Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hundar eru algengt mótíf í myndum Jóns. Hér er ein mynd af eldgoshundi úr hundaseríunni svokölluðu sem telur yfir 250 hunda.
Hundar eru algengt mótíf í myndum Jóns. Hér er ein mynd af eldgoshundi úr hundaseríunni svokölluðu sem telur yfir 250 hunda.
Mynd / ÁL
Líf og starf 26. ágúst 2022

Listamaðurinn í fjósinu

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Ekki eru allir bændur eingöngu djúpsokknir í bústörf og rekstrar­ reikninga, heldur eru einnig til þeir sem kunna best við sig fjarri upplýsingaóreiðu og skarkala.

Á Búrfelli í Miðfirði býr kúabóndinn og listamaðurinn Jón Eiríksson ásamt konu sinni, Sigurbjörgu Geirsdóttur. Hann er einn þeirra bænda sem hefur fundið leiðir til að tjá óreiðu hugans á skapandi hátt með myndlistinni.

Á Búrfelli í Miðfirði er stundaður búskapur með 30 mjólkandi kúm, 300 kindum og myndlist sem aukabúgrein.

Jón flutti að Búrfelli á sjöunda ári, þegar foreldrar hans tóku við búinu. Hann nam búfræði og kláraði framhaldsdeildina árið 1977. Í kjölfarið starfaði hann við ýmislegt, eins og í fiski, múrverki, kennslu og við ráðunautastörf. Hann tók svo við Búrfelli árið 1982 og er í dag með 30 mjólkandi kýr, 300 kindur, 30 hross, nautaeldi og nokkra hektara í kornrækt á hverju ári. Fyrir utan búskapinn er það listin sem á hug hans allan.

Vinnugleðin mikilvæg

Jón segir að nauðsynlegt sé að finna gleðina í vinnunni hvort sem það sé eitthvað sem snúi að búskap eða listsköpun.

„Það er málið að þegar maður elst upp í sveit og er með ræturnar alveg ofan í jörðinni þá er maður búinn að þjálfa með sér vinnugleðina. Auðvitað er þetta oft basl – að vakna um miðja nótt að hjálpa einhverri nýbærunni,“ segir Jón, en það sem heldur honum gangandi eru tengslin við náttúruna, árstíðaskiptin og rútínan sem því fylgir.

Þó svo að sauðburður á vorin eða heyskapur á sumrin krefjist mikillar yfirlegu, þá er það gefandi og fyrir Jóni er vinnan ástríða. Það sem honum finnst líka gott er að geta lagst þreyttur á koddann eftir að hafa skilað af sér góðu dagsverki.

„Fólk segir að það eigi alltaf að vera svo skemmtilegt í fríinu. Ég lít akkúrat öfugt á þetta – það á að vera skemmtilegt í vinnunni.“

Jón hefur ástríðu fyrir því að vinna og nýtur hann þess að vera í návígi við náttúruna.

Lætur tölvur ekki trufla sig

Jón var mjög pólitískur og lagði sig fram við að fylgjast vel með málefnum líðandi stundar. Í kjölfar hrunsins ákvað Jón hins vegar að losa sig við sjónvarpið og hefur hann ekki fylgst með því síðan árið 2009. Hann lætur sér duga að hlusta á útvarp til þess að fylgjast með fréttum.

„Ég er með útvarp í traktornum, inni í húsi og svo er ég með útvarp hérna á vinnustofunni. Jújú, ég veit alveg nóg um það sem er að gerast. Svo var spáð alveg rosalegu veðri árið 2019 og ég var látinn vita að það þyrfti að slökkva á öllum rafmagnstækjum því það yrði svo mikið flökt á rafmagninu. Það var svo mikið flökt að það var rafmagnslaust í tvo daga. Úr þessu kom hjá mér sú þráhyggja fara ekki í tölvuna og hef ég ekki notað hana síðan. Konan lætur mig vita ef það er eitthvað mikilvægt í tölvupóstinum – en svo er það aldrei neitt mikilvægt.“

Hefur aldrei átt farsíma

Jón hefur heldur aldrei átt farsíma og eini síminn á bænum er gamli landlínusíminn. Það er því ekki hlaupið að því að ná sambandi við Jón, nema með því að hringja í heimasímann í hádeginu.

„Það var svo þarna í óveðrinu 2019 að ég var sá eini sem gat hringt og látið vita af mér því gamli síminn með koparþræðinum var virkur á meðan allt hitt hrundi. Sjálfsagt þegar ég fæ einhvern heilsubrest þá er rétt að fá sér farsíma fyrir fjölskylduna svo ég geti tekið lokasímtalið – nema þegar maður er orðinn svona gamall þá hefur maður ekkert að segja.“ Jón segir að með þessu hafi hann minnkað allt áreiti sem gefur honum meiri tíma til þess að vinna við búskapinn og sinna listinni.

„Þegar fólk spyr mig hvernig ég hafi tíma í allt þetta, segi ég því að hugsa um tímann sem það eyðir í símanum, tölvunni og sjónvarpinu og taka það saman.
Þetta er tíminn minn.“

Hefur ljósmyndað fyrir Bændasamtökin

Listsköpun Jóns hefst fljótlega eftir að hann klárar búvísindin og til að byrja með var hann mikið í ljósmyndum og að vinna með vatn- og pastelliti. Þannig er hluti ljósmyndasafns Bændasamtakanna úr hans smiðju og líklegt að lesendur Bændablaðsins hafi oft rekist á myndir eftir hann. Hann kom einnig að vinnu plakata Bændasamtakanna sem sýnir hina fjölmörgu liti íslenskra búfjárkynja.

Fyrir ellefu árum smíðað Jón sér nýja vélaskemmu og nýtti tækifærið og tæmdi gömlu vélaskemmuna á bænum sem hann innréttaði sem stúdíó. Við þetta sprakk út listsköpunin og jukust afköstin til muna. Með betri aðstöðu gat Jón málað stærri myndir og haft þær sýnilegar, ásamt því sem hann er ekki bundinn af því að þurfa að nota rýmið í eitthvað annað. „Fram að því málaði ég alltaf annaðhvort inni í íbúð eða úti í fjósi,“ segir Jón.

Óreiðuaðferð notuð við listsköpun

Jón segir aðferðina sína vera svokallaða óreiðuaðferð. Hann sjái hlutina í óreiðu og reyni að nýta hana til að skapa eitthvað. Hann segist fá endalausar hugmyndir en að liststköpunin sé fyrst og fremst vinna. „Ég veit ekki hvaðan hugmyndirnar koma en ég hlusta mikið eftir orðum og finn fegurðina sem er úti um allt; í náttúrunni, litunum og öllu,“ segir Jón.

Hann nýtir tímann sem fer í bústörf til listsköpunar líka. Við vélavinnu eða önnur störf sem krefjast mikillar endurtekningar getur Jón mótað hugmyndir sem hann er að vinna. „Þú veist hvernig það er að að sitja á traktor – maður fer í hugleiðsluástand. Ég er þá að hugsa um einhverja mynd og hvernig ég leysi vandann.“

Jón segist hafa gert þau mistök í upphafi ferilsins að hafa ekki tekið upp listamannsnafn og það sé of seint að gera það núna. Það listamannsnafn sem hann hefði viljað taka sér sem ungur maður er nafnið Búrval, sem er þá tenging við bæjarnafnið Búrfell og listamennina Kjarval og Stórval.

Yrði skelfilegt að verða frægur

Árið 2004 opnaði Landsvirkjun sýninguna Ár og kýr í Blöndu- virkjun sem var einkasýning á verkum Jóns. Þar voru sýndar 365 litlar vatnslitamyndir af kúm; ein kýr fyrir hvern dag ársins.

„Þetta var svo flott opnun að ég hélt að ég væri að verða listamaður – passaði mig bara að fara að moka skít daginn eftir svo ég færi ekki alveg í listina,“ segir Jón. Hann hefur annars ekki lagt sig mikið fram við að halda sýningar, þó svo að hann myndi gjarnan vilja koma myndunum sínum fyrir þar sem þær eru aðgengilegri.

„Draumur minn er að verða ekki frægur, það væri alveg skelfilegt. Ég veit líka að svona mikill súrrealismi og fantasía höfðar ekki til meirihlutans.“
Hann segir að myndlistinni fylgi ákveðin klíkustarfsemi. „Ef þú ert sjálflærður bóndi úti í sveit þá ferð þú ferð ekkert inn á Kjarvalsstaði. Kannski fara þeir að hringja í mig núna frá Kjarvalsstöðum en það versta er að þeir geta ekki náð í mig nema þegar ég er inni í hádeginu.“

Jón hefur ástríðu fyrir því að vinna og nýtur hann þess að vera í návígi við náttúruna.

Keypti sér haugsugu fyrir ágóða af listaverkasölu

Búskapurinn hefur haft mikil áhrif á listsköpun Jóns. Þegar verk Jóns eru skoðuð sést að náttúran og skepnurnar eru ofarlega í huga hans. Hann segist líka nýta sér það sem hann lærði í búvísindunum á sínum tíma, eins og anatómíu og grasafræði. „Þegar ég var að vinna að sýningunni Ár og kýr á sínum tíma þá var maður náttúrlega að horfa á hvernig kýrnar pósuðu.

Svo borgaði Landsvirkjun mér fyrir verkin og ég keypti mér dýrindis haugsugu fyrir peninginn,“ segir Jón og því hefur listin líka haft áhrif á búskapinn.

Hundar í öllum gervum

Jón vinnur oft að hinum og þessum seríum og þemum sem spanna mörg ár og fjöldann allan af myndum. Ein hugmynd sem hann hefur unnið hvað mest að eru hundar af öllu mögulegu tagi. „Það kom til þannig að einn félagi minn þjáðist af þunglyndi og burtkallaðist út af því. Mér var svo mikið um að ég fór að mála litla svarta hunda sem tákn fyrir þunglyndi.

Ég hef haldið áfram með þetta í áraraðir og þegar gleðin tók völd fór ég að mála bjartari hunda,“ segir Jón, en hann á nú um 250 myndir af hundum.
Hann málar bara andlit hundsins og heldur sig alltaf við striga af sömu stærð. Að öðru leyti eru hundarnir ólíkir og bera allir sín skýru einkenni, s.s. manna á borð við Salvador Dalí, Donald Trump og fleiri. Einnig málar hann hunda sem eru innblásnir af pönki, eldgosum, njósnum og fleiru sem kemur Jóni til hugar hverju sinni.

Jón segist hafa gert þau mistök að velja sér ekki listamannsnafn í upphafi ferilsins. Helst hefði nafnið Búrval komið til greina.

Hárið kemur að góðum notum

„Alltaf reiknaði ég með að það kæmi rússnesk prinsessa og byði mér í kastalann sinn til þess að sýna hundamyndirnar. Mér heyrist þó á fréttunum að það sé orðið ólíklegt. Það kom þó einu sinni indverskt par, alveg rosalega ríkt.

Konan er að skoða á meðan ég sit við að mála og mig vantaði eitthvað smá hól þannig ég spyr hana: „Hvernig finnst þér myndirnar?“ Þá segir hún: „Your paintings are okay, but your hair is very, very beautiful,“ og þá fattaði ég náttúrlega að þetta gæti hafa verið prinsessa,“ segir Jón.

Varðandi þetta mikla hár segist hann ekki hafa klippt það frá aldamótum, nema einn og einn lokk til þess að binda aftur hlið.

Bjart fram undan hjá bændum

Jón segir að bjartir dagar séu fram undan í landbúnaði, þó svo að alltaf séu áskoranir sem þurfi að glíma við. „Maður finnur það að í heiminum er meiri jákvæðni og skilningur í garð landbúnaðar og bænda. Skíturinn mokar sig ekki sjálfur þó maður djassi með pensli á kvöldin.“

Skylt efni: Búskapur | myndlist

Mannlíf á Búnaðarþingi
Líf og starf 25. mars 2024

Mannlíf á Búnaðarþingi

Æðsta samkoma Bændasamtaka Íslands er Búnaðarþing. Í ár stóð það yfir frá fimmtu...

Stjörnuspá 21. mars - 11.  apríl
Líf og starf 21. mars 2024

Stjörnuspá 21. mars - 11. apríl

Vatnsberinn hefur lengi verið að velta því fyrir sér að flytja sig um set og jaf...

Félagsskapur eldri borgara
Líf og starf 19. mars 2024

Félagsskapur eldri borgara

Stofnfundur Félags eldri borgara í Hvalfjarðarsveit var haldinn sunnudaginn 11. ...

Áframhaldandi búseta talin möguleg
Líf og starf 13. mars 2024

Áframhaldandi búseta talin möguleg

Við Langanesströnd sem liggur að botni Bakkaflóa stendur Bakkafjörður ásamt bæði...

Kirkjugarðsklúbburinn
Líf og starf 12. mars 2024

Kirkjugarðsklúbburinn

Halaleikhópurinn víðfrægi tók að sér verkið Kirkjugarðsklúbbinn eftir Ivan Mench...

Bændamótmæli á Íslandi?
Líf og starf 11. mars 2024

Bændamótmæli á Íslandi?

Mótmæli bænda í Evrópu hafa verið í fréttum undanfarin misseri þar sem þeir vald...

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars
Líf og starf 8. mars 2024

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars

Vatnsberinn hefur alla burði til þess að koma í framkvæmd þeim hugmyndum sem eru...

Lundi
Líf og starf 6. mars 2024

Lundi

Lundi er algengasti fuglinn okkar og jafnframt einn af okkar einkennisfuglum. Ha...