Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Upprunalegu peysurnar sem voru endurgerðar.
Upprunalegu peysurnar sem voru endurgerðar.
Mynd / Jóhannes Torfason
Líf og starf 2. júlí 2019

Íslenska lopapeysan, uppruni, saga og hönnun

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Sérsýning Heimilisiðnaðarsafnsins nú í sumar nefnist  Íslenska lopapeysan, uppruni, saga og hönnun og var hún opnuð á uppstigningardag. Um er að ræða farandsýningu sem má rekja til rann­sóknarverkefnis Heimilis­iðnaðar­safnsins, Hönnunarsafns Íslands og Gljúfrasteins – húss skáldsins.  
 
Skýrsla um þessa rannsókn er birt á vefsíðum safnanna. Í framhaldi var ákveðið að hlutgera afraksturinn með farandsýningu sem var fyrst opnuð í Hönnunarsafninu í desember árið 2017. Auður Ösp Guðmundsdóttir sýningarhönnuður sá um að hanna sýninguna og koma henni upp. Um svipað leyti kom út bókin um íslensku lopapeysuna eftir Ásdísi Jóelsdóttur sem byggð er á rannsóknarskýrslunni sem hún vann á sínum tíma.
 
Fyrri hluta árs 2018 var sýningin sett upp á Nord Atlantes Brygge í Kaupmannahöfn og síðan fór sýningin til Odense. Auður Ösp setti svo sýninguna upp aftur í Heimilisiðnaðarsafninu.
 
Björg Baldursdóttir frá Kvæðamannafélaginu Gná kvað stemmur bæði í upphafi athafnar og í lokin og var gerður góður rómur af.
 
Kom fyrst fram á fimmta áratug síðustu aldar
 
Safnasjóður styrkti bæði rannsóknarvinnuna og farandsýninguna og einnig fékkst styrkur frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra til sýningarinnar og má segja að sá styrkur hafi gert Heimilisiðnaðarsafninu kleift að taka þátt í verkefninu. 
 
Íslenska lopapeysan kom ekki fram á sjónarsviðið fyrr en á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Einnig er ljóst að engin ein prjónakona hannaði lopapeysuna heldur hefur útlit og gerð hennar tengst mörgum áhrifaþáttum. Auður Laxness átti þó mikinn þátt í því að móta útlit peysunnar og kynna hana í gegnum tengslanet sitt. 
 
Duggarapeysurnar til sýnis
 
Elín S. Sigurðardóttir safnstjóri fór nokkrum orðum um frumgerðir þriggja peysa sem allar eru varðveittar í safninu og voru í fyrstu uppsetningu sýningarinnar. Peysurnar voru síðan endurgerðar áður en sýningin var send til Danmerkur. 
 
Sagði Elín að í heimildum um sjómannspeysuna, eða duggarapeysuna, úr safni Halldóru Bjarnadóttur komi fram að peysan hafi verið prjónuð árið 1920. Halldóra segir einnig að á kreppuárunum hafi peysur af því tagi verið handprjónaðar þúsundum saman, aðallega norðanlands en einnig á Vestfjörðum og seldar veiðarfæraverslunum í Reykjavík og Akureyri. Haft er eftir Halldóru að það hafi þótt góð atvinna og eftirsótt að prjóna peysurnar.
 
Gömlu peysurnar liggja frammi á meðan sýningin verður í Heimilisiðnaðarsafninu.
Elín kvað samstarfsverkefnið hafa verið mjög árangursríkt og gott dæmi um góðan ávöxt af samstarfi ólíkra safna. 
 
Sautjánda sérsýningin
 
Í lokaorðum Elínar kom fram að þetta væri í sautjánda sinn sem sérsýning væri opnuð í safninu sem teljist merkilegt hjá ekki stærri stofnun. 
 
Hún minnti einnig á þann heiður og ábyrgð sem byggðarlaginu hefði hlotnast að eiga slíkt safn sem Heimilisiðnaðarsafnið, sem nyti daglegrar viðurkenningar gesta, fræða- og listafólks og augljósasta dæmi um þessa viðurkenningu væri stöðugur áhugi listafólks um að fá að halda sérsýningu í safninu.
 
Ágæt aðsókn var við opnunina og þáðu gestir kaffi og kleinur og áttu notalega samverustund í kaffirými safnsins. Safnið er opið í sumar, frá júní og til ágústloka, frá kl. 10 til 17. 
Mannlíf á Búnaðarþingi
Líf og starf 25. mars 2024

Mannlíf á Búnaðarþingi

Æðsta samkoma Bændasamtaka Íslands er Búnaðarþing. Í ár stóð það yfir frá fimmtu...

Stjörnuspá 21. mars - 11.  apríl
Líf og starf 21. mars 2024

Stjörnuspá 21. mars - 11. apríl

Vatnsberinn hefur lengi verið að velta því fyrir sér að flytja sig um set og jaf...

Félagsskapur eldri borgara
Líf og starf 19. mars 2024

Félagsskapur eldri borgara

Stofnfundur Félags eldri borgara í Hvalfjarðarsveit var haldinn sunnudaginn 11. ...

Áframhaldandi búseta talin möguleg
Líf og starf 13. mars 2024

Áframhaldandi búseta talin möguleg

Við Langanesströnd sem liggur að botni Bakkaflóa stendur Bakkafjörður ásamt bæði...

Kirkjugarðsklúbburinn
Líf og starf 12. mars 2024

Kirkjugarðsklúbburinn

Halaleikhópurinn víðfrægi tók að sér verkið Kirkjugarðsklúbbinn eftir Ivan Mench...

Bændamótmæli á Íslandi?
Líf og starf 11. mars 2024

Bændamótmæli á Íslandi?

Mótmæli bænda í Evrópu hafa verið í fréttum undanfarin misseri þar sem þeir vald...

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars
Líf og starf 8. mars 2024

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars

Vatnsberinn hefur alla burði til þess að koma í framkvæmd þeim hugmyndum sem eru...

Lundi
Líf og starf 6. mars 2024

Lundi

Lundi er algengasti fuglinn okkar og jafnframt einn af okkar einkennisfuglum. Ha...