Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Álagablettir í engjum og túnum
Líf og starf 19. desember 2018

Álagablettir í engjum og túnum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Fræðimaðurinn Þórður Tómasson sem kenndur er við Skóga undir Eyjafjöllum sendi nýlega frá sér bók um heyannir á Íslandi. Í bókinni fjallar Þórður um heyskap fyrri alda og fléttar saman þjóðfræði og atvinnusögu landsmanna.

Í bókinni lýsir Þórður verkfærum og vinnubrögðum, heytorfi, reipum og reiðingum, engjaheyskap, veðurboðum og margvíslegum siðum og orðfæri sem tengdist heyönnum. Sagt er frá konum sem gengu að slætti og sömuleiðis frá tækninýjungum eins og „rakstrarkonum“ sem festar voru framan á ljái, að ógleymdum hestasláttuvélunum sem ruddu sér til rúms í upphafi síðustu aldar. Höfundur leitar víða fanga, bæði í rituðum heimildum og hjá fjölmörgum heimildarmönnum, og textinn er kryddaður sögum, vísum og kvæðum. Útgefandi er Bókaútgáfan Sæmundur.

Ákvæðablettir eða álagastaðir

Hér er gripið niður í bókinni þar sem fjallað er um ákvæðastaði í engjum og túnum „Ákvæðablettir eða álagastaðir eru dreifðir um allt Ísland og um þá er völ fjölda heimilda á víð og dreif. Hér verður greint frá skyldum sem lítt hefur verið gaumur gefinn í íslenskri þjóðfræði og hljóta að eiga fornar rætur. Alfarið tengjast þeir heyönnum og eiga sér einkunnir kenndar við þerri, regn (rosa) og fok. Ég kýs að nefna þá ákvæðabletti.

Huldufólk og dularverur hafa helgað sér marga staði og lengst af hélt þjóðin til mestra muna rétt þeirra í heiðri. Um þetta eru fjölmörg vitni í þjóðsögum og þjóðfræðaritum. Ég færi hér nokkur fram úr því umhverfi sem er mér nærtækast.

Þegar Jón sonur Jóns Ísleifssonar fálkafangara, var ókvæntur, var hann eitt sumar kaupamaður á Hörgslandi á Síðu hjá Jóni hospítalshaldara Jónssyni, Vigfússonar frá Varmahlíð. Í túninu í Hörgslandi er hóll einn, sem kallaður er Álfahóll og var það forn trú að ekki mætti slá hólinn. Því ef það væri gert kæmu veður svo mikil að skaði yrði að og hafði hóllinn ekki verið sleginn í manna minnum. Jón kaupamaður hafði litla trú á slíku og einn morgun þegar sláttumennirnir voru út komnir og voru að slá í kringum hólinn, var veður heiðríkt og stillilogn. Þá talar Jón kaupamaður um að það mundi gera lítið til þó hann slægi nokkuð lítið upp í hólinn, því honum þætti hann grasmikill. Vinnumennirnir vildu það ekki, en húsbóndinn var ekki út kominn. En svo fór að Jón réði og sló nokkuð upp í hólinn. Síðan settust þeir niður hjá hólnum og fóru að brýna og var blálogn enn. Á meðan þeir eru að brýna, fer að hvessa í einu kasti.

Hey var mikið úti, bæði flatt og í sæti. Hvessir hann nú svo snögglega að hey fer óðum að fjúka. Í þessu bili kemur húsbóndinn út til þeirra og fer að tala um við þá að heyið muni ætla að fara allt út í veðrið. En vinnumenn segja að það sé von til því Jón kaupamaður hafi slegið upp í hólinn þó þeir hafi varað hann við að gera það. Jón kaupamaður situr agndofa og fer að hugsa með sér að þetta sé þó eitthvað óskiljanlegt og víst muni heyskaðinn allur sér verða kenndur. Og eftir litla þögn stendur hann upp, tekur orf sitt og segir hátt svo allir heyra, að ef nokkur vera sé í hólnum eða hér nærri sem orsakað hefði þennan mikla storm þá sé hún eins máttug til að láta lygna aftur, og ef hún ekki geri það þá skuli hann nú þegar slá allan hólinn og berja hann að utan eins og hann geti, hvað sem á eftir komi, og er illur í skapi og býr sig þegar til að fara að slá hólinn. En að þessum orðum töluðum fer heldur að draga úr veðrinu og bráðlygnir svo á skammri stundu og varð enginn heyskaði, var logn og heiðríkja eftir um daginn.

Almennt talað var djúp virðing borin fyrir álagablettum. Brot gegn þeim heyrðu til undantekninga. Bóndi í slægjuþröng lét þá í friði. Í Barðstrendingabók 1942 (bls. 89) segir frá Móbergi á Rauðasandi, býli í mikilli landkreppu: „Álagablettur er þar í landinu, grösugur mjög, sem ekki má slá, eftir gamalli trú og þykir ekki góðri lukku stýra er út af er brigðið.“

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...

Íslensk tunga kveikir elda
Líf og starf 4. apríl 2024

Íslensk tunga kveikir elda

Undir Eyjafjöllunum skín alltaf sól segja sumir. Tíðarfarið, eins og víðast anna...

Viðburðaríkt ár framundan
Líf og starf 3. apríl 2024

Viðburðaríkt ár framundan

Landbúnaðarsafn Íslands rekur sögu sína til ársins 1940, þegar komið var upp saf...