Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ég sat Matvælaþing í Hörpu í síðustu viku. Með viðburðinum sköpuðu forsvarsmenn matvælaráðuneytisins vettvang fyrir áhugasöm til að taka þátt í að móta heildarsýn fyrir einn víðtækan málaflokk, sem snertir okkur öll. Forsendan var ný matvælastefna og meginstef dagskrárliða voru pallborð, sjö talsins. Hverju þeirra var ætlað að fjalla um einstaka kafla/efnisþætti stefnunnar.
Ég sat Matvælaþing í Hörpu í síðustu viku. Með viðburðinum sköpuðu forsvarsmenn matvælaráðuneytisins vettvang fyrir áhugasöm til að taka þátt í að móta heildarsýn fyrir einn víðtækan málaflokk, sem snertir okkur öll. Forsendan var ný matvælastefna og meginstef dagskrárliða voru pallborð, sjö talsins. Hverju þeirra var ætlað að fjalla um einstaka kafla/efnisþætti stefnunnar.
Mynd / Frjáls verslun.
Líf og starf 2. desember 2022

Sveitasælan sem hristi markaðinn

Höfundur: Höskuldur og Stefán

Svíaríki er talið með stöðugri löndum í heiminum í dag. Ekki bara í efnahagslegu tilliti heldur einnig jarðfræðilegu. Til marks um það voru frá miðri 14. öld og fram til ársins 2010 einungis 14 jarðskjálftar skráðir á Skáni í Suður-Svíþjóð.

Einn af þessum 14 var sá langsamlega stærsti í áratugi og mældist 4,7 á Richter í desember árið 2008. Það væri í sjálfu sér óáhugaverð staðreynd ef ekki væri fyrir Skælv, handverksbjórinn frá litlu sveitabrugghúsi á Íslandi sem kom á markað á Skáni nokkrum dögum áður.

22. júlí 2007 birtist í Morgunblaðinu atvinnu­auglýsing þar sem óskað var eftir bruggmeistara til starfa fyrir nýtt brugghús sem verið væri að setja upp og ætlaði að sérhæfa sig í fyrsta flokks sælkerabjór. Brugghúsið var staðsett um 70 km frá Reykjavík, austur í Flóa og nefndist Ölvisholt.

Varð fljótt stór útflytjandi

Brugghúsið var hugarfóstur bændanna af svæðinu, Bjarna Einarssonar, eggjabónda frá Miklaholtshelli og Jóns Elíasar Gunnlaugssonar, garðyrkjubónda í Ölvisholti. Í Ölvisholti stóðu ónotaðar byggingar sem að Jón fýsti að nota undir einhverja skemmtilega starfsemi og niðurstaðan varð sú að breyta gömlu fjósi, súrheysturni og hlöðu í sveitabrugghús.

Ungur bruggmeistari, Valgeir Valgeirsson, svaraði auglýsingunni og tók skömmu síðar við störfum. Gerður var samningur við danskan tækjasala og brugghús sem hét Gourmet Bryggeri og fylgdi með í kaupunum samningur um útflutning og dreifingu bjórsins sem fyrirhugað var að framleiða. Ljóst var því frá stofnun Ölvisholts að stefnt var á fleiri markaði en bara þann íslenska, enda varð brugghúsið fljótlega stærsti útflytjandinn á bjór og hélt þeirri stöðu
um sinn.

Jón Elías með vörur fyrirtækisins
Stóð af sér skjálfta

En hvað um það. Ölvisholt kom með sinn fyrsta bjór, fyrsta bruggunin var í desember 2007 og frumraunin – Skjálfti – kom í Vínbúðirnar á bjórdaginn 1. mars 2008. Segja má að bjórinn hafi fljótlega náð miklum vinsældum enda Ölvisholt einungis annað íslenska brugghúsið utan risanna tveggja, Ölgerðarinnar og Víking, til að koma með bjór í vínbúðina. Nafnið þótti hnyttið og átti að halda formlegt opnunarhóf Ölvisholts síðar um vorið, nánar tiltekið laugardaginn 31. maí 2008.

Tveimur dögum áður reið hins vegar yfir stóri Suðurlandsskjálftinn 2008 sem mældist 6,5 á Richter, en raunar var um tvo skjálfta að ræða, sem fundust allt norður á Ísafjörð, slíkur var hamagangurinn.

Þrátt fyrir talsvert rask, sem leiddi jafnvel til skepnufalls á bæjum í grenndinni, stóð brugghúsið af sér skjálftana og Ölvisholt var formlega vígt með pomp og prakt, þar sem þekktasti sonur nágrannabæjarins Brúnastaða flutti hátíðarávarp, eins og Guðna Ágústssyni er einum lagið.

Sterkasti stoutinn

Ölvisholt er um margt merkilegt brugghús, enda verið duglegt við að kynna Íslendinga fyrir nýjum bjórstílum. Skjálfti er maltaður lager sem minnir um margt á California Comons­bjórstílinn. Þessi stíll er gerjaður við hærra hitastig en almennt gerist og gengur með lagerbjór. Þetta brugghús var líka fyrsta brugghúsið til að koma með yfirgerjað öl á markaðinn, en Móri var fyrsta íslenska ölið sem fór í sölu. Þá bruggaði brugghúsið Fósturlandsins Freyju, sem var fyrsti íslenski hveitibjórinn, kryddaður með appelsínuberki og kóríander, í ætt við belgískan wit bjór sem stundum er kallaður White ale, og kom þó nokkuð á undan Einstök White Ale, sem flestir tengja stílinn við. Ekki gekk þessi tilraunastarfsemi þó áfallalaust. Freyja var ósíaður bjór, eins og skilmerkilega var tekið fram á flöskunni, en slíku áttu íslenskir neytendur ekki að venjast og kvörtuðu unnvörpum yfir því að hann væri „gruggugur“ eða „skítugur“.

En frægasta afrek Ölvisholts á sviði bjórsins er án efa bjórinn Lava, reyktur imperial stout­bjór sem má með góðum rökum segja einn frægasta íslenska bjórinn utan landsteinanna.

Sagan á bak við Lava er eins og á bak við allar sögur af meistaraverkum, saga tilviljana og þess að vera á réttum stað á réttum tíma. Valgeir bruggmeistari hafði lengi alið með sér þann draum að koma með alvöru stout á markaðinn en mátti þola að sjá Akureyringa skjóta honum ref fyrir rass með Víking Stout sem kom á markað um þessar mundir og féll í góðan jarðveg. En úr því að Valgeir gat ekki bruggað fyrsta íslenska stoutinn gat hann þó gert þann sterkasta!

Lögun úr ansi fábreytilegum tilraunagræjum af frumgerð Lava skilaði sér fyrir tilviljun á bjórhátíð í Danaveldi þar sem forsvarsmenn Ölvisholts voru að leita viðskiptasambanda. Þegar bragðprófanir stóðu sem hæst bárust fréttir af því að sænski dreifingaraðilinn Wicked Wine vildi hitta Íslendingana að máli. Var þá rétt búið að opna síðustu flöskuna, en með snörum handtökum tókst að troða tappanum aftur ofan í hana og kynna framleiðsluna sem nýjustu afurð brugghússins unga. Skemmst er frá því að segja að þetta var sá bjór sem Svíunum leist best á og fyrr en varði var Lava bjórinn orðin stærsta útflutningsvara Íslands í bjór. Lava bjórinn hefur hlotið ýmis verðlaun og ber þar kannski hæst að nefna US open Beer competition en árið 2012 fékk Lava verðlaun fyrir besta reykta bjórinn á sýningunni það árið.

Hráefni eftir vigt

En Ölvisholt var ekki bara ákveðinn frumkvöðull í bjórnum heldur var Valgeir líka fyrstur til að byrja að selja korn eftir vigt. Fram að því höfðu einungis örfáir heimabruggarar stundað það að brugga bjór með korni, meðan aðrir höfðu látið sér að góðu þykkni sem selt var í Ámunni. Metnaðarfullir heimabruggarar áttu það jafnvel til að nýta ferðalög til að burðast heim með tugi kílóa af korni ásamt tilheyrandi yfirvigt. Með lausasölu á korni beint frá Ölvisholtsbrugghúsinu hljóp kapp í heimabruggsenuna og árið 2010 var Fágun, félag áhugafólks um gerjun, stofnað og þann 1. maí 2010 var haldin Bruggkeppni Ölvisholts og Fágunar.

Bruggmeistarar Ölvisholts í gegnum tíðina, Elvar, Árni, Valgeir og Ásta, sambrugguðu ÖlvisholtX bjórinn af tilefni 10 ára afmælis Brugghússins.

En rekstur Ölvisholts hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Umhverfi litlu brugghúsanna á Íslandi hefur ávallt verið flókið en þetta brugghús var stofnað rétt áður en hamfarir efnahagshrunsins haustið 2008 dundu yfir. Vissulega hóf brugghúsið reksturinn með útflutningi en eigi að síður var fjármögnunin í formi erlendra mynta og varla þarf að eyða mörgum línum í það hvernig áraði með slíkan rekstur á þeim árum. Tíðar breytingar hafa verið á eignarhaldinu og því hafa sömuleiðis fylgt breytingar á bruggmeisturum. Valgeir Valgeirsson hélt til Borgar Brugghús og svo til Reykjavíkur bruggfélags. Eigendur stýrðu sjálfir brugghúsinu til skamms tíma eftir að Valgeir lét af störfum en fljótlega kom þar brosmildur ungur Breiðhyltingur, Árni Long að nafni, sem átti síðar eftir að fylgja forvera sínum yfir til Borgar brugghúss. Við af Árna tók hinn geðþekki bruggmeistari Elvar Þrastarson, sem seinna stofnaði Ölverk brugghúsið í Hveragerði og síðar verður fjallað um. Þá tók Ásta Hlöðversdóttir við og varð þar með fyrsti kvenbruggmeistarinn til að stýra miðlungsstóru brugghúsi á Íslandi og nú loks hefur sagan farið í hring og Valgeir er tekinn við aftur sem bruggmeistari í Ölvisholti.

Þrátt fyrir hina öru starfsmanna­ veltu er Ölvisholt stórmerkilegt brugghús að mörgu leyti. Eins og í síðustu grein var talað um Kalda áhrifin á markað má einnig segja að Ölvisholt hafi ítrekað brotið blað í bjórsögunni. Ölvisholt kom kannski ekki heimabruggsbylgjunni af stað en ljóst má vera að viljinn til að selja hráefni eftir vigt og eftirspurnin eftir þeirri vöru hafi verið slík að brugghúsið lenti nánast í vanda að framleiða eigin vörur, slíkur var ágangurinn.

Skylt efni: handverksbrugghús | bjór

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....