Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Frá heimsókn Æðarræktarfélags Íslands á Bessastaði.
Frá heimsókn Æðarræktarfélags Íslands á Bessastaði.
Mynd / Guðmundur Jóhannesson
Í deiglunni 17. september 2019

Hálfrar aldar afmæli Æðarræktarfélags Íslands

Höfundur: smh
Hálfrar aldar afmælisaðalfundur Æðarræktarfélags Íslands (ÆÍ) var haldinn 31. ágúst á Hótel Sögu, en félagið var stofnað 29. nóvember 1969.
 
Á stofnfundinn mættu um þrjátíu manns í Búnaðarþingsal Bænda­hallarinnar. Tveir stofnfélagar voru mættir á aðalfundinn, æðarbændurnir Úlla Knudsen, Ystabæ í Hrísey, og Ingibjörg Eyþórsdóttir, Kaldaðarnesi. Þær hafa sótt fundi félagsins síðastliðin 50 ár. 
 
Yfir hundrað manna afmælisfundur
 
Að sögn Guðrúnar Gauksdóttur, formanns félagsins, var aðal­fundurinn vel heppnaður, en yfir hundrað manns tóku þátt í fundinum og viðburðum honum tengdum. 
 
Auk Guðrúnar sitja nú í stjórn Erla Friðriksdóttir, Margrét Rögnvaldsdóttir, Sigríður Magnús­dóttir og Páll Þórhallsson. Magnús Jónasson og Pálmi Benediktsson eru í varastjórn.
 
Afmælisdagskráin hófst með heimsókn á Bessastaði á föstu­deginum 30. ágúst. Guðrún segir að forsetinn hafi tekið á móti félagsmönnum og gengið með þeim um varpland forsetasetursins. Á eftir hafi verið móttaka. „Það hefur alltaf verið vel hugað að æðarvarpi á Bessastöðum og eru félagsmenn stoltir af því að forsetinn sé æðarbóndi. Þess má geta að í embættistíð sinni sat Vigdís aðal­fundi ÆÍ,“ segir Guðrún. 
 
Íslenskur æðardúnn fái verndað afurðaheiti
 
Á laugardagsmorgninum 31. ágúst var sjálfur aðalfundurinn með hefðbundnum aðalfundarstörfum. Sólveig Bessa Magnúsdóttir, Innri-Hjarðardal, var fundarstjóri og Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, flutti ávarp og skilaði kveðju frá formanni samtakanna. 
 
Þá var skýrsla stjórnar flutt og farið yfir verkefni síðasta árs. Meðal markverðustu verkefna var skráning æðarvarpa en fjöldi þeirra í dag er 376, en félagsmenn eru nú 342 talsins.
 
Á fundinum var upplýst að umsókn um verndað afurðaheiti fyrir íslenskan æðardún væri á lokametrunum. Tilgangur með vernduðu afurðaheiti er meðal annars að vekja athygli á sérstöðu íslensks æðardúns og auka verðmæti hans. Stjórnir ÆÍ hafa alla tíð leitað leiða til að koma í veg fyrir verðfall og tímabundnar niðursveiflur í eftir­spurn. Framtíðarsýnin er sú að héðan fari einungis fullunnar vörur úr æðardún í útflutning. 
 
Fyrirhuguð sýning um æðarfugl og æðarrækt 
 
Guðrún segir að á aðalfundinum hafi einnig verið rætt um sýningu um æðarfugl og æðarrækt sem fyrirhugað er að halda á næsta ári. Verkefni heitir Tilraun II - Æðarrækt. Sýningarhaldið verður í samstarfi við sýningarstjórana Hildi Steinþórsdóttur og Rúnu Thors hjá Listaháskóla Íslands og er fræðslu- og upplifunarsýning um dún sem er afurð sjálfbærs sambýlis dýra og manna – og um möguleika á nýtingu efnisins.
 
„Um 20 einstaklingar hafa verið valdir til að vinna tilraunir með æðardún í skapandi samtali listamanna, sýningarstjóra og fræðimanna (æðarbænda). Titillinn er vísan í það að sýningin er opin tilraun sem hverfist um ferli, rannsóknir og nýsköpun með þessa einstöku náttúruafurð. Með sýningunni er ætlunin að fræða áhorfendur, innlenda sem og ferðamenn, um fuglinn og umhverfi hans, samband hans við manninn, um æðardún og það hvernig þessi einstöku, dýrmætu, sjálfbæru hlunnindi eru nýtt með hagnýtum vinnubrögðum og afurðum auk nýrra leiða til að nýta þau.
 
 Listamennirnir fóru í sumar í sína fyrstu heimsókn í æðarvarp til að kynnast fuglinum og æðarræktinni,“ segir Guðrún. 
 

Nýkjörin stjórn og varastjórn á 50. aðalfundi Æðarræktarfélagsins, talið frá vinstri: Sigríður Magnúsdóttir, Pálmi Benediktsson, Margrét Rögnvaldsdóttir, Guðrún Gauksdóttir, Magnús Jónasson og Erla Friðriksdóttir. Á myndina vantar Pál G. Þórhallsson.
 
Fræðsluerindi um breytileikaá varptíma
 
ÆÍ hefur að sögn Guðrúnar lagt áherslu á fræðslu til félagsmanna í sínu starfi og samstarf við fræðimenn. Á fundinum flutti Eyrún Gyða Gunnlaugsdóttir erindi um breytileika á varptíma æðar­fugla innan Íslands en erindið var byggt á nýloknu BS-verkefni frá HÍ. 
 
Hver eru áhrif sjókvíaeldis­stöðva á æðarfugl?
 
Nokkrar ályktanir voru samþykktar á aðalfundinum. Ítrekað var frá fyrri fundum að brýn nauðsyn sé á því að rannsaka og vakta áhrif sjókvíaeldisstöðva og stækkunar þeirra á lífríki sjávar, þar með beina og óbeina hættu fyrir vöxt og viðkomu æðarfugls. 
 
Einnig er ítrekað frá fyrri aðalfundum að í breytingum á lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald, sem varða öflun sjávargróðurs, felist ólögmæt skerðing á eignarrétti eigenda jarða sem liggja að sjó og þessi hlunnindi tilheyra, þar á meðal æðarbænda. 
 
Stjórn ÆÍ er falið að vinna að lausn málsins ásamt þeim æðarbændum sem málið varðar. Henni er einnig falið að leita eftir upplýsingum um það hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum öflunar sjávargróðurs á vistkerfi æðarfugls fyrir og eftir að lögin tóku gildi og jafnframt hvernig ráðstöfun auðlindagjalds fyrir auðlindina er háttað. 
 
Guðrún segir að eftir hádegi á laugardeginum hafi verið farin ferð um Reykjanes og loks var hátíðarkvöldverður í Súlnasal Bændahallarinnar. Þar voru kynntir tveir nýir heiðursfélagar ÆÍ; Davíð Gíslason, sem var formaður ÆÍ árin 1990 til 1999, og Árni Snæbjörnsson, sem var hlunnindaráðunautur félagsins í 23 frá 1985 til 2008. 
 
Guðrún Gauksdóttir, formaður Æðarræktarfélags Íslands, með heiðursfélögunum Davíð Gíslasyni og Árna Snæbjörnssyni.
Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...