Starfsvettvangur útskrifaðra nemenda er garð- og skógarplöntustöðvar, ræktun, sala og ráðgjöf til viðskiptavina auk þess að aðstoða við tilraunir og rannsóknir.
Líf og starf 27. maí 2020

Hagnýtt og áhugavert nám

Ingólfur Guðnason

Garð- og skógarplöntur eru fjölbreyttur hópur plantna sem landsmenn nota til að prýða garða, opin svæði og lóðir við stofnanir og fyrirtæki, sem og trjáplönturnar sem notaðar eru til að rækta skóga framtíðar.

Til að ná árangri í framleiðslu þessara tegunda þarf sérþekkingu sem ekki er á færi leikmanna og framleiðslan gerir auk þess sérstakar kröfur um ræktunaraðstöðu og tækni. Ræktun þessa fjölbreytta gróðurs er kennd á námsleið um garð- og skógarplöntuframleiðslu á Garðyrkjuskóla LBHÍ á Reykjum í Ölfusi. Þar starfa sérfræðingar með áratuga reynslu af framleiðslu og notkun þeirra.

Til að ná árangri í framleiðslu plantna þarf sérþekkingu og framleiðslan gerir sérstakar kröfur um ræktunaraðstöðu og tækni.

Fjölbreytt og skemmtilegt nám

Á námsleiðinni Garð- og skógarplöntuframleiðsla eru kennd grunnfög garðyrkjunnar, til að mynda grasafræði, plöntulífeðlisfræði, almenn ylræktun og jarðvegs- og áburðarfræði, en einnig sérfög í framleiðslu garð- og skógarplantna. Sérstaklega er kennd plöntuþekking og framleiðsluferli hinna ýmsu tegunda. Áherslur í námi á Reykjum tengjast umhverfisvernd og sjálfbærni og er þar m.a. stuðst við gildi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og tekið mið af sérstöðu Íslands varðandi gróðurfar, verndun náttúrugæða og möguleika í vali á hinum ýmsu tegundum.

Vistfræði er kynnt og einnig markaðsfræði og skipulag og stofnun garðyrkjustöðva. Sérstakur áfangi um ræktun ávaxtatrjáa er kenndur og sömuleiðis torf- og grjóthleðslur, trjáklippingar og trjáfellingar. Útskrifaðir nemar hafa fengið góða innsýn í skógrækt, landnotkun, verndun lífríkis og garðyrkju í sátt við umhverfið.

Garðplöntur í gróðurhúsi.

Starfsvettvangur víða í samfélaginu

Námið á Reykjum er blanda bóknáms og verknáms. Bóknámið skiptist í 4 annir en verknám fer fram á viðurkenndum verknámsstöðum. Starfsvettvangur útskrifaðra nemenda er garð- og skógarplöntustöðvar, plönturæktun, sala og ráðgjöf til viðskiptavina auk þess að aðstoða við tilraunir og rannsóknir. Fjarnám er í boði á þessari námsbraut. Þá tekur námið að jafnaði 8 annir, auk verknáms.

Útskrifaðir nemar eru eftirsóttir sem verkstjórar og ræktunarstjórar og starfa auk plöntuframleiðslu við garðyrkjustörf hjá bæjar- og sveitarfélögum. Námið veitir góðan grunn að framhaldsnámi erlendis. Einnig eru möguleikar í stofnun nýrra fyrirtækja í framleiðslu garð- og skógarplantna.

Kennslan hefst í ágústlok 2020 og er hægt er að sækja um nám á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands: lbhi.is. Kennslan fer fram á garðyrkjuskóla LBHÍ á Reykjum í Ölfusi. Umsóknarfrestur er til 15. júní.