Mynd/HKr.
Líf og starf 27. nóvember 2019

Eigendur NPK segja tilurð félagsins vera efnahagshruninu að þakka

Hörður Kristjánsson
Fyrirtækið NPK ehf. varð til í miðju efnahagshruninu 2008 er erfiðleikar sköpuðust í innflutningi á rekstrarvörum fyrir garðyrkjustöðvarnar í landinu. Það er nú orðið leiðandi í sölu á rekstrarvörum og í þjónustu við garðyrkjubændur og talið vera með um 80% markaðshlutdeild. 
 
Reynir Jónsson, garðyrkjubóndi og eigandi Reykáss ehf., Gróðrarstöðvar í Miðfellshverfinu sunnan við Flúðir, sagði í samtali við Bændablaðið að sér hafi verið farið að blöskra verð á perum fyrir lýsingu í gróðurhúsum og öðrum rekstrarvörum. Hann sagðist ekki hafa verið tilbúinn að greiða um 5.500 krónur fyrir hverja peru og setti sig því í samband við sölufyrirtæki erlendis. Sama sagan hafi verið með áburð og fleiri rekstrarvörur. Hann fór því að kaupa perur beint og gat svo útvegað öðrum á um 2.500 krónur stykkið. Í dag er verðið á perum hjá NPK fyrir gróðurhúsalýsingu um 2.400 krónur fyrir utan virðisaukaskatt, eða á svipuðu róli og var þegar þeir byrjuðu fyrir 11 árum.  
 
Tilurð NPK er efnahagshruninu að þakka
 
„Þetta fyrirtæki er eiginlega efnahagshruninu 2008 að þakka,“ segir Gunnar Th. Gunnarsson, meðeigandi Reynis í NPK og sölustjóri fyrirtækisins. Hann er garðyrkjufræðingur að mennt og starfaði áður við garðyrkju í Hveragerði. 
 
Fyrsti gámurinn pantaður í desember 2008
 
Reynir Jónsson byrjaði á því að panta fyrsta gáminn af rekstrarvörum fyrir garðyrkjuna hjá sér í desember 2008, eða rétt eftir fall bankanna.  
 
„Ég man bara eftir að kreppan var skollin á og það var að lokast á öll gjaldeyrisviðskipti landsins,“ segir Reynir. 
 
„Ég sagði bara við gæjann úti, sendu mér bara reikning strax því ég þarf að koma peningum úr landi fyrir honum. Ég fékk reikning upp á um þrjá milljónir og gat fengið gjaldeyri til að borga hann. Þarna byrjaði boltinn að rúlla og svo varð bara ekkert aftur snúið,“ segir Reynir. 
 
 Gunnar, félagi Reynis, segir að á þessum tíma hafi hann séð um ylræktarstöð í Hveragerði. Hann hafi frétt af þessum innflutningi Reynis og hafi spurt hann hvort hann væri til í að selja sér áburð. Það kom gámur og Gunnar spurði Reyni þá hvort hann mætti ekki selja öðrum úr gámnum líka. 
„Það var auðsótt mál og það seldist fljótt úr þeim gámi. Það var því farið í að panta annan gám,“ segir Gunnar. 
 
Allt staðgreitt til að byrja með
 
Reynir segir að þetta hafi verið svolítið sérstakt. Hann hafi bara sett upp hvað menn þyrftu að greiða fyrir vöruna og síðan lögðu bændur bara pening beint inn á hans reikning hjá honum sem því nam. 
„Ég sendi svo peninga út, enda þorðu menn ekki að afgreiða neinar vörur til Íslands á þeim tíma nema gegn staðgreiðslu. Um leið og þeir fengu peninga í hendurnar afgreiddu þeir til mín vörurnar. Svona gekk þetta í um ár, en þá vorum við búnir að ávinna okkur nægt traust til að þeir létu vörur af hendi án þess að þær væru fyrirfram greiddar. Þannig byrjaði boltinn að rúlla.“  
 
Áður vildi enginn af þeim vita en nú hefur dæmið snúist við
 
Reynir segir að ein helsta breytingin sem orðið hafi með tímanum sé að í byrjun hafi þeir verið á stöðugum þeytingi til útlanda til að reyna að ná beinu sambandi við menn til að tryggja sér viðskipti. Á því hafi orðið mikil breyting.
 
„Upphaflega leit enginn við okkur. Nú er staðan þannig að dæmið hefur snúist við. Nú hringja menn og senda okkur tölvupósta í leit að umboðsmönnum á Íslandi.“ 
 
Af lager NPK í Miðfellshverfinu. Mynd / HKr.
 
Með allar nauðsynlegar rekstrarvörur fyrir gróðrarstöðvar
 
„Við erum nú með nær allar vörur sem nauðsynlegar eru í daglegum rekstri gróðrarstöðvanna,“ segir Reynir. 
 
„Við erum með áburð, mold, fræ, ljósaperur, ljósalampa, tölvukerfi, lífrænar varnir, sápur og hvaðeina sem garðyrkjumenn þurfa á að halda. Það má líka nefna klippur, tangir og hnífa. Starfsemin hefur gengið mjög vel og við erum nú með um 80% af garðyrkjumarkaðnum. 
 
Mér þótti reyndar sérkennilegt að keppinautar skyldu ekki taka slaginn við okkur og reyna að keppa með lægri verðlagningu. Í staðinn fengum við það í andlitið að við værum fífl og hálfvitar og myndum fara á hausinn með það sama. Það er bara þannig að maður veit aldrei hver er fífl og hver ekki í rekstri fyrirtækja og því betra að segja sem minnst. Allavega höfum við ekki þurft að fá niðurfellingu á skuldum eins og sumir og við höfum rekið okkar fyrirtæki á sömu kennitölu frá upphafi og með sama nafninu, NPK.“ 
 
- Þú segir að þið flytjið inn mold. Er hún þá ekki full af sníkjudýrum?
„Nei, við fáum mold frá þýsku fyrirtæki sem sækir hana líklega til Litháen. Það eru engar plöntur eða gróður í þessari mold og þar af leiðandi engin skordýr sem nærast á plöntunum og engin skordýr í moldinni sem við erum að flytja inn. Magnús Ágústsson, fyrrverandi garðyrkjuráðunautur, starfar hjá okkur og getur staðfest þetta,“ segir Reynir Jónsson.
 
Hækka eldri gróðurhúsabyggingar með hollenskri tækni
 
Auk þessa þá hafa þeir félagar verið í samstarfi við hollenskt fyrirtæki, TC Dool. Hafa þeir þannig getað boðið garðyrkjubændum að hækka gróðurhúsabyggingar til að auka notagildi þeirra. Með tækni TC Dool eru burðargrindur húsanna skornar í sundur og efri hlutanum lyft án þess að hreyfa þurfi við ljósa- og rafmagnsbúnaði í þaki húsanna. 
 
„Við getum hækkað öll gróðurhús, einnig getum við hækkað öll stálgrindarhús og límtréshús með þessari tækni,“ segir Gunnar. 
 
Sem dæmi var hækkað 1.400 fermetra hús í Friðheimum og 2.500 fermetra bygging á Flúðajörfa á Flúðum. Húsin voru hækkuð um 1,5 metra. Einnig hefur NPK byggt ný gróðurhús með TC Dool.
 
Markmiðið að vera með sanngjarna álagningu
 
Gunnar segir að eflaust væru þeir orðnir moldríkir ef þeir hefðu notað sömu verðlagningu og aðrir á markaðnum. Hins vegar hafi þeir einsett sér að vera aðeins með þá álagningu sem dygði til að fyrirtækið gæti rekið sig og dafnað. Það kæmi öllum til góða, bæði þeim og viðskiptavinunum, sem áður hafi þurft að setja allt of stóran skerf af sínum tekjum í kaup á rekstrarvörum. 
 
Hann segir að árangurinn af þeirra starfi megi vel greina í þeirri uppsveiflu sem orðið hafi í garðyrkjunni eftir að þeir hófu starfsemi. Garðyrkjubændur hafi nú meira til skiptanna af því sem áður fór í kaup á rekstrarvörum.
 
Lág álagning skilar sér í meiri viðskiptum
 
„Við fáum lága álagningu einfaldlega til baka í auknum viðskiptum. Garðyrkjubændur geta nú leyft sér að kaupa hluti sem þeir réðu ekki við áður. Þeir geta endurnýjað perur, tölvukerfi og vökvunarkerfi sem  þeir þorðu ekki einu sinni að hugsa um að gera fyrir nokkrum árum. Með því að vera með mjög sanngjarna álagningu fáum við mikla góðvild og aukin viðskipti í staðinn. Við verðum kannski aldrei ríkir á þessu, en það var heldur ekki tilgangurinn og við erum mjög sáttir. 
 
Við höfum samt getað byggt okkur ágætlega upp með bílum og lyftara til að sinna okkar þjónustuhlutverki.“ 
 
Engin yfirbygging
 
– Er þá ekki mikil yfirbygging fyrst fyrirtækið er svona fjölþætt?
„Nei, það er engin yfirbygging. Ég er bara með skrifstofuna heima. Við getum verið með menn á launum, án þess að það útheimti mikla yfirbyggingu í rekstrinum. Þá er ekkert bruðl í umgjörðinni. Lagerinn er byggður upp úr hlöðu sem við löguðum til og steyptum gólf í. Svo erum við líka með lager í gámum á hlaðinu,“ segir Gunnar.
 
Í samstarfi við við hollenskt fyrirtæki, TC Dool, hefur NPK getað boðið garðyrkjubændum að hækka gróðurhúsabyggingar til að auka notagildi þeirra. Hér er verið að hækka 1.400 fermetra gróðurhús í Friðheimum. Mynd / NPK
 
Með bestu umboðin í garðyrkjuvörum
 
„Nú erum við komnir með öll bestu umboðin í þessum geira,“ segir Gunnar.  
 
„Við höfum líka gert samning við Yara og tókum yfir af SS þær tegundir sem notaðar eru í gróðurhúsum. Þeir sjá áfram um tún­áburðinn og síðan er bara samkomulag um að við útvegum þeim áburð ef þeir þurfa á að halda og þeir okkur.
 
Þá erum við með umboð frá Koppert B.V. Hollandi, sem er eitt besta fyrirtæki í heimi í lífrænum vörnum. Síðan er PRIVA að selja okkur sams konar stýribúnað og 20 bestu tómataframleiðendur í heiminum eru að nota. Svo mætti lengi telja, en við höfum verið mjög heppnir með að fá til okkar góð umboð,“ segir Gunnar.
 
Staðsetningin helsti kosturinn
 
– Hvað með staðsetningu fyrirtækisins? Flestir velja að vera með slíka þjónustustarfsemi í Reykjavík frekar en að vera úti á landi eins og þið. Er ekkert verra að vera staðsettir í uppsveitum Árnessýslu?
„Staðsetningin hér er einmitt helsti kosturinn. Við erum hér miðsvæðis í stórum hring þar sem flestir okkar viðskiptavina eru með sína starfsemi. Við þurfum ekki að fara mikið út fyrir þennan hring. Við förum jú í Borgarfjörðinn og stundum áleiðs norður í land ef svo ber undir. Við förum líka til Reykjavíkur, en borgin er meðal okkar viðskiptavina, Svo er það Hveragerði og svæðið hér í kring. Ég held ég geti alveg fullyrt að við þjónustum þetta svæði mjög vel.
 
Nú erum við með yfir 90% af markaðnum í sölu á áburði fyrir gróðurhús. Um 80% af markaðnum er hér á svæðinu á hringnum um Flúðir, Reykholt, Laugarás. Það hentar því mun betur að vera með lagerinn hér í Miðfellshverfinu rétt við Flúðir frekar en að vera í Reykjavík.“  
 
Húsin eru hækkuð um 1,5 metra án þess að hreyfa þurfi við ljósabúnaði eða öðrum lögnum í þaki. Mynd / NPK
 
Ef eitthvað vantar þá er því reddað strax
 
Gunnar segir að það sé líka ýmislegt annað sem vinnst með því að vera með starfsemina úti í sveit. 
„Ef bændur verða uppiskroppa með áburð eða annað og þurfa strax meira, þá reddum við því bara strax. Innan fárra klukkutíma erum við mættir með áburð eða hvað annað sem vantar. Við erum með lager fyrir allt það helsta, öll vökvunarkerfi, áburð, mold og annað sem til þarf. 
 
Endurskoðandinn skammaði okkur reyndar fyrir að vera með svo stóran lager, en við lítum svo á að það sé hluti af okkar þjónustuhlutverki. Að varan sé til þegar menn þurfa á henni að halda.“ 
 
Sjá sjálfir um flutningana
 
„Við leggjum einnig mikið upp úr því að sjá um alla flutninga sjálfir til að þurfa ekki að reiða okkur á flutningafyrirtæki sem hafa kannski ekki tíma þegar við og okkar viðskiptavinir þurfum á vörunum að halda. Við fylgjum svo vörunum alla leið og kíkjum í kaffi hjá bændunum í leiðinni og erum þannig í góðu sambandi við okkar viðskiptavini.
 
Þá er flutningur heim í hlað inni­falinn í öllu verði hjá okkur, menn fá engan aukareikning fyrir slíkt,“ segir Gunnar. 
 
- Getið þið samt boðið vöruna frá ykkur á góðu verði?
„Já, allavega hefur keppinautunum í Reykjavík ekki tekist að skáka okkur.“ 
 
Lífrænar varnir með flugi einu sinni í viku 
 
„Við erum líka að flytja inn lífrænar varnir og það koma sendingar til okkar einu sinni í viku frá Hollandi með flugi. Þessu er keyrt út til kaupenda sama dag og sendingin kemur.
 
Vörurnar afgreiðum við allar sjálfir og við förum hringinn þrjá til fjóra daga í viku svo garðyrkjubændur fá vörurnar fljótt afgreiddar.“ 
 
Mjög víðtæk þekking í fyrirtækinu
 
„Þá skiptir líka máli að við sem störfum hér erum allir búnir að starfa meira og minna í garðyrkjunni. Sjálfur er ég útskrifaður garðyrkjufræðingur og var búinn að vera mikið að starfa í gróðrarstöðvunum í Hveragerði. Svo réðum við Magnús Ágústsson, fyrrverandi ráðunaut hjá RML, í vinnu til okkar í um 50% starf. Þannig erum við bara fjórir sem komum að þessum rekstri, Reynir, Magnús, Jónas og ég. Það er samt mjög víðtæk þekking á ræktun í fyrirtækinu og öllu sem því viðkemur. Einnig eru komin mjög góð tengsl við alla okkar birgja í Hollandi og víðar,“ segir Gunnar Th. Gunnarsson.
Erlent