Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, formaður Bændasamtaka Íslands.
Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, formaður Bændasamtaka Íslands.
Mynd / HKr.
Líf og starf 19. mars 2019

Bændur þurfa að standa þéttar saman

Höfundur: Vilmundur Hansen

Um síðustu mánaðamót áttu sér stað formannsskipti hjá Bændasamtökum Íslands þegar Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, varaformaður samtakanna, tók við formannsstöðunni af Sindra Sigurgeirssyni. Formannsskiptin báru brátt að þar sem Sindri var ráðinn í annað starf með skömmum fyrirvara. Guðrún er fyrsta konan sem er formaður Bændasamtaka Íslands.

Guðrún segir að breytingarnar hafi verið óvæntar og borið brátt að, en þegar hún tók að sér embætti varaformanns BÍ fyrir ári hafi það verið gert af heilum hug og því ekki annað í stöðunni en að taka áskoruninni.

„Ég lít þannig á að ef maður ákveður að taka að sér verkefni í lífinu þá brettir maður upp ermarnar og sinnir því sem þarf að gera þegar þörf er á og þeim verkefnum sem fram undan eru.

Hún telur búsetu sína fjarri Reykjavík ekki vandamál við starfið. „Til að byrja með stefni ég að því vera í Bændahöllinni tvo daga í viku og eftir þörfum. Ég er vel tölvutengd með ljósleiðara fyrir norðan og það gerir mér og öðrum kleift að halda fjarfundi og vera þannig alltaf í góðu sambandi. Að mínu mati snýst þetta allt um að finna leiðir til að leysa svona atriði og vinna með aðstæðum og það verður ekki til vandræða að mínu mati.“

Endurskoðun búvörusamninga

Fyrir skemmstu lauk endurskoðun sauðfjársamninganna og fram undan er endurskoðun á öðrum búvörusamningum og því engin ládeyða fram undan hjá nýjum formanni.

Svartárkot í Bárðardal. / Mynd úr einkasafni.

„Ég kvíði því ekki, þar sem ég kem til með að vinna með mjög góðu og duglegu fólki í stjórn BÍ og fleirum við endurskoðunina. Ég hef tröllatrú á íslenskum landbúnaði, íslenskum bændum og Íslandi yfir höfuð og það er vandalaust að tala fyrir þeim sjónarmiðum við samningaborðið.

Það er búið að samþykkja sauðfjársamningana og ég tel að í þeim séu stigin skref í rétta átt. Það er verið að reyna að ná utan um framleiðsluna, þrátt fyrir að við höfum ekki náð öllu fram sem við vildum.

Samningar af þessu tagi eru ansi flóknir og ekki síst þar sem staða einstakra sauðfjárbænda er mjög ólík. Það er erfitt að gera svo öllum líki en ég held að niðurstaðan sé ásættanleg enda naut hún stuðnings um 70% þeirra bænda sem tóku þátt í atkvæðagreiðslu um hana.

Hvað aðra búvörusamninga varðar sé ég ekki fram á að það verði um neinar stórar áherslubreytingar að ræða í garðyrkjusamningi og rammasamningi en gera má ráð fyrir að við munum leggja til talsverðar breytingar á nautgripasamningi í ljósi þess að kúabændur hafa lýst þeim vilja með skýrum hætti að þeir vilja áfram hafa kvótakerfi í mjólkurframleiðslu

Eftir sem áður er tollvernd að mínu mati stærsta einstaka málið sem verður að skoða fyrir landbúnaðinn í heild í komandi viðræðum. Tollverndin er þýðingarmikil fyrir svína- og alifuglaeldi og eggjaframleiðslu í landinu og líka kúa- og garðyrkjubændur.

Tollverndin þarf að virka þar sem henni er beitt. Það gerir hún ekki í dag því hún hefur rýrnað verulega undanfarin ár vegna stækkandi tollkvóta, aukinna opinna tollkvóta auk þess sem tollar bundnir við fasta krónutölu hafa margir verið óbreyttir í nærri aldarfjórðung. Þetta þarf að að ræða við endurskoðunina.“

Bændur þurfa að þétta raðirnar

„Að mínu mati er gríðarlega mikilvægt að við bændur þéttum raðirnar og stöndum saman sem einn í þeim áskorunum sem fram undan eru þegar til stendur að stórauka innflutning.  Við erum svo fá en við búum í frábæru landi sem býður upp á óteljandi möguleika. Þrátt fyrir að Íslendingar séu lítil þjóð og ekki nema þriðjungur af því sem þarf til að ná borgarmörkum víðast erlendis höfum við unnið stór afrek á mörgum sviðum.

Landbúnaður á Íslandi er einstakur á heimsvísu hvað gæði og hreinleika varðar, hér er lyfjanotkun í landbúnaði í lágmarki og heilsufar búfjár einstaklega gott. Þessi staða er ekki sjálfgefin og nánast einstök í heiminum og gríðarlega mikilvægt að viðhalda og standa vörð um hana.

Við erum ekki hrædd við samkeppni sé hún á þeim grundvelli að við fáum að keppa við vörur sem framleiddar eru við sambærilegar aðstæður, hvað varða til dæmis sýklalyfjanotkun, varnarefnanotkun, dýravelferð auk aðbúnaðar og réttinda starfsfólks. Við erum ekki hrædd við að keppa við landbúnaðarafurðir  sem ræktaðar hafa verið með hreinu vatni og í jarðvegi sem stendur sambærilega og okkar. Við viljum leita allra leiða til að standa vörð um þá auðlind sem felst í heilbrigðum búfjárstofnum og þeim hreinleika sem íslenskar landbúnaðarafurðir búa yfir í dag. 

Það er að sjálfsögðu ekkert vit í að taka okkur til fyrirmyndar lönd þar sem sýklalyfjanotkun og þar af leiðandi sýklalyfjaónæmi er margfalt meiri en hér og draga sjálf okkur niður á það plan. Hvers konar hugsun er það?“

Fjárbúskapur og fræðsla

Guðrún er fædd 1971 og alin upp í Svartárkoti í Bárðardal, þar sem foreldrar hennar bjuggu og hún býr í dag ásamt eiginmanni sínum, Hlina Jóni Gíslasyni. Jörðin er tvíbýli þar sem þar býr einnig Sigurlína, systir Guðrúnar, ásamt fjölskyldu sinni. Börn Guðrúnar og Hlina eru Hafrún Huld, Tryggvi Snær, Elín Heiða og Gísli Berg.

Fjölskyldan í Svartárkoti talið frá vinstri: Hlini Jón Gíslason og fyrir framan hann er Gísli Berg. Þá kemur Elín Heiða, Hafrún Huld, Sunneva Dögg (tengdadóttir), Tryggvi Snær og Guðrún Tryggvadóttir. Mynd / Úr einkasafni.

„Við búum með 360 kindur auk þess sem við erum í ferðaþjónustu sem er að mestu í umsjón mágs míns og systur. Auk þess erum við með fræðasetur, Svartárkot menning –náttúra, en þar stöndum við fyrir ýmiss konar námskeiðahaldi um tengls manns og náttúru í víðum skilningi fyrir háskólanema, einkum erlenda, í samstarfi við Viðar Hreinsson bókmenntafræðing og fjölda annarra fræðimanna hér heima og erlendis.

Við erum einnig með matarvinnslu þar sem við erum meðal annars að reykja silung og selja.“

Félags- og trúnaðarstörf

Guðrún segir að upphafið að þátttöku hennar í félagsmálum bænda hafi ekki verið undirbúið. „Ég fékk árið 2011 símtal þar sem ég var spurð hvort ég væri til að gefa mig fram í stjórn Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga. Það vantaði konu. Akkúrat á þeim tímapunkti var ekki allt of mikið að gera og ég sagði já án þess að vera viss um að það yrði meira úr því. Tveimur árum seinna var ég orðin formaður sambandsins og árið 2018 bauð ég mig fram í stjórn BÍ og hlaut kosningu.

Ég var að sjálfsögðu alveg blaut á bak við eyrun og reynslulaus hvað varðar félagsstarf bænda þegar ég settist í stjórn Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga á sínum tíma en hef lært mikið og öðlast reynslu síðan þá sem á eftir að gagnast mér sem formaður BÍ.“

Sjálfboðaliði á sjúkrabíl í New York

Guðrún gekk í Barnaskóla Bárðdæla fyrstu sex skólaárin en lauk grunnskóla í Stórutjarnaskóla. Því næst lá leiðin í Framhaldskólann á Laugum þar sem hún var í tvo vetur en kláraði svo námið við Verkmenntaskólann á Akureyri. „Eftir að hafa lokið stúdentsprófi tók ég námshlé og fór til Bandaríkjanna. Þar starfaði ég meðal annars sem sjálfboðaliði á sjúkrabíl í Scarsdale í New York-ríki sem mér þótti mjög áhugavert starf. Síðan kom ég heim og tók eitt ár í hjúkrun áður en ég skipti yfir í kennaranám sem ég lauk frá Háskólanum á Akureyri og kenndi við grunnskóla í nokkur ár.

Ég var ekkert endilega á leiðinni í sveitina og satt best að segja ákvað ég ekki að verða bóndi fyrr en ég kynntist manninum mínum, eða þá lá það endanlega fyrir.“

Forréttindi að búa á Íslandi

Guðrún segir að hún líti svo á að tækifærin í íslenskum landbúnaði séu endalaus og að það séu forréttindi að búa á Íslandi. „Aðstæðurnar eru samt sem áður brothættar og við verðum að gæta þess að glata þeim ekki. Þess vegna er svo þýðingarmikið fyrir bændur að standa saman. Það er er svo miklu líklegra til árangurs að sameina krafta sína í stað þess að berjast í mörgum fylkingum og á mörgum vígstöðvum í einu.

Ég tel að við þurfum að nýta fjármuni og mannauð sem er í félagskerfi bænda betur. Tekjur félaganna hafa minnkað eftir að búnaðargjaldið var lagt af og það er vandi sem við erum að kljást við. Af þeim sökum einum er nauðsynlegt að einstök félög vinni betur saman og jafnvel sameinist. Með því getum við unnið með mun skilvirkari hætti að bættum hag bænda. Við erum einfaldlega sterkari saman.“ 

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...