019

Telja að afnám tolla á blómum geti leitt til hruns í blómarækt á Íslandi

Hörður Kristjánsson
Íslenskir garðyrkjubændur hafa verulegar áhyggjur af framvindu mála varðandi orkuverð og tollvernd á blómum sem mjög er sótt að. Engan bilbug er samt á þeim að finna og eru bændur ákveðnir í að sækja fram og auka blómaframleiðslu til að mæta innanlandsþörfinni. 
 
Blómabændur í Garðyrkju­stöðinni Espiflöt í Reykholti í Bláskógabyggð eru í sóknarhug þrátt fyrir áhyggjur og hyggjast hefja stækkun á stöðinni næsta sumar sem vonast er til að verði tekin í gagnið haustið 2020. Með stækkuninni verður framleiðslan aukin og vonast eigendur til að með því verði allavega haldið í horfinu í blómaræktinni í landinu. 
 
Axel Sæland og eiginkona hans, Heiða Pálrún Leifsdóttir, tóku við rekstrinum af foreldrum Axels, þeim Sveini A. Sæland og Áslaugu Sveinbjarnardóttir, en árið 2013 urðu þau meirihlutaeigendur í stöðinni. Sveinn og Áslaug starfa þó enn við blómaræktina í Espiflöt.
 
Svigrúm til að stækka en orkukostnaður vex
 
„Það er svigrúm fyrir hendi á markaðnum til að stækka stöðina og framleiða enn meira,“ segir Axel. Hann segir að það hafi þó komið þeim illa á síðasta ári að dregið var úr stuðningi ríkisins til að mæta hækkandi dreifingarkostnaði á raforku. Upphaflegi samningurinn við ríkið hafi miðað við allt að 94% niðurgreiðslu á flutningskostnað. Það hafi farið niður í 62% á síðasta ári sem þýði milljónir í aukinn kostnað fyrir stöðina. 
 
Einokunarstaða á orkuflutningsmarkaði
 
Samkvæmt gögnum Orkustofnunar ríkir einokunarstaða á flutningi raforku þar sem landinu er skipt upp á milli nokkurra orkuflutningsfyrirtækja. Segir Axel að þannig „eigi“ RARIK landsbyggðina, að slepptum Vestfjörðum, suðvesturhorninu, Árborg, Vestmannaeyjum, Akureyri og Reyðarfirði. Veitur „eigi“ höfuðborgarsvæðið að stórum hluta, en HS Veitur „eigi“ Reykjanesskaga, Hafnarfjörð, Álftanes og syðri hluta Garðabæjar, Árborg og Vestmannaeyjar. Orkubú Vestfjarða hefur síðan „einkarétt“ á dreifingu á Vestfjörðum, Norðurorka á Akureyri og Rafveita Reyðarfjarðar „á“ þéttbýlið við Reyðarfjörð. Frelsi hins almenna raforkunotenda og fyrirtækja til að velja á milli orkuframleiðslufyrirtækja hefur því harla lítið að segja þar sem mestu hækkanirnar hafa verið í flutningi á orkunni. 
 
Innflytjendur blóma- og grænmetis hafa sjaldan verið herskárri en nú
 
Sveinn er enn ötull í félagsstörfum fyrir garðyrkjubændur og brennandi áhugamaður í hagsmunagæslu greinarinnar. Hann segir að á þeim 40 árum sem hann hafi sinnt þessum málum þá hafi blóma- og grænmetisinnflytjendur sjaldan verið eins herskáir gagnvart íslenskum garðyrkjubændum og nú. Þeir leggi nú hart að yfirvöldum að afnema þá innflutningstolla sem enn eru á blómum og beri við skorti, m.a. á túlípönum. Herförin núna hafi byrjað er Axel svaraði því játandi í fjölmiðlaviðtali í vor að íslenskir blómabændur gætu annað markaðnum. 
 
Í dag eru 30% tollar og 95 krónu stykkjaverð á sumar tegundir innfluttra blóma. Síðan er kvóti sem boðinn er út. Við gerð EES samningsins við Evrópusambandið var samið um niðurfellingu á nokkrum tegundum blóma eins og nellikum í skiptum fyrir niðurfellingu á tollum á fiski til ESB landa. Því eru ekki tollar í gildi yfir alla línuna eins og ætla mætti af umræðunni. Þetta hafði töluverð áhrif á framleiðslu íslenskra blómabænda sem reyndu að mæta þessu með framleiðslu á öðrum tegundum. 
 
Auk þess eru tvisvar á ári boðnir út tollkvótar til að mæta eftirspurn þeirra blóma sem ekki eru til í nægu  magni  á hverjum tíma frá innlendum framleiðendum, eða eru yfir höfuð ekki ræktuð hér á landi. Allir geta sótt um þessi leyfi og ef eftirspurn fer umfram framboð eru leyfin boðin hæstbjóðanda. Það hefur sjaldan komið til útboða síðustu 11 ár þar sem umsóknir hafa verið færri en framboð og umsækjendur því í þeim tilfellum ekki greitt gjald fyrir innflutningsleyfin. Sú vara hefur þá komið inn á 30% tollum. Það er einnig opinn og tollfrjáls innflutningur á öllum grænum greinum, berjagreinum o.fl., sem ræktað er í Evrópu.
 
Cristina að meta útlitið.
 
Loforð við finnska blómabændur hélt ekki vatni
 
Sveinn segir að íslenskir garðyrkju­bændur hafi fylgst vel með hvað hafi gerst þegar tollar voru aflagðir á blómum við inngöngu Finnlands í Evrópusambandið 1995 og þegar þeir gengu í myntbandalag Evrópu 1. janúar 1999. Evran var svo tekin upp í ársbyrjun 2002. Við inngönguna hafi því verið haldið fram að finnskir bændur þyrftu ekkert að óttast vegna styrkja ESB við framleiðslu á norðlægum slóðum. Raunin varð hins vegar sú að þrátt fyrir fullyrðingar um stuðning, þá gátu finnskir bændur ekki keppt við flóðbylgju innflutnings á ódýrri fjöldaframleiðslu sem þangað hafi komið í gegnum viðskiptaleiðir í Evrópusambandinu. Þær vörur hafi síðan jafnvel komið frá láglaunalöndum í öðrum heimsálfum. Eða eins og Jyrki Jalkanen hjá samtökum finnskra gróðurhúsabænda sagði í grein á vefmiðlinum Fresh Plaza: 
„Þeir gátu ekki keppt við ódýr blóm frá Afríku.“ 
 
Finnskir, norskir og danskir blómabændur voru neyddir til að hætta 
 
„Framleiðsla finnskra garðyrkju­bænda lagðist einfaldlega af, þeir réðu ekki við innflutninginn. Í Noregi, sem er í EFTA eins og við, héldu bændur lengi í vonina um að geta haldið áfram sinni blómaframleiðslu. Vegna samninga Norðmanna varðandi þróunaraðstoð við þróunarlöndin voru sett inn ákvæði um að fella niður alla tolla á blómum. Það var liður í þróunaraðstoðinni. Þar með var blómaframleiðendum í Noregi fórnað og nú eru blóm flutt beint inn til Noregs frá Afríku. Við vitum því alveg hvað muni gerast verði tollar að fullu afnumdir varðandi blómainnflutning til Íslands. Viðskiptamenn í Hollandi fara þá létt með að slátra okkar litla markaði hér. Það eru menn sem eru mjög harðir í viðskiptum og við sáum hvernig þeir tóku á þessum málum í Danmörku fyrir allmörgum árum. Þeir fóru þá í að keyra daglega inn í Danmörku með trukkafarma af blómum og buðu niður verð þar til dönsku framleiðendurnir gáfust upp. Eftir að samkeppnin var horfin var mönnum í lófa lagið að skrúfa upp verðið aftur á innfluttu vörunni,“ segir Sveinn. 
 
Axel Sæland umkringdur blomvöndum sem eru á leið í verslanir. 
 
Ekki fræðilegur möguleiki að keppa við tollfrjálsan innflutning
 
- Er þá enginn vafi í ykkar huga um að íslenskir blómabændur muni ekki lifa af við fulla niðurfellingu á tollum af blómainnflutningi?
„Nei, það er ekki fræðilegur möguleiki,“ segir Axel. 
„Við tollaniðurfellingar vegna EES samningsins datt nellikuframleiðslan alveg út hjá okkur. Við vorum áður með 500 fermetra undir slíka ræktun. Það var útilokað að keppa við tollalausan innflutning.“ 
 
Gríðarhátt kolefnisspor af innfluttum blómum
 
Axel benti líka á í viðtali í vor að kolefnisspor vegna flutnings á blómum milli landa skipti líka máli. Kolefnissporið við innflutning á blómum sé gríðarlega hátt. Þarna sé auk þess um ferskvöru að ræða sem þoli ekki flutning í lengri tíma með skipum. Því sé flogið með þetta og að stórum hluta í tveim áföngum alla leið frá Afríku og Suður-Ameríku.  
 
Heitt vatn og lífrænar varnir í stað eiturefna
 
Annar þáttur í innflutningi á blómum til landsins varðar hreinleika. Á Íslandi eru mikið notaðar lífrænar varnir til að verjast sníkjudýrum og ekki er heimilt að nota mörg eiturefni sem þekkjast víða í slíkri ræktun, t.d. í Afríku og Suður-Ameríku. Á Espiflöt eru til að mynda um 99% varna sem notaðar eru við framleiðsluna lífrænar. 
 
„Við notum 11 tegundir nytjadýra til að halda niðri meindýrum. Jarðvegurinn okkar er sótthreinsaður með hveravatni án nokkurra aukaefna,“ segir Axel. 
 
Útlendingum sem komið hafa í garðyrkjustöðina Espiflöt hefur verið starsýnt á þær aðferðir að sótthreinsa moldina með jarðhitavatni og það án nokkurra eiturefna. 
 
Innfluttu blómin oft þakin í eiturefnum
 
Blóm sem flutt eru til Íslands koma venjulega í gegnum markað í Hollandi. Það segir hins vegar ekkert um hvar blómin eru ræktuð. Þekkt er að heilu flugvélafarmarnir eru fluttir frá ríkjum í Afríku og Suður-Ameríku til áframsölu á hollenskum markaði. Þessi blóm eru oftar en ekki ræktuð við afar misjafnar aðstæður þar sem nauðsynlegt þykir að verja ræktunina með sterkum eiturefnum.
 
 „Við þetta erum við svo að keppa. Varan sem Hollendingarnir eru svo að framleiða sjálfir fer nánast öll á lokaðan nærmarkað í Evrópu. Þeir eru ekki að flytja hana heimshornanna á milli. Blómin sem verslað er með á milli landa koma m.a. frá Suður-Ameríkuríkjunum Kólumbíu og Ekvador og síðan frá Tansaníu, Kenía og Eþíópíu sem eru öflugust í þessari framleiðslu í Afríku.“
 
Tvískinnungur í umræðunni
 
Telja feðgarnir að þessi staðreynd sýni mikinn tvískinnung í umræðunni. Margir innflytjendur tali gjarnan um að þeir beri hag neytenda fyrir brjósti þegar þeir vilji flytja inn sem ódýrasta vöru. Þá sé alveg horft framhjá því að verið sé að flytja inn blóm með þotum um langan veg frá Suður-Ameríku og Afríku. 
 
Ítrekað hefur komið fram í úttektum Alþjóðlegu vinnu­málastofnunarinnar (ILO), Alþjóðabankans (The World bank) og fleiri að landbúnaðarverkafólki þar eru oft borguð smánarleg laun og þurfa að vinna við afar slæmar aðstæður. Sums staðar hefur verið bætt úr aðstæðum fólks en víða er staðan enn slæm. Auk þess er verið að framleiða þau blóm með aðstoð eiturefna sem bannað er að nota á Íslandi. Við þá framleiðslu er svo verið að nota mikið vatn á svæðum þar sem fólk hefur jafnvel ekki tryggan aðgang að nægu drykkjarvatni. Allt er þetta svo gert til að mæta miklum arðsemiskröfum innflytjenda og til að sinna lúxusþörfum neytenda á Íslandi.  
 
Alvarleg staða vegna eiturefnanotkunar
 
Þessu til staðfestingar var í síðasta tölublaði Bændablaðsins greint frá nýlegri rannsókn Tækniháskólans í Münc­hen sem staðfesti gríðarlegan skordýra­dauða um 30 til 70% vegna eiturefnanotkunar. Rannsóknir hafa sýnt svipað ef ekki verra ástand í Frakklandi og auk þess gríðarlegan fugladauða. 
 
Í skýrslu sem kom út í sumar er vísað í gögn Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um innflutning á varnarefnum til Afríku árinu 2016. Þar kemur fram að flutt voru inn til álfunnar 111.690.000 tonn af ýmsum varnarefnum það ár. Þar af voru nærri 51 þúsund tonn af hinu umdeilda breiðvirka gróðureyðingarefni Glyphosate IPA 41% SL, nærri 26 þúsund tonn af Paraquat 200 g/L SL sem sérstaklega er ætlað fyrir matjurtaræktun, og rúmlega 10 þúsund tonn af Glyphosate 30%.  
 
Samkvæmt glænýrri skýrslu International Food Policy Reserch Institute (IFPRI) frá 14. nóvember sl. þá mun eftirspurn eftir mat og öðrum landbúnaðarafurðum í Austur- og Suður-Afríku þrefaldast til nífaldast á næstu 30 árum. Það mun þýða stóraukna notkun á varnarefnum eins og skordýraeitri. Vöxtur í garðyrkju er nú mun hraðari en ráðleggingar sérfræðinga gerðu ráð fyrir. Það þýðir að menn horfa nú þegar upp á stóraukið heilsutjón vegna notkunar á eitruðum hjálparefnum í landbúnaði. Bent er á staðfestar upplýsingar frá Lusaka og Maputo þar um. 
 
Áslaug Sveinbjarnardóttir garðyrkju­bóndi, eiginkona Sveins og móðir Axels, á blómaverkstæðinu í Espiflöt. 
 
 
Virðisaukandi störf og samfélagsleg áhrif í hættu
 
- Nú snýst þetta ekki bara um líf eða dauða blómabænda á Íslandi. Það snýst væntanlega líka um samfélagsleg áhrif á byggð víða á landsbyggðinni og hvaða byggðastefnu menn vilja reka á Íslandi. Skiptir þá einhverju máli að þið frekar en aðrir séuð að skapa verðmæti og störf úr íslenskri orku og ná í virðisauka sem annars færi til útlanda? 
 
„Þessi garðyrkjustöð er að skapa 14 bein störf hér í samfélaginu fyrir utan afleidd áhrif. Í heild er blómaframleiðslan í landinu líklega að skapa hátt í hundrað störf auk afleiddra starfa sem eru gríðarlega mörg. Fyrir mörgum árum var gerð úttekt á því að megavatt í rafmagni sem notað er í garðyrkju skapar margfalt fleiri störf en raforka sem notuð er í álverum. Hér í Espiflöt erum við að nota rúmt megavatt. Garðyrkjan í Reykholti skiptir Rarik því töluverðu máli og fyrirtækið reisti hér stóra spennistöð fyrir nokkrum árum og eru nú að þjóna okkur mjög vel hvað varðar dreifingu á raforku. Þá er verið að taka hér inn orku frá 9,9 megawatta Brúarvirkjun sem HS orka er að reisa. Sú orka kemur beint inn á þessa spennistöð og stóreykur orkuöryggi svæðisins.“
 

Einstakar aðstæður á heimsvísu

„Í skýrslu Vífils Karlssonar um íslenska garðyrkju, sem fjallað var um í síðasta tölublaði Bændablaðsins, var fjallað um ódýru raforkuna, kolefnissporið og hreina vatnið sem menn voru ekki svo mikið að tala um hér áður. 
 
Aðgengi að hreinu vatni þykir orðin mikil sérstaða í heiminum í dag. Fyrir utan notkun á hreinu vatni í blómarækt, þá skiptir það gríðarlegu máli í grænmetisrækt og annarri matvælaframleiðslu. Svo ekki sé talað um jarðhitavatnið okkar og framleiðslu á koltvísýringi fyrir ylræktina með vistvænum hætti. Við ráðum því yfir fjórum helstu þáttunum til að framleiða hér heilnæmustu vörur sem völ er á í heiminum. Tal núna um að gera Íslands að matvælalandi heimsins, er af þessum sökum ekki eins fjarstæðukennt og það virðist í fljótu bragði hljóma. Þetta er alls ekki svo galin hugmyndafræði ef litið er til þess að Ísland er sennilega eina landið í heiminum sem er með alla þessa fjóra grænu umhverfisþætti sem nauðsynlegir eru fyrir svona ræktun,“ segir Sveinn.
 
Sveinn A. Sæland.

Hægt að framleiða hvaða jurtir sem er á Íslandi

Sveinn A. Sæland segir að það séu í raun engin takmörk fyrir því hvað hægt sé að framleiða á Íslandi. Hér séu allir grunnþættir til staðar eins og vistvæn orka og hreint vatn og með ylrækt hafi verið sýnt fram á að hægt sé að framleiða nánast hvað sem er, eins og banana. 
 
„Ég fullyrði að það eru engin takmörk fyrir því hvað við getum framleitt. Við getum búið til hér hvaða aðstæður sem er,“ segir Sveinn. 
 
„Það er þó alltaf þannig að við erum líka með fullt af skemmtilegum tegundum á heimsmarkaðnum sem borgar sig ekki að rækta hér vegna takmarkaðrar sölu. Maður skilur samt vel að viðskiptavinir og kaupmenn vilji sjá þessar vörur á markaðnum til að auka fjölbreytni. Slíkar vörur verður aldrei hægt að framleiða hér á hagkvæman hátt.“
 
Þeir feðgar Sveinn og Axel telja að hlutdeild íslenskrar blómaframleiðslu á markaðnum hér sé um 70–80%. Í sumum tegundum sé markaðshlutdeildin jafnvel nær 100%, eins og í rósum, sem eru mjög viðkvæmar í flutningi. 

Vill að menn setjist niður og endurskoði tolla á blómum

Kristinn Einarsson, fram­kvæmda­­­stjóri verslanasviðs Húsasmiðjunnar og fram­kvæmda­stjóri Blóma­vals, telur að full þörf sé á að endurskoða tolla á innfluttum blómum. Hann segist hafa fullan skilning á að það þurfi að vernda stöðu bænda, en hún þurfi þá að vera á réttum forsendum. 

„Ég hef aldrei verið talsmaður neins annars en að íslenskir blómaræktendur eigi rétt á sjálfsagðri vernd með sína framleiðslu. Ég er hins vegar mjög ósáttur við það hvernig sú vernd hefur verið toguð og teygð langt út yfir allt velsæmi og bitnar á neytendum fyrst og síðast.” 
 
Tollar eru bara skattur fyrir ríkissjóð og gjald fyrir neytendur
 
„Stór hluti af tollum á pottaplöntum er til dæmis algjör fjarstæða. Það eru nánast engar stofublóma-pottaplöntur ræktaðar á Íslandi. Það kostar mig 200 krónur að flytja inn hvert stykki í tollkvóta fyrir utan 30% toll. Þetta er ekki að vernda nokkurn einasta mann. Þetta er bara skattur fyrir ríkissjóð og gjald fyrir neytendur sem eru sem betur fer að kaupa pottaplöntur í mjög ríkum mæli í dag. Enda er þetta mikil tískuvara og það ætti að vera blómaframleiðendum og bændum mikið gleðiefni, en ríkið notfærir sér þetta. 
 
Mér finnst að í þessum málum sé verið að blanda saman óskyldum hlutum,“ segir Kristinn.
 
Hann segir að undir slíkan toll falli þó ekki pottaplöntur sem eru yfir metri á hæð, enda hafi þær aldrei verið ræktaðar á Íslandi. Síðan einstaka tegundir eins og orkídea og tegundir sem alls ekki eru ræktaðar hér. 
 
„Um 80–90% af grænum plöntum allt að metri á hæð eru háðar uppboði á tollkvóta. Það er alltaf beðið um fleiri plöntur í innflutningi en kvótamagnið segir til um. Það þýðir að við verðum alltaf að fara í uppboð. 
 
Birgir Birgisson í Bröttu­hlíð í Hveragerði er líklega eini pottaplöntu­framleiðandinn í dag og er aðallega í blómstrandi plöntum. Fjarlægðarverndin þar er alveg nóg. Ég get svo sem flutt blómstrandi pottaplöntur í gámum til Íslands en þær yrðu bara orðnar ónýtar þegar þær kæmu til landsins.“ 
 
Fjarstæða að vera með tolla á túlípana
 
„Svo er þetta með blóm eins og túlípana. Það er fjarstæðukennt að halda því fram að það séu til túlípanar hjá íslenskum framleiðendum á þessum tíma árs. Svo þarf að bera niðurfellingu á gjöldum af túlípönum undir einhverja nefnd. Það er búin að liggja inni beiðni um heimild til að flytja inn túlípana, en því var hafnað á þeim forsendum að það væru til túlípanar í landinu. Samt fæ ég ekki túlípana á Íslandi. Menn verða að horfa á það líka að þessi atvinnugrein er ekki síður mikilvæg en blómabændur. Ef við fáum ekki vörur til að selja þá getum við ekki þrifist.“
 
 
- En nú er verið að rækta túlí­pana t.d. hjá Gísla Jóhannssyni í Dalsgarði í Mosfellsdal?
„Já, en fyrstu túlípanarnir koma á markaðinn um miðjan desember og síðustu túlípanarnir koma á markað í apríl og byrjun maí. Þess á milli eru engir túlípanar á íslenskum markaði. Ég er búinn að vera í þessum bransa í 36 ár og ég þekki ekki þann ræktanda sem hefur verið með túlípana yfir sumarið. Ég hef í sjálfu sér engan áhuga á að flytja inn túlípana á sumrin og myndi ekki gera það. Af hverju eru menn þá svo hræddir við að fella niður tollana af þessu þegar enginn er að rækta þetta? Tollvernd verður að vera tollvernd, en hún á ekki að vera tekjustofn fyrir ríkið, eða vera til vegna duttlunga einhverra einstaklinga.
Ég held hins vegar að íslenskir blómabændur óttist það að ef túlípanar yrðu frjálsir undan tollum, þá myndi salan á þeim bitna á þeirra sumarframleiðslu. Þá verða menn líka að segja hvað þeir eru að meina.“
 
Vill ekki leggja niður tolla á öllum blómum
 
- Hvað með þau rök blómabænda að ef tollar verða lagðir niður þá sé greinin dauðadæmd?
„Það á alls ekki að leggja niður tolla á rósum, gerberum eða krísantemum sem sannanlega er verið að rækta hér innanlands. Ég er ekki talsmaður þess. Það á samt ekki að notfæra sér það að hafa tolla og tollkvóta á tegundir sem ekkert eru ræktaðar hér. Þetta hækkar auðvitað vöruverðið til neytenda og það verður erfiðara fyrir okkur að selja vörur og reka verslunina. Af hverju eru bændur að fagna þessu? Af hverju leggjast þeir ekki á árar með okkur um að fella þetta niður?“
 
Tollamálin verði endurskoðuð
 
-Svo þú vilt að menn setjist niður og endurskoði þessi tollamál?
„Auðvitað, það er einmitt það sem Ólafur Stephensen er að biðja um. Ég ætla samt ekki að skrifa upp á að það verði allir tollar á blómum felldir niður. Ég myndi aldrei gera það, því það er auðvitað hagur fyrir okkur að fá íslenska framleiðslu. Það er bara aldrei nokkur maður sem talar við okkur verslunarmennina. Það er gott og blessað að það sé verið að vernda bændur, en það er eins og það skipti ekki máli að verslun eins og okkar, sem er búin að vera til í tæp 50 ár á Íslandi, þurfi líka að lifa. Ég er með tugi manna í vinnu og það eru ábyggilega ekki mikið færri að starfa í blómaverslunum en í blómarækt. Við þurfum líka að huga að því að atvinnugrein eins og þessi hafi einhverja möguleika. Þetta finnst mér að bændur þurfi að skilja,“ segir Kristinn Einarsson.